Gervigreind í Vísindaþættinum

Umfjöllunarefni Vísindaþáttarins í dag er gervigreind. Ari Kristinn Jónsson tölvunarfræðingur við Háskólann í Reykjavík ætlar að fræða okkur um þetta ótrúlega spennandi viðfangsefni. Ari hefur meðal annars starfað við Ames rannsóknarmiðstöð NASA í Kaliforníu og tók þar þátt í vinnu við Mars jeppana Spirit og Opportunity, sem enn spígspora um rauðu reikistjörnuna, fimm árum eftir komuna þangað.

Þátturinn er á dagskrá Útvarps Sögu milli 17 og 18 alla þriðjudaga.


Í leit að lífi á Mars

Dr. David Des Marais, einn af stjórnendum Marskönnunar á vegum NASA, er nú á fyrirlestraferð um Norðurlönd og Eystrasaltslönd á vegum norræns samstarfsvettvangs um stjörnulíffræði (astrobiology). Ísland er síðasti viðkomustaður Davids, en í liðinni viku hefur hann flutt erindi í Tallinn, Turku, Stokkhólmi og Björgvin. David mun kynna nýjustu niðurstöður Marsrannsókna og framtíð þeirra í erindi, sem hann flytur í stofu 132 í Öskju þann 8. apríl kl. 14.

Könnunarför NASA, bæði jepplingar og brautarför, hafa á undanförnum árum uppgötvað að lífvænlegar aðstæður voru líklega fyrir hendi á Mars fyrir um þremur milljörðum ára. Jepplingurinn Opportunity fann vísbendingar um sölt stöðuvötn og grunnvatn. Spirit jepplingurinn fann berg sem veðrast hefur af snertingu við vatn og kísil sem fellur út á hverasvæðum. Þá hafa brautarför fundið steindir á víð og dreif um Mars sem bera glögg merki vatns.

Ég verð svo í Reykjavík síðdegis á Bylgjunni í dag að tala aðeins um þetta spennandi viðfangsefni.

Nánar á Stjörnufræðivefnum

Reikistjarnan Mars


Uppruni og endalok alheimsins

Fjórða erindið í fyrirlestraröðinni ,,Undur veraldar: Undur alheimsins”, sem Stjarnvísindafélag Íslands og Raunvísindadeild Háskóla Íslands efna til í tilefni af alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar, fer fram laugardaginn 4. apríl klukkan 14:00. Lárus Thorlacius, prófessor í eðlisfræði við NORDITA í Stokkhólmi, flytur þá erindi sem hann nefnir ,,Hugleiðingar um heimsfræði”. Venju samkvæmt verður fyrirlesturinn í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Í fyrirlestrinum verður sagt frá uppruna alheimsins og endalok hans. Endalok verða svört! Lárus mun segja okkur nánar um það.

Sjá nánar fréttatilkynningu á Stjörnufræðivefnum.

==

Við minnum svo á sólkerfisröltið sem hefst klukkan 11:00 á Ingólfstorgi. Sjá nánar í Morgunblaðinu í dag og á Stjörnufræðivefnum.


100 stjörnufræðistundir í The Colbert Report

Stærsta vísindamiðlunarverkefni heims, 100 stjörnufræðistundir, hefst í dag. Í Franklinstofnunni í Fíladelfíu í Bandaríkjunum verður einn af sjónaukum Galíleós til sýnis. Er það í fyrsta sinn sem sjónauki Galíleós er sýndur utan Ítalíu.

Spjallþáttarstjórnandi Stephen Colbert á Comedy Central (snillingur!) tók viðtal við stjörnufræðinginn Derrick Potts af þessu tilefni. Ég vildi óska þess að þessi þáttur væri sýndur á Íslandi.

The Colbert ReportMon - Thurs 11:30pm / 10:30c
Derrick Pitts
comedycentral.com
Colbert Report Full EpisodesPolitical HumorNASA Name Contest


Stærsta vísindamiðlunarverkefni allra tíma

100_stundir_litil.jpg

100 stjörnufræðistunda, stærsta vísindamiðlunarverkefnis allra tíma. Verkefnið er hluti af Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009. Áætlað er að yfir ein milljón manna í yfir 130 löndum muni á einhvern hátt koma nálægt þessu viðamikla verkefni. Allar upplýsingar um verkefnið er að finna á http://www.stjornuskodun.is/100

Sólkerfisrölt - Laugardaginn 4. apríl munu nemendur í 7. bekk í Melaskóla setja upp líkan af sólkerfinu í miðbæ Reykjavíkur. Fyrst verður safnast saman á Ingólfstorgi í kringum smækkaða útgáfu af sólinni. Klukkan 11 verður síðan lagt af stað og gengið eftir Austurstræti og upp Laugaveginn þar sem reikistjörnunum verður raðað upp í réttum stærðarhlutföllum. Þeir sem eru í miklu stuði geta gengið alla leiðina upp á Hlemm þar sem Neptúnus lendir samkvæmt líkaninu! Nánar verður fjallað um þetta verkefni þegar nær dregur laugardeginum.

Stjörnuskoðunarkvöld - Við sólsetur 3. og 4. apríl hefst stjörnuskoðunarkvöld fyrir almenning um heim allan. Hér á landi bjóða stjörnuáhugamenn í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness öllum áhugasömum að koma og skoða gígana á tunglinu og hringa Satúrnusar með stærsta sjónauka landsins. Stjörnuskoðunin fer fram í aðstöðu félagsins í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi og hefst kl. 21:00.

Fyrirlestur um uppruna alheimsins - Fjórði fyrirlesturinn í fyrirlestraröðinni Undur veraldar: Undur alheimsins fer fram laugardaginn 4. apríl klukkan 14:00 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Lárus Thorlacius eðlisfræðingur mun þar fjalla um hvernig allt í kringum okkur varð til, þ.e. Miklahvell.

Nánar á Stjörnufræðivefnum.


Ólympusfjall á Mars

Ólympusfjall á Mars er risavaxið eins og sjá má á Stjörnufræðivefnum. Á vefnum er stærð fjallsins borin saman við Íslands. Sjá má að fjallið, sem er dyngja, er mun stærra um sig en Ísland en sjálf askjan er á stærð við Vatnajökul.

Í fréttinni er reyndar missagt að eldfjallið Ra Patera sé á Júpíter. Júpíter er gasrisi með ekkert fast yfirborð og þar geta því að sjálfsögðu engin eldfjöll verið að finna. Hið rétta er að Ra Patera er eldfjall á eldvirkasta hnetti sólkerfisins, sem gengur einmitt í kringum Júpíter, á tunglinu Íó. Á Íó er líka eldfjallið Loki.

olympusfjall_island

Nánar um Ólympusfjall á Stjörnufræðivefnum.

Nánar um Mars á Stjörnufræðivefnum.

Þetta flokkast eflaust undir vísindafrétt. Bravó! Meira svona.

*Uppfært* Ég sé að búið er að leiðrétta missögnina um Júpíter. Gott mál.


mbl.is Grímsvötn á lista merkilegustu eldfjalla
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Íslenskir vefmiðlar og Jade Goody

Ég hef aldrei farið leynt með það að mér finnast íslenskir vefmiðlar standa sig skelfilega illa í því hlutverki sínu að upplýsa fólk um nýjustu fréttir í vísindum. Það liggur við að við getum verið þakklát fyrir eina vísinda- eða tæknifrétt á viku. Á sama tíma eyða þeir miklum tíma, púðri og bandvídd í að flytja okkur "fréttir" af einhverjum smástirnum (vildi óska þess að það væru alvöru smástirni sem fengju jafnmikla athygli) um heim allan. Í fæstum tilvikum eru fréttirnar af fólkinu áhugaverðar.

Upp á síðkastið hafa íslenskir vefmiðlar verið afar duglegir í að fjalla um veikindi einhverrs bresks smástirnis sem hét Jade Goody. Hún lést í víst í nótt eftir baráttu við krabbamein. Dapurleg örlög auðvitað og geri ég ekkert lítið úr því.

En hver var annars þessi kona? Ég hafði aldrei heyrt um hana fyrr en Vísir.is og Mbl.is sagði okkur fréttir af veikindum hennar. Ég skil ekki hvaða erindi þessar fréttir hafa fyrir okkur hér á landi, þar sem við höfum aldrei séð þennan þátt í íslensku sjónvarpi. Ég þekki ekki ýkja marga sem hafa fylgst með Big Brother í Bretlandi. Af hverju er verið að eyða tíma í fréttaflutning af þessari konu? 

Ég bíð spenntur eftir því að fréttavefir BBC eða Sky flytji Bretum fréttir af því þegar íslenskur leikari (nú eða íslensk raunveruleikastjarna) veikist og deyr. Einhvern veginn efast ég um að við eigum eftir að sjá þá frétt á erlendum vefjum. Enda á sú frétt ekkert erindi við aðrar þjóðir.

