Færsluflokkur: Vísindi og fræði
17.8.2011 | 16:30
Skoðaðu sólina með okkur á Menningarnótt
Ef veður leyfir á Menningarnótt ætlum við að setja upp sólarsjónauka á Austurvelli og bjóða þér að skoða sólina með okkur. Þar verðum líklega við styttuna af Jóni Sigurðssyni frá klukkan 13:30 til 16:30.
Það getur verið ótrúlega gefandi að skoða nálægustu stjörnuna á himninum: Sjálfa sólina. Sólin er nefnilega síbreytileg.
Við verðum með tvær, jafnvel þrjár, tegundir af sólarsjónaukum: White light, vetnis-alfa og hugsanlega kalsíum-kalín. Með white light sólarsíum (eins og sést á sjónaukanum hér hægra megin) skoðum við sýnilegt yfirborð sólarinnar, þar sem sólin verður ógegnsæ í sýnilegu ljósi. Prýði einhverjir sólblettir sólina á laugardaginn er best að skoða þá í gegnum þessa síu.
Skemmtilegast er að skoða sólina í gegnum svonefnda vetnis-alfa sólarsjónauka. Með vetnis-alfa sólarsjónaukum skoðum við eina tiltekna litrófslínu í ljósinu frá sólinni sem hefur 656 nanómetra bylgjulengd. Þessi litrófslína kemur frá rauðglóandi vetni í sólinni. Þess vegna er sólin rauð í gegnum vetnis-alfa sjónauka.
Með vetnis-alfa sjónaukum er hægt að sjá sólgos sem við köllum sólstróka. Stundum eru gosin mjög tignarleg og standa langt upp úr sólinni. Fyrir kemur að við sjáum líka sólgos sem ber í skífu sólar. Þá horfum við í raun ofan á sólgosin. Slík fyrirbæri kallast sólbendlar.
Erfiðast er að skoða sólina með kalsíum-kalín sjónauka. Ástæðan er sú að við horfum nánast inn í útfjólubláa hluta sólarljóssins á bylgjulengd sem sum mannsaugu greina hreinlega ekki. Í gegnum þennan sjónauka er sólin þess vegna fallega dimmfjólublá á litinn.
Það er kalsíum í sólinni sem gefur frá sér þessa bylgjulegnd en kalsíum telur aðeins 0,008% af massa sólar. Mér finnst persónulega mjög skemmtilegt að skoða sólina með þessum sjónauka vegna þess hve krefjandi það er. Með sjónaukanum sjást vel virk svæði umhverfis sólblettasvæðin sem kallast sólflekkir. Sólflekkirnir eru ljósleitir vegna þess að gasið er þar er þónokkru heitara en í kring.
Nú krossleggjum við bara fingur og vonumst eftir góðu veðri á laugardaginn. Sjáumst þá!
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt 16.8.2011 kl. 23:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.8.2011 | 17:37
Loftsteinahrap séð utan úr geimnum - Hrós til Fréttablaðsins
Myndin hér undir er alveg mögnuð. Hún hefur reyndar birst á svo til öllum helstu stjörnufræðibloggum í heiminum og fellur klárlega í geðveikt svalt flokkinn!
Myndina tók geimfarinn Ron Garan í Alþjóðlegu geimstöðinni. Hér sést líklega loftsteinn sem kallast Persíti. Persítar eru leifar af halastjörnunni Swift-Tuttle sem mynda loftsteinaregn 12. og 13. ágúst ár hvert. Þegar regnið stendur yfir sjást ef til vill um 60 loftsteinar á klukkustund. Loftsteinar brenna yfirleitt upp í um 100 km hæð yfir jörðinni, oft á sekúndubrotum, en geimstöðin er 250 km hærra. Það er því dálítið mergjuð tilviljun að geimfarinn skyldi ná mynd af stjörnuhrapinu.
Gervitungl verða annað slagið fyrir agnarsmáum loftsteinum sem skaða þau ekkert og sáralitlar líkur eru á að þau verði fyrir stærri steinum sem betur fer. Geimurinn er stór og gervitunglin lítil.---
Hvaða myndavélar eru geimfararnir að nota? Í geimstöðinni eru geimfararnir með ellefu Nikon D3s myndavélar og bestu Nikon linsur sem völ er á.
---
Hrós dagsins fær Þorgils Jónsson blaðamaður hjá Fréttablaðinu. Í blaði dagsins er góð umfjöllun um næsta áfangastað Mars-jeppans Opportunity.
Í síðustu viku birtist grein eftir mig í Fréttablaðinu þar sem ég gagnrýndi litla og oft á tíðum dapra umfjöllun um vísindi. Vonandi hafði hún einhver áhrif svo að þetta sé það sem koma skal.
- Sævar
9.8.2011 | 13:11
Silfurský á himninum
Þegar ég var að aka Sæbrautina á miðnætti í gærkvöldi þá kom ég auga á sérkennilega hvíta skýjaslæðu í norðurátt. Ég hafði aldrei séð svona fyrirbæri áður en renndi strax í grun að þetta væru svonefnd silfurský (noctilucent clouds á ensku).
Í stuttu máli þá eru silfurský þunnar skýjaslæður sem eru langt fyrir ofan veðrahvolfið í um 75-90 km hæð. Þar sem þau liggja í svo mikilli hæð þá nær sólin að lýsa þau upp löngu eftir að hún er sest. Hér er fyrirtaks grein eftir Trausta Jónsson um silfurský á vefsíðu Veðurstofu Íslands.
Þegar ég bjó í Edmonton í Kanada 2009 þá hitti ég áhugamenn um silfurský sem skrá hjá sér hvenær þau sjást og safna saman upplýsingum um þau. Ég ætla í framhaldinu að hafa samband við þá sem sjá um söfnun athugana fyrir Bretland og Norðvestur-Evrópu.
Hér að neðan eru tvær myndir sem undirritaður tók af silfurskýjunum frá Seljavegi um kl. eitt í nótt (9. ágúst). Myndavélin er mjög einföld Sony myndavél og náði engan veginn að fanga fegurð skýjanna.
-Sverrir Guðmundsson
9.8.2011 | 09:52
Fyrirlestur um Large Hadron Collider og heim öreindanna
Gian Francesco Guiudice, öreindafræðingur við CERN, heldur fyrirlestur á ensku um LHC sterkeindahraðalinn mikla í Sviss og fyrstu niðurstöður sem fengist hafa með þessum nýjasta og stærsta hraðli heims. Fyrirlesturinn ber titilinn A Zeptospace Odyssey: A Journey into the Physics of the LHC. Fyrirlesturinn er á vegum Raunvísindadeildar Háskóla Íslands og verður haldinn í stofu 132 í Öskju, Sturlugötu 7, föstudaginn 12. ágúst 2011 og hefst kl. 16:00. Hann er öllum opinn.
Ágrip fyrirlesara: Rannsóknir eru nú hafnar með sterkeindahraðlinum mikla (Large Hadron Collider: LHC), metnaðarfyllsta og flóknasta vísindaverkefni allra tíma. Hraðallinn er í 27 km löngum neðanjarðargöngum nálægt Genf í Sviss. Hver er tilgangur þessara rannsókna? Munu þær veita okkur innsýn í dýpstu leyndardóma náttúrunnar? Fyrirlesarinn mun fjalla um ævintýrið að baki LHC, orkumesta hraðli heims, og útskýra nýjustu mæliniðurstöður.
Um fyrirlesarann: Ítalski eðlisfræðingurinn Gian Francesco Giudice er vísindamaður í fremstu röð. Hann vinnur að kennilegum rannsóknum í öreindafræði og heimsfræði við CERN (evrópsku rannsóknarstofnunina í háorkueðlisfræði) í Sviss, einkum við verkefni þar sem LHC kemur við sögu. Hann hefur alla tíð tengst hraðlarannsóknum og áður en hann hóf störf við CERN vann hann við bandarísku rannsóknarstofnunina Fermilab. Einnig vann hann um skeið við Texasháskóla meðan verið var að undirbúa smíði SSC-hraðalsins, sem hefði orðið stærri og öflugri en LHC. Ekkert varð þó af smíðinni, þar sem Bandaríkjastjórn stöðvaði hana vegna kostnaðar. Giudice er þekktur fyrir að geta útskýrt flókna hluti fyrir leikmönnum og er höfundar alþýðuritsins A Zeptospace Odyssey, sem fjallar um öreindafræði og hraðla, einkum LHC. Bókin hefur hlotið lof gagnrýnenda.
Zepto er forskeyti í alþjóða einingakerfinu og stendur fyrir 0,000000000000000000001 eða 10-21.
Gagnlegar vefsíður
8.8.2011 | 12:19
Dimmur himinn yfir snævi þaktri eyðimörk
Næturhiminninn yfir Cerro Paranal í Chile, þar sem Very Large Telescope (VLT) ESO er staðsettur, er dimmur og þakinn björtum stjörnum Vetrarbrautarinnar og öðrum fjarlægum fyrirbærum. Sjaldgæft er að sjá dökkt eyðimerkurlandslagið í kring jafn bjart og það er á þessari mynd en hér er það þakið þunnri fönn.
Myndina tók Yuri Beletsky skömmu fyrir sólarupprás einn fagran morgun í síðustu viku. Beletsky starfar sem stjörnufræðingur hjá ESO við La Silla Paranal stjörnustöðina en er auk þess hirðljósmyndari samtakanna. Á myndinni sést snæviþakið landslag Atacama og fjallstindurinn sem geymir VLT en líka glæsilegur næturhiminn. Vinstra megin við VLT er slóð eftir gervitungl og til hægri er loftsteinarák.
Cerro Paranal er 2.600 metra hátt fjall í Atacamaeyðimörkinni í Chile, einum þurrasta staða veraldar. Raki fellur oft undir 10% og úrkoma mælist innan við 10 millímetrar á ári. Hins vegar snjóar annað slagið og gefur umhverfinu annan og fallegan svip eins og hér sést.
Mynd: ESO/Y. Beletsky (potw1132a)
- Sjá einnig mynd vikunnar á Stjörnufræðivefnum.
---
Hrósið fær svo Bogi Þór Arason hjá Morgunblaðinu fyrir tvær fínar geimvísindafréttir í föstudag og laugardag um Juno og vatn á Mars.
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.8.2011 | 06:55
Júpíter-kannanum Juno skotið á loft í dag
Í dag skýtur NASA á loft nýju ómönnuðu könnunarfari til Júpíters, stærstu reikistjörnu sólkerfisins. Geimfarið heitir Juno og er hið fyrsta sem notar sólarorku í stað kjarnorku svo langt frá sólinni.
Geimfarið er nefnt eftir rómversku gyðjunni Juno sem var dóttir Satúrnusar, systir og eiginkona Júpíters, móðir Mars og Vúlkans og verndargyðja kvenna í Róm. Sagan segir að hinn vífni Júpíter hafi reynt að dylja misgjörðir sínar með skýjum. Af Ólympusfjalli gat kona hans skyggnst í gegnum skýin og komist að raun um framhjáhald eiginmanns síns. Væri geimfarið íslenskt væri sennilega Frigg að fara og heimsækja Óðinn.
Segja má geimfarið muni líkja eftir eiginkonu Júpíters. Það á nefnilega að skyggnast inn í skýjahuluna og kanna þannig innviði, lofthjúp og segulsvið Júpíters. Um borð eru átta tæki sem mæla munu þyngdarsvið gasrisans, mæla magn vatns og ammóníaks í skýjunum, kortleggja geysiöflugt segulsvið reikistjörnunnar og fylgjast með kröftugum segulljósum. Allt þetta á að hjálpa okkur að komast að skilja hvernig Júpíter lítur út að innan og hvernig hann og aðrir gashnettir verða til og þróast. Það hjálpar okkur svo að skilja myndun sólkerfisins.
Juno er stórt og þungt geimfar. Ekki er til nægilega öflug eldflaug til að koma því beina leið til Júpíters. Eftir geimskot fer Juno fyrst á sporöskjulaga braut um sólina. Í október 2013 þýtur það framhjá jörðinni og stelur hverfiþunga til að auka hraðann svo það drífi til Júpíters. Fyrir vikið mun hægja eitthvað örlítið á snúningi jarðar en enginn mun taka eftir því.
Árið 2016, eftir fimm ára og 2,8 milljarða km langt ferðalag, kemst Juno á sporöskjulaga braut um póla Júpíters. Það tekur geimfarið 11 daga að hringsóla um reikistjörnuna og því mun það fara 33 sinnum í kringum Júpíter á ári.
Um borð er skjöldur til heiðurs ítalska stjörnufræðingnum Galíleó Galílei þar sem minnst er uppgötvunar hans á fjórum tunglum Júpíters fyrir rúmum 400 árum sem gerbreytti heimsmynd okkar. Um borð eru líka þrjár LEGO fígúrur af Galíleó, rómverska guðinum Júpíter og konu hans, gyðjunni Juno. Tilgangurinn með þeim er að vekja athygli og áhuga barna á leiðangrinum og þar af leiðandi á vísindum, tækni og stærðfræði.
Gangi allt að óskum fer geimfarið á loft milli klukkan 15:34 og 16:43 að íslenskum tíma. Hægt er að fylgjast með geimskotinu á vef NASA.
Ítarefni
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt 4.8.2011 kl. 14:30 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2011 | 18:58
Fljótandi vatn á Mars?
Myndir sem teknar voru með HiRISE myndavélinni á Mars Reconnaissance Orbiter geimfari NASA benda til að vatn á fljótandi formi flæði niður hlíðar gíga á Mars yfir hlýjustu mánuði ársins. Á myndunum sjást dökkar rákir í þeim hlíðum gíga sem snúa að miðbaug á miðlægum breiddargráðum á suðurhveli reikistjönunnar sem breytast árstíðabundið. Ekki hefur reynst unnt að staðfesta að um vatn sé að ræða en stjörnufræðingar telja það líklegustu skýringuna.
Árstíðabundið flæði saltvatns (dökku rákirnar) í hlíðum Newton gígsins á suðurhveli Mars. Myndirnar voru teknar með HiRISE myndavélinni í Mars Reconnaissance Orbiter geimfari NASA.
Að sögn Alfreds McEwen, stjörnufræðings við Arizonaháskóla í Tuscon, er fljótandi saltvatn álitin besta útskýringin á þessum sérkennilegu rákum. McEwen hefur umsjón með rannsóknum á myndum HiRISE myndavélarinnar og er aðalhöfundur greinar um athuganirnar sem birtist í nýjasta hefti tímaritsins Science.
Dökku rákirnar eru ólíkar öllu öðru sem við sjáum á yfirborði Mars. Á myndunum sjást þær lengjast frá því seint á vorin og þar til haustið gengur í garð, eins og vatn sé að streyma hægt og rólega niður hlíðarnar.
Á miðlægum breiddargráðum á Mars er hitastigið á sumrin nógu hátt til þess að frosið vatn bráðni og byrji að flæða niður hlíðar þeirra gíga sem snúa að sól, annað hvort á yfirborðinu eða rétt undir því. Hitastigið á þessum stöðum á sumrin er milli -23°C upp í +27°C sem er of hátt til þess að um koldíoxíð sé að ræða en kemur vel heim og saman við saltvatn. Salt lækkar frostmark vatns eins og flestir kannast við. Saltur sjór leggur síðar en ferskvatn. Vatnið sem hér um ræðir þarf að vera álíka salt og sjórinn á jörðinni til þess að geta flætt. Hreint vatn myndi hins vegar frjósa. Besta hliðstæðan á jörðinni er sífrerinn í Síberíu. Á Mars er enginn hörgull á söltum og því líklegt að sölt séu í reikula efninu sem lækki frostmark þess.
En eru hér fyrstu sönnunargögnin fyrir tilvist fljótandi vatns á Mars? Þegar svæðið var kannað með CRISM litrófsritanum í sama geimfari voru fingraför vatns hvergi sjáanleg. Hugsanleg þorna rákirnar hratt ef þær eru ofanjarðar en kannski eru þær grunnt neðanjarðar og þá erfitt að mæla. McEwen segir rákirnar séu ekki dökkar vegna þess að þær séu blautar heldur sé ástæðan önnur og ókunn. Einnig er erfitt að útskýra hvers vegna rákirnar lýsast á ný þegar hitastigið lækkar.
Þetta er okkur hulin ráðgáta í augnablikinu en ég tel að hægt sé að leysa hana með frekari rannsóknum segir McEwen.
Myndirnar eru bestu vísbendingar sem við höfum hingað til sem benda til þess að vatn geti verið fljótandi á Mars í dag. Vatnsís hefur fundist víða um Mars og sömuleiðis fremur fersk giljadrög sem benda til þess að vatn (eða einhver annar vökvi) hafi flætt tiltölulega nýlega. Saltir vatnsdropar sáust líka setjast á fætur Phoenix geimfarsins sem lenti við norðurpól Mars árið 2008.
Ítarefni
- Sævar Helgi Bragason
![]() |
Er vatn á Mars? |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 19:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.8.2011 | 09:06
Hafði jörðin eitt sinn tvö tungl?
Um árabil hafa tvær ráðgátur um tunglið valdið stjörnufræðingum heilabrotum: Hvers vegna er skorpan á fjærhlið tunglsins þykkari en á nærhliðinni og hvers vegna finnst svokallað KREEP basalt aðeins á nærhliðinni?
Með berum augum sést að yfirborð tunglsins skiptist í tvennt. Ljósu svæðin eru hálendi en dökku svæðin dældir sem kallast höf þótt skraufþurr séu. Tunglhöfin eiga þannig ekkert skylt við jarðnesku höfin. Þau eru stórar, dökkar basaltsléttur sem urðu til þegar kvika, óvenju járn- og títanrík, vall upp á yfirborðið fyrir langa lögu.
Þegar sovéska geimfarið Luna 3 tók fyrstu ljósmyndirnar af fjærhlið tunglsins árið 1959 kom það vísindamönnum mjög á óvart að sjá þar nánast engin höf aðeins hálendi. Í ljós kom að skorpan á fjærhliðinni er 50 km þykkari að meðaltali en skorpan á nærhliðinni. Hvers vegna?
Fjærhlið tunglsisn er að mestu hálendi. Mest áberandi er dökkleit dæld á suðurhvelinu, Suðurpóls-Aitken, stærsti árekstrargígur sólkerfisins. Myndin var tekin með Lunar Reconnaissance Orbiter.
Á tunglinu finnst aðeins storkuberg. Það segir okkur að tunglið var eitt sinn albráðið. Með tímanum storknaði kvikuhafið og þyngri efni sukku niður á við. Nærhliðin er ekki aðeins þynnri heldur líka miklu ríkari af svonefndu KREEP basalti. KREEP stendur fyrir kalíum (K), sjaldgæf jarðefni (rare-earth elements, REE) og fosfór (P). Segja má að það sé dreggjar kvikuhafsins því það storknaði seinast í lagi undir skorpunni.
Samkvæmt nýrri tilgátu sem greint er frá í nýjasta hefti Nature hafði jörðin eitt sinn tvö tungl: Mánann sem við sjáum reglulega á himninum og smærra systurtungl sem síðan runnu saman. Sé tilgátan rétt skýrir hún ósamræmið milli nærhliðar og fjærhliðarinnar.
Sönnunargögn sem aflað var í Apollo tunglferðunum benda til þess að tunglið hafi myndast við árekstur hnattar á stærð við Mars við jörðina. Áreksturinn varð innan við 100 milljónum ára eftir að jörðin hóf að myndast og skýrir kenningin til dæmis möndulhalla jarðar. Úr árekstrarleifunum varð fyrst til hringur umhverfis jörðina sem síðan hnoðaðist saman og myndaði mánann. En urðu kannski fleiri smátungl til við áreksturinn? Hugsanlega. Alla vega þykir tveimur bandarískum vísindamönnum það líklegt.
Tilgátan er byggð á mjög vandasömum tölvuútreikningum um risaáreksturinn sem myndaði tunglið. Samkvæmt þeim var systurtunglið þrettán sinnum massaminna en máninn og um þrisvar sinnum smærra að þvermáli. Eftir myndun þess staðnæmdist það á svonefndum Lagrange kyrrstöðupunkti í geimnum. Á braut mánans eru þessir punktar stöðugastir 60 gráðum fyrir framan og aftan mánann. Þar hefði systurtunglið getað enst nógu lengi til þess að skorpur þess og mánans storknuðu en KREEP lagið væri enn fljótandi.
Með tímanum (tugi milljónir ára) geta Lagrange punktarnir orðið óstöðugir vegna flóðkrafta frá jörðinni og þyngdartogs frá sólinni. Þegar það gerist byrjar allt sem þar lúrir að reka burt. Í þessu tilviki byrjuðu hnettirnir tveir að nálgast hvor annan. Hnettirnir deila sömu braut og því verður samruninn (áreksturinn) óvenju hægfara og stendur yfir í nokkrar klukkustundir. Smærra tunglið lætur undan þyngdarkrafti stærri hnattarins. Það tvístrast og nánast leggst yfir fjærhlið mánans eins og filma. Það myndi skýra hvers vegna skorpan á fjærhliðinni er þykkari en á nærhliðinni.
Við áreksturinn kom höggbylgja hreyfingu á innviði mánans. Við það þrýstist KREEP lagið í átt að nærhliðinni og skýrir hvers vegna það einskorðast við hana.
Umræddir vísindamenn telja þetta líklegustu skýringuna á ósamræminu milli nær- og fjærhliða tunglsins. Aðrar tilgátur hafa verið settar fram, til dæmis að ástæðan sé flóðkraftar jarðar og hitun innviðisins eða áreksturinn öflugi sem myndaði Suðurpóls-Aitken dældina, stærsta árekstrargíg sólkerfisins. Um þetta ríkir þó enginn einhugur.
Þetta er skemmtileg hugmynd en það vantar frekari sönnunargögn til að segja af eða á um hana. Okkur sárvantar t.a.m. sýni af fjærhlið tunglsins. Allt tunglgrjót sem Apollo tunglfararnir söfnuðu kemur af nærhliðinni, mestmegnis úr höfunum. Aðeins einn leiðangur var gerður á hálendið. Ef til vill er biðin löng eftir nýjum sýnum, því miður.
Okkur bráðvantar líka betri upplýsingar um innviði tunglsins og þess er stutt að bíða. Í september næstkomandi verður GRAIL sent á braut um tunglið og mæla þyngdarsvið þess. Þannig má draga upp mynd af innviðum tunglsins með meiri nákvæmni en nokkru sinni fyrr.
Þegar öllu er á botninn hvolft er tunglið áhugaverður hnöttur sem við eigum svo margt eftir ólært um.
Ítarefni
2.8.2011 | 09:50
Fimm gígapixla mynd af næturhimninum
Stjörnuljósmyndun er eitt erfiðasta form ljósmyndunar. Hún krefst gríðarlegrar þolinmæði, mikillar vinnu en ekki síst mjög vandaðs búnaðar (sem er þar af leiðandi dýr). Það er af óskaplega mörgu að huga ef ná á góðum myndum. Veðrið verður að leika með manni og nauðsynlegt er að vera lunkinn í myndvinnslu.
Sem betur fer eru til áhugamenn sem einhenda sér í að gera eitthvað stórkostlegt. Einn þeirra er bandaríski stjörnuáhugamaðurinn og markaðsfræðingurinn Nick Risinger. Risinger tók sér ótrúlegt verkefni fyrir hendur: Að taka ljósmynd af allri himinhvelfingunni eins og hún leggur sig. Þannig vildi hann sýna okkur hvað himinninn er mikilfenglegur. Og það tókst honum svo sannarlega.
Á einu ári tók Risinger 37.440 ljósmyndir frá stöðum í Norður Ameríku og Suður Afríku. Síðan púslaði hann myndunum saman og útbjó eina 5 gígapixla ljósmynd. Já, 5 gígapixla! Það eru 5000 megapixlar.
Verkefnið reyndi heldur betur á Risinger. Hann sagði upp starfi sínu vegna þess en með stuðningi bróður síns og föðurs gat hann ferðast heimshorna á milli með dýran ljósmyndabúnað og unnið að verkefninu af heilum hug.
Búnaður Risingers var ekki af verri endanum. Hann samanstóð af sex einlita CCD myndavélum með 85 mm f/2,8 linsum. Allt heila klabbið festi hann á Takahashi EM-11 Temma 2 sjónaukastæði (mjög vandað) sem fylgdi eftir snúningi jarðar. Risingar skipti síðan himninum upp í 624 svæði, hvert aðeins 12° á breidd.
Þetta er ekki fyrsta víðmyndin sem gerð er af næturhimninum en ein sú dýpsta sem áhugamaður hefur gert. Myndin er gagnvirk og hægt er að þysja inn að glóandi stjörnuverksmiðjum, nýmynduðum stjörnuþyrpingum og kafa inn í ryksvæði Vetrarbrautarinnar.
Hægt er að skoða myndirnar hér á Photopic Sky Survey.
Á Alþjóðlegu ári stjörnufræðinnar 2009 stóð European Southern Observatory að samskonar verkefni: GigaGalaxy Zoom. GigaGalaxy Zoom sem sýnir allan himinninn eins og hann birtist okkur með berum augum frá einni dimmustu eyðimörk jarðar á þremur risastórum ljósmyndum. Hægt er að skoða myndirnar þrjár hér:
- ESO birtir glæsilega og gagnvirka 360 gráðu víðmynd af öllum næturhimninum
- Þysjað inn að miðju Vetrarbrautarinnar GigaGalaxy Zoom, 2. hluti
- Þríleiknum lokið GigaGalaxy Zoom, 2. hluti
1.8.2011 | 20:53
Nýjar og glæsilegar myndir birtar af smástirninu Vestu
Ég fylgdist með því í beinni útsendingu þegar Dawn geimfari NASA var skotið á loft frá Canaveralhöfða í Flórída fyrir fjórum árum. Ég gat ekki beðið eftir því að sjá fyrstu myndir geimfarsins af áfangastaðnum: Smástirninu Vestu. Eftir næstum 2,8 milljarða km ferðalag er geimfarið loks komið á braut um smástirnið og rannsóknir hafnar.
Í dag birtu vísindamenn fyrstu nærmyndirnar af Vestu og eru þær hreint stórkostlegar.
Smelltu til að stækka
Þessi mynd var tekin 24. júlí 2011 úr 5.200 km hæð yfir smástirninu. Hér sést gígótt yfirborð smástirnisins sem reyndar er engin smásmíð: 530 km í þvermál eða svo. Við horfum undir suðurhvel Vestu.
Á yfirborðinu eru miklar sprungur sem ef til vill urðu til við stóra áreksturinn á suðurpólnum. Við áreksturinn hefur hnötturinn hreinlega gengið saman eins og gormur. Sprungurnar sjást betur á þessu myndskeiði og á myndinni hér undir:
Næst höfum við mynd af röð þriggja gíga sem minna óneitanlega á snjókarl! Hér horfum við á norðurhvel Vestu. Gígbarmarnir eru skarpir og hafa greinilega skriður fallið niður hlíðarnar.
Smelltu til að stækka
Urðu gígarnir til á sama tíma?
Smelltu til að stækka
Dökk og ljós svæði í kringum gígana eru til marks um mismunandi efni. Við höfum séð sambærileg dökk svæði á tunglinu og Merkúríusi en eigum eftir að finna út úr hverju þessi eru.
Vesta er af mörgum stjörnufræðingum álitin misheppnuð reikistjarna. Yfirborð hennar er úr basalti eins og meginhluti Íslands. Það segir okkur að yfirborðið var eitt sinn bráðið og að hnötturinn er líklega lagskiptur eins og jörðin og bergreikistjörnurnar. Fjölmargir loftsteinar eru taldir eiga rætur að rekja til Vestu og hefur Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness nýverið eignast einn slíkan loftstein. Hann verður til sýnis á félagsfundi eftir áramót.
Dawn er alþjóðlegur leiðangur. Myndavélin er þýsk, litrófsritinn ítalskur en nifteinda- og gammageislanem og geimfarið sjálft er bandarískt. Dawn er fyrsta geimfarið sem kemst á braut um smástirni í smástirnabeltinu milli Mars og Júpíters. Dawn mun verja einu ári í að rannsaka Vestu og halda síðan í þriggja ára ferðalag til stærsta hnattarins í beltinu, dvergreikistjörnunnar Ceresar.
Ítarefni á Stjörnufræðivefnum
- Sævar