Obama fjárfestir í vísindum

Fréttavefur BBC segir frá því í dag að Barack Obama hyggist auka framlög til vísinda umtalsvert frá því sem áður var. Obama kynnti þetta í ræðu sem hann hélt hjá National Academy of Sciences í Washington. Þetta eru auðvitað stórkostlegar fréttir. Obama er nánast eins og riddari á hvíta hestinum eftir myrkrið sem vofði yfir vísindunum í tíð George Bush. Samkvæmt þessari áætlun eru útgjöld til National Science Foundation og National Institute of Standards and Technology tvöfölduð, en þessar stofnanir eru víst geysimikilvægar fyrir grunnrannsóknir. Í áætluninni er einnig gert ráð fyrir 150 milljörðum dollara á næstu tíu árum til rannsókna á endurnýjanlegri orku og betri orkunýtni.

Obama tekur hins vegar ekki fram í ræðunni hvernig frekari fjárútlátum til NASA verður háttað á næstu árum. Framlög til NASA nema aðeins um 0,7% af heildarútgjöldum ríkisins á ári, svo NASA er, þótt ótrúlegt megi virðast, ein minnsta ríkisstofnunin í Bandaríkjunum. 

Það er gaman að sjá að Obama veit að mjög mikilvægt er að leggja aukið fé í vísindi og grunnrannsóknir. Það skilar sér ALLTAF. Í ræðunni segir Obama:

Science is more essential for our prosperity, our security, our health, our environment and our quality of life than it has ever been before.

Orð að sönnu.

Hvernig verður fjárútlátum til vísinda á Íslandi háttað á næstu árum? Hvernig ætli staðan væri ef ekki nema 10% af kostnaðinum við virkjun fallvatna norðan Vatnajökuls hefði verið notað til að virkja hugvit landsmanna og stuðning við vísindarannsóknir? Hvernig væri að leggja þá 5 milljarða sem fara í rekstur ríkistrúfélags í vísindi?


Hann á afmæli í dag!

Hann er orðinn 19 ára gamall, rétt skriðinn yfir táningsaldurinn en strax orðinn heldur aldurhniginn. Strax í barnæsku kom í ljós að hann var þjakaður af sjónskekkju. Með lítilli aðgerð tókst að laga það og í dag er sjón hans haukfrá, jafnvel þótt hann sé eineygður, enda er augað hans stærra en hávaxnasti leikmaðurinn í sögu NBA körfuboltans. Með auganu hefur honum tekist að sjá lengra en nokkur annar.

Hann vegur álíka mikið og tveir fullvaxnir fílar, enda á stærð við strætisvagn. Þótt hann sé stór fer hann geysihratt yfir og kæmist t.a.m. frá Reykjavík til Keflavíkur á fjórum sekúndum. Hann hefur farið meira en 100.000 sinnum í kringum jörðina frá fæðingu og ferðast vegalengd sem jafngildir fjarlægðinni milli jarðar og Satúrnusar.

Hann þarf reglulega á yfirhalningu að halda þar sem umhverfið sem hann býr í er ekki beinlínis vinveitt. Hann verður stöðugt fyrir lífshættulegri geislun og á hann rekast reglulega örlitlar agnir sem geta hæglega stórslasað hann.

Með hjálp hans hafa stjörnufræðingar birt nærri 7000 vísindagreinar.

Til hamingju með afmælið Hubble! Live long and prosper.

 

hubble-space-telescope.jpg

 


Í dag er DNA dagurinn

Arnar Pálsson erfðafræðingur vekur athygli á því á blogginu sínu að í dag er DNA dagurinn. Þann 25. apríl 1953 birtu þeir James Watson og Francis Crick grein í Nature þar sem þeir skýrðu frá byggingu DNA sameindarinnar.

Guðmundur Eggertsson, prófessor í líffræði, var svo almennilegur að leyfa okkur að birta tvær frábærar greinar eftir sig á Stjörnufræðivefnum. Þessar greinar birtust báðar upphaflega í Náttúrufræðingnum.

Fyrri greinin nefnist Uppruni lífs: Fyrstu skrefin en sú seinni nefnist Mótun lífs: RNA-skeiðið í sögu lífsins. Ég vek athygli á því að enn á eftir myndskreyta greinarnar en úr því verður bætt í sumar. Hver veit nema fleiri greinar um líffræði muni líka bætast við? Að minnsta kosti verður fróðleikur um stjörnulíffræði fyrirferðamikil.

Til hamingju með DNA daginn!


Sólblettasveiflan

midi_storSólin er síbreytileg eins og hver sem horft hefur á hana í gegnum viðeigandi sólarsjónauka hefur séð. Á sólinni má sjá sólbletti stækka og minnka, hverfa og verða til. Sólblettirnir eru virk svæði á sólinni og þaðan koma gjarnan stórar sprengingar, þ.e. sólblossar og kórónuskvettur.

Á Stjörnufræðivefnum eru ítarlegar upplýsingar um sólina, sólblettasveifluna, sólblossa og kórónuskvettur. Það er um að gera að lesa sér þarna til og skoða líka nokkrar stórglæsilegar myndir af þessum fyrirbærum.

Frétt Mbl.is af þessu er fín enda þýdd upp úr ágætri grein af BBC. Heppilegra væri hins vegar að tala um sólsveiflu eða sólblettasveiflu heldur en sprengjutímabil á sólinni. Það er ekkert til sem heitir sprengjutímabil eins og lesa má um á ofangreindum slóðum.

Í gær birtist nýr en agnarlítill sólblettur á sólinni eftir 25 sólblettalausa daga í röð. Það sem af er ári hefur sólin verið auð í 97 daga eða sem nemur 88% af árinu. Sólblettasveiflan er í djúpri lægð, miklu lágmarki sem hefur staðið yfir í meira en 608 daga en að meðaltali er hefðbundin sólblettasveifla í 485 daga.

Nánar á Stjörnufræðivefnum.

sol300806_W Mynd af sólbletti sem bloggari tók ásamt Arnoldi Björnssyni þann 30. ágúst árið 2006.


mbl.is Dregur úr virkni sólar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Meira um Gliese 581 sólkerfið

Merk uppgötvun og sýnir hversu ótrúlega næm mælitæki vísindamanna eru þegar orðin. Hvaða undur skyldu stjörnufræðingar leiða í ljós á næstu árum, þegar risasjónaukar framtíðarinnar verða að veruleika og framfarir í aðlögunarsjóntækni verða meiri?

Umrædd reikistjarnan er innan lífbeltis Gliese 581 og þar gæti því fljótandi vatn verið til staðar. Hér á Stjörnufræðivefnum eru nánari upplýsingar um sólkerfið Gliese 581.

Þessi reikistjarna fannst með stjarnmælingum, þ.e.a.s. að leita eftir örlitlum þyngdaráhrifum reikistjörnunnar á sólstjörnuna. Í grein á Stjörnufræðivefnum sem fjallar um leit að fjarreikistjörnum segir:

Stjarnmælingartæknin er óbein leið til að finna reikistjörnur. Með henni eru gerðar mjög nákvæmar mælingar á staðsetningu stjörnunnar og leitað eftir hreyfingu hennar um massamiðju af völdum þyngdartogs frá óséðum fylgihnetti. Þessi aðferð hefur lengið verið notuð til að greina tvístirnakerfi og skilað góðum árangri ef stjörnurnar eru ekki of nærri hvor annarri. Mun erfiðar er að greina reikistjörnur því þá er hreyfing stjörnunnar miklu minni.

Sólin okkar myndi reika til hliðar um 0,003 bogasekúndur af völdum Júpíters ef fylgst væri með henni úr 10 ljósára fjarlægð. Þetta er álíka mikil hreyfing og sem nemur breidd mannshárs séð úr 5 km fjarlægð. Stjörnufræðingar geta engu að síður mælt þessa örlitlu hreyfingu og í þróun er tækni sem gert getur enn betur.

Tveir þættir valda hins vegar erfiðleikum við stjarnmælingar. Í fyrsta lagi er hliðarhreyfing stjörnu minni eftir því sem hún er fjarlægari. Hreyfing sólar af völdum Júpíters er því helmingi minni séð úr 20 ljósára fjarlægð en 10 ljósára fjarlægð. Stjarnmælingartæknin virkar þess vegna best þegar massamiklar reikistjörnur eru tiltölulega nálægar.

Í öðru er ekki hægt að greina hreyfingu stjörnunnar nema yfir langt tímabil. Einfaldara er að greina mikla hreyfingu og eftir því sem reikistjarna er lengra frá móðurstjörnunni þeim mun meiri áhrif hefur hún. Ef við myndum t.d. færa Júpíter lengra frá sólinni, myndi massamiðja sólkerfisins sömuleiðis færast fjær sólinni. Þá yrði hreyfing hennar um massamiðjuna meiri. Þannig virkar stjarnmælingartæknin best fyrir massamiklar reikistjörnur í mikilli fjarlægð frá móðurstjörnunni. Á móti kemur að fjarlægari reikistjarna er lengur að snúast í kringum stjörnuna, svo mikla hreyfingu er aðeins hægt að greina á löngu tímabili. Væri Júpíter staddur við braut Neptúnusar, sem er 165 ár að snúast í kringum sólina, krefðist það ennþá meiri þolinmæði af geimverunum að finna Júpíter, því hreyfing sólar af hans völdum sæist ekki nema á 165 árum.

Hinar reikistjörnurnar valda því líka að sólin vaggar, en mun minna. Tökum jörðina sem dæmi. Hún er 1/318 af massa Júpíters og fimm sinnum nær sólu. Jörðin veldur því að sólina vaggar um sem nemur níu sentímetrum á sekúndu.


mbl.is Vísindamenn fundu plánetu sem er álíka stór og jörðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindaþátturinn fellur niður í dag

Vísindaþátturinn fellur niður í dag, líkt og seinasta þriðjudag, vegna kosningaútvarps. Við mætum hins vegar galvaskir næsta þriðjudag, 28. apríl, með viðtal við nóbelsverðlaunahafa í eðlisfræði, Dr. John Mather. Mather þessi hlaut nóbelsverðlaunin árið 2006 fyrir uppgötvanir í heimsfræði. Hann er auk þess einn af aðalmönnunum á bak við Webb sjónaukann, arftaka Hubbles, sem sendur verður á loft eftir fáein ár.

===

Alveg vissi ég það að athugasemdir myndu flæða inn vegna síðustu færslu. Þetta snertir voða mikið við þeim sem trúa statt og stöðugt á samsæriskenningar um að verið sé að fela sannanir fyrir geimveruheimsóknum.

Af einhverjum ástæðum er það ég sem er þröngsýnn að telja líf í alheimi algengt en hafa enga trú á heimsóknum geimvera. Það skortir einfaldlega sönnunargögn.

"Þú getur ekki sannfært trúmann um neitt, því trú hans er ekki byggð á sönnunargögnum heldur gríðarsterkri þröf fyrir að trúa," svo vitnað sé til orða Carl Sagan.


Þótt maður hafi gengið á tunglinu hefur maður ekki endilega rétt fyrir sér

Edgar Mitchell gekk á Fra Mauro hásléttunni (þar sem Apollo 13 átti upphaflega að lenda) þegar Apollo 14 lenti þar árið 1970. En þótt maður hafi gengið á tunglinu hefur maður ekki endilega rétt fyrir sér.

Ég deili þeirri skoðun Mitchells að líf í alheimi sé algengt. Ég deili hins vegar ekki þeirri skoðun hans að geimverur séu að heimsækja okkur. Það eru nákvæmlega engin sönnunargögn sem renna stoðum undir þá hugmynd. Engin. Nákvæmlega engin. NASA er ekki að fela neitt. SETI er ekki að fela neitt. Vísindamenn eru ekki að fela nokkurn skapaðan hlut. Ríkisstjórnir eru ekki einu sinni færar um að halda einföldustu hlutum leyndum.

Ég skil ekki hvers vegna þetta er frétt. Edgar Mitchell er þekktur fyrir að hafa um árabil haldið á lofti alls kyns furðuhugmyndum. Þar fyrir utan er þetta ekki einu sinni spennandi. Mikið dauðöfunda ég hann annars af því að hafa gengið á tunglinu. Það eitt og sér er stórmerkilegt, miklu áhugaverðara.

Þetta er t.d. miklu áhugaverðara og varðar leit okkar að vísbendingum um líf og lífvænlegar aðstæður í alheiminum. 


mbl.is Þagað um geimverurnar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirlestur í dag (laugardag) kl. 14:00 í Öskju

Í dag (laugardaginn 18. apríl) klukkan 14:00 heldur Árdís Elíasdóttir, stjarneðlisfræðingur við Princetonháskóla, fyrirlestur um hulduefni og þyngdarlinsur. Ég mæli sérstaklega með þessum fyrirlestri enda þarna á ferðinni fær vísindamaður að fjalla um eina helstu ráðgátu nútíma stjarnvísinda.

Morgunblaðið og Fréttablaðið höfðu engan áhuga á að ræða við Árdísi fyrir fyrirlesturinn. Að minnsta kosti ber lítið á umfjöllun í blöðunum í dag. Þess í stað er plássi sóað í "fréttir" af Amy Winehouse, sundbol Pamelu Anderson, að verið sé að undirbúa komu Puff Daddy til landsins (hefði sú frétt ekki mátt hinkra fram á mánudag?), að Travoltahjónin séu að flýja sorgina, að Heidi Klum sé ólétt, að Matt Damon, Marisa Tomei og Voggo Mortensen séu í heimildarmynd um bandarískt lýðræði og að brotist hafi verið inn hjá Britney Spears. Áhugaverðasta fréttin, og sú sem á án efa mest erindi við okkur, er sú að lögregluyfirvöld í Flórída hafi útilokað að mágur bandarísku leikkonunnar Katie Holmes hafi verið myrtur. Jahá.

Mér finnst fær íslenskur vísindamaður við einn virtasta háskóla heims talsvert áhugaverðara fréttaefni og eiga miklu miklu miklu frekar erindi í íslenska fjölmiðla.

Þeir einu sem standa sig framúrskarandi vel í vísindaumfjöllun eru Leifur Hauksson á Rás 1 og Heimir Karlsson í Íslandi í bítið.

Já, alveg rétt, svo birtist auðvitað stjörnuspekidálkur á hverjum einasta degi í Morgunblaðinu. Af hverju er ekki hægt að birta vísindadálk í blaðinu, ekkert endilega á hverjum einasta degi, en er til of mikils mælst að fá fréttir af vísindum eins og einu sinni í viku?


Úr hverju er alheimurinn

abell1689

Myndina hér fyrir ofan tók Hubblessjónaukinn af hópi vetrarbrauta sem kallast Abell 1689 og er í 2,2 milljarða ljósára fjarlægð. Á myndinni sjást bogadregnar línur vetrarbrautar sem er í um 12,8 milljarða ljósára fjarlægð. Sú vetrarbraut varð sem sagt til aðeins 700 milljón árum eftir að alheimurinn varð til. Massi vetrarbrautahópsins í forgrunni er svo mikill að hann magnar upp ljósið frá bakgrunnsvetrarbrautinni og sveigir það og gerir okkur kleift að greina hana. Vetrarbrautahópurinn verkar því sem náttúrulegur stjörnusjónauki eða svonefnd þyngdarlinsa.

Seinustu ár hafa athuganir stjarneðlisfræðinga leitt í ljós þá óvæntu niðurstöðu að 95% af efnis- og orkuinnihaldi alheimsins er okkur ósýnilegt. Einungis 4,6% alheimsins er úr sýnilegu efni (atómum) en 23% svonefnt hulduefni og 72% hulduorka. Þótt hulduefnið sé ósýnilegt er engu að síður hægt að rannsaka það með hjálp svonefndra þyngdarlinsa.

Laugardaginn 18. apríl flytur Árdís Elíasdóttir, stjarneðlisfræðingur við Princetonháskóla í Bandaríkjunum, erindi um rannsóknir sínar á þessu dularfulla hulduefni. Erindið er hið sjötta í fyrirlestraröðinni ,,Undur veraldar: Undur alheimsins”, sem Stjarnvísindafélag Íslands og Raunvísindadeild Háskóla Íslands efna til í tilefni af alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar. Venju samkvæmt hefst erindið klukkan 14:00 og fer fram í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Árdís var í viðtali við Ísland í bítið í morgun. Þú getur hlustað á viðtalið hér.

Sjá nánar á Stjörnufræðivefnum.


Hlaupabrettið Stephen Colbert

NASA efndi nýlega til nafnasamkeppni á nýjustu einingu Alþjóðlegu geimstöðvarinnar. Bandaríski spjallþáttastjórnandinn Stephen Colbert hvatti áhorfendur sína til þess að fara inn á vef NASA og stinga upp á að einingin skildi nefnd Colbert.

Colbert vann með yfirburðum og NASA var í klemmu.

NASA áskilur sér reyndar rétt til þess að ákveða nafnið og þurfa ekki að fylgja tillögum almennings. Einingin var því nefnd Tranquility eftir lendingarstað Apollo 11 á tunglinu.

NASA ákvað aftur á móti að nefna hlaupabretti, sem geimfararnir æfa sig á til þess að koma í veg fyrir vöðva- og beinarýrnun (óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að svífa um í þyngdarleysi), eftir Colbert. Hlaupabrettið nefnist því Combined Operational Load Bearing External Resistance Treadmill eða C.O.L.B.E.R.T.


Mikið vildi ég óska þess að fénu sem varið hefur verið í geimstöðina hefði farið í könnun reikistjarnanna og alheimsins frekar, eða þróun búnaðar sem kemur mannkyninu loksins til Mars.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband