Stjarnvísindi framtíðarinnar

Þriðja erindið í fyrirlestraröðinni ,,Undur veraldar: Undur alheimsins”, sem Stjarnvísindafélag Íslands og Raunvísindadeild Háskóla Íslands efna til í tilefni af alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar, fer fram laugardaginn 21. mars klukkan 14:00. Johannes Andersen prófessor í stjörnufræði við Kaupmannahafnarháskóla flytur þá erindi sem hann nefnir ,,Framtíð evrópskra og norrænna stjarnvísinda”. Venju samkvæmt verður fyrirlesturinn í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Við hvetjum áhugasama til þess að fjölmenna á þennan fróðlega fyrirlestur. Fyrirlesarinn Johannes Andersen ku víst vera ansi skemmtilegur fyrirlesari.

Sjá nánar á 2009.is eða Stjörnufræðivefnum.


Stórkostleg mynd!

 

hs-2009-12-anim_lg.gif

 

Hvar værum við án Hubblessjónaukans? Þetta ótrúlega vísindatæki tók þessa stórkostlegu ljósmynd af Satúrnusi og fjórum tunglum að ganga þvert fyrir hann. Sjá má skugga tunglanna á skífu Satúrnusar. Svona er nú heimurinn sem við búum í fallegur. Synd að fleiri fái ekki tækifæri til að sjá þetta.

Þú getur lesið meira um þetta á Stjörnufræðivefnum.

Af hverju mætti ekki birta svona mynd og stuttan texta á Mbl.is, Vísi.is og Eyjan.is? Á sama tíma fáum vi að vita af því að Nicholas Cage dreymir um að verða svifflugmaður og að Zac Efron (who?) er að fullorðnast. Who gives a flying f***.

Myndin af Satúrnusi er miklu merkilegri enda ótrúlegt verkfræðilegt afrek að smíða sjónauka sem getur þetta. Þessi ljósmynd ber þekkingu manna fagurt vitni.


Húmbúkk í Vísindaþættinum í dag á Útvarpi Sögu milli 17 og 18

Í Vísindaþættinum í dag kíkir Þórður Örn Arnarson í spjall til okkar. Þórður Örn starfar sem sálfræðingur við Landspítala-Háskólasjúkrahús og er einnig ritstjóri vefsins Húmbúkk sem er að finna á Eyjan.is. Þórður ætlar að spjalla við okkur um hin ýmsu húmbúkk í okkar daglega lífi.

Þátturinn er á dagskrá Útvarps Sögu alla þriðjudaga milli 17 og 18.

Í seinasta þætti kíkri Þorsteinn Vilhjálmsson prófessor í eðlisfræði og vísindasögu við Háskóla Íslands til okkar í spjall. Þorsteinn fjallaði þar um Niels Bohr og aðferir vísindanna. Þátturinn er aðgengilegur á Stjörnufræðivefnum.


Þegar tvær vetrarbrautir sameinast í eina risavetrarbraut

Frétt um NGC 6240 á Stjörnufræðivefnum

Þessa stórglæsilegu ljósmynd af vetrarbrautinni NGC 6240 var tekin með tveimur geimsjónaukum, Hubble og Spitzer. Myndin sýnir tvær vetrarbrautir í þann veginn að sameinast í eina risavetrarbraut með tilheyrandi hamförum. Flugeldasýningin hefst þó ekki fyrir alvöru fyrr en risasvartholin tvö í miðju vetrarbrautanna rekast saman.

Nánar má lesa um þetta í fréttinni Þegar tvær vetrarbrautir sameinast í eina risavetrarbraut á Stjörnufræðivefnum.


Niels Bohr og aðferðir vísinda í Vísindaþættinum í dag

Í Vísindaþættinum í dag kíkir Þorsteinn Vilhjálmsson, prófessor í eðlisfræði og vísindasögu, til okkar í spjall um fyrirlestur sem hann heldur næstkomandi laugardag. Fyrirlesturinn nefnist Niels Bohr og aðferðir vísindanna og er hluti af fyrirlestraröðinni Byltingarmenn vísindanna.

Þátturinn er á dagskrá á Útvarpi sögu FM99,4 í dag, þriðjudag, milli 17 og 18. 

Þátturinn verður svo aðgengilegur á Stjörnufræðivefnum á morgun.


Krakkar og himingeimurinn

Yfir 60 krakkar á aldrinum 5 til 13 ára tóku þátt í fyrsta stjörnufræðinámskeiði stjörnufræðiársins helgina 7. og 8. mars. Námskeiðið fór fram á vegum Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness og Stjörnufræðivefsins í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Krakkarnir komu í fylgd með foreldrum sínum sem virtust ekki síður áhugasamir og spenntir. Námskeiðið þótti lukkast afar vel og verður endurtekið á næstunni en mun færri komust að en vildu.

Miklu færri komust að en vildu og verður námskeiðið því endurtekið innan tíðar.

Sjá nánar á Stjörnufræðivefnum.


Í leit að öðrum jörðum

Þessi merkilegi sjónauki á vonandi eftir að valda byltingu í rannsóknum á fjarreikistjörnum (extrasolar planets). Um borð í honum er 95 megapixla myndavél sem starir á 100.000 stjörnur á svæði milli Svansins og Hörpunnar í leit að blikki í ljósútgeislun stjörnu þegar reikistjarna gengur þvert fyrir hana. Þessar þvergöngur geta staðið yfir í um það bil klukkustund upp í hálfan dag en það veltur vitaskuld á braut reikistjörnunnar stærð móðurstjörnunnar.

Ítarleg grein um Keplerssjónaukann er væntanleg inn á Stjörnufræðivefinn innan tíðar. Á meðan er um að gera að kynna sér aðferðir til leitar að fjarreikistjörnum.


mbl.is Geimsjónauka skotið á loft
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hvernig varð járnið í blóðinu til?

Á laugardaginn (7. mars) heldur Einar H. Guðmundsson prófessor í stjarneðlisfræði við Háskóla Íslands erindi sem nefnist "Uppruni frumefnanna". Erindið er hluti af fyrirlestraröðinni Undur veraldar: Undur alheimsins sem efnt er til í tilefni af ári stjörnufræðinnar. Erindið hefst klukkan 14:00 og fer fram í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands.

Það vita það eflaust ekki margir að járnið í blóðinu, gullið í gullforðum okkar og súrefnið í vatninu og loftinu varð til þegar stjarna endaði ævi sína. Vetnið í vatninu varð aftur á móti til í Miklahvelli. Einar mun fræða okkur um þetta á fyrirlestrinum á laugardaginn kl. 14:00.

Allir að sjálfsögðu hjartanlega velkomnir. Það kostar ekkert að hlýða á fróðleik um undur alheimsins.

"Fegursta tímarit landsins" verður að sjálfsögðu til sölu á staðnum.


"Fegursta tímarit landsins"

Það er oft þannig þegar hlutir eru vel gerðir, þá er stundum frekar lítið um hrós. Ef hlutirnir eru hins vegar ekki nógu vel gerðir fær maður svo sannarlega að heyra af því.

Það er auðvitað miklu skemmtilegra að heyra hrós.

Jónas Kristjánsson er einn af stofnfélögum Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness. Hann skrifar á bloggið sitt:

05.03.2009
Samfellt kraftaverk
Næst á undan Ferðafélaginu er Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness merkasta félag landsins. Þar er ég auðvitað stofnfélagi. Félögin gefa út ársrit og var tímarit stjörnuskoðunarfélagsins að berast mér í gær. Eins og í fyrra er það fegursta tímarit landsins, fullt af flennistórum dýrðarljósmyndum úr himingeimnum. Pappírinn er að vísu ekki eins lostafullur og í fyrra, en er eigi að síður glæsilegur. Heiðurinn af tímaritinu á fyrst og fremst formaðurinn, Sævar Helgi Bragason. Hann er greinarhöfundur, ljósmyndari, prófarkalesari, hönnuður og umbrotsmaður. Ritið er samfellt kraftaverk hans.

Ekki amalegt.

Nú er bara að skella sér í Bóksölu stúdenta og festa kaup á blaðinu og styrkja starfsemi Stjörnuskoðunarfélagsins í leiðinni.

p.s. Afi minn benti mér á þetta. 


Stjörnuskoðun í Elliðaárdal í kvöld kl. 20:00

Í kvöld (þriðjudaginn 2. mars) býðst þér og fjölskyldu þinni tækifæri til þess að skoða stjörnuhiminninn með Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness í Minjasafni Orkuveitu Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir því að stjörnuskoðunin hefjist klukkan 20:00 og verður fjöldi stjörnusjónauka á staðnum. Þetta stjörnuskoðunarkvöld er haldið fyrir þig í tilefni af alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar. Eitt allra mikilvægasta markmið ársins er enda að sýna þér það sem Galíleó sá fyrir 400 árum og meira til.

Fjölmargt forvitnilegt er að sjá á himninum þessa dagana og munum við reyna að sýna þér það forvitnilegasta. Á vesturhimni við sólsetur skín reikistjarnan Venus áberandi skærast. Ofar á himninum er vaxandi tungl og ef vel er að gáð má sjá hvernig endurvarp frá jörðinni lýsir dauflega upp skyggða hluta þess. Við munum beina sjónaukunum að þessum tveimur næstu nágrönnum okkar í sólkerfinu.

Við verðum með blaðið um ár stjörnufræðinnar á staðnum. Það er því um að gera að koma með 1000 kr og styrkja starf félagsins í leiðinni.

Sjá nánar á Stjörnufræðivefnum.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband