3.3.2009 | 10:48
Komdu og skoðaðu stjörnuhiminninn í kvöld
Í kvöld (þriðjudaginn 2. mars) býðst þér og fjölskyldu þinni tækifæri til þess að skoða stjörnuhiminninn með Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness í Minjasafni Orkuveitu Reykjavíkur. Gert er ráð fyrir því að stjörnuskoðunin hefjist klukkan 20:00 og verður fjöldi stjörnusjónauka á staðnum. Þetta stjörnuskoðunarkvöld er haldið fyrir þig í tilefni af alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar. Eitt allra mikilvægasta markmið ársins er enda að sýna þér það sem Galíleó sá fyrir 400 árum og meira til.
Allir hjartanlega velkomnir!
Sjá nánar á Stjörnufræðivefnum.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
2.3.2009 | 10:12
Blaðið komið út
Út er komið ritið Undur alheimsins - Alþjóðlegt ár stjörnufræðinnar sem gefið er út af Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness í tilefni stjörnufræðiársins. Blaðið er afar veglegt og telur 86 ríkulega myndskreyttar blaðsíður. Mjög er vandað til útgáfunnar og í blaðinu er fjöldi fróðlegra greina um viðfangsefni íslenskra stjarnvísindamanna.
Allar greinar blaðsins eru ritaðar á aðgengilegan hátt af fremsta stjarnvísindafólki Íslendinga og ættu því að höfða til víðs hóps áhugafólks um vísindi almennt. Efnistök greinanna og uppsetning blaðsins er í ætt við almenn vísindarit á borð við Scientific American og stjarnvísindatímarit eins og Astronomy og Sky & Telescope. Aldrei áður hefur verið gefið út jafn veglegt blað um stjarnvísindi á Íslandi.
Blaðið er selt á öllum þeim viðburðum sem efnt er til á ári stjörnufræðinnar. Blaðið er einnig fáanlegt í lausasölu hjá Bóksölu stúdenta. Allur ágóði af sölu blaðsins rennur óskiptur í framtíðaraðstöðusjóð félagsins. Það er því um að gera að styrkja starf félagsins með kaupum á blaðinu.
27.2.2009 | 21:29
Venus fyrir ofan tunglið
Það rættist aðeins úr veðrinu nú rétt í þessu og við blasti ægifögur sjón á vesturhimni, Venus fyrir ofan vaxandi tungl baðað í jarðskini. Fallegt sjónarspil náttúrunnar á ári stjörnufræðinnar.
Vona að sem flestir líti að minnsta kosti út um gluggan á þetta samspil tveggja nálægustu hnatta sólkerfisins við jörðina.
Nánar á Stjörnufræðivefnum.
27.2.2009 | 10:11
Tunglið og Venus stíga dans
Glitti einhvers staðar á landinu í heiðan himinn í kvöld (föstudagskvöldið 27. febrúar), blasir glæsileg sjón við í vestri við sólsetur. Í kvöld stíga nefnilega tunglið og Venus glæsilegan dans.
Um þessar mundir er Venus eins björt og hún getur orðið. Ef þú lítur á hana í gegnum sjónauka sést dálítið sérkennilegt. Venus er ekki nema að fjórðungi upplýst og lítur nokkurn veginn út fyrir að vera lítil útgáfa af tunglinu. Hvers vegna?
Svarið er að finna hér á Stjörnufræðivefnum.
26.2.2009 | 15:07
Námskeið fyrir krakka í stjörnufræði
Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn bjóða upp á krakkanámskeið fyrir þá sem hafa áhuga á stjörnufræði og stjörnuskoðun. Sams konar námskeið var haldið síðasta vetur við góðar undirtektir þátttakenda. Námskeiðið stendur yfir í tvær klukkustundir. Eftir námskeiðið (þegar veður leyfir) verður öllum boðið upp á stjörnuskoðun þar sem þátttakendur eiga kost á því að mæta með eigin stjörnusjónauka og læra á hann. Námskeiðin fara fram laugardaginn 7. mars milli 10:30 og 13:00 (krakkar á aldrinum 5 til 9 ára) og sunnudaginn 8. mars milli 13:00 og 15:30 (krakkar á aldrinum 10-13 ára). Námskeiðið er fyrir barn og eitt foreldri saman!
Krakkanámskeiðið er hluti af svokölluðu UNAWE verkefni sem er eitt mikilvægasta verkefni stjörnufræðiársins. Tilgangurinn er að efla vitund barna og unglinga um undur alheimsins á lifandi og spennandi hátt. Samskonar námskeið eru haldin um allan heim, t.d. í Kenýa, Tansaníu, Kína, Brasilíu og svo auðvitað hér á Íslandi.
Á námskeiðinu er ætlunin að fræðast um stjörnuhiminninn, tunglið, hvernig gígar verða til, reikistjörnurnar Mars og Satúrnus og hugsanlegt líf í geimnum svo fátt eitt sé nefnt
Nánari upplýsingar og skráning er að finna á vefsíðu Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
25.2.2009 | 16:55
Dæmalaust léleg útskýring
Sem starfsmaður í fyrirtækinu sem Gunnar Örn rak fullyrði ég að annan eins siðleysingja hef ég aldrei kynnst um ævina.
Ég vissi að hann væri siðleysingi en mér datt ekki til hugar að hann væri svona heimskur:
Skipan Gunnars bar brátt að og við nánari skoðun taldi hann starfið viðameira og fela í sér meiri bindingu en hann hefur aðstöðu til að inna af hendi."
Þessari dæmalaust lélegu útskýringu á ég afar erfitt með að trúa, nema hann hafi ekki nennt að vinna starfið sem hann sóttist eftir.
Maðurinn var á sínum tíma sýknaður af ákæru um vanrækslu í starfi (via svansson) þar sem hann tók ekki eftir því að 75 milljónir vantaði á reikninga Tryggingasjóðs lækna. Ég gef mér það að Steingrímur fjármálaráðherra hafi ekki vitað af þessu, né ævintýrum hans sem eigandi og framkvæmdastjóri fyrirtækisins sem ég starfa hjá í hlutastarfi, og þar af leiðandi ráðið hann. En svo hefur Steingrímur verið upplýstur um þessa skrautlegu fortíð og sagt honum upp. Það getur bara ekki annað verið.
Maður spyr sig hins vegar, hvers vegna í ósköpunum er ekki fortíð manna könnuð áður en þeim er treyst fyrir banka? Þetta eru ótrúlega léleg vinnubrögð en sem betur fer hefur Steingrímur séð að sér að afturkallað ráðninguna, reyndar með ótrúlega dapri skýringu.
Að svona skúrkur eins og Gunnar Örn komist svona langt er algjör hneysa! Ég mun aldrei skipta við nokkurt það fyrirtæki sem þessi maður kemur nálægt í framtíðinni. Svona maður á einfaldlega ekki að fá að reka fyrirtæki.
Ég er reiður út í hann, og ekki að ástæðulausu.
![]() |
Gunnar Örn hættir í bankaráði Kaupþings |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
22.2.2009 | 23:06
Furðulegt fréttamat
Þetta þykir þeim á mbl.is áhugavert. Skrítið í meira lagi.
Á sama tíma er svooooo margt annað miklu meira spennandi og áhugavert að gerast í heimi vísindanna. Á laugardaginn var t.d. fyrirlestur um öflugustu, orkuríkustu hamfarir náttúrunnar. Mbl.is var send frétt um það, en virtust engan áhuga hafa á að birta hana. Nei, við skulum frekar upplýsa fólk um fljúgandi (ó)furðuhluti.
Síðustu tvo föstudaga hef ég heimsótt tvo menntaskóla þar sem ég var beðinn um að ræða um fljúgandi furðuhluti og geimverur. Ég hafði aldrei kynnt mér þetta sérstaklega mikið fyrr en fyrir þessa fyrirlestra sem ég hélt. Þá komst ég að einu.
Fljúgandi furðuhlutir eru einstaklega óspennandi fyrirbæri. Það er nákvæmlega ekkert töfrandi við þá. Ekki neitt.
Raunveruleikinn er uppfullur af spennandi, töfrandi og áhugaverðum hlutum. Til hvers að eyðileggja fegurðina með svona kjaftæði?
Stjörnuáhugamenn verja mestum tíma allra undir næturhimninum. Stjörnuáhugamenn þekkja himinninn og þau fyrirbæri sem á honum eru. Samt sjá stjörnuáhugamenn ALDREI neitt óútskýranlegt. Hvers vegna? Jú, þeir þekkja himinninn eins og áður sagði og eru útbúnir búnaði sem gerir þeim kleift að skoða "dularfullu" fyrirbærin.
Við þekkjum þetta sjálfir hér á Íslandi. Á hverju einasta heiðskíra kvöldi förum við eitthvert út að kíkja, oftast í Krýsvík. Fólk sem hittir okkur þar segir alltaf "hér hefur margt dularfullt sést á stjörnubjörtum nóttum."
Út um allan heim eru uppsettar myndavélar sem fylgjast stöðugt með himninum 360°, alla nóttina. Hvers vegna birtast fljúgandi furðurhlutir aldrei á þeim?
Sérkennilegt hvað geimverurnar eru feimnar þegar við stjörnuáhugamenn erum úti að skoða stjörnurnar.
Alheimurinn, raunveruleikinn, er töfrandi - gerviheimurinn ekki.
Ég nenni ekki að taka þátt í röfli um þetta leiðinlega og óáhugaverða viðfangsefni sem enginn nennir að rannsaka. Vísa þess í stað í grein á Stjörnufræðivefnum um Geimverutrúarbrögð.
Dæs. Er nema von að maður leiti í síauknum mæli frekar inn á fréttaveitu BBC heldur en Mbl.is?
![]() |
Fljúgandi furðuhlutir yfir Kanada |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:12 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
19.2.2009 | 17:16
Fyrirlestur um öflugustu sprengingar alheims laugardaginn 21. febrúar
Í tilefni af alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar efna Stjarnvísindafélag Íslands og Raunvísindastofnun Háskóla Íslands til fyrirlestraraðar fyrir almenning undir heitinu, ,,Undur veraldar: Undur alheimsins. Boðið verður upp á fimm fyrirlestra annan hvern laugardag á vormisseri og verður sá fyrsti laugardaginn 21. febrúar klukkan 14:00. Jafnframt verður sérstakur fyrirlestur miðvikudaginn 8. apríl og verður hann auglýstur nánar síðar. Allir fyrirlestrarnir fara fram í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Fyrsta fyrirlesturinn heldur Páll Jakobsson stjarneðlisfræðingur við Háskóla Íslands, um gammablossa sem verða til þegar stór stjarna springur og myndar svarthol. Sjá nánar á Stjörnufræðivefnum eða 2009.is.
Gammablossar eru mjög áhugaverð fyrirbæri. Ef gammablossi ætti sér stað í innan við 1000 ljósára fjarlægð frá jörðinni, og strókarnir stefndu í átt til jarðar, myndum við hljóta sömu örlög og risaeðlurnar.
Ég verð í viðtali í þættinum Vítt og breitt á Rás 1 á morgun um fyrirlestraröðina og eitthvað fleira. Einnig í Fréttablaðinu, annað hvort á morgun eða laugardaginn. Í Íslandi í bítið í fyrramálið verður einnig stutt spjall við Gunnlaug Björnsson stjarneðlisfræðing um fyrirlestraröðina og gammablossa.
Að lokum minnum við á námskeið í stjörnuskoðun í næstu viku. Það er enn tími til að skrá sig!
18.2.2009 | 11:26
Ljósmengun á heimsmælikvarða
Ég ætla að verða herra neikvæður og lýsa algjöru frati á þetta "listaverk" í Viðey. Maður á að geta flúið listaverk, vilji maður ekki verða var við það. Þessi ljóskastari sést lýsa upp himinninn allt í kringum höfuðborgarsvæðið. Ímyndaðu þér að þú sért að dást að náttúrunni á Þingvöllum. Þú ert að reyna að njóta kyrrðarinnar þegar skyndilega er kveikt á "listaverki" sem gefur frá sér mikinn hávaða. Sama hvað þú reynir, þú losnar ekki frá hávaðanum. Það sama á við um ljóskastarann í Viðey.
Á tímum sem þessum, þegar allir eru að berjast við að spara, er fullkomið tækifæri til þess að draga úr orkunotkun og spara þar með háar fjárhæðir sem fara í rafmagn. Hvað ætli margar milljónir myndu sparast ef við myndum vanda betur til lýsingar? Hvað kostar eiginlega að reka þennan ljóskastara á þeim stundum sem kveikt er á honum?
Þessa mynd hér fyrir neðan tók ég frá Þingvöllum. Þarna sést ljósmengun höfuðborgarsvæðisins í tæplega 50 km fjarlægð. Fjárans ljóskastarinn í Viðey er lýsir þarna lengst upp í himinninn af allri ljósmengunni á myndinni. Þetta er ljótt.

![]() |
Kveikt á friðarsúlunni í kvöld |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:29 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
18.2.2009 | 08:41
Viðtal við Simon Conway-Morris komið á Stjörnufræðivefinn
Viðtal okkar Björns Berg í gær við steingervingafræðinginn Simon Conway-Morris er komið á Stjörnufræðivefinn. Mér fannst þetta mjög áhugavert spjall og Conway-Morris skemmtilegur viðmælandi. Hugmyndir hans eru umdeildar eins og Arnar Pálsson benti á í athugasemd í gær. Ég náði að spyrja hann aðeins út í þessa gagnrýni.
Endilega hlustið!
Við ætlum svo að reyna að fá fleiri erlenda vísindamenn í viðtal á næstunni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 08:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)