Færsluflokkur: Vísindi og fræði
28.7.2011 | 12:46
Mikilvægur áfangi fyrir ALMA: 16 loftnet á Chajnantor sléttunni - Fyrstu mælingar í undirbúningi
Á Chajnantor sléttunni, hátt í Andesfjöllunum í Chile, er óðum að komast mynd á Atacama Large Millimeter/submillimeter Array (ALMA). Loftnetin eru nú orðin 16 talsins og þótt það hljómi eins og hver önnur tala þýðir þetta að nú geta fyrstu vísindalegu mælingarnar hafist. Sextánda loftnetið er því mikilvægur áfangi. Loftnetinu var komið fyrir í starfsstöð sjónaukans sem er í 5000 metra hæð yfir sjávarmáli á Chajnantor sléttunni þann 27. júlí 2011 eftir samsetningu og ítarlegar prófanir í stjórnstöðinni sem er nokkru neðar. Fljótlega munu stjörnufræðingar hefja rannsóknir með ALMA.
Fyrstu mælingar eru fyrirhugaðar í lok september 2011. Þótt ALMA verði enn í smíðum er hann þegar orðinn betri en nokkur annar sambærilegur sjónauki.
Þegar smíði ALMA lýkur í kringum árið 2013 verða loftnetin 66 talsins. Þau verða öll látin starfa saman sem ein heild og mynda stóran sjónauka sem mælir millímetra og hálfsmillímetra bylgjulengdir ljóss. ALMA mun hjálpa stjörnufræðingum að rannsaka uppruna sólkerfa, stjarna og jafnvel alheimsins sjálfs með því að rannsaka kalt gas og ryk í vetrarbrautinni okkar og utan hennar, sem og eftirgeislun Miklahvells.
ALMA er samstarfsverkefni Evrópu, Norður Ameríku og austur Asíu í samvinnu við Chile. ESO hefur umsjón með evrópska hluta verkefnisins.
Mynd: ALMA (ESO/NAOJ/NRAO)
Tengt efni
25.7.2011 | 08:00
Very Large Telescope tilbúinn til starfa
Smelltu til að stækka
Þegar sólin gengur til viðar á norðvesturhimninum yfir Atacamaeyðimörkinni í Chile taka stjörnufræðingar til starfa. Þetta er heimili Very Large Telescope ESO, eins öflugasta sjónauka sem smíðaður hefur verið. Sjónaukinn er staðsettur á tindi Cerro Paranal, 2.600 metra háu fjalli um 120 km suður af borginni Antofagasta.
Þessi óvenjulega 360 gráðu víðmynd sýnir sjónaukana frá nýju sjónarhorni. Á miðri mynd hefur starfsfólk í Paranal stjörnustöðinni safnast saman til að fylgjast með sólarlaginu. Hægra megin sjást hvolf VLT sjónaukanna fjögurra. Hver sjónauki hefur 8,2 metra breiðan safnspegil og vegur hver 23 tonn. Einnig sjást nokkrir 1,8 metra hjálparsjónaukar VLT. Vinstra megin á myndinni er svo stjórnstöð sjónaukanna. Þegar húsin hafa verið opnuð, á meðan mælingar standa yfir, eru engir menn undir hvolfþökunum við sjónaukana.
Frá því að Very Large Telescope var tekinn í notkun árið 1998 hafa evópskir stjörnufræðingar, íslenskir þar á meðal, notað hann til að rannsaka mörg furðulegustu fyrirbæri alheims, eins og fjarreikistjörnu, risasvarthol og gammablossa.
Mynd: ESO
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt 22.7.2011 kl. 16:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.7.2011 | 14:18
Og lendingarstaður næsta Marsjeppa er...
Gale gígurinn!
Í lok nóvember eða snemma í desember á þessu ári verður Curiosity eða Mars Science Laboratory, næsta Marsjeppa, skotið á loft. Jeppin er engin smásmíð, mun stærri en fyrirrennararnir Sojourner, Spirit og Opportunity, ekkert ósvipaður Toyota Yaris að stærð. Hægt er að lesa sér betur til um jeppann á Stjörnufræðivefnum.
Ferðalag Curiosity til Mars tekur níu mánuði og er lendingin því áætluð um miðjan ágúst 2012. Jeppinn lendir á nýstárlegan hátt, ekki með loftpúðum eins og fyrri jeppar heldur geimkrana.
Í dag tilkynnti NASA um lendingarstað Curiosity. Förinni er heitið að aurkeilu við rætur fjalls í Gale gígnum á Mars.
Gale er 154 km breiður gígur skammt frá Elysium eldfjallasvæðinu á Mars. Talið er að gígurinn sé milli 3,5 til 3,8 milljarða ára gamall. Í miðju hans er stærðarinnar fjall og mun Curiosity lenda við rætur þess þar sem finna má aurkeilu.
Lendingarstaður Curiosity er innan sporöskjulaga svæðisins.
Aurkeilur myndast þegar vatn rennur niður halla, dreifist út og myndar keilulaga svuntu. Samskonar aurkeilur sjáum við víða á Íslandi, til dæmis við Esjurætur. Í aurkeilunni í Gale gígnum sjást ummerki um leir, súlfatlög og blaðsíliköt sem hafa að öllum líkindum myndast í vatni. Þarna eru sem sagt setlög með vatnaðar steindir sem segja okkur allt um (lífvænlega?) umhverfið sem þarna var.
Gale gígurinn á Mars, fyrirhugaður lendingarstaður Curiosity jeppans. Lendingarstaðurinn er við norðvesturhluta fjallsins í miðju gígsins (klukkan 10-11 ef við ímyndum okkur gíginn sem klukkuskífu).
Mestum hluta leiðangursins verður varið við rætur fjallsins. Síðan er gert ráð fyrir því að jeppinn byrji að aka upp hlíðar þess.
----
Opportunity nálgast Endeavour
Á sama tima heldur Opportunity áfram að aka um yfirborð Mars, sjö árum eftir lendingu, í átt að stórum gíg sem nefnist Endeavour og sést hér undir:
Smelltu til að stækka
Á myndinni hér fyrir ofan sést akstursleið Opportunity frá lendingarstaðnum í Arnargígnum. Í setlögum í Arnargígnum fann Opportunity ótvíræð ummerki vatns. Þessi staður sem sést á myndinni fyrir ofan var því eitt sinn á kafi í vatni.
Opportunity hefur verið meira en þrjú ár að aka að gígnum en innan við kílómetri er eftir. Í heild hefur jeppinn ekið meira en 32 km á síðustu sjö árum. Opportunity er því næst víðförlasti geimjeppi sögunnar. Aðeins sovéski tungljeppinn Lunokhod 2 hefur ekið lengra en árið 1973 ók hann 37 km á fjórum mánuðum. Kannski slær Opportunity metið!
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2011 | 22:58
Mögnuð mynd af lendingu geimferjunnar
Vá! Þessi stórkostlega mynd var tekin frá besta útsýnisstað í Alþjóðlegu geimstöðinni af geimferjunni koma inn til lendingar.
Í nótt voru líka 42 ár liðin frá merkasta atburði mannkynssögunnar og stórkostlegasta afreki mannkynsins.
Mynd: NASA
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.7.2011 | 10:03
Farvel Atlantis - þrjár flottar myndir úr síðustu ferð geimferjunniar
Nú er geimferjuáætlun Bandaríkjamanna lokið. Förinni var heitið til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar og er tilgangurinn er að flytja þangað birgðir og búnað. Um borð í Atlantis voru fjórir geimfarar og hafa þeir ekki verið færri síðan í apríl 1983 þegar Challenger geimferjan sáluga flutti jafnmarga geimfara í sjötta leiðangri geimferjunnar.
Í hverjum einasta leiðangri geimferjunnar eru teknar nokkrar stórkostlegar myndir af jörðinni. STS 135 leiðangurinn var þar engin undanteknin. Hér undir eru þrjár glæsilegar myndir úr seinustu ferð geimferjunnar.
Hér sést geimferjan Atlantis ofan Bahamaeyjar.
Á þessari mynd sést Atlantis og geimkrani geimferjunnar í miðjunni. Myndin er tekin um nótt þann 16. júlí síðastliðinn en þá var tunglið næstum fullt og lýsir því upp skýin. Ljósið efst er notað til að lýsa upp vinnusvæðin þegar er myrkur. Við brún jarðar sjást grænleit suðurljósin. Græna litinn má rekja til súrefnissameinda. Þegar agnir úr sólvindinum rekast á súrefnissameindirnar losar rafeind sem binst síðan aftur sameindinni og gefur við það frá sér grænt ljós. Þunni brúni boginn nær geimferjunni eru fínar agnir hátt í lofthjúpnum.
Þessi magnaða mynd var tekin úr geimstöðinni. Á bak við sólarhlöðin og Atlantis sjást suðurljósin græn yfir brún jarðarinnar. Í bakgrunni eru fjölmörg fyrirbæri sem stjörnuáhugafólk á suðurhveli jarðar kannast við. Þarna sést geimþokan Kolapokinn, stjörnur í Vetrarbrautinni, stjörnumerkið Suðurkrossinn og rétt glittir í Kjalarþokuna og kúluþyrpinguna Omega Centauri.
Alveg magnað!
Hér eru svo fleiri myndir úr sögu geimferjanna af enskri fréttasíðu AlJazeera.
Fyrir áhugasama myndavélanörda eru geimfararnarir með Nikon myndavélar í geimstöðinni.
Nú skulum við feta nýjar brautir og fara enn lengra út í geiminn. Gerum eitthvað nýtt og enn meira spennandi.
----
Nýtt á Stjörnufræðivefnum:
- Fjögur óvenjuleg sjónarhorn á Andrómeduvetrarbrautina
- Hubblessjónaukinn finnur áður óþekkt tungl við Plútó
- Stjarnfræðileg risabóla
- Sævar
![]() |
Síðustu geimferjuferðinni lokið |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:19 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
20.7.2011 | 01:26
Versta veður í meira en hálfa öld
Í Atacamaeyðimörkinni í norðurhluta Chile einum þurrasta stað jarðar var líka einstaklega slæmt veður í um fimm daga í byrjun mánaðarins. Og það þykir saga til næsta bæjar á þessum slóðum. Eftir storminn var um 80 cm jafnfallinn snjór á stöðum þar sem úrkoma er alla jafna aðeins 1 til 3 millímetrar á ári. Ekki hefur snjóað svo mikið á þessum stað í meira en hálfa öld. Myndin hér undir var tekin með MODIS myndavélinni á Terra gervitungli NASA af snævi þaktri Atacamaeyðimörkinni.
Mynd: NASA/Terra-MODIS
Stjörnustöð ESO í Paranal fór ekki varhluta af þessu óvenjulega veðri. Úrfelli og ofsaveður gerði á Paranal, þessu 2.400 metra háa fjalli sem venjulega býr við 340 heiðskíra daga á ári, svo stærstu sjónaukar jarðar voru ónothæfir í þrjár nætur. Allar bygginagar stóðu veðurofsan af sér en minniháttar tjón varð á hótelinu á staðnum, Residencia.
Þessi mynd var tekin frá Residencia hótelinu á einum þurrasta stað veraldar í Atcamaeyðimörkinni í Chile. Úrfellið sem sést á myndinni er sárasjaldgæf sjón. Mynd: ESO/G. Lombardi
Regndropar á þurrasta stað jarðar. Mynd: ESO/G. Lombardi (ann11049)
Residencia er magnað hótel. Það er bókstaflega vin í eyðimörkinni og gengdi einmitt því hlutverki í James Bond myndinni Quantum of Solace. Þá var það griðarstaður illmennisins Dominic Greene.
Nokkru norðar á hinni 5000 metra háu Chajnantor sléttu við landamæri Chile og Bólivíu, þar sem APEX og ALMA sjónaukarnir eru staðsettir, snjóaði mikið. Engar skemmdir urðu en snjórinn hefur sett strik í reikninginn.
Tenglar
- Sævar
![]() |
Snjór veldur vandræðum í Síle |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:49 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
14.7.2011 | 21:52
Halló Vesta!
Næstkomandi laugardag, 16. júlí, kemst Dawn geimfar NASA á braut um smástirnið Vestu í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíters. Ó hvað það verður gaman!
Dawn er að nálgast Vestu og smám saman verða drættir í landslaginu augljósari, eins og sjá má á mynd sem tekin var 9. júlí síðastliðinn úr 41.000 km fjarlægð frá smástirninu:
Hér er horft undir Vestu, á suðurpólinn. Á myndinni sést stærsta kennileitið. Fyrir um einum milljarði ára rakst stærðarinnar hnöttur á Vestu með þeim afleiðingum að risavaxin dæld myndaðist á suðurhveli smástirnisins. Leifar af þessum árekstri þeyttist út í geiminn og hafa meðal annars fallið til jarðar sem svonefndir HED loftsteinar. Í miðju gígsins er stærðarinnar fjall sem rís 18 km yfir umhverfið í kring.
Loftsteinarnir hafa gefið okkur góða ágæta hugmynd um Vestu þótt margt sé enn ólært. Í þeim eru steindir eins og ólivín og pýroxen sem við finnum í storkuberginu basalti. Það segir okkur að Vesta var eitt sinn bráðinn hnöttur og er líklega lagskiptur eins og jörðin því þungu efnin, málmarnir, sukku niður í átt til kjarnans en léttari efni þrýstust upp á við. Af þessum sökum er Vesta álitin leifar frumreikistjörnu. Vesta er ekki nema um 530 km í þvermál, ekkert svo ósvipað Íslandi að stærð.
Hægt er að lesa sér betur til um Vestu og Dawn á Stjörnufræðivefnum.
- Sævar
12.7.2011 | 12:03
Loki: Öflugasta eldfjall sólkerfisins
Íó eða Jó, eitt af fjórum Galíleótunglum Júpíters, er eldvirkasti hnöttur sólkerfisins. Á Íó eru mörg hundruð virk eldfjöll eins og litadýrð brennisteins á yfirborðinu er til vitnis um. Eldfjöllin eru gífurlega öflug og stundum standa upp úr þeim 500 km háir gosmekkir sem dreifa efni út í geiminn í kringum Júpíter. Askan fellur t.d. á tunglið Amalþeu og litar það rautt.
Á Íó er Loki Patera, um 200 km breið skeifulaga hrauntjörn, rétt norðan miðbaugs á Íó. Loki reyndist vera virkt eldfjall á myndum sem Voyager 1. tók af tunglinu er það þaut framhjá Júpíter árið 1979. Síðar kom í ljós að það er öflugasta eldfjall sólkerfisins en mælingar sýna að frá því stafar um 13-15% af heildarvarmaútgeislun Íós. Vegna þessa mikla hita hafa einhverjir stjörnufræðingar reyndar getið sér til um að Loki gæti verið op í kvikuhafið undir Íó, þótt líklegra sé talið að það sé hrauntjörn.
Vegna heppilegrar staðsetningar á Íó og mikillar orkuútgeislunar er fremur auðvelt að rannsaka Loka frá jörðinni. Mælingar af jörðu niðri og í geimnum á virkni Loka síðustu þrjá áratugi eða svo sýna merki um að hún sé lotubundin. Á um 540 daga fresti eða svo virðist sem yfirborð hrauntjarnarinnar umbyltist en það sést af því að birta eldfjallsins vex og dvínar með þessu millibili. Þetta er svipað og gliðnun úthafshryggja eins og í Atlantshafinu, nema miklu hraðar.
Hitamælingar sem gerðar voru með nær-innrauðum litrófsrita (NIMS) á Galíleó geimfarinu sýndu að hitinn er hæstur, rétt undir 700°C, á suðvesturhorni Loka eins og myndin hér til hliðar sýnir. Þar virðist kvika stíga upp á við og færast eins og öldur í austurátt en þar er einmitt kaldara svæði og skorpan þá eldri. Ekki eru nein merki um að hraun hafi runnið út fyrir Loka.
Myndir Voyagers sýndu að dökk hrauntjörnin umlykur ljósa eyju. Mælingar Galíleó geimfarsins sýndu að dökka hraunið er heitt og ríkt af orþópýroxeni á meðan eyjan er köld. Orþópýroxenið er silíkatsteind sem er algeng í basísku bergi.
Við eigum margt eftir ólært um öll þau heillandi eldfjöll sem prýða eldvirkasta hnött sólkerfisins. Þökkum bara fyrir að jörðin okkar sé ekki jafn eldvirk.
- Sævar
11.7.2011 | 10:46
Vetrarbrautir í faðmlögum
Hér sést Seyfert-vetrarbrautin NGC 1097 í stjörnumerkinu Ofninum. Hún er í 50 milljóna ljósára fjarlægð og á í nánum kynnum við aðra litla sporvöluþoku, NGC 1097, sem sést ofarlega vinstra megin. Vísbendingar eru um að þær hafi víxlverkað við hver aðra fyrir ekki svo ýkja löngu.
Þótt NGC 1097 virðist vefja þyrilörmum sínum um fylgivetrarbrautina er risinn aldeilis ekki svo umhyggjusamur. Í stóru vetrarbrautinni eru fjórir daufir strókar of langir og daufir til að sjást á þessari mynd sem skaga út úr kjarnanum og mynda X en þeir eru lengstu sýnilegu strókar frá vetrarbraut sem vitað er um. Talið er að strókarnir séu leifar dvergvetrarbrautar sem NGC 1097 át fyrir örfáum milljörðum ára. Sömu örlög bíða NGC 1097A.
Strókarnir óvenjulegu eru reyndar ekki einu áhugaverðu einkenni þessarar vetrarbrautar. Eins og áður sagði er NGC 1097 Seyfert vetrarbraut. Það þýðir að í miðju hennar er virkt risasvarthol. Kjarni NGC 1097 er reyndar tiltölulega daufur sem bendir til að risasvartholið í miðjunni sé ekki að gleypa mikið gas og margar stjörnur. Þess í stað er bjartur kekkjóttur hringur sem umlykur kjarnann mest áberandi einkenni miðju vetrarbrautarinnar. Björtu kekkirnir eru taldir risakúlur úr vetnisgasi, 750 til 2.500 ljósár í þvermál, sem glóa vegna sterkrar útfjólublárrar geislunar frá ungum nýmynduðum stjörnum í nágrenninu. Þessi áberandi stjörnumyndunarhringur og þær fjölmörgu bláu þyrpingar ungra og heitra stjarna í þyrilörmunum gera NGC 1097 mjög glæsilega.
Myndin sem hér sést var upphaflega tekin árið 2004 (sjá eso0438) með VIMOS mælitækini á VLT en litmyndum sem stjörnuáhugamaðurinn Robert Gendler tók hefur verið bætt við.
Mynd: ESO/R. Gendler (potw1128a)
---
- Sævar
8.7.2011 | 12:24
Seinasta ferð geimferjunnar
Í dag, ef veður leyfir, fer Atlantis geimferjan í sína hinstu för út í geiminn. Förinni er heitið til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar og er tilgangurinn er að flytja þangað birgðir og búnað. Um borð í Atlantis eru fjórir geimfarar og hafa þeir ekki verið færri síðan í apríl 1983 þegar Challenger geimferjan sáluga flutti jafnmarga geimfara í sjötta leiðangri geimferjunnar.
Eftir tólf daga snýr Atlantis aftur til jarðar sama dag og liðin verða 42 ár frá því að Neil Armstrong og Buzz Aldrin stigu fyrstir manna fæti á tunglið. Um leið lýkur rúmlega 30 ára sögu geimferjuáætlunarinnar. Alls fóru geimferjurnar 135 sinnum út í geiminn.
Hægt er að fylgjast með geimskotinu í beinni útsendingu á vefsíðu NASA. Ágætt er að byrja að fylgjast með um það bil tíu mínútum fyrir geimskot sem er áætlað 15:26 að íslenskum tíma, nema veðrið setji strik í reikninginn.
Skotglugginn er aðeins um 10 mínútna langur og miðar NASA yfirleitt við miðju hans. Skotglugginn veltur á staðsetningu geimstöðvarinnar yfir jörðinni en hún er aðeins 91 mínútu að hringsóla í kringum jörðina.
Þegar geimferjunni er skotið á loft situr hún á risastórum eldsneytistanki sem geymir fljótandi vetni og súrefni. Eldsneytinu er dælt yfir í hreyflana þrjá aftan á geimferjunni þar sem vetnið gengur í samband við súrefni og myndar vatnsgufu. Við það losnar mikil orka (jafnmikil og þarf til þess að skilja vetni og súrefni að með rafgreiningu eins og t.d. í vetnisstöðinni við Vesturlandsveg í Reykjavík).
Meginhluti orkunnar sem þarf til þess að koma geimferjunni á braut um jörðu kemur þó frá hvítu fasteldsneytisflaugunum. Eldsneytið í þeim er blanda af ammóníumperklórati, áli, kolefnisfjölliðum og fleiri efnum. Ekki er kveikt á þeim fyrr en búið er að ræða vélar geimferjunnar því þegar bruninn er farinn af stað verður ekki aftur snúið eldsneytið í þeim brennur uns það klárast.
Gífurlega orku þarf til þess að koma geimferjunni á loft en samanlagt vegur hún og eldsneytistankarnir þrír um tvö þúsund tonn! Megnið af heildarþunganum er eldsneyti og eldsneytistankar því geimferjan sjálf er aðeins 79 tonn að þyngd. Hún er því léttari en fullvaxin steypireyður.
Hér undir er tímalína yfir það helsta sem gerist fyrir og eftir geimskot #:
- T mínus 7 mínútur og 30 sekúndur - Landgönguhliðið fært frá geimferjunni. Venjulega er myndavél sem sýnir þegar þetta gerist. Landgönguhliðið er um 13 hæðir yfir jörðinni.
- T mínus 5 mínútur og 15 sekúndur - Kveikt á flugritum geimferjunnar (svarti kassinn). Þulur tekur það yfirleitt fram í beinu útsendingunni.
- T mínus 2 mínútur og 30 sekúndur - Lokið sem er eins kollhúfa ofan á appelsínugula eldsneytistanknum færist burt. Lokið sér um að dæla burt vetnisgufum sem fljótandi vetni í tanknum gefur frá sér.
- T mínus 31 sekúnda - Hér eftir stjórna tölvur því sem gerist fram að geimskoti, með einni undantekningu: Menn ræsa aðalhreyfla geimferjunnar.
- T mínus 16 sekúndur - 3,5 milljónir lítra af vatni er dælt út undir skotpallinn. Vatnið dregur úr hávaðanum og dempar hljóðbylgjurnar sem myndast þegar hreyflarnir eru ræstir. Hljóðbylgjurnar eru svo öflugar að þær gætu annars skemmt geimferjuna. Reykurinn sem myndast þegar kviknar á eldflaugunum er því vatnsgufa.
- T mínus 10 sekúndur - Kviknunarferli aðalhreyfla geimferjunnar hefst.
- T mínus 8 sekúndur - Sex stórir kveikjarar brenna vetni sem hefur lekið út úr hreyflunum.
- T mínus 6,6 sekúndur - Á fjórðungi úr sekúndu eru allir þrír hreyflar geimferjunnar tendraðar og aflið keyrt upp 90%. Á þessum tímapunkti er enn hægt að hætta við geimskot ef eitthvað er að.
- T mínus 0,1 sekúnda - Kveikt á hvítu fasteldsneytisflaugunum. Þetta ferli er ekki hægt að stöðva. Um leið og kviknar á fasteldsneytisflaugunum er ekki aftur snúið þær brenna þangað til eldsneytið er uppurið. Í Challenger slysinu ár ið 1986 streymdi eldsneyti út um gúmmihring á fasteldsneytisflaug og bræddi gat á appelsínugula eldsneytistankinn með þeim afleiðingum að geimferjan sprakk og sjö geimfarar létu lífið.
- T mínus 0 sekúndur - Geimskot!
Eftir geimskot
- T plús 7 sekúndur - Geimferjan er komin upp fyrir skotpallinn og byrjar að velta sér þannig að stefnið er á hvolfi. Þetta er gert til þess að geimferjarn snúi rétt þegar hún kemur til geimstöðvarinnar.
- T plús 60 sekúndur - Throttle up Stjórnstöð segir flugstjóranum að setja aflið á fullt.
- T plús 2 mínútur og 5 sekúndur - Geimferjan er í um 45 km hæð þegar fasteldsneytisflaugarnar hafa lokið sér af. Sprengiboltar losa flaugarnar frá falla niður og lenda í Atlantshafinu þangað sem þær eru sóttar.
- T plús 8 mínútur og 30 sekúndur Slökkt er á hreyflum geimferjunnar og appelsínuguli eldsneytistankurinn losnar frá. Tankurinn fellur smám saman aftur til jarðar og brennur upp í lofthjúpnum yfir Indlandshafi. Á braut um jörðina er geimferjan í um 300 km hæð og á um 26.000 km hraða á klukkustund. Í hönd fer ferðalag til geimstöðvarinnar.
Stórkostlegt útsýni! Geimfarin Karen Nyberg í Alþjóðlegu geimstöðinni árið 2008.
Geimferjurnar eru flóknustu vélar sem smíðaðar hafa verið. Þær bera verkfræðikunnáttu mannkyns fagurt vitni.
Rekja má tilurð geimferjuáætlunarinnar aftur til þess tíma þegar tunglferðirnar stóðu sem hæst. Bandaríkin vildu draga úr kostnaði við geimferið sem þó er lítill í samanburði við önnur útgjöld með því að smíða geimferju sem hægt yrði að nota aftur og aftur. Hver geimferja var hönnuð til að endast í um áratug og fara um það bil 100 sinnum út í geiminn.
Áætlanirnar rættust því miður ekki. Þegar mest lét fóru geimferjurnar átta sinnum út í geiminn á einu ári. Kostnaður við geimferjurnar minnkaði heldur ekki. Þegar allt er tekið saman kostaði hver leiðangur geimferjunnar kostað í kringum 1 milljarð bandaríkjadala. Leiðangrarnir urðu 135 talsins, þar af heppnuðust 133.
Geimferjurnar voru notaðar til að flytja gervitungl út í geiminn, eins og Galíleó geimfarið sem fór til Júpíters og Chandra röntgengeimsjónaukann. En í mínum huga er mikilvægasta framlag geimferjanna viðhaldsleiðangrarnir til Hubblessjónaukans. Þeir hafa skipt sköpum fyrir hinn aldna geimsjónauka og veitt okkur nýja og stórfenglega sýn á alheiminn.
Hubblessjónaukinn og geimferjan Atlantis fyrir framan jörðina.
- Sævar
![]() |
Veður gæti tafið geimskot |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:36 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)