Færsluflokkur: Vísindi og fræði
19.6.2014 | 18:33
Hér er íslensk grein og myndband sem sýnir risasjónaukann
Á Stjörnufræðivefnum er að finna grein um þennan magnaða sjónauka sem hefur verið nefndur Stærsta auga jarðar.
Hér að neðan er myndband sem sýnir að þessi sjónauki er engin smásmíði. Takið eftir bílunum fyrir utan bygginguna sem eru örsmáir í samanburði við þennan risasjónauka.
-Sverrir
Stærsti geimsjónauki veraldar á fjallstoppi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
21.5.2014 | 22:38
Hjálpaðu okkur að færa börnum alheiminn inn í skólastofuna
Eitt helsta markmið okkar og Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness er að efla áhuga barna á stjarnvísindum. Það höfum við til dæmis gert með því að taka þátt í að gefa öllum skólum á Íslandi sjónauka og Jarðarbolta (þú getur keypt Jarðarbolta og verkefnabók hjá okkur til að styrkja vefinn).
Fyrir skömmu hóf alþjóðlega menntaverkefnið Universe Awareness (UNAWE) (sem við erum hluti af) söfnun til að færa skólum víða um heim, einkum á stöðum þar sem börn eiga undir högg að sækja, kassa með kennslubúnaði fyrir stjörnufræðikennslu.
Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness hefur styrkt þetta frábæra verkefni um 1000 evrur.
Safna þarf 15 000 evrum til að verkefnið verði að veruleika.
Við óskum nú eftir hjálp ykkar til að færa börnum víða um heim (líka á Íslandi) Alheim í kassa.
Heimsæktu https://www.kickstarter.com/projects/unawe/universe-in-a-box og styrktu verkefnið um einhverja af eftirfarandi upphæðum:
- 25 evrur - Styrkjendur fá Jarðarbolta
- 50 evrur - Styrkjendur fá Jarðarbolta og verkefnabók og barnabók um geimveru sem heimsækir jörðina
- 100 evrur - Styrkjendur fá Universe in a Box. Tilvalið að gefa einhverjum áhugasömum börnum eða einhverjum skóla eða leikskóla á Ísland!
- 120 evrur - Styrkjendur fá Universe in a Box. Tilvalið að gefa einhverjum áhugasömum börnum eða einhverjum skóla eða leikskóla á Ísland!
- 165 evrur - Styrkjendur fá Universe in a Box, Jarðarbolta og verkefnabók og barnabókina.
Vinsamlegast látið okkur vita ef þið ákveðið að styrkja verkefnið um 100 evrur eða meira! Það er til þess að við getum haldið utan um þá skóla sem fá alheiminn í kassa.
Heimsæktu https://www.kickstarter.com/projects/unawe/universe-in-a-box og styrktu verkefnið!
14.2.2014 | 16:39
36% Íslendinga svöruðu á sama veg 2005
Það er engin þörf á að hneykslast á Bandaríkjamönnum 36% Íslendinga svöruðu á sama veg í evrópskri könnun 2005.
36% Íslendinga sögðu sólina snúast um jörðu
Vegur stjörnufræðikennslu hefur aukist á undanförnum tveimur áratugum og það er vonandi að skilningur hafi aukist að sama skapi. Okkar reynsla er samt að (eðlilega) sé erfitt fyrir fólk að yfirfæra fróðleik úr kennslubókunum yfir á raunveruleikann þegar lærdómurinn stangast á við daglega reynslu (kyrr jörð og sól sem færist á himninum).
-Sverrir
1 af hverjum 4 veit ekki að jörðin snýst um sólina | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
30.1.2014 | 19:48
Áttu stjörnukíki en kannt lítið á hann?
Áttu stjörnukíki en kannt lítið á hann?
Undanfarin ár hafa Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn staðið fyrir námskeiðum um stjörnufræði og stjörnuskoðun.
Næsta námskeið fyrir byrjendur (13 ára og eldri) verður haldið þann 11. og 12. febrúar. Farið verður í stjörnuskoðun þegar veður leyfir.
Skráning er hafin og eru nánari upplýsingar á vefsíðu um námskeið.
28.1.2014 | 10:31
Ágæt hugmynd sem virkar því miður ekki
Norðurljósarör hljóma eins og ágætis hugmynd, en koma raun að frekar takmörkuðu gagni ef njóta á norðurljósanna.
Rörin þrengja sjónsviðið verulega svo fólk sæi ekki nema örlítinn hluta af himninum í einu og þar af leiðandi norðurljósunum, ef þau eru á annað borð á þeim stað sem rörin beinast. Norðurljósin missa dálítið mikilfengleika sinn ef maður sér þau ekki í öllu sínu veldi. Þau eru svo nálægt okkur og víðfeðm á himninum að lang besta leiðin til að skoða þau er með því að horfa til himins án sjóntækja, eða einhvers sem skerðir sjónsviðið.
Þar að auki er ljósmengun ekki lítið og staðbundið vandamál sem hægt er að losna við með 8 metra háum rörum. Ljósmengun liggur eins og risavaxinn hjúpur yfir borgum og bæjum sem nær líka langt út fyrir bæina og líka langt upp í himinninn. Maður losnar ekki við ljósmengun þótt horft sé í gegnum rör, það þekkjum við vel sem rembumst við að skoða stjörnur úr borginni.
Það eina sem svona rör gæti gert er að draga úr glýju frá nálægum ljósastaurum, svona eins og þegar maður notar höndina sem skyggni á sólríkum degi. Og ef það er hugmyndin mættu rörin vera miklu styttri, hálfur metri kannski og keilulaga til að víkka sjónsviðið.
Því miður er eina leiðin til að losna við ljósmengun sú að draga verulega úr henni, til dæmis með því að lagfæra ljósastaura og perur eða fara út fyrir hana.
Ágæt hugmynd, sem því miður virkar ekki vel í praktík.
- Sævar Helgi
Norðurljósin í gegnum rör | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 29.1.2014 kl. 22:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
30.12.2013 | 23:19
Loftmynd af Tunglgyðjunni og Kanínunni
Kínverski tunglkanninn Change 3 lenti á Regnhafinu þann 14. desember síðastliðinn. Skömmu eftir lendingu ók lítill jeppi, sem er með í för og kallast Yutu eða Kanínan, af lendingarfarinu og hóf að rannsaka áður ókannaða tegund af hrauni á yfirborði tunglsins.
Á Jólanótt flaug Lunar Reconnaissance Orbiter (LRO) geimfar NASA yfir lendingarstaðinn. Geimfarið var í um 150 km hæð þegar það tók þessa mynd af Change 3 og Yutu.
Mynd: NASA/GSFC/Arizona State University
Mynd: NASA/GSFC/Arizona State University
Change 3 lenti um 60 metrum austan við barm 450 metra breiðs og 40 metra djúps árekstragígs. Í gegnum lendingarsvæðið liggur líka 100 km langur og 10 km breiður hryggur.
Yutu á tunglinu
Myndin frá LRO er ekki í jafn mikilli upplausn og myndir geimfarsins af lendingarsvæðum Apollo leiðangranna. Ástæðan er sú að eftir að meginleiðangri geimfarsins lauk var brautin hækkuð upp í 150 km til að lengja líftíma þess um tunglið.
Í þessari hæð verður geimfarið fyrir minni áhrifum frá þéttingum, staði þar sem þyngdartog tunglsins er óvenju sterkt. Í þessari hæð nær geimfarið ekki hálfs metra upplausn líkt og áður. Myndin sem hér sést er með um eins og hálfs metra upplausn. Jeppinn svo stór en kemur vel fram á myndinni vegna sólarrafhlaða hans sem gera hann bjartari.
Til samanburðar sést hér mynd frá LRO af lendingarstað tunglferjunnar Orion í leiðangri Apollo 16, fimmtu mönnuðu tunglferðinni, á Descartes hálendinu og fótspor John Young og Charlie Duke rúmum 40 árum síðar. Að sjálfsögðu verður fjallað um leiðangurinn í Kapphlaupinu til tunglsins þegar þar að kemur.
LRV er tunglbíllinn sem hér sést ásamt leiðangursstjóranum John Young.
- Sævar Helgi
20.12.2013 | 22:56
45 ár liðin frá því að ein áhrifamesta ljósmynd sögunnar var tekin
Á aðfangadagskvöld verða 45 ár liðin frá því að ein áhrifamesta og frægasta ljósmynd sögunnar var tekin.
Þegar geimfarar um borð i Apollo 8 voru á sinni fjórðu ferð í kringum tunglið þann 24. desember árið 1968, sáu þeir Jörðina rísa yfir gráu, líflausu yfirborði tunglsins. Geimfarinn Bill Anders tók þá þessa frægu mynd:
Hugsa sér! Um jólin fyrir 45 árum gat fólk í fyrsta sinn í sögunni horft á tunglið og sagt að þarna uppi væru menn! Það sem ég gæfi fyrir að fara aftur í tímann og upplifa það.
Á Stjörnufræðivefnum er meiri fróðleikur um myndina.
Fjallað var um leiðangur Apollo 8 í ellefta þætti Kapphlaupsins til tunglsins en á hann má hlíða hér.
Þetta er uppáhalds Apollo geimferðin mín og auðvitað mín uppáhalds ljósmynd líka.
- Sævar Helgi
19.12.2013 | 22:15
Meiri fróðleikur um Gaia
Þetta er stór dagur fyrir Geimvísindastofnun Evrópu. Gaia geimsjónaukinn hefur verið í undirbúningi í 13 ár og er listasmíð enda þurfa mælingar hans að vera fyrsta flokks.
Sjónaukinn mun skanna himinninn og skrásetja um einn milljarð stjarna og annarra stjarnfræðilegra fyrirbæra. Hann á að mæla hliðrun stjarnanna og þannig finna út fjarlægðir þeirra, en einnig veita okkur lykilupplýsingar um hitastig stjarna, stærðir, massa og efnasamsetningu þeirra.
Á Stjörnufræðivefnum er að sjálfsögðu mikill fróðleikur um þennan merkilega sjónauka.
Einnig spjallaði undirritaður í dag við stjórnendur Síðdegisútvarpsins á Rás 2 um sjónaukann.
- Sævar Helgi
Gaia kortleggur geiminn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
17.12.2013 | 20:53
Forvitnilegur lendingarstaður Chang'e 3
Það var sérstaklega ánægjulegt að fylgjast með velheppnaðari lendingu kínverska geimfarsins Change 3 á tunglinu síðastliðinn laugardag. Það var eitthvað magnað við að horfa á beina sjónvarpsútsendingu frá tunglinu og horfa svo á tunglið í gegnum sjónauka örfáum mínútum síðar. Þarna var geimfar að lenda, rétt áðan, og bíll að aka!
Chang'e 3 á tunglinu séð með augum tungljeppans Yutu. Mynd: CNSA/CCTV
Yutu á tunglinu séð frá Chang'e 3 lendingarfarinu. Mynd: CNSA/CCTV
Geimfarið lenti rétt austan við fyrirhugaðan lendingarstað, rétt fyrir utan Regnbogaflóa (Sinus Iridum) á norðurhluta Regnhafsins (Mare Imbrium).
Og eiginlega er þessi lendingarstaður jarðfræðilega enn áhugaverðari en hinn. Change 3 situr nefnilega á tegund af hrauni sem aldrei hefur verið rannsakað áður á tunglinu.
Change 3 lenti ásamt Yutu jeppanum við austurbrún gríðarmikils hraunfláka sem er dekkra en eldra og ljósara hraun í Regnhafinu. Litrófsgreiningar hafa einmitt sýnt að hraunið sem Change 3 er á er óvenju títanríkt, á meðan ljósari hraunin eru títansnauð. Litamunurinn á hraununum sést vel á myndinni hér undir.
Chang'e 3 lenti á títanríku hrauni á Regnhafinu (örin bendir á lendingarstaðinn). Mynd: LPOD/Chuck Wood
Höfin á tunglinu eru risavaxnar árekstradældir sem fyllst hafa upp af þessum hraunum. Á Regnhafinu eru nokkur af mestu hraunum tunglsins. Hraunið sem Change 3 er á kom úr gosstöðvum sem eru 700 km fyrir sunnan lendingarstaðinn. Það að hraunið hafi runnið svo langt bendir til þess að það hafi verið mjög þunnfljótandi, mun meira en dæmigerð þunnfljótandi basalthraun á Jörðinni. Hvers vegna? Change 3 getur vonandi hjálpað til við að svara því.
Hraunin í Regnhafinu virðast líka mun yngri en sambærilegar hraunsléttur sem kannaðar hafa verið á tunglinu.
Aldur yfirborða í sólkerfinu er fundinn út frá fjölda loftsteinagíga. Því fleiri gígar, því eldra er yfirborðið. Á tunglinu er aldur svæðis áætlaður út frá fjölda gíga og hann síðann borinn saman við svæðin sem sýni eru til frá eftir heimsóknir Apollo leiðangranna og sovésku Luna geimfaranna, en þau hafa verið aldursgreind.
Út frá þessum upplýsingum hefur verið áætlað að hraunin í Regnhafinu séu með yngstu hraunum tunglsins eða milli 1 og 2,5 milljarða ára. Til samanburðar eru flest þau svæði sem menn heimsóttu í Apollo leiðöngrunum milli 3,1 og 3,8 milljarða ára. Og þar sem veðrun er mjög hæg á tunglinu hafa upplýsingar um myndun hraunanna varðveist vel.
Fyrst hraunin í Regnhafinu eru ung er berghulan (jarðvegur tunglsins) þynnri en á mörgum öðrum stöðum. Fyrir vikið hafa litlir gígar grafist niður á berggrunninn undir berghulunni.
Á lendingarstað Change 3, um tíu metra frá, sést 10-12 metra breiður gígur og grjót á börmum hans. Grjótið er úr berggrunninum fyrir neðan huluna, svo líklega er þykkt hennar aðeins 2-3 metrar. Á lendingarstað Apollo 11, sem lenti á einu elsta tunglhafinu, var þykkt hulunnar um og yfir 6 metrar. Ratsjáin á Yutu verður notuð til að mæla þykkt hulunnar og hraunlaganna fyrir neðan.
Á aðfangadag flýgur Lunar Reconnaissance Orbiter yfir lendingarstaðinn og smellir þá af myndum af Chang'e 3 og Yutu á yfirborðinu.
Erfitt er að nálgast gögn frá Chang'e 3 sem skýrir hvers vegna flestar myndir sem við sjáum, eins og þær fyrir ofan, eru skjáskot úr fréttatímum. Vitgrannir bandarískir pólitíkusar koma í veg fyrir að NASA megi taka þátt í leiðangrinum, deila gögnum með Kína og birta upplýsingar á sínum vefsíðum. Pólitíkusarnir óttast að Kínverjar muni stela tækni þeirra.
Þetta kemur sér illa fyrir annan bandarískan leiðangur sem nú er á braut um tunglið, LADEE, sem safnar upplýsingum um næfurþunnan lofthjúpinn sem umlykur tunglið. Vísindamenn LADEE hafa óskað eftir gögnum frá Kínverjum um lendingu Chang'e 3 þar sem þau snerta beint mælingar LADEE.
Evrópa (ESA) er hins vegar í samstarfi við kínverska vísindamenn. Að sögn leiðangursstjóra verða gögn gerð opinber með tíð og tíma.
- Sævar Helgi
Vísindi og fræði | Breytt 18.12.2013 kl. 09:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.12.2013 | 21:59
Kínverska geimfarið Chang'e 3 er lent á tunglinu!
Yutu tungljeppi Kínverja. Teikning: Glen Nagle
Uppfært kl. 21:15 laugardaginn 14. desember
Yutu jeppinn er farinn af stað!
Emily Lakdawalla hjá The Planetary Society útbjó þessar gif myndir af jeppanum aka af stað (myndunum er hraðað)
Uppfært kl. 13:15 laugardaginn 14. desember
Chang'e 3 lenti heilu og höldnu á tunglinu fyrir örfáum mínútum, rétt á undan áætlun! Til hamingju Kínverjar! Við fáum vonandi fyrstu myndirnar í kvöld og birtum þær að sjálfsögðu hér hjá okkur!
Fyrsta myndin er hér undir og sýnir grjót í kringum lítinn gíg.
- -
Fremur lítið hefur verið fjallað um kínverska geimfarið Change 3 í íslenskum fjölmiðlum. Það er mjög miður því leiðangurinn er sögulegur: Þetta í fyrsta sinn sem Kínverjar lenda á tunglinu og fyrsta mjúka tungllendingin síðan árið 1976.
Change 3 á að lenda á tunglinu laugardaginn 14. desember klukkan 13:40 að íslenskum tíma, um það bil tveimur stundum fyrr en áætlað var. Geimfarinu var skotið á loft 1. desember síðastliðinn og hefur varið undanförnum dögum á braut um tunglið. Hægt er að lesa meira um geimfarið á Stjörnufræðivefnum.
Vísindamenn og áhugamenn um tunglrannsóknir bíða spenntir eftir að geimfarið lendi og hefji störf á Mánanum. Lendingarferlið hefst í 15 km hæð yfir tunglinu. Í um 100 metra hæð tekur sjálfstýring geimfarsins við. Þá munu myndavélar og tölvur um borð í geimfarinu sjá um að finna heppilegan lendingarstað. Í 4 metra hæð verður slökkt á bremsuflaugunum og lendir farið síðan mjúklega á tunglinu.
Eftir lendingu mun Change 3 lendingarfarið opna sólarrafhlöðurnar og hlaða jeppann Yutu (Kanínuna, gæludýr kínversku tunglgyðjunnar Change). Örfáum klukkustundum eftir lendingu mun jeppinn aka af lendingarfarinu og stuttu síðar fáum við myndir af báðum förum á yfirborði tunglsins.
Væntanlega verður hægt að fylgjast með umfjöllun um lendinguna hjá kínversku sjónvarpsstöðinni CCTV.
Hvað á Change 3 að rannsaka?
Yfirborð tunglsins skiptist í tvennt: Í ljósleit hálendissvæði og dökkleit láglendissvæði sem við köllum höf. Munurinn á litnum er fólginn í berginu sem myndar svæðin. Dökka litinn í höfunum má rekja til basalts en ljósa litsins til ljósleitrar bergtegundar sem kallast anortþósít.
Change 3 á að lenda í Regnbogaflóa (Sinus Iridum) á Regnhafinu (Mare Imbrium), einu af dökku svæðunum sem við sjáum með berum augum á tunglinu. Ekki er vitað nákvæmlega hvar geimfarið lendir en líklegt þykir að það verði skammt frá gígnum Laplace A.
Lendingarstaður Chang'e 3 í Regnbogaflóa (Sinus Iridum) í Regnhafinu (Mare Imbrium) á tunglinu. Mynd: NASA/GSFC/Arizona State University
Árið 1970 lenti sovéska geimfarið Luna 17 með jeppann Lunokhod 1 um 250 km suðvestur af sama gíg. Sá jeppi starfaði í tæplega ár og ók á þeim tíma tíu og hálfan kílómetra.
Sovéska lendingarfarið Luna 17 á tunglinu. Í kringum það eru hjólför jeppans Lunokhod 1 en hann sjálfur sést ekki á myndinni. Mynd: NASA/GSFC/Arizona State University
Laplace A er áhugaverður rannsóknarstaður. Hann er tiltölulega ungur gígur (nokkur hundruð milljón ára), um 8 km breiður og 1.600 m djúpur. Í gígbörmunum sjást nokkur mismunandi berglög og berghlaup (skriður). Á gígbotninum er storknuð árekstrarbráð, nokkurs konar frosið stöðuvatn úr berginu sem bráðnaði við áreksturinn, um 2.500 metrar í þvermál.
Laplace A gígurinn. Mynd: NASA/GSFC/Arizona State University
Laplace A er gott dæmi um ungan gíg sem myndaðist í basalthafi. Aki jeppinn að gígnum, mun hann aka í gegnum efnisletturnar frá honum. Fjærst gígnum er efnið sem var grynnst eða við yfirborðið, en við gígbarmana er efnið sem grófst upp af mestu dýpi. Á þennan hátt verður hægt að fá innsýn berg á mismunandi dýpi á tunglinu.
Enn er margt á huldu um basalthöfin á tunglinu en jeppinn Yutu getur hjálpað okkur að svara nokkrum spurningum um þau, til dæmis um þykkt hraunanna, samsetningu þeirra og hvort og þá hvernig þau breyttust með tímanum. Í jeppanum er einnig ratsjá sem sér niður á allt að 100 metra dýpi. Allar þessar upplýsingar gætu sagt okkur ýmislegt nýtt um eldgosasögu tunglsins og þar af leiðandi þróunarsögu þess.
Hingað til hafa hvorki mönnuð né ómönnuð geimför lent nálægt ferskum árekstragígum á tunglinu. Reyndar voru hugmyndir uppi um að senda einn af aflýstu Apollo leiðöngrunum að gígnum Tycho snemma á áttunda áratugnum.
Ljóst er að Change 3 mun veita okkur nýja sýn á tunglið og þess vegna eru vísindamenn um allan heim mjög spenntir fyrir leiðangrinum.
Þegar Change 3 verður lent á tunglinu mun ekki líða á löngu þar til Lunar Reconnaissance Orbiter geimfar NASA kemur auga á geimfarið og jeppann í Regnbogaflóa. Við hlökkum til að sjá þær myndir!
Að endingu, ef einhver hefur áhuga skrifaði ég stuttan pistil um geimkapphlaup Indverja og Kínverja í nýjustu (17.) útgáfu Kjarnans.
- Sævar Helgi Bragason
Vísindi og fræði | Breytt 14.12.2013 kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)