Meira um Gliese 581 sólkerfið

Merk uppgötvun og sýnir hversu ótrúlega næm mælitæki vísindamanna eru þegar orðin. Hvaða undur skyldu stjörnufræðingar leiða í ljós á næstu árum, þegar risasjónaukar framtíðarinnar verða að veruleika og framfarir í aðlögunarsjóntækni verða meiri?

Umrædd reikistjarnan er innan lífbeltis Gliese 581 og þar gæti því fljótandi vatn verið til staðar. Hér á Stjörnufræðivefnum eru nánari upplýsingar um sólkerfið Gliese 581.

Þessi reikistjarna fannst með stjarnmælingum, þ.e.a.s. að leita eftir örlitlum þyngdaráhrifum reikistjörnunnar á sólstjörnuna. Í grein á Stjörnufræðivefnum sem fjallar um leit að fjarreikistjörnum segir:

Stjarnmælingartæknin er óbein leið til að finna reikistjörnur. Með henni eru gerðar mjög nákvæmar mælingar á staðsetningu stjörnunnar og leitað eftir hreyfingu hennar um massamiðju af völdum þyngdartogs frá óséðum fylgihnetti. Þessi aðferð hefur lengið verið notuð til að greina tvístirnakerfi og skilað góðum árangri ef stjörnurnar eru ekki of nærri hvor annarri. Mun erfiðar er að greina reikistjörnur því þá er hreyfing stjörnunnar miklu minni.

Sólin okkar myndi reika til hliðar um 0,003 bogasekúndur af völdum Júpíters ef fylgst væri með henni úr 10 ljósára fjarlægð. Þetta er álíka mikil hreyfing og sem nemur breidd mannshárs séð úr 5 km fjarlægð. Stjörnufræðingar geta engu að síður mælt þessa örlitlu hreyfingu og í þróun er tækni sem gert getur enn betur.

Tveir þættir valda hins vegar erfiðleikum við stjarnmælingar. Í fyrsta lagi er hliðarhreyfing stjörnu minni eftir því sem hún er fjarlægari. Hreyfing sólar af völdum Júpíters er því helmingi minni séð úr 20 ljósára fjarlægð en 10 ljósára fjarlægð. Stjarnmælingartæknin virkar þess vegna best þegar massamiklar reikistjörnur eru tiltölulega nálægar.

Í öðru er ekki hægt að greina hreyfingu stjörnunnar nema yfir langt tímabil. Einfaldara er að greina mikla hreyfingu og eftir því sem reikistjarna er lengra frá móðurstjörnunni þeim mun meiri áhrif hefur hún. Ef við myndum t.d. færa Júpíter lengra frá sólinni, myndi massamiðja sólkerfisins sömuleiðis færast fjær sólinni. Þá yrði hreyfing hennar um massamiðjuna meiri. Þannig virkar stjarnmælingartæknin best fyrir massamiklar reikistjörnur í mikilli fjarlægð frá móðurstjörnunni. Á móti kemur að fjarlægari reikistjarna er lengur að snúast í kringum stjörnuna, svo mikla hreyfingu er aðeins hægt að greina á löngu tímabili. Væri Júpíter staddur við braut Neptúnusar, sem er 165 ár að snúast í kringum sólina, krefðist það ennþá meiri þolinmæði af geimverunum að finna Júpíter, því hreyfing sólar af hans völdum sæist ekki nema á 165 árum.

Hinar reikistjörnurnar valda því líka að sólin vaggar, en mun minna. Tökum jörðina sem dæmi. Hún er 1/318 af massa Júpíters og fimm sinnum nær sólu. Jörðin veldur því að sólina vaggar um sem nemur níu sentímetrum á sekúndu.


mbl.is Vísindamenn fundu plánetu sem er álíka stór og jörðin
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband