Fyrirlestur um öflugustu sprengingar alheims laugardaginn 21. febrúar

Í tilefni af alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar efna Stjarnvísindafélag Íslands og Raunvísindastofnun Háskóla Íslands til fyrirlestraraðar fyrir almenning undir heitinu, ,,Undur veraldar: Undur alheimsins”. Boðið verður upp á fimm fyrirlestra annan hvern laugardag á vormisseri og verður sá fyrsti laugardaginn 21. febrúar klukkan 14:00. Jafnframt verður sérstakur fyrirlestur miðvikudaginn 8. apríl og verður hann auglýstur nánar síðar. Allir fyrirlestrarnir fara fram í stofu 132 í Öskju, Náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands. Fyrsta fyrirlesturinn heldur Páll Jakobsson stjarneðlisfræðingur við Háskóla Íslands, um gammablossa sem verða til þegar stór stjarna springur og myndar svarthol. Sjá nánar á Stjörnufræðivefnum eða 2009.is.

Gammablossar eru mjög áhugaverð fyrirbæri. Ef gammablossi ætti sér stað í innan við 1000 ljósára fjarlægð frá jörðinni, og strókarnir stefndu í átt til jarðar, myndum við hljóta sömu örlög og risaeðlurnar. 

Ég verð í viðtali í þættinum Vítt og breitt á Rás 1 á morgun um fyrirlestraröðina og eitthvað fleira. Einnig í Fréttablaðinu, annað hvort á morgun eða laugardaginn. Í Íslandi í bítið í fyrramálið verður einnig stutt spjall við Gunnlaug Björnsson stjarneðlisfræðing um fyrirlestraröðina og gammablossa. 

Að lokum minnum við á námskeið í stjörnuskoðun í næstu viku. Það er enn tími til að skrá sig!


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband