Færsluflokkur: Vísindi og fræði
13.9.2011 | 10:38
Merkur reikistjörnufundur
Fréttin sem hér er vísað til er fín en mig langar til að benda áhugasömum á upphaflegu fréttina. Guardian byggir nefnilega sína grein á frétt sem kom beint frá European Southern Observatory (ESO) en það eru samtökin sem eiga sjónaukann og mælitækið sem þessi reikistjarna fannst með. Þessi frétt birtist á íslensku á sama tíma og hún birtist á ensku og öðrum tungumálum á heimasíðu samtakanna (smelltu á íslenska fánann). ESO eru fremstu stjarnvísindasamtök heims og er undirritaður tengiliður þeirra á Íslandi.
Reikistjarnan sem hér um ræðir fannst með HARPS mælitækinu á 3,6 metra sjónauka ESO í La Silla stjörnustöðinni í Chile. Hún er svokölluð risajörð, þ.e. bergreikistjarna sem er milli 1 til 10 sinnum massameiri en jörðin, en í gær var tilkynnt að fundist hefðu að minnsta kosti 16 slíkar reikistjörnur. HD 85512b [1] sker sig þó úr: Hún er við lífbelti sinnar stjörnu, þess svæðis í sólkerfi þar sem hitastigið er passlegt svo að vatn getur verið á fljótandi formi og líf eins og við þekkjum það þrifist. Það gerir þessa tilteknu reikistjörnu mjög áhugaverða.
Þetta er ekki eina reikistjarnan í lífbelti sem við vitum um. Sama mælitæki fann reikistjörnu í lífbelti stjörnunnar Gliese 581 fyrir fáeinum árum.
Báðar eru þessar reikistjörnur við brún lífbelta sinna sólkerfa. Gliese 581d er við ytri brúnina (svipað og Mars í sólkerfinu okkar) svo þar er líklega kalt nema reikistjarnan sú hafi vænan skammt af gróðurhúsaáhrifum sem hækki hitastigið. HD 85512b er við innri brúnina (svipað og Venus í sólkerfinu okkar) svo þar er líklega frekar hlýtt. Skýringarmyndin hér undir sýnir lífbelti sólkerfanna tveggja og okkar sólkerfis.
Þú getur fræðst meira um reikistjörnur utan okkar sólkerfis fjarreikistjörnur á Stjörnufræðivefnum auk vangavelta um líf utan jarðar:
Að lokum, vefvarp sem segir frá uppgötvuninni:
[1] Nafnið HD 85512 er skráarheiti stjörnunnar. Stjarnan er númer 85512 í Henry Draper skránni. Bókstafurinn b vísar til reikistjörnunnar.
- Sævar Helgi Bragason
![]() |
Ný pláneta eins og gufubað |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
9.9.2011 | 21:03
Stjörnubjart um allt land
Vísindi og fræði | Breytt 13.9.2011 kl. 12:13 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.9.2011 | 10:00
Hvað leynist innan í tunglinu?
Við vitum margt en samt svo lítið um yfirborð tunglsins en lítið sem ekki neitt um það sem leynist innan í því.
Á fimmtudaginn klukkan 13:37 að íslenskum tíma sendir NASA á loft tvö ómönnuð gervitungl til tunglsins sem eiga að bæta úr þessu þekkingargati. Leiðangurinn heitir GRAIL eða Gravity Recovery and Interior Laboratory. Gervitunglin tvö munu hringsóla um tunglið í níu mánuði og kortleggja þyngdarsvið tunglsins með meiri nákvæmni en nokkru sinni fyrr.
En hvernig?
GRAIL-A og GRAIL-B munu fljúga í einfaldri röð í kringum tunglið með 175 til 225 km millibili. Á hringferðunum skiptast þau á örbylgjumerkjum sem mælir nákvæmlega fjarlægðina milli þeirra. Þegar annað geimfarið fer yfir svæði með sterkara eða veikara þyngdarsvið breytist fjarlægðin milli þeirra lítillega (minnkar eða eykst). Mælingarnar verða sendar til jarðar og geta vísindamenn notað þær til þess að kortleggja þyngdarsviðið betur en nokkru sinni fyrr. Á þennan hátt er hægt að draga upp mynd af innviðum tunglsins. GRACE geimförin hafa gert samskonar mælingar á þyngdarsviði jarðar frá árinu 2002 en GRAIL geimförin eru byggð á hönnun GRACE.
Hægt er að lesa sér betur til um GRAIL verkefnið á Stjörnufræðivefnum.
---
Við viljum einnig vekja athygli á
- Ungar stjörnur baða sig í sviðsljósinu
- Hreyfimyndir frá Hubblessjónaukanum sýna hljóðfráa stróka ungstirna á nýjan máta
- Stjarnan sem ætti ekki að vera til
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt 6.9.2011 kl. 14:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
5.9.2011 | 08:55
Leysigeisli og elding
Þann 18. ágúst síðastliðinn lýstu tvö harla ólík fyrirbæri upp næturhiminninn yfir Allgäu stjörnustöðinni í suðvestur Bæjaralandi í Þýskalandi: Annað þeirra er dæmi um hátækni en hitt ofsafengna krafta náttúrunnar.
Á sama tíma og Stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli (European Southern Observatory, ESO) skaut öflugum leysigeisla upp í lofthjúpinn og prófaði þannig nýja Wendelstein leysigeislastjörnu geysaði skrugguveður yfir Bæjaralandi. Úr gráum þrumuskýjunum laust niður eldingum þegar Martin Kornmesser, grafískur hönnuður hjá vísindamiðlunardeild ESO, tók ljósmyndir af tilrauninni fyrir ESOcast 34 (sem sjá má hér undir) og úr varð þessi stórkostlega ljósmynd. Hún minni eina helst á atriði úr vísindaskáldsögu en sýnir vel hvers vegna stjörnustöðvar ESO eru í Chile en ekki Þýskalandi. Þótt eldingin sýnist lenda saman við leysigeislann var stormurinn langr frá stjörnustöðinni þegar þetta gerðist.
Leysigeislastjörnur eru gervistjörnur sem hægt er að búa til með því að skjóta leysigeisla upp í 90 km hæð yfir jörðinni. Með því að mæla bjögun þessara gervistjarna er hægt að leiðrétta lögun spegla í sjónaukum í samræmi við ókyrrðina tækni sem kallast aðlögunarsjóntækni. Ókyrrðin hefur mikil áhrif á gæði mælinga og án aðlögunarsjóntækni væri mynd okkar af alheiminum miklu óskýrari. Tækið sem hér var prófað er nýtt af nálinni og verður komið fyrir á sjónaukum ESO í náinni framtíð.
Leysigeislinn sem hér sést er 20 wött en aflið í eldingunni náði mest trilljón wöttum, reyndar á broti úr sekúndu! Skömmu eftir að myndin var tekin náði stormurinn að stjörnustöðinni og neyddust menn þá til að ljúka tilrauninni.
Mynd: ESO
Tenglar
31.8.2011 | 07:47
Heimili okkar í geimnum úr 10 milljón km fjarlægð
Geimfarið Juno á langa leið fyrir höndum til stærstu reikistjörnu sólkerfisins, gasrisans Júpíters. Því var skotið á loft 5. ágúst síðastliðinn en þann 26. ágúst var myndavél geimfarsins beint í átt til jarðar og tunglsins:
Jörðin og tunglið úr 10 milljón km fjarlægð. Mynd: NASA/JPL/MSSS
Tilgangurinn var ekki aðeins að taka fallega mynd af jörðinni og tunglinu, heldur var tækifærið notað til að prófa mælitæki og ganga úr skugga um að allt væri eðlilegt.
Juno var aðeins um einn sólarhring að sigla flóann milli jarðar og tungls en verður heil fimm ár að ljúka leið sinni til Júpíters. Árið 2016 fer geimfarið á spöskjulaga pólbraut um Júpíter. Það gerir stjörnufræðingum kleift að rannsaka uppbyggingu innviða Júpíters, dýpri lög lofthjúpsins og segulhvolfið.
Geimfarið er nefnt eftir rómversku gyðjunni Juno sem var dóttir Satúrnusar, systir og eiginkona Júpíters, móðir Mars og Vúlkans og verndargyðja kvenna í Róm. Sagan segir að hinn vífni Júpíter hafi reynt að dylja misgjörðir sínar með skýjum. Af Ólympusfjalli gat kona hans skyggnst í gegnum skýin og komist að raun um framhjáhald eiginmanns síns. Segja má geimfarið muni líkja eftir eiginkonu Júpíter með því að skyggnast inn í lofthjúp reikistjörnunnar.
---
Stjörnufræði.is
Við ákváðum að skipta um lén á Stjörnufræðivefnum. Nú vísar stjornuskodun.is alltaf á stjornufraedi.is. Okkur þykir stjornufraedi.is meira lýsandi fyrir efnistök vefsins. Eftirfarandi slóðir eru því virkar
Minnum á mynd vikunnar og nýjar fréttir á vefnum alla miðvikudaga (tvær nýjar í dag!)- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
28.8.2011 | 22:33
Stjörnukort fyrir Ísland í september
Í vetur búum við til tvenns konar stjörnukort:
- Stjörnukort mánaðarins (hefðbundið kort sem kemur út í hverjum mánuði)
- Stjörnukort fjölskyldunnar (einfaldara og kemur út á tveggja mánaða fresti)
Smellið hér til að ná í stjörnukort fyrir september.
-Sverrir
26.8.2011 | 22:01
Nálæg og merkileg sprengistjarna sýnileg í gegnum sjónauka
Áhugafólk um stjörnuskoðun ætti endilega að beina sjónaukum sínum að þyrilþokunni Messier 101 í stjörnumerkinu Stórabirni. Þar er nefnilega stjarna að springa í tætlur!
Sprengistjarnan, sem nefnd hefur verið því rómantíska nafni PTF 11kly [1], sést ekki með berum augum en er sýnileg í gegnum stjörnusjónauka eða jafnvel handsjónauka við góðar aðstæður. Hún fannst á myndum sem teknar voru með sjónauka á Palomarfjalli í Bandaríkjunum 24. ágúst síðastliðinn. Myndin hér undir var tekin með 48 tommu Palomar sjónaukanum í Kaliforníu. Hún sýnir Messier 101 dagana 22., 23. og 24. ágúst og hvernig birta sprengistjörnunnar eykst.
Reyndar sprakk stjarnan fyrir 21 milljón ára því vetrarbrautin sem hún er í er í 21 milljón ljósára fjarlægð gamlar fréttir en samt glænýjar fyrir okkur jarðarbúa. Hún er því mjög nálæg, í stjarnfræðilegum skilningi.
Sprengistjarna af gerð Ia
Til eru nokkrar tegundir sprengistjarna en einna mikilvægust er gerð Ia. Sprengistjörnur af gerð Ia verða (að því að talið er) til þegar hvítir dvergar springa í tætlur. Hvítir dvergar eru ofurþéttar leifar dauðra stjarna á borð við sólina okkar en stundum eru þeir á braut um aðrar stjörnur. Smám saman hleðst þá upp á hvíta dvergnum efni frá fylgistjörnunni svo massinn eykst. Fari massinn upp yfir 1,4 sólmassa svonefnd Chandrasekhar mörk hefjast kjarnahvörf í hvíta dvergnum þegar vetni umbreytist í helíum. Óðakjarnahvörf verða á allri stjörnunni í einu sem endar með ósköpum stjarnan springur. Sprengistjarnan getur orðið álíka björt og heil vetrarbraut! Hugsaðu þér, stjarna með birtu á við hundrað þúsund milljón bjartar sólir!
Sprengistjörnur af gerð Ia hafa vel afmarkaðan birtuferil sem er mjög svipaður í öllum tilvikum. Með öðrum orðum eru þær allar álíka bjartar. Þess vegna er hægt að nota sprengistjörnur af gerð Ia sem staðalkerti í alheiminum. Þær er því hægt að nota til að reikna út vegalengdir milli vetrarbrauta sem sagt gríðarlegar fjarlægðir.
Hvers vegna eru þær mikiilvægar?
Fyrir um einum og hálfum áratugi hófu stjörnufræðingar skipulagða leit að sprengistjörnum af gerð Ia. Tilgangurinn var að mæla útþenslu alheimsins og kanna hve hratt hægði á henni með tímanum. Niðurstaðan kom mönnum heldur betur á óvart: Útþensla alheimsins er ekki að hægja á sér heldur er hún að aukast! Stjörnufræðingar kalla það sem veldur aukinni útþenslu hulduorku en enginn veit hvað hulduorka er. Síðari mælingar hafa staðfest hlutverk hulduorku í þróun alheims en.
Skilningur okkar á örlögum alheimsins veltur því að miklu leyti á skilningi á sprengistjörnum af gerð Ia. Þess vegna eru þær svona mikilvægar.
Mælingar á stjörnunni
Svo heppilega vildi til að sprengistjarnan fannst daginn sem hún sprakk. Það, ásamt nálægðinni, gerir stjörnufræðingum kleift að betrumbæta skilning sinn á þessum mikilvægu stjörnum.
Næstu daga verður öllum helstu stjörnusjónaukum á jörðinni og í geimnum beint að sprengistjörnunni. Nú þegar hafa verið gerðar litrófsmælingar á stjörnunni sem segja okkur til um efnainnihald hennar en þær varð að gera eins fljótt og hægt var. Því fyrr sem mælingar hefjast, þeim mun betra því mest óvissa í þekkingu okkar á sprengistjörnum er um fyrstu stig þeirra, þ.e. hvað nákvæmlega veldur þeim.
Ein mikilvægasta ráðgátan snýr að áhrifum málma á sprengistjörnuna. Í huga stjörnufræðinga eru málmar öll frumefni þyngri en vetni og helíum. Stjörnur eru að langmestu úr þessum tveimur efnum en innihalda málma í minni mæli. Þótt efnafræðingar samþykki eflaust ekki þessa skiptingu hafa málmarnir mikil áhrif á mikilvægasta þátt sprengistjörnunnar: Birtuna sem gegnir einmitt lykilhlutverki í fjarlægðarmælingum. Málmarnir eru taldir hafa mest áhrif á fyrstu stig sprengistjörnunnar. Þeir segja okkur líka hvað olli sprengistjörnunni. Þess vegna var mjög mikilvægt að gera mælingar strax.
Hvar er hún á himninum?
Sprengistjarnan nær líklega hámarksbirtu sinni snemma í september. Birtustig hennar verður þá í kringum 9 til 10 sem þýðir að hún mun sjást leikandi með góðum áhugamannasjónaukum og jafnvel í gegnum handsjónauka við mjög góðar aðstæður. Síðan fjarar birtan hægt og rólega út.
Hýsilvetrarbrautin nefnist Messier 101. Hún er glæsileg þyrilþoka sem er mun stærri en vetrarbrautin okkar og eitt auðveldasta viðfangsefni áhugastjörnuljósmyndara. Hún er í stjörnumerkinu Stórabirni, rétt fyrir ofan rófuna eða handfangið í skaftpottinum sem myndar Karlsvagninn, milli stjarnanna Alkaid og Mizar/Alkor. Þú getur notað kortið hér undir til að hjálpa þér að finna hana (prentvæn pdf útgáfa hér). Stjarnan er fremur dauf en ætti þó að sjást í enn daufari þyrilörmunum.
Staðsetningin gerir það að verkum að stjörnuáhugamenn munu fylgjast grannt með. Þeir munu safna mikilvægum gögnum með litlum og fremur ódýrum sjónaukum í görðunum sínum og láta þau stjörnufræðingum í té. Þetta sýnir vel hversu náið samstarf er milli stjörnuáhugafólks og stjörnufræðinga. Fáar vísindagreinar geta státað af því!
Seinast sást sprengistjarna með berum augum árið 1987. Í febrúar það ár sprakk stjarna í Stóra Magellansskýinu sem er í um 170.000 ljósára fjarlægð. Ekki hefur orðið vart við sprengistjörnu í vetrarbrautinni okkar síðan árið 1604 en alla jafna springur ein stjarna á öld í vetrarbrautinni okkar.
26.8.2011 | 01:09
Stjörnuskoðunarfélagið á Vísindavöku á Seltjarnarnesi á laugardaginn
Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness tekur þátt í Vísindavöku Háskólalestarinnar á Seltjarnarnesi á morgun (27. ágúst).
Staður: Læknaminjasafnið við Nesstofu yst á Seltjarnarnesi (sjá kort).
Tími: 11:30-14:00
Verið öll velkomin!
24.8.2011 | 16:00
Stjarnfræðilegar gersemar

Framkvæmdarstjóri ESO úthlutaði verkefninu dýrmætum tíma í stærstu og fullkomnustu sjónaukum heims til að gera þetta að veruleika. Eingöngu er notaður sá tími í sjónaukunum þegar aðstæður bjóða ekki upp á nákvæmar vísindalegar mælingar, t.d. ef ský eru á lofti eða tunglskin, en eru nógu góðar til að taka fallegar myndir af áhugaverðum, forvitnilegum og fallegum fyrirbærum í geimnum. Gögnin eru síðan gerð aðgengileg stjörnufræðingum í gagnasafni ESO.
Fyrirbærin sem verða ljósmynduð í þessu verkefni voru valin úr löngum lista yfir falleg og forvitnileg fyrrbæri. Þess er vandlega gætt að engar svipaðar myndir séu til af þessum fyrirbærum, annað hvort í gagnasafni ESO eða frá öðrum sjónaukum, bæði atvinnu- og áhugamanna. Svipuð stefna var mörkuð þegar Heritage verkefni Hubble geimsjónaukans var sett á laggirnar árið 1997 sem hefur getið af sér margar stórglæsilegar myndir af alheiminum.
Í dag birti ESO fyrstu stjarnfræðilegu gersemina; mynd af vetrarbrautapari í stjörnumerkinu Meyjunni sem kallað hefur verið Augun. Lestu meira um hana hér.
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt 23.8.2011 kl. 12:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
18.8.2011 | 07:55
Besti stjörnuskoðunarstaður heims
er Chile. Af hverju? Svarið leynist í myndskeiðinu hér undir:
ESOcast 33: Under Chilean Skies from ESO Observatory on Vimeo.
Besta stjörnuskoðun sem ég hef komist í var í Atacamaeyðimörkinni í Chile árið 2007. Himininn þar er kristaltær og heiðskír í yfir 300 daga ári. Og það er einmitt ástæða þess að stærstu stjörnusjónaukar heims eru byggðir þar.
Í Chile rekur European Southern Observatory stjörnustöðvar á þremur stöðum: Á La Silla, Cerro Paranal og Llano de Chajnantor sem er ein hæsta stjörnustöð heims. Fljótlega bætist fjórði staðurinn við, Cerro Armazones, þar sem European Extremely Large Telescope verður reistur í náinni framtíð, skammt frá VLT sjónaukunum á Cerro Paranal.
Stjörnuhimininn yfir Chile er stórkostlegur. Ef þú átt leið þar, líttu þá upp!
- Sævar
Vísindi og fræði | Breytt 17.8.2011 kl. 15:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)