26.5.2007 | 00:13
Svo hrikalega margar...
Vetrarbraut er orð sem margir kannast við sem eitthvað fyrirbæri í himingeimnum. Sumir tengja það við daufu "slæðuna" sem teygir sig yfir himininn á stjörnubjörtu kvöldi. Þetta segir svo sem ekki mikið um hvað vetrarbraut er í raun. Hér er mjög gróf imbaskilgreining á vetrarbraut:
"Vetarbraut er safn margra stjarna (Sóla) sem hrærast saman í geimnum fjarri öðrum stjörnum"
Orðið stjörnuþoka er oft notað í stað vetrarbrauta þótt ég vilji meina að stjörnuþoka sé aðeins víðara hugtak. Við jarðarbúar erum íbúar í einni vetrarbraut, oftast kölluð Vetrarbrautin (með stóru V-i), á ensku: The Milky Way. Okkar vetrarbraut er skífulaga og inniheldur líklega yfir hundrað milljarða stjarna þ.e. 100.000.000.000 stykki af sólum svipaðar sólinni okkar!
En þetta er bara okkar vetrarbraut. Þegar við skyggnumst út í geiminn sjáum við fjölda annara vetrarbrauta. Hver þeirra hefur að geyma marga milljarða stjarna. Fjöldi vetrarbrauta í alheiminum er líklega meiri en 100 milljarðar. (100.000.000.000 stjörnur í vetrarbraut) x (100.000.000.000 vetrarbrautir) = hrikalega margar stjörnur! Ímyndið ykkur að þessi gríðarlega orkulind og lífgjafi sem sólin okkar er, þá er hún aðeins ein af hrikalega mörgum stjörnum í alheiminum.
"Það eru fleiri stjörnur í alheiminum en sandkorn á öllum ströndum jarðar"
- Carl Sagan
þessi fullyrðing er ekki ýkt. Fjarlægðirnar sem aðskilja vetrarbrautirnar eru einnig hrikalegar t.d. ein nálægasta vetrarbrautin er Andrómeda sem er í um 2,5 milljón ljósára fjarlægð). Við getum að sjálfsögðu ekki séð okkar vetrarbraut "utan frá" svo myndin sýnir dæmi um vetrarbrautir sem eru taldar líkjast okkar Vetrarbraut.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 00:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
23.5.2007 | 17:01
Námskeið í stjörnuskoðun
Þann 11. september næstkomandi munu Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn standa fyrir námskeiði í stjörnufræði og stjörnuskoðun fyrir alla áhugasama. Námskeiðið er hugsað fyrir alla sem hafa áhuga á stjörnunum og sérstaklega fyrir þá sem eiga stjörnusjónauka og vilja læra á hann. Eign á sjónauka er samt ekkert skilyrði fyrir því að sækja námskeiðið.
Námskeiðið mun standa yfir þrjú kvöld og hefst eins og áður sagði þann 11. september klukkan 20:00 í Valhúsaskóla, þar sem aðsetur Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness er.
Nánari upplýsingar er að finna á vefsíðu Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness.
Um Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness
Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness er eina félag áhugamanna um stjörnuskoðun og stjörnufræði hér á landi og eru félagar í því um 150 talsins. Aðsetur félagsins er í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Uppi á þaki skólans er hvolfþak sem hýsir aðalsjónauka félagsins. Hann er af gerðinni JMI NGT-18 og er spegill hans 46 cm í þvermál. Þetta er stærsti stjörnusjónauki landsins og hafa félagsmenn aðgang að honum.
Félagið á einnig tvo aðra stjörnusjónauka. Annars vegar 10 tommu Schmidt-Cassegrain sjónauka frá Meade og hins vegar 14 tommu Schmidt-Cassegrain sjónauka frá Celestron. Sá hinn síðari er fyrsti sjónauki félagsins.
Saga Stjörnuskoðunarfélagsins nær yfir rúm þrjátíu ár en félagið var stofnað þann 11. mars árið 1976 og voru stofnfélagar tuttugu talsins. Fyrsti formaður félagsins var Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur. Núverandi stjórn Stjörnuskoðunarfélagsins skipa
- Sævar Helgi Bragason, formaður
- Grétar Örn Ómarsson, ritari
- Kristján Þór Þorvaldsson, féhirðir
Stjörnuskoðunarfélagið er opið öllum áhugamönnum um stjörnuskoðun og stjörnufræði. Undanfarin ár hefur félagsgjaldið verið 2.000,- kr. á ári. Á hverju ári stendur félagið fyrir margvíslegum spennandi uppákomum og ber þar helst að nefna námskeið í stjörnuskoðun, útgáfu fréttabréfa, sólskoðun og stjörnuskoðun fyrir almenning auk ýmiss annars.
19.5.2007 | 20:33
Hver er þessi bjarta stjarna á himninum?
Ég hef verið spurður talsvert að því að undanförnu hvaða stjarna skín svo skært við sólsetur í vest-norðvesturátt. Þessi fallega og áberandi stjarna er reikistjarnan Venus, okkar næsti nágranni í sólkerfinu. Venus er bjartasta fyrirbæri himinsins um þessar mundir á eftir sólinni og tunglinu með birtustigið -4,19. Þessi tala segir flestum væntanlega ekki neitt en hún þýðir í raun það að hægt er að sjá Venus um hábjartan dag, ef þú veist nákvæmlega hvar á að leita og skyggt er á sólina með einhverjum hætti. Mér hefur tekist það með mikilli þolinmæði, reyndar á degi þar sem ég hafði ekkert annað betra að gera og þegar ég gat miðað út frá tunglinu.
Í gegnum stjörnusjónauka sést að Venus er ekki að fullu upplýst heldur að hálfu, líkt og hálft tungl. Sú staðreynd segir okkur að Venus sé nær sólinni en jörðin og var það ein af þeim röksemdum sem sannfærði Galíleó og fleiri góða menn á sínum tíma um ágæti sólmiðjukenningarinnar. Í gegnum sjónauka er fátt annað merkilegt að sjá. Yfirborðið er algjörlega falið undir þykkri skýjahulu sem engin leið er að sjá í gegnum nema með ratsjám. Einn sendiherra jarðarbúa hringsólar einmitt í kringum Venus þessa dagana, evrópska geimfarið Venus Express.
Að endingu. Þegar sólin sest í kvöld, farðu þá út og horfði í vesturátt. Taktu með þér handsjónauka ef þú átt slíkan búnað. Venus og vaxandi tungl verða þá sjáanleg í rauðu húminu, aðeins 1° á milli þeirra. Þetta er mjög falleg samstaða tveggja björtustu fyrirbæra næturhiminsins. Í stjörnufræðihugbúnaðinum Starry Night Enthusiast sést þetta vel.
Hugsaðu þér að á þessari fallegu reikistjörnu rignir brennisteinssýru sem gufar upp áður en regndroparnir ná niður á yfirborðið. Þar er nefnilega álíka heitt og í pizzaofni!
Og Starry Night hugbúnaðurinn fæst hjá Ormsson í Smáralind.
- Sævar Helgi Bragason
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
19.5.2007 | 10:19
Aðeins lítill blár punktur
Hvenær ætla menn að læra?
Jörðin er afar lítið svið á stórum alheimsleikvangi. Hugsaðu þér hversu miklu blóði hefur verið úthellt af hershöfðingjum og keisurum, til þess að þeir, í dýrð og sigurgleði sinni, gætu orðið tímabundnir herrar á agnarsmáum hluta punkts.
- Carl Sagan, Pale Blue Dot: A Vision of the Human Future in Space
![]() |
Sprengt á Græna svæðinu í Bagdad |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Stjórnmál og samfélag | Breytt s.d. kl. 10:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2007 | 23:26
Bloggað um stjörnufræði og stjörnuskoðun
Á þessari bloggsíðu munum við fjalla um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Við erum þrír vinir sem standa að Stjörnufræðivefnum (http://www.stjornuskodun.is) sem er alfræðivefur um stjörnuskoðun og stjörnufræði. Á vefnum okkar er að finna heilmikið af upplýsingum um allar reikistjörnur sólkerfisins, geimferðir, stjörnur og vetrarbrautir og Miklahvell svo fátt eitt sé nefnt. Á Stjörnufræðivefnum er auk þess heilmikið af gagnlegum upplýsingum stjörnusjónauka, svo sem hvernig best sé að bera sig að við val á slíkum búnaði, notkun hans, nauðsynlegum fylgihlutum og upplýsingar um fyrirbæri sem áhugavert er að skoða.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)