Færsluflokkur: Vísindi og fræði
11.12.2013 | 17:37
Sjáðu bestu loftsteinadrífu ársins á föstudagskvöld
Ef veður leyfir föstudagskvöldið 13. desember skaltu horfa til himins. Þetta kvöld (og reyndar laugardagskvöldið líka) nær loftsteinadrífan Geminítar hámarki.
Í ár má búast við því að sjá um eða yfir 100 stjörnuhröp á klukkustund. Þú gætir sem sagt séð alla vega eitt stjörnuhrap á mínútur, jafnvel fleiri.
Öll virðast stjörnuhröpin stefna úr stjörnumerkinu Tvíburunum (Gemini) og dregur drífan nafn sitt af því.
Dularfullir Geminítar
Flestar loftsteinadrífur má rekja til ísagna sem hafa losnað af halastjörnum á leið þeirra í kringum sólina.
En Geminítar eru harla óvenjulegir.
Þá má nefnilega rekja til smástirnis ekki halastjörnu.
Smástirnið nefnist 3200 Phaethon og er aðeins 5 km að stærð. Ef til vill hefur efni losnað af því þegar það gerðist nærgöngult við sólina. Sannast sagna er það þó ekki vitað.
Hugsanlega er 3200 Phaethon lítið brot úr smástirninu Pallas sem er hundrað sinnum stærra og eitt stærsta smástirnið í smástirnabeltinu.
Af öllum þeim efnisstraumum sem jörðin plægir sig í gegnum ár hvert, er Geminíta slóðin einna þéttust. Þessi drífa svíkur þess vegna sjaldnast.
Stjörnuhröpin sem þú sérð verða til þegar agnir á stærð við sandkorn eða litla steina falla í gegnum lofthjúp jarðar. Agnirnar ferðast á 35 km hraða á sekúndu að meðaltali svo þegar ein þeirra rekst á lofthjúpinn gufar hún hratt upp vegna núnings og skilur eftir sig hvíta slóð.
Sérstaklega bjartur Geminíti springur fyrir ofan Mojave eyðimörkina í Bandaríkjunum þann 14. desember 2009. Mynd: Wally Pacholka / Astropics.com / TWAN
Hvert á að horfa?
Aðstæður til að fylgjast með Geminítum þetta árið eru ekki fullkomnar því tunglið er á lofti og kemur í veg fyrir að daufustu stjörnuhröpin sjáist. Engu að síður ætti enginn að láta það aftra sér frá því að horfa til himins.
Ekki er þörf á neinum sérstökum búnaði til að fylgjast með drífunni, aðeins augu (þótt vissulega gæti verið skemmtilegt að beina stjörnusjónauka að Júpíter og fleiri fyrirbærum sem eru á lofti um nóttina).
Komdu þér vel fyrir á dimmum stað, fjarri borgar- og bæjarljósunum, föstudagskvöldið 13. desember og horfðu í austurátt.
Notaðu stjörnukortið hér undir til að finna Kastor og Pollux, björtustu stjörnurnar í tvíburamerkinu en geislapunktur drífunnar er rétt fyrir ofan Kastor.
Tvíburamerkið er á lofti fram á morgun en virknin verður sennilega mest þá, rétt áður en birtir af degi (besti tíminn til að fylgjast með er því laugardagsmorguninn 14. desember)
Leggstu á jörðina, láttu fara vel um þig og horfðu til himins!
Prófaðu að telja stjörnuhröpin og láttu okkur svo vita (t.d. á Facebook) hvað þú sást mörg!
(Þessi pistill birtist upphaflega í desember 2012)
- - -
Vísindi í jólapakkann!
Hvað á að gefa vísindaáhugafólkinu í fjölskyldunni? Við höfum tekið saman nokkrar hugmyndir að jólagjöfum fyrir börn og fullorðna sem við mælum heilshugar með og birt á Stjörnufræðivefnum!
- Sævar Helgi Bragason
Sprenging og loftsteinaregn í Arizona | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.12.2013 | 11:55
Ítarefni um þessa merku uppgötvun
Ég skrifaði ítarlega um þessa merkilegu uppgötvun fyrr á þessu ári, en fyrstu ritrýndu vísindagreinarnar um hana voru birtar í gær. Hvet áhugasama til að lesa hana. Þar er sagt frá því hvernig uppgötvunin var gerð.
Vísbendingar um uppþornað stöðuvatn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
8.12.2013 | 21:37
Vísindi í jólapakkann!
Hvað á að gefa vísindaáhugafólkinu í fjölskyldunni? Við höfum tekið saman nokkrar hugmyndir að jólagjöfum fyrir börn og fullorðna sem við mælum heilshugar með og birt á Stjörnufræðivefnum!
Jarðarboltinn er kjörin gjöf fyrir yngsta áhugafólkið. Við gáfum öllum leik- og grunnskólum Jarðarbolta og hefur hann nýst þeim vel í náttúrufræðikennslu. Með honum fylgir lítil bók með verkefnum sem tengjast boltanum og eru til þess að fræða börn um dýrmætasta hnöttinn, Jörðina okkar. Ódýr og lærdómsrík gjöf sem taka má með sér í sundlaugina eða heita pottinn!
Með því að gefa Jarðarboltann styrkir þú Stjörnufræðivefinn! 

Þú getur keypt boltann á pöntunarsíðunni okkar.
Viltu vita meira um himingeiminn?
Viltu vita meira um himingeiminn? er flipabók fyrir yngstu kynslóðina. Bókin fékk verðlaun frá Konunglega vísindafélaginu í Bretlandi sem besta vísindabókin fyrir börn! Þetta er enda frábær bók fyrir börn á aldrinum 3 til 8 ára!
Með kaupum á Viltu vita meira um himingeiminn? styrkir þú Stjörnufræðivefinn!
Bókin fæst í öllum bókaverslunum en þú getur líka keypt hana á pöntunarsíðunni okkar.
Við mælum með ýmsu öðru, svo sem Vísindabók Villa, smásjá og stjörnusjónaukum. Gefðu þroskandi jólagjafir!
30.11.2013 | 21:33
Kínverjar senda geimfar og jeppa til tunglsins
Yutu tungljeppi Kínverja. Teikning: Glen Nagle
Sunnudaginn 1. desember senda Kínverjar ómannaða geimfarið Change 3 til tunglsins. Áætlaður komutími er 14. desember.
Change 3 er þriðji tunglkanni Kínverja en sá fyrsti sem á að lenda á tunglinu. Raunar er um að ræða fyrstu mjúku lendinguna á tunglinu síðan sovéska könnunarfarið Luna 24 lenti þar árið 1974, tveimur árum eftir seinustu mönnuðu tunglferðina. Change 3 samanstendur af lendingarfari og jeppa sem á að aka um Regnbogaflóa á Regnhafinu á norðurhveli tunglsins. Jeppinn er sá fyrsti sem ekur um tunglið síðan sovéski jeppinn Lunokhod 2 ók þar um árið 1973.
Kínversku tunglkannarnir eru nefndir eftir tunglgyðjunni Change sem búið hefur á tunglinu í meira en 4.000 ár. Þangað komst hún eftir að hafa stolið ódauðleikapillu frá manni sínum. Þar býr hún reyndar ekki ein heldur nýtur hún félagsskapar kanínunnar í tunglinu, Yutu, en jeppinn um borð í Change 3 er nefndur eftir þessari kanínu.
Hægt er að lesa miklu meira um Change 3 á Stjörnufræðivefnum.
- Sævar Helgi
15.11.2013 | 23:03
NASA sendir geimfar til Mars á mánudag
Teikning af MAVEN á leið til Mars. Mynd: NASA/GSFC
Klukkan 18:28 að íslenskum tíma mánudaginn 18. nóvember, skýtur NASA á loft nýju Mars-fari. Geimfarið heitir MAVEN og er ætlað að rannsaka lofthjúp Mars, einkum efstu lofthjúpslögin og víxlverkun þeirra við sólvindinn. Geimskotið verður sýnt í beinni útsendingu á vef NASA.
MAVEN verður skotið á loft með Atlas V-401 eldflaug frá Canaveralhöfða í Flórída. Gangi allt að óskum verður geimfarið á leið til Mars aðeins klukkustund eftir geimskot. MAVEN mun svo fara á braut um Mars þann 22. september á næsta ári. Ef fresta þarf geimskotinu er skotglugginn opinn dag hvern í tvær klukkustundir fram á Þorláksmessu.
Meginmarkmð MAVEN er að leita svara við spurningunni hvernig Mars glataði lofthjúpi sínum og hvernig hann heldur áfram að þynnast í dag. Geimfarið á að rannsaka uppbyggingu og efnasamsetningu efri hluta lofthjúps Mars í dag og þau ferli sem stjórna honum; ákvarða hve hratt gas úr honum sleppur út í geiminn og þau ferli sem stjórna því.
Í MAVEN eru átta mælitæki en engin myndavél.
Á Stjörnufræðivefnum eru nánari upplýsingar um geimfarið.
- Sævar Helgi
5.11.2013 | 11:17
Mangalyaan á leið til Mars
Þetta er stór og mikilvægur áfangi fyrir geimáætlanir Indverja. Ef allt gengur upp bætist Indland nú hóp NASA, ESA, Japans og Rússlands sem sent hafa geimför til Mars.
Mangalyaan geimfarinu, eins og það er kallað, er fyrst og fremst ætlað að svara þeirri spurningu hvort Indverjar búi yfir tækninni til að koma geimfari til Mars. Um borð eru nokkur mælitæki sem gera eiga athuganir á jarðfræði yfirborðsins og kanna lofthjúpinn.
Ferðalagið til Mars mun taka um tíu mánuði eða svo. Í september eða október 2014 fer geimfarið á mjög sporöskjulaga pólbraut um Mars. Minnst verður hæðin 377 km en mest 80.000 km. Til samanburðar er Deimos, ytra tungl Mars, í 20.000 km hæð yfir Mars.
Á Stjörnufræðivefnum má lesa meira um Mangalyaan geimfar Indverja.
Hér er einnig örlítið um kostnaðinn við þennan leiðangur.
- Sævar Helgi
Indversk geimflaug á leið til Mars | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.10.2013 | 07:53
Sú fjarlægasta?
Er þetta fjarlægasta vetrarbraut sem sést hefur í alheiminum hingað til? Líklega ekki.
Fyrir tveimur árum tilkynntu stjörnufræðingar um að fundist hefði önnur vetrarbraut sem við sjáum aðeins 500 milljón árum eftir Miklahvell, um það bil 200 milljón árum fyrr en vetrarbrautin sem fjallað er um í fréttinni. Hér er hægt að lesa allt um það en hér undir er stuttur útdráttur.
Stjörnufræðingar reikna út aldur þessara fyrirbæra með aðferð sem hefur verið sannreynd margoft. Skoðað er með litrófsgreiningu hve mikið teygst hefur á ljósi frá fyrirbæri af völdum útþenslu alheimsins. Þetta kallast rauðvik og er táknað með bókstafnum z. Almennt gildir að því meira sem rauðvik vetrarbrautar er, því fjarlægari er hún frá okkur.
Áður en Hubble geimsjónaukanum var skotið á loft gátu stjörnufræðingar aðeins greint vetrarbrautir með rauðvik í kringum z = 1 en það samsvarar um helmingi af aldri alheimsins. Fyrsta djúpmynd Hubbles var tekin árið 1995 en á henni sáust vetrarbrautir með rauðvik z = 4 sem samsvarar um 90% aftur að upphafi tímans.
Árið 2009 mældu stjörnufræðingar (íslenskur stjörnufræðingur þeirra á meðal) gammablossa sem reyndist hafa rauðvik 8,2. Stuttu síðar mældist enn önnur vetrarbraut með rauðvik 8,6 og sló þar með met gammablossans. Hún birtist okkur eins og hún leit út um 600 milljón árum eftir Miklahvell.
Vetrarbrautin sem fannst árið 2011 hefur enn meira rauðvik en öll þessi fyrirbæri, líka það sem sagt er frá í fréttinni, eða z = 10 svo fjarlægð hennar er enn meiri. Gallinn við þessa uppgötvun er sá að stjörnufræðingarnir mældu rauðvik hennar ekki beint, heldur með ljósmælingum í gegnum litsíur í myndavél Hubbles. Þess vegna hefur þessi uppgötvun ekki verið formlega staðfest. Þetta fyrirbæri er svo fjarlægt og svo dauft, að Hubble greinir það varla sjálfur. Við vitum að það er þarna úti og líklega töluvert fjarlægara en vetrarbrautin sem sagt er frá í fréttinni.
Fréttir af fjarlægustu vetrarbrautinni berast okkur álíka reglulega og fréttir af vatni á Mars. Eftir því sem sjónaukar verða stærri og myndavélar næmari, því lengra aftur sjáum við. James Webb geimsjónaukinn, arftaki Hubble, á að greina ljós frá enn fjarlægari fyrirbærum, með rauðvik allt að z = 15. Svo gamalt ljós lagði af stað um 275 milljónum ára eftir Miklahvell. Hugsanlega sér hann en lengra aftur. Talið er að fyrstu stjörnurnar hafi myndast einhvern tímann á bilinu z = 15 til z = 30.
(Myndin sem fylgir fréttinni ætti ekki að vera eignuð AFP fréttastofunni. Þetta er mynd sem tekin var með VST sjónauka ESO af stjörnuþyrpingunni Westerlund 1 sem er í Vetrarbrautinni okkar. Hér er hægt að lesa allt um hana (mjög áhugaverð þyrping).)
- Sævar Helgi
Fjarlægasta vetrarbrautin fundin | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
10.10.2013 | 20:31
Stjörnufræðivefurinn á ferð og flugi
Undanfarna viku hafa fulltrúar Stjörnufræðivefsins tekið þátt í vinnusmiðju um miðlun stjarnvísinda til kennara, leikskólabarna pg grunnskólabarna á yngsta stigi. Smiðjan er haldin á vegum Universe Awareness verkefnisins í Haus der Astronomie í Heidelberg í Þýskalandi.
Um það bil 60 kennarar, stjörnufræðingar og aðrir fræðslufulltrúar frá sex heimsálfum tóku þátt í vinnusmiðjunni. Við höfum lært óskaplega margt og vonandi náð að kenna öðrum eitthvað líka. Best er þó að hitta allt fólkið frá ólíkum löndum. Reynslan af þessu mun vonandi sjást í starfi okkar í framtíðinni.
Hér undir eru nokkrar myndir frá vinnusmiðjunni.
Kastalinn í Heidelberg. Elsti hluti hans var reistur á 13. öld.
Haus der Astronomie, Hús stjörnufræðinnar, þar sem vinnusmiðjan fór fram. Haus der Astronomie er miðstöð vísindamiðlunar og fræðslu. Húsið er í laginu eins og vetrarbrautin Messier 51 en í miðjunni er glæsilegt stjörnuver (e. planetarium) sem einnig er fyrirlestrasalur. Ef húsið ætti að vera í sömu hlutföllum og vetrarbrautin, væri hæð þess aðeins 1 metri!
Allar heimsálfurnar nema Suðurskautslandið áttu fulltrúa á vinnusmiðju UNAWE í Þýskalandi.
Í einum armi vetrarbrautarhússins
Í Haus der Astronomie er leikherbergi. Þarna er yngstu börnunum kennt um sólina, Jörðina, tunglið og margt fleira.
Ég dýrka þessa hnetti! Tunglið og Mars
Sævar Helgi Bragason þreifar á tunglinu. Þetta líkan er prentað í þrívíddarprentara og er ætlað til að fræða blint fólk.
Nærmynd af þrívíddarlíkaninu af tunglinu, sem ætlað er fyrir blinda.
Sverrir Guðmundsson þreifar á þrívíddarprentuðu líkani af stjörnumerkjunum á næturhimninum. Þetta líkan er frá Spáni þar sem það hefur verið notað í stjörnuverssýningar fyrir blint fólk.
Við Haus der Astronomie er Max Planck stofnunin í stjörnufræði. Við hana eru tveir stjörnuturnar.
Í öðrum turninum er 70 cm breiður sjónauki.
Í hinum er 50 cm breiður sjónauki.
- Sævar Helgi
1.10.2013 | 16:01
Þættir um kapphlaupið til tunglsins á Rás 1 í vetur
Í vetur verður undirritaður með þætti á Rás 1 sem heita Kapphlaupið til tunglsins.
Þetta er viðfangsefni sem ég hef mikla ástríðu fyrir. Ég dýrka tunglferðirnar. Þær voru merkilegustu atburðir mannkynssögunnar. Við erum fyrsta tegundin í 4600 milljón ára sögu Jarðar sem yfirgaf heimili sitt fyrir fullt og allt en tókst að snúa heim aftur, heilu og höldnu. Um allan heim segir fólk alltaf við, mannkynið, fórum til tunglsins! Hvaða annar atburður í mannkynssögunni kallar fram slíka einingu?
Sagan á bak við tunglferðirnar eru margar hverjar stórskemmtilegar. Sumar eru fyndnar, aðrar sorglegar og ævintýralegar. Í þáttunum ætla ég að segja sögur af mönnunum sem ferðuðust út í geiminn og hvað við lærðum.
Fyrsti þátturinn verður fluttur á sunnudaginn 6. október eftir kvöldfréttir (kl. 18:17). Þeir eru síðan endurfluttir á mánudögum kl. 16:05.
Hvet alla til að hlusta!
Vilt þú styrkja Stjörnufræðivefinn?
Stundum spyr fólk okkur hvernig það geti stutt okkur. Það er auðvitað dýrt að reka vefina okkar en ef svo ólíklega vill til að einhver vill styðja okkur er það hægt með ýmsum hætti:
- Hægt er að leggja inn á reikninginn okkar: Kt.: 590411-0780 Reiknr.: 137-26-100574
- Hægt er að kaupa af okkur Jarðarbolta (2000 kr + póstkostnaður sem er 155 kr)
- Hægt er að kaupa bókina Viltu vita meira um himingeiminn
Takk kærlega fyrir stuðninginn!
- Sævar Helgi
24.9.2013 | 23:04
Komdu og skoðaðu himingeiminn á Vísindavöku
Föstudaginn 27. september, milli klukkan 17 og 22, fer fram einn skemmtilegasti viðburður ársins: Vísindavaka. Vísindavakan er haldin í Háskólabíói og er stútfull ótal áhugaverðum kynningum á störfum íslenskra vísindamanna á hinum ýmsu sviðum. Auk þess eru atriði á sviði alveg frá því að herlegheitin hefjast og þar til vökunni lýkur.
Líkt og fyrri ár munu Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn taka þátt í veislunni. Ef sést til stjarna verðum við með sjónauka og munum skoða eitthvað áhugavert á himninum.
Við verðum með Jarðarboltann til sölu á staðnum og sitthvað fleira skemmtilegt.
Við munum einnig flyja tvö erindi á Vísindavöku. Annars vegar heldur undirritaður kynningu á norðurljósunum og rannsóknir á þeim og hins vegar fjallar Sverrir Guðmundsson um loftsteina. Efni sem getur ekki klikkað!
Vinir okkar í Sprengjugenginu munu sýna töfra efnafræðinnar og opið verður í Vísindasmiðjuna frábæru!
Allir hjartanlega velkomnir á Vísindavöku í Háskólabíói föstudaginn 27. september!
- Sævar Helgi