Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Stjörnukort fyrir október

Búið er að setja nýtt stjörnukort fyrir október inn á Stjörnufræðivefinn.

Stjornuskodun-oktober-2011 

Við viljum einnig benda fólki á forritið Stellarium sem er ókeypis, á íslensku og virkar bæði á Windows og Mac OS stýrikerfunum.

stellarium-harpan-svanurinn

–Sverrir 


Við fengum verðlaun

Á Vísindavöku Rannís í gær var okkur (Stjörnufræðivefnum) og Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness veitt viðurkenning fyrir framúrskarandi miðlun vísinda!

Við erum auðvitað skýjum ofar (eins og venjulega) með þessa viðurkenningu enda lagt mikla (sjálfboðaliða) vinnu á okkur síðustu ár í samstarfi við Stjörnuskoðunarfélagið. Við erum hvergi nærri hættir og erum með mörg fleiri verkefni í pípunum ásamt því að fylgja eldri verkefnum eftir.

Nánari upplýsingar í fréttatilkynningu Rannís

Takk kærlega fyrir okkur!

- Sævar Helgi


Hvað er fiseind?

Hvað í veröldinni eru fiseindir? Á þessari stundu ferðast gríðarlegur fjöldi fiseinda frá miðju sólar og sprungnum stjörnum í órafjarlægð í gegnum þig á næstum því ljóshraða. Þú finnur ekkert fyrir því vegna þess að fiseindir víxlverka nánast ekkert við venjulegt efni og því er erfitt að mæla þær. Þær fundust enda ekki fyrr en árið 1956.

Fiseindir eru sem sagt öreindir sem tilheyra þeim grunneindum náttúrunnar sem ekki er hægt að kljúfa. Þær koma í þrennskonar bragðtegundum og geta reyndar skipt um bragðtegund á leið sinni um geiminn. Fiseind er fermíeind eins og rafeindir og róteindir en óhlaðin eins og nifteindir. Róteindir, nifteindir og rafeindir mynda, eins og margir vita, atómin sem allt efni er gert úr. Nánar er hægt að lesa sér til um fiseindir á Stjörnufræðivefnum.

Nú bendir ítölsk tilraun til þess að fiseindir geti ferðast hraðar en ljósið. Ef satt er eru það stórfréttir því takmarkaða afstæðiskenning Einsteins grundvallast á því að ekkert geti ferðast hraðar en sem nemur 299.792.458 metrum á sekúndu — ljóshraða. Nútíma eðlisfræði byggir á þessari grundvallarreglu. Þetta yrði því ein mesta uppgötvun síðustu ára í eðlisfræði.

OPERA tilraunin er 1.400 metra undir yfirborði jarðar í Gran Sasso tilraunastofunni á Ítalíu. Hún er hugsuð til þess að mæla fiseindir frá CERN og benda niðurstöður mælinga þeirra að fiseindirnar berist 60 nanósekúndum á undan ljósinu. Vísindamennirnir sem stóðu að mælingunum eru augljóslega nógu sannfærðir um ágæti þeirra að þeir gera þær opinberar. Þeir hafa víst mælt þessi áhrif meira en 16.000 sinnum á síðustu tveimur árum. Það þýðir 6-sigma sem þýðir nánast öruggt í heimi eðlisfræðinnar.

Samskonar áhrif hafa raunar sést áður en óvissan var meiri þá en nú. Árið 2007 sá MINOS tilraunin í Minnesota fiseindir koma rétt á undan áætlun frá öreindahraðlinum Fermilab. 

Hér sjáum við vísindin eins og þau gerast best. Síendurteknar mælingar gefa til kynna byltingarkennda niðurstöðu. Vísindamenn eru varkárir og segja að frekari rannsókna sé þörf enda er ástæða til efsaemda. Aðrar tilraunir hafa nefnilega leitað eftir ögnum sem ferðast hraðar en ljósið en aldrei hefur neitt fundist. Í þessu sambandi er erfiðast að útskýra fiseindagusuna sem helltist yfir okkur árið 1987 þegar stjarna sprakk í Stóra Magellansskýinu. Ef allar fiseindir ferðast ögn hraðar en ljósið, eins og OPERA tilraunin þykir benda til, hefði fiseindagusan frá sprengistjörnunni átt að berast til jarðar nokkrum árum á undan ljósinu — með öðrum orðum hefðum við átt að mæla fiseindirnar löngu áður en stjarnan sjálf sást springa í tætlur. Fiseindirnar bárust hins vegar aðeins nokkrun klukkustundum á undan ljósinu (sem má búast við því fiseindir gusast út úr stjörnunni örskömmu áður en hún springur).

Þetta er sem sagt spennandi og mögulega byltingarkennt, nokkuð sem myndi breyta sýn okkar á alheiminn. Það yrði stórkostlegt!

En við skulum bíða og sjá. Einstein hefur staðið af sér allar árásir hingað til og staðið sterkari á eftir.

p.s. Afstæðiskenningin segir aðeins að efni og orka (upplýsingar) komist ekki hraðar en ljósið eins og lesa má um á Vísindavefnum. Alheimurinn getur samt þanist út á meira en ljóshraða án þess að brjóta í bága við afstæðiskenninguna! Já, furðulegur alheimur en ótrúlega áhugaverður.

Meðal annars unnið upp úr frétt frá Nature

- Sævar Helgi


mbl.is Andstætt afstæðiskenningu?
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Vísindavaka Rannís á föstudagskvöldið

visindavaka_logo.jpgVísindavaka 2011 verður haldin föstudaginn 23. september í Háskólabíói. Vísindavakan verður sett klukkan 17:00 og henni lýkur klukkan 22:00.

Líkt og fyrri ár er Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness þátttakandi í Vísindavöku. Gestum og gangandi gefst kostur á að handleika loftsteina, fræðast um furður himins og líta í gegnum stjörnusjónauka utandyra ef veður leyfir. Hægt verður að fá stjörnukort gefins og einhverja glaðninga fyrir yngsta áhugafólkið.

Um kvöldið verður Sverrir Guðmundsson, ritari félagsins og einn af ritstjórum Stjörnufræðivefsins, með erindi sem hann nefnir Stjörnuhiminn að hausti.

Því miður á undirritaður ekki heimangengt að þessu sinni en ég get lofað ykkur því að þetta er stórskemmtilegur viðburður og frábært framtak sem enginn ætti að láta framhjá sér fara.

Sjáumst á Vísindavöku!

- Sævar Helgi

Annað stórfenglegt myndskeið af suðurljósunum séðum úr geimstöðinni

Fast á hæla seinustu bloggfærslu, þar sem við birtum glæsilegt time-lapse myndskeið af jörðinni með augum geimfara, birti NASA nýtt myndskeið, ekki síður stórkostlegra, af suðurljósunum séðum úr geimstöðinni:

Suðurljósin eru í um það bil 100 km hæð yfir jörðinni en geimstöðin er mun ofar eða í um 350 km hæð. Geimfararnir horfa því niður á ljósin. Efst í lofthjúpnum sést næturskinið (þunna gulleita rákin) sem er til komið vegna þess að útfjólublátt ljós frá sólinni örvar atóm og sameindir í lofthjúpnum svo þau byrja að glóa. Ef vel er að gáð sést stjörnumerkið Óríon, veiðimaðurinn mikli rísa á hvolfi þegar um 15 sekúndur eru liðnar af myndskeiðinu.

Litina í norðurljósunum má rekja til örvaðs súrefnis. Þegar agnir sólvindsins rekast á lofthjúpinn örva árekstrarnir súrefnisatómin svo þau gefa frá sér ljós með ákveðnum bylgjulengdum. Græni liturinn kemur frá bylgjulengd sem er 558 nanómetrar en rauði liturinn frá lengri bylgjulengd (630 nanómetrar). Báðar eru þessar bylgjulengdir innan sýnilega sviðs rafsegulrófsins og getum við þess vegna séð litina.

Myndirnar voru teknar 11. september síðastliðinn þegar geimstöðin var á sveimi yfir Ástralíu og síðan Nýja Sjálandi. Fyrir áhugasama er því miður ekki hægt að sjá geimstöðina frá Íslandi þar sem braut hennar liggur sjaldnast svo norðarlega.

Tengdar færslur

Mynd vikunnar er heldur ekki af lakara tagi!

- Sævar Helgi


Ótrúlegt time-lapse myndskeið af jörðinni úr geimstöðinni

Afsakið þessa kjánalegu Pressan.is fyrirsögn en ég veit ekki hvernig á að orða þetta öðruvísi!

Í framhaldi af seinustu bloggfærslu rakst ég á þetta ótrúlega time-lapse myndskeið á Universe Today sem sýnir ferðalag geimfara í Alþjóðlegu geimstöðinni yfir Norður og Suður Ameríku. 

Sjá má eldingar leiftra glæsilega í skýjunum undir og ljósmengunina frá stórborgum. Mjög áberandi er næturskin, grænleit rönd í lofthjúpi jarðar sem myndast vegna ljósefnahvarfa í háloftunum. Þetta næturskin veldur því að næturhimininn verður aldrei alveg kolsvartur og hefur töluverð áhrif á gæði athugana stjörnufræðinga. Ég mæli með því að þú horfir á þetta að minnsta kosti tvisvar.

Fyrir áhugasama eru myndirnar teknar úr um það bil 353 km hæð með Nikon D3s DSLR myndavél. Maður að nafni James Drake setti myndskeiðið saman úr 600 ljósmyndum sem hann fann í ljósmyndasafni geimfaranna á netinu.

Njótið!

- Sævar Helgi


Falleg mynd

sudurljos-geimstod.jpg

Þessa fallegu mynd tók geimfarinn Ron Garan um borð í Alþjóðlegu geimstöðinni þann 14. september síðastliðinn. Garan kom heim til jarðar með Soyuz flaug í gær og var þetta því síðasta ein síðasta mynd hans. Hann hafði þá dvalið um 160 daga í geimnum.

Hér sjást suðurljósin ásamt stjörnumerkinu Óríon á hvolfi miðað við það sem við eigum að venjast hér á norðurhveli. Neðri stjarnan í öxl Óríons er Betelgás, stjarnan sem mun springa dag einn, en beint fyrir ofan hana eru Fjósakonurnar.

Óríon sést nú á morgunhimninum yfir Íslandi. Hann verður kominn hátt á loft á kvöldin um og eftir áramót.

- Sævar


Stórmerk uppgötvun

587851main_kepler16_planetpov_art-3x4_946-710.jpgÞær hafa verið þó nokkrar fréttirnar sem birtst hafa í vikunni af áður óþekktum reikistjörnum utan okkar sólkerfis. Ástæðan er sú að nú fer fram ráðstefna um jaðarsólkerfi í Wyoming í Bandaríkjunum þar sem 350 sérfræðingar bera saman bækur sínar og kynna nýjar uppgötvanir.

Á mánudag var tilkynnt að 50 reikistjörnur hefðu fundist með HARPS mælitækinu á sjónauka í Chile. Er það metfjöldi sem finnst í einu en þar af eru 16 risajarðir, þ.e. bergreikistjörnur á bilinu 1 til 10 sinnum massameiri en jörðin. Af þeim er ein þeirra, HD 81552, er við jaðar lífbeltisins í sínu sólkerfis sem þýðir að þar er möguleiki á lífi, þótt fjarlægur sé ef til vill. Þessi reikistjarna komst í fréttirnar þar sem álitið er að aðstæður þar líkist helst gufubaði.

Nýja reikistjarnan sem nú er tilkynnt um, Kepler-16b, er stórmerkileg. Hún er á braut um tvístirni eins og Tatooine úr Stjörnustríði, nokkuð sem talið var harla ólíklegt en samt mögulegt. Eins og fram kemur í þessari prýðilegu frétt mbl.is er Kepler-16b gasrisi á stærð við Satúrnus og köld þar sem báðar sólirnar eru minni, daufari og kaldari en sólin okkar.

301285_2275762646413_1019104189_2534558_1068143467_n.jpg

Logi geimgengill spígsporar um reikistjörnuna Tatooine. Nú vitum við um reikistjörnu sem hefur svona sólsetur. Skáldskapur er orðinn að staðreynd!  

Kepler-16b fannst með leitaraðferð sem kallast þvergönguaðferðin. Keplerssjónaukinn starir á um 156.000 stjörnur á himinhvelfingunni milli stjörnumerkjanna Svansins og Hörpunnar. Um borð í sjónaukanum er mjög næmur ljósmælir sem mælir birtubreytingar sem verða á stjörnu ef reikistjarna gengur þvert fyrir stjörnuna frá jörðu séð. Við þvergönguna dregur reikistjarnan tímabundið úr birtu stjörnunnar.

Þvergöngur standa jafnan stutt yfir, oftast í fáeinar klukkustundir en ferlið verður að endurtaka sig, valda alltaf sömu birtuminnknun og standa jafnlengi yfir í hvert sinn svo hægt sé að staðfesta tilvist reikistjörnunnar. Hægt er að reikna út stærð reikistjarnanna út frá birtuminnkuninni en umferðartímann, og þar af leiðandi fjarlægðina milli stjörnunnar og reikistjörnunnar er hægt að reikna út frá tímanum sem líður milli hverrar þvergöngu.

Geimverur útbúnar samskonar mælitæki og Keplerssjónaukann gætu fundið jörðina og aðrar reikistjörnur okkar sólkerfis á þennan hátt. Þær þyrftu þó að vera í sjónlínu við sólkerfið okkar.

Í dag þekkjum við meira en 650 fjarreikistjörnur. Mælitækin verða sífellt betri og því finnast fleiri og fleiri. Það er aðeins tímaspursmál hvenær önnur jörð kemur í leitirnar!

Nánari upplýsingar
- Sævar Helgi Bragason

mbl.is Fundu plánetu með tvær sólir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

NASA kynnir nýja eldflaug

587939main_block_1_launching_high_2_946-710_1109347.jpgÍ dag tilkynnti NASA um smíði nýrrar eldflaugar fyrir þungaflutninga út í geiminn. Nýja flaugin er þeim kosti gædd að geta ferðast út fyrir lága jarðbraut (meira en 600 km út fyrir jörðina), nokkuð sem geimferjan sáluga gat ekki en Satúrnus 5 eldflaugin sem flutti menn til tunglsins gat gert. Fyrir vikið opnast nú þær dyr að geta komið mönnum á ný til tunglsins og enn lengra, jafnvel til jarðnándarsmástirna og Mars í framtíðinni.

Nýja eldflaugin kallast SLS eða Space Launch System. Hún er hönnuð til þess að bera Orion Multi-Purpose áhafnarfarið, sem hannað var í Constellation verkefninu skammlífa sem Bush setti á laggirnar en Obama hætti við, út í geiminn. Flaugin er líka hugsuð til annarra þungaflutninga út í geiminn og ferja menn til geimstöðvarinnar. Fyrsta tilraunaflug hennar er áætlað árið 2017.

Samkvæmt fréttatilkynningu NASA var þessi hönnun valin af hagkvæmniástæðum. Nú þegar hefur töluverðum fjármunum verið varið í hönnun ýmissa hluta hennar í Constellations verkefninu og þeim peningum hefur því ekki varið til einskis og starfsfólk NASA víða um Bandaríkin heldur vinnunni.

Allt tal um ferð til Mars eru orðin tóm á meðan NASA fær ekki meira fjármagn frá bandaríska ríkinu. Þessi eldflaug mun ekki flytja menn lengra en til geimstöðvarinnar nema meira fé komi til. Þvert á móti er rætt um töluverðan niðurskurð hjá þessari litlu fjársveltu ríkisstofnun (útgjöld til NASA nema um 0,5% af heildarfjárlögum bandaríska ríkisins). Hætta er á að James Webb geimsjónaukinn, sem mun koma til með bylta stjarnvísindum á svipaðan hátt og Hubble hefur bylt stjörnufræðinni, fari aldrei á loft nái tillögur fulltrúadeildar Bandaríkjaþings fram að ganga en samkvæmt þeim á að hætta við geimsjónaukann. Persónulega myndi ég heldur vilja sjá sjónaukanum bjargað á kostnað mannaðra geimferða miðað við það sem framundan er.

Hvað um það, vonandi er nýr kafli í geimkönnunarsögu mannkyns að hefjast. Ég vona bara heitt og innilega að framtíðin sé björt þótt útlitið sé harla dökkt.

- Sævar Helgi 


mbl.is NASA vill til Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Tunglakvintett

Yfir 60 tungl ganga um gasrisann Satúrnus, næst stærstu reikistjörnu sólkerfisins. Eitt er reyndar gervitungl, sendiherra jarðarbúa, Cassini geimfarið sem hefur hringsólað innan um hringana og tunglin frá árinu 2004.

Útsýnið sem Cassini nýtur er stórkostlegt og fjölmörg „Kodak-moment“ sem koma upp. Á þessari mynd sem Cassini tók 29. júlí 2011 er eitt slíkt augnablik: Tunglakvintett við hringa Satúrnusar.

tunglakvintett.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/SSI

Lengst til vinstri er tunglið Janus (179 km í þvermál) sem er eiginlega bara stór íshroði. Milli A-hringsins og þunna F-hringsins er tunglið Pandóra (81 km í þvermál) en rétt fyrir ofan miðja mynd er stórmerka ístunglið Enkeladus (504 km í þvermál) en út úr því standa goshverir sem búa til einn af hringunum. Næst stærsta tungl Satúrnusar, Rhea (1528 km í þvermál), er klofið í tvennt af hægri brún myndarinnar. Við hlið Rheu er svo helstirnið sjálft, tunglið Mímas (393 km í þvermál).

Tunglin eru mjög misfjarri Cassini á myndinni en svo misstór að þau sýnast þétt saman. Rhea er næst Cassini, um það bil 1,1 milljón km í burtu en Enkeladus lengst frá, um það bil 1,8 milljón km í burtu.

Af þessum tunglakvintett getur þú aðeins séð Rheu í gegnum lítinn stjörnusjónauka. Satúrnus sjálfur liggur reyndar ekki vel við athugun þessar vikurnar en síðar í vetur verður hann morgunstjarna skammt frá stjörnunni Spíku (Axinu) í stjörnumerkinu Meyjunni. Þá er vel þess virði að taka daginn snemma og skoða Satúrnus í gegnum stjörