7.6.2009 | 14:08
Nýir geimfarar hjá ESA og möguleikar Íslendinga.
Nýjasta fréttin á Stjörnufræðivefnum fjallar um val Evrópsku geimferðastofnunarinnar (ESA) á sex geimförum sem munu m.a. heimsækja Alþjóðlegu geimstöðina á næstu árum, auk annarra spennandi verkefna. Aðeins er fjallað um samstarfið í kringum geimstöðina en umfjöllun um hana og mannaðar geimferðir er á verkefnalistanum fyrir sumarið.
Okkur hjá Stjörnufræðivefnum finnst mjög gaman að sjá að í hópnum hjá ESA er einn jarðeðlisfræðingur (en allir hinir tengjast fluggeiranum). Jafnframt er það áhugavert fyrir okkur Íslendinga að einn af þeim sem varð fyrir valinu er frá Bretlandi. Bretar leggja ekkert fé til mannaðra geimferða heldur einbeita sér að ómönnuðum leiðöngrum. Í svörum til fréttamanna sögðust forsvarsmenn geimferðastofnunarinnar aðeins hafa reynt að velja sex hæfustu einstaklingana úr hópi 8.431 umsækjanda! Þar væri ekki spurt um þjóðerni. Þessi stefna veit á gott fyrir okkur Íslendinga sem tökum ekki þátt í ESA.
7.6.2009 | 11:22
Nýjar greinar á Stjörnufræðivefnum
Ég fékk frábæra vinnu í sumar við vísindamiðlun hjá Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Það hefur enginn starfað við slíkt áður hjá Raunvísindastofnun svo ég fæ mjög frjálsar hendur. Einn angi af þessu starfi er að skrifa greinar fyrir Stjörnufræðivefinn um ýmislegt sem tengist stjarnvísindum en snertir líka eðlisfræði og jarðfræði. Varla er hægt að hugsa sér betra sumarstarf í mínum huga.
Síðustu tvær vikur hef ég unnið að því að skrifa um grundvallaratriði í stjörnufræði og eðlisfræði sem er ljósið:
Ég veit að vefurinn er mjög mikið notaður af skólum um land allt. Þess vegna leggjum við ríka áherslu á að allar skýringarmyndir séu á íslensku og að í greinunum sé ekki aðeins útskýrt hvað við vitum heldur líka hvernig þekkingarinnar hefur verið aflað. Textinn er reglulega endurskoðaður til að koma í veg fyrir innsláttar- og staðreyndarvillur. Vonandi hefur það tekist að mestu leyti.
Öllum er frjálst að nota upplýsingarnar og myndirnar á vefnum að vild, svo framarlega að þess sé gætt að heimilda sé getið.
Í vetur hlaut Stjörnufræðivefurinn veglegan styrk frá Menntamálaráðuneytinu til að útbúa námsefni fyrir grunn- og framhaldsskóla um stjörnufræði. Þess vegna er margt spennandi framundan á vefnum og ýmislegt sem aldrei hefur áður verið gert á íslenskum fræðsluvefjum. Vonandi vinnst tími til að hrinda því í framkvæmd í sumar. En nánar um það síðar.
4.6.2009 | 10:26
Tunglið í háskerpu (HD)
Frá því í október 2007 hefur japanska gervituglið Kuguya hringsólað um næsta nágranna okkar í geimnum, tunglið. Um borð í gervitunglinu eru tvær háskerpumyndavélar sem sent hafa ótrúlega glæsilegar myndir til jarðar.
Ef þú átt háskerpusjónvarp, þá mæli ég sérstaklega með því að þú tengir tölvuna við það (helst með HDMI ef þú átt kost á því) og horfir þannig á myndskeiðin.
Hér er hægt að sækja nokkur myndskeið.
Njótið vel.
4.6.2009 | 09:17
Loksins nýr sólblettur
Eins og margir vita hefur virkni sólar verið í miklu lágmárki undanfarna mánuði, raunar svo miklu að hún hefur ekki verið jafn óvirk frá árinu 1928.
Fyrir örfáum dögum birtist nýtt sólblettasvæði á sólinni eins og Sverrir gerir að umtalsefni í stuttri frétt á Stjörnufræðivefnum. Bletturinn er reyndar nú þegar farinn að brotna upp og dofna.
Við vonum að sólblettir haldi áfram að birtast af og til á sólinni, sér í lagi í kringum 17. júní þegar Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness stendur fyrir sólskoðun á Austurvelli. Þar er ætlunin að setja upp þrjá svokallaða vetnis-alfa sjónauka sem sýna smáatriði í lithvolfi sólar. Með vetnis-alfa sjónaukunum er hægt að sjá sólstróka, sólbendla og ýruklasa á sólinni. Allt eru þetta svæði sem breytast hratt og eru mjög tignarleg á að líta í gegnum sjónauka.
3.6.2009 | 10:48
Frímerki á ári stjörnufræðinnar
Í tilefni af Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar ákvað Post Europe, samtök póstfyrirtækja í Evrópu, að helga árið 2009 stjörnufræði. Tvö íslensk frímerki koma út af þessu tilefni. Þemað á frímerkinu með 105 kr. verðgildinu vísar til sólargangsmælinga Odds Helgasonar eða Stjörnu Odda um 1100. Þemað á frímerkinu með 140 kr. verðgildinu vísar hins vegar til stjörnuskoðunarturnsins á Lambhúsum á Álftanesi þar sem fyrstu opinberu stjörnuathuganirnar hérlendis voru gerðar á seinnihluta 18. aldar. Frímerkin hannaði Örn Smári Gíslason grafískur hönnuður.

Hægt er að sjá fleiri myndir á Stjörnufræðivefnum.
===
Það ætlar að ganga erfiðlega að setja síðustu Vísindaþætti inn á vefinn. Í gær átti Halldór Björnsson að kíkja í spjall en örlítill misskilningur varð til þess að hann mætti ekki. Við enduðum á að spjalla um ytri mörk sólkerfisins í staðinn, alveg óundirbúið, sem var svolítið óþægilegt.
Svo fékk ég ranga þætti frá tæknimanninum til að setja á netið. Það verður því einhver bið í viðbót eftir því að þættirnir komist inn. Vonandi ekki of löng.
2.6.2009 | 10:48
Hlýnun jarðar í Vísindaþættinum í dag kl. 17 á Útvarpi sögu
Í Vísindaþættinum í dag kíkir Halldór Björnsson loftslagsfræðingur hjá Veðurstofu Íslands í spjall til okkar um hlýnun jarðar sem er alltaf skemmtilegt viðfangsefni. Þátturinn verður á dagskrá Útvarps sögu klukkan 17 í dag. Hann verður svo aðgengilegur á Stjörnufræðivefnum á morgun ásamt þætti síðustu viku þar sem Lárus Thorlacius fjallaði um strengjafræði.
Spurning hvort maður verði efasemdarmaður um hlýnun jarðar í dag?
29.5.2009 | 09:01
Sendu nafnið þitt til Mars!
Árið 2011 verður nýjum Mars-jeppa skotið á loft. NASA efndi til nafnakeppni jeppi meðal skólabarna í Bandaríkjunum. 9000 tillögur bárust og stóð tólf ára stúlka frá Kansas uppi sem sigurvegari. Mars Science Laboratory heitir nú Curiosity. Í verðlaun fær hún að skrifa nafnið sitt á jeppann.
Vissir þú að þú getur líka sent nafnið þitt til Mars?
28.5.2009 | 09:55
Brennd sönnunargögn
Perklórat (HClO4) er salt sem aðeins hefur fundist á einum stað á Mars svo vitað sé, á norðurheimskautssvæði reikistjörnunnar þar sem Phoenix geimfarið lenti í maímánuði í fyrra. Á sama stað staðfestu menn tilvist íss undir þunnri jarðvegsþekju. Perklórat er efnasamband sem finnst t.d. í skraufþurri Atacamaeyðimörkinni í Chile og er notað til dauðhreinsunar á jörðinni. Þrátt fyrir það finnast bakteríur sem geta nýtt það sem orkugjafa. Tilvist perklórats á yfirborði Mars er því hvorki góðar fréttir né slæmar fyrir hugsanlegt líf. Líf á Mars myndi þó sennilegast leynast undir yfirborðinu, þar sem vatn gæti haldist fljótandi, fjarri sótthreinsandi útfjólubláum geislum sólar sem eiga greiða leið í gegnum örþunnan lofthjúp Mars.
Á Mars er nístingskuldi en tilvist þessa salts og annarra varpar fram spennandi möguleika. Það er erfitt að ímynda sér vatn á fljótandi formi við -70°C. Sölt eins og perklórat geta hins vegar gegnt hlutverki frostlagar og lækkað frostmark vatns umtalsvert. Þannig getur magnesíum perklórat salt lækkað frostmark vatns niður í -72°, sem er svipað hitastig og var á lendingarstað Phoenix á meðan leiðangrinum stóð.
Hefur fljótandi vatn þegar fundist á Mars?
Í febrúar á þessu ári tilkynnti Nilton Renno, einn vísindamannanna sem starfaði við Phoenix leiðangurinn, niðurstöður rannsókna sinna sem sögðu að fljótandi vatn hefði þegar fundist á Mars. Rannsóknarteymi Rennos sýndi fram á, með tilraunum, að lendingarflaugar geimfarsis gætu hafa brætt efsta lag íssins undir lendingarstaðnum og vatnsdroparnir sem þá mynduðust, gætu hafa skvesst á einn fót geimfarsins. Ef vatnið innihélt nógu mikið af salti gæti það hafa haldist fljótandi þegar hlýjast var dagsins. Með tímanum gæti einnig vatnsgufa í lofthjúpnum hafa safnast saman á fætinum, vaxið og runnið eftir fætinum.
Það ber þó að taka skýrt fram að þessar niðurstöður eru mjög umdeildar meðal reikistjörnufræðinga.
Því má ekki gleyma, að ef bakteríur finnast á Mars þætti þeim líklega lofthjúpurinn okkar baneitraður. Hver veit hvort perklórat sé kostur frekar en galli?
Mars er alveg ótrúlega heillandi reikistjarna, en ég leyfi mér að efast stórlega að menn hafi nú þegar brennt sönnunargögn fyrir lífi á henni. Ég hef miklu meiri trú á að lífið leynist á heppilegum svæðum einhvers staðar undir yfirborðinu.
![]() |
Sönnunargögnin brennd |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
26.5.2009 | 08:22
Strengjafræði í Vísindaþættinum í dag kl. 17
Það verður heldur betur góður gestur í Vísindaþættinum í dag kl. 17 á Útvarpi Sögu. Lárus Thorlacius, prófessor í eðlisfræði við Háskóla Íslands og forstöðumaður Nordita í Stokkhólmi, mætir í viðtal til mín. Lárus er að öðrum ólöstuðum einn fremsti og færasti eðlisfræðingur Íslendinga. Ég fullyrði það að Háskóla Íslands er heppið að jafn fær eðlisfræðingur og Lárus skuli vera hér heima til að sinna sínum hugðarefnum. Hann kæmist sennilega í góða stöðu í hvaða háskóla sem er í heiminum.
Umræðuefnið að þessu sinni er stórt og mikið, eða ætti maður kannski frekar að segja risastórt og pínulítið: Strengjafræði. Ég ætla ekki að útskýra strengjafræðina hér en vísa frekar á fróðlegt svar Lárusar á Vísindavefnum.
Við munum stikla á stóru um þessi fræði og heimspekilegar vangaveltur þeim tengdum. Við ætlum líka að skoða örlítið svarthol og reyna að svara spurningunni: Hvernig er hægt að mæla hitastig svarthola?
Vísindi og fræði | Breytt 25.5.2009 kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
19.5.2009 | 09:13
Geimsjónaukar í Vísindaþættinum í dag
Í Vísindaþættinum í dag er ætlunin að fjalla um geimsjónauka. Fjallað verður um þjónustuleiðangurinn til Hubbles en einnig geimsjónaukana Spitzer, Chandra og svo auðvitað nýju sjónaukana Planck og Herschel.
Vísindaþátturinn er á dagskrá alla þriðjudaga milli 17 og 18 á Útvarpi Sögu, FM 99,4. Þættirnir eru ennfremur aðgengilegir á Stjörnufræðivefnum.