Elsku bestu Mbl.is, Vísir.is og Eyjan.is. Gerið nú okkur þeim þúsundum á Íslandi sem hafa áhuga á vísindum þann greiða að leggja jafn mikinn tíma í fréttaflutning af vísindum eins og þið leggið í slúðurfréttir. Á sama tíma leggið eitthvað gagnlegt til þjóðfélagsins. Það veitir nefnilega ekki af að efla áhuga á vísindum. Ég er ekki að biðja um stöðugar fréttir, bara örlítið meira en venjulega. Sýnið þessu pínulítið meiri áhuga.


mbl.is Sendir fjölskyldu Goodys samúðaróskir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vorjafndægur - sumar á næsta leyti

arstidir_solbaugur.jpg

Í dag, laugardaginn 21. mars, gær, föstudaginn 20. mars voru vorjafndægur. Þá er nóttin jafn löng deginum og sólin rís nákvæmlega í austri. Sólin stefnir þá í norðurátt yfir miðbaug himins og fer hækkandi á himninum. Þessi dagsetning markar þar af leiðandi upphaf vors á norðurhveli jarðar. Sumar er á næsta leyti. En hvenær hefjast árstíðirnar?

Í stjarnfræðilegum skilningi verða árstíðaskipti við sólstöður eða jafndægur. Þannig hefst sumar við sumarsólstöður, vetur við vetrarsólstöður en haust við haustjafndægur og vor við vorjafndægur. Samkvæmt íslensku tímatali fellur fyrsti dagur sumars á fyrsta fimmtudag eftir 18. apríl, þ.e. einhvern tímann á bilinu 19. til 25. apríl. Fyrsti vetrardagur rennur upp á laugardegi að lokinni 26. viku sumars, þá milli 21. til 27. október en stundum 28. október. Vor hefst við vorjafndægur og haust við haustjafndægur.

Þú getur lesið allt um árstíðaskipti og jafndægur hér á Stjörnufræðivefnum.


Hvar byrjar geimurinn?

Sem betur fer erum við jarðarbúar inni í verndarlagi lofthjúpsins. Þar sem þéttleiki lofts minnkar með aukinni hæð er um 50% af sameindum lofthjúpsins í innan við 5,6 km hæð, 90% innan við 16 km hæð og 99,99997% í innan við 100 km hæð. Oft er sagt að geimurinn taki við í 100 km hæð. Í 10.000 km hæð er þéttleiki lofthjúpsins um það bil sá sami og þéttleiki geimsins. Af þessu er því ljóst að mestur hluti lofthjúps jarðar er í örþunni skel sem aðeins er 0,5% af þykkt jarðar í heild. Lofthjúpurinn okkar, andrúmsloftið, er þannig álíka þykkt og eplabörkur í samanburði við eplið í heild!

Lofthjúpurinn er lagskiptur þótt engin föst mörk séu á því hvar hann endar og hvar geimurinn tekur við, en oftast er sagt að þau mörk séu í 100 km hæð. Lofthjúpurinn þynnist eftir því sem ofar dregur og er hann þykkastur næst yfirborði jarðar.

Það er því kannski ekki hægt að segja að krakkarnir hafi komist út í geim með tilraunina sína. Í ríflega 30 km hæð er loftþrýstingurinn álíka mikill og á yfirborði Mars. Marsbúi myndi tæpast segja að hann byggi úti í geiminum!

En gaman af þessu engu að síður og krakkarnir eiga svo sannarlega hrós skilið fyrir þessa frábæru tilraun. Meira svona! Meiri vísindi!

Og svo meira um lofthjúp jarðar á Stjörnufræðivefnum.


mbl.is 43 punda geimtilraun
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fyrirlestur á morgun

Við minnum á fyrirlestur Johannesar Andersen, prófessors í stjörnufræði við Kaupmannahafnarháskóla, á morgun (laugardag) klukkan 14:00 í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Fyrirlestur hans fjallar um risasjónauka framtíðarinnar og þeirra ögrandi verkefna sem bíða stjörnufræðinga á næstu árum.

Allir hjartanlega velkomnir. Það er að sjálfsögðu frítt inn en ef þú vilt styrkja ár stjörnufræðinnar og Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness er tilvalið að hafa meðferðis 1000 krónur og kaupa eintak af "fegursta tímariti landsins", Undur alheimsins.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband