Á Rás 2 í dag að tala um Hubble

Ég verð í Síðdegisútvarpinu á Rás 2 einhvern tímann eftir 17:30 í dag að tala um Hubble og viðhaldsleiðangurinn. Spurning hvort Hubbert sjónaukinn komi líka við sögu... nei ætli það.

Á sama tíma má ég til með að benda á stutta frétt á Stjörnufræðivefnum um nýjustu geimsjónauka Evrópu, Planck og Herschel.


mbl.is Nærri átta tíma geimganga
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skelfileg vinnubrögð

Rakst á þessa frétt á Vísi.is - myndir. Best að halda henni til haga því þegar hún verður (ef kannski frekar) leiðrétt þá er þetta klárlega ein af verst skrifuðu fréttum sem ég hef séð:

Vísir, 17. maí. 2009 15:13

Nasa gerir við geimsjónauka

mynd

Geimfarar eru nú að laga geimsjónaukann Hubbert. Þeir eru að koma fyrir nýrri linsu og öðrum aukahlutum. Andvirði þessara aukahluta eru 88 milljónir dollara.

Viðgerðin er tímafrek og kostnaðarsöm. Einn geimfarinn var í átta klukkustundir í einni geimgöngunni.

„Þetta er eins og að glíma við björn," sagði Mike Massimino, einn geimfaranna þegar hann lýsti viðgerðarferlinu.

Auk þess eru geimfararnir að bæta nýjum hlutum við sjónaukann. Meðal annars græju sem á að gera sjónaukanum kleyft að dýpka skilning sjónaukans á því hvernig plánetur og stjörnukerfi myndast.

Hubbert sjónaukinn er nefndur í höfuðið á bandaríska stjörnufræðingnum Edward Hubbert. Sjónaukinn hefur tekið ótrúlegar myndir í geimnum og er nauðsynlegur vísindamönnum til þess að kortleggja geiminn.

Hér má svo skoða myndir sem sjónaukinn hefur tekið.

Er þetta eitthvað djók?

Þýðandanum gengur sjálfsagt ekkert illt til, en augljóst er að fréttin hefur ekki verið yfirlesin af einhverjum öðrum.

Í fyrsta lagi, Hubbert sjónaukann? Ha? 

Í öðru lagi, nefndur eftir stjörnufræðingnum Edward Hubbert? Maðurinn hét Edwin Hubble.

Í þriðja lagi, skipta um linsur og aðra aukahluti? Öh, það er verið að skipta um myndavélar, lagfæra tölvubúnað og skipta um snúða á sjónaukanum svo hann sé starfhæfur næstu ár. Nóg að slá inn stjornuskodun.is til að lesa sér til um það. Ég held stundum að íslenskir fjölmiðlamenn hafi engan áhuga á að kanna hvort upplýsingar séu til á okkar ástkæra ylhýra.

Þessi setning er algjört gull: "Auk þess eru geimfararnir að bæta nýjum hlutum við sjónaukann. Meðal annars græju sem á að gera sjónaukanum kleyft að dýpka skilning sjónaukans á því hvernig plánetur og stjörnukerfi myndast." 

Talan 88 milljónir er heldur lægri en raunverulegur kostnaður leiðangursins er. Þjónustuleiðangurinn kostar 887 milljónir dollara, þar af er heildarkostnaður við ný tæki um 250 milljón dollarar. Kostnaður við Cosmic Origins Spectrograph var hins vegar 88 milljónir.

Hver orðar hlutina svona? "græju sem á að gera sjónaukanum kleyft að dýpka skilning sjónaukans á því hvernig plánetur og stjörnukerfi myndast." [feitletrun mín]

Það er nefnilega það.

Er skrítið að maður hristi stundum hausinn yfir því sem stendur á Vísir.is - myndir?


Ótrúleg ljósmynd

Það er alltaf gaman að fylgjast með gangi mála í viðhaldsleiðangrinum til Hubble.

Hins vegar verð ég að benda á ótrúlega ljósmynd sem tekin var af jörðu niðri af Atlantis og Hubble. Þessi glæsilega ljósmynd sýnir tvíeykið ganga þvert fyrir sólina.

Myndina er hægt að sjá hér.


mbl.is Skipt um myndavél í geimnum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Atlantis við Hubble

Sverrir heldur áfram að fjalla um leiðangurinn til Hubbles á Stjörnufræðivefnum. Ef þú vilt vita eitthvað aðeins meira en birtist í þessari frétt mæli ég með þessu. Þarna er meðal annars að finna örstutta umfjöllun um hvaða geimgöngur verða næstu daga og um Kanadaarminn á geimferjunni. 

Í dag verður síðan tveimur evrópskum gervitunglum skotið á loft, Planck og Herschel. Herschel er innrauður stjörnusjónauki, hannaður til þess að svipta hulunni af köldum gasskýjum í Vetrarbrautinni okkar og skyggnast inn í stjörnuverksmiðjurnar sem þar leynast. Herschel er útbúinn stærsta spegli sem sendur hefur verið út í geiminn hingað, nokkru stærri en Hubble, sem mun gera honum kleift að skyggnast langt aftur í tímann, að barnæsku alheimsins ef svo má segja.

Planck mun hins vegar mæla örbylgjugeislunina í alheiminum. Alheimurinn átti sér heitt upphaf. Ljósið sem lék um alheiminn þá var í formi innrauðrar hitageislunnar. Á síðustu 13,7 milljörðum ára hefur tognað svo geysimikið á ljósinu að það er orðið að örbylgjugeislun. Planck á að rannsaka hárfínar hitabreytingar þessarar geislunar. Á Stjörnufræðivefnum er fróðleg grein um þennan örbylgjuklið, en hann er einn af hornsteinum Miklahvellskenningarinnar. Vissir þú að þú getur séð Miklahvell í sjónvarpinu þínu?

Í Mogganum í dag er stutt en mjög fín frétt um þessi geimför tvö eftir Boga Þór Arason. Hrósa ber því sem vel er gert.


mbl.is Atlantis komin að Hubble
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Næsta stopp: Hubble

Staðsetning Hubble

Má til með að benda áhugasömum á nýja frétt Sverris Guðmundssonar á Stjörnufræðivefnum um geimskotið. Þarna er ýmislegt tengt geimskotinu útskýrt á skiljanlegu íslensku máli.

Geimskot Atlantis lukkaðist vel og er geimferjan nú á leið til Hubbles. Sjónaukinn er heldur hærra yfir jörðinni en geimstöðin, eða í um 600 km hæð. Í þessari hæð er Hubble rúmlega fótboltaleik eða 97 mínútur að ljúka einni hringferð um jörðina. Á myndinni hér til hliðar má sjá hvar Hubble er staðsettur þessa stundina.

Við á Stjörnufræðivefnum munum fylgjast afar náið með leiðangri Atlantis til Hubble. Í dag birtum við frétt um förina sem rataði líka hingað á Mbl.is. 

Fylgist vel með á Stjörnufræðivefnum næstu daga.

Hvaða fleiri undur alheimsins mun Hubble leiða í ljós á næstu árum? Það er einkar viðeigandi að þessi mikilvægasti sjónauki heims fær andlitslyftingu á Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009.


mbl.is Atlantis skotið út í geim
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Í fegrunaraðgerð á tvítugsaldri

Hann er orðinn 19 ára gamall, rétt skriðinn yfir táningsaldurinn en strax orðinn heldur aldurhniginn. Strax í barnæsku kom í ljós að hann var þjakaður af sjónskekkju. Með lítilli aðgerð tókst að laga það og í dag er sjón hans haukfrá, jafnvel þótt hann sé eineygður, enda er augað hans stærra en hávaxnasti leikmaðurinn í sögu NBA körfuboltans. Með auganu hefur honum tekist að sjá lengra en nokkur annar.

Hann vegur álíka mikið og tveir fullvaxnir fílar, enda á stærð við strætisvagn. Þótt hann sé stór fer hann geysihratt yfir og kæmist t.a.m. frá Reykjavík til Keflavíkur á fjórum sekúndum. Hann hefur farið meira en 100.000 sinnum í kringum jörðina frá fæðingu og ferðast vegalengd sem jafngildir fjarlægðinni milli jarðar og Satúrnusar.

Hann þarf reglulega á yfirhalningu að halda þar sem umhverfið sem hann býr í er ekki beinlínis vinveitt. Hann verður stöðugt fyrir lífshættulegri geislun og á hann rekast reglulega örlitlar agnir sem geta hæglega stórslasað hann.

Með hjálp hans hafa stjörnufræðingar birt nærri 7000 vísindagreinar.

Til hamingju með afmælið Hubble! Live long and prosper.

Ég ætla svo sannarlega að fylgjast vel með umfjöllun Sverris um Hubblessjónaukann á Stjörnufræðivefnum. Fátt betra en að fá fréttirnar á íslensku.


mbl.is Geimferja í viðhaldsleiðangur
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hauskúpa á Mars? Bull og vitleysa.

Miðað við áhuga íslenskra vefmiðla á gervivísindum og rugli, þá kæmi mér ekki á óvart ef þetta þætti stórfrétt á einhverjum vefmiðli innan skamms. Legg 100 kr á Vísi.is.

skull_1394856c.jpg

Steinn sem lítur út eins og "geimveruhauskúpa". Ja hérna, verst við eigum engar alvöru geimveruhauskúpur til samanburðar. Verst að enginn hefur séð geimverur til þess að dæma um hvort þetta líkist geimverum.

Ég held að þetta sé bara steinn og leikur ljóss og skugga. Steinar geta verið áhugaverðir. Ég veit ekkert hvenær þessi mynd er tekin en hún er alla vega greinilega frá Kólumbíuhæðum í Gúsevgígnum á Mars, þar sem Spirit jeppinn ekur um, haltur, eftir meira en fimm ára dvöl á Mars sem upphaflega átti aðeins að vera 90 dagar. Spirit er á stað sem heitir Home Plate eða Heimahöfn og þar finnast samskonar sölt og á háhitasvæðum á jörðinni. Vá! Það er miklu undraverðara og raunverulega fréttin.

via BadAstronomy.com


Hálfvitar

Það er bara ekki hægt að orða það neitt öðruvísi. Kannski fáráðlingar?

Aumingja skólabörnin þarna í Texas. Hvers vegna er fólk sem hefur augljóslega ekkert vit á hlutunum látið tjá sig um þá? Mér finnst þetta sambærilegt við það að ég, jarðfræðineminn, fari og segi rafvirkja hvernig tengja eigi raflagnir í húsum, nú eða hvernig erfðafræðingur eigi að stunda sín störf.

Ég bý í heimi sem er 13,7 milljarða ára gamall. Hann er miklu mikilfenglegri heldur en lokuð guðaveröld þessa fólks.

via BadAstronomy.com


Vek athygli á frábærri bloggfærslu um loftslagsmál

Mér þykir vert að vekja athygli á frábærri bloggfærslu Höskuldar Búa Jónssonar, jarðfræðings við Náttúrufræðistofnun Íslands, sem ber heitið: "Hví að blogga um loftslagsmál?

Sem betur fer hætti hann ekki að blogga um þetta viðfangsefni sem ekki er mjög umdeilt í fræðaheimum en heldur umdeildara í netheimum.

Reyndar bloggið hans bara mjög gott að öllu leyti. Sem betur fer finna vísindamenn hjá sér tíma til þess að skrifa um sín hugaðrefni. Það vantar bara að fleiri vísindamenn geri sig gildandi í dægurþrasinu.

Á sama tíma vísa ég á umfjöllun um lofthjúp Venusar á Stjörnufræðivefnum.

En jæja, aftur að prófalestri í jarðeðlisfræði.


Nóbelsverðlaunahafi í eðlisfræði í Vísindaþættinum í dag

Í Vísindaþættinum í dag á Útvarpi Sögu, milli 17 og 18, verðum við með símaviðtal við Dr. John Mather, Nóbelsverðlaunahafa í eðlisfræði. Mather hlaut Nóbelsverðlaunin ásamt samstarfsmanni sínum George Smoot árið 2006 fyrir rannsóknir á örbylgjukliðnum með COBE gervitunglinu. Örbylgjukliðurinn er bakgrunnsgeislun alheimsins, þ.e. geislun frá þeim tíma þegar alheimurinn var heitur og ógegnsær. Örbylgjukliðurinn segir okkur að alheimurinn átti sér heitt upphaf.

Mather er einnig "senior project scientist" fyrir James Webb geimsjónaukann. Webb-sjónaukinn er arftaki Hubbles, miklu stærri og verður sennilega skotið á loft árið 2013.

Spennandi!


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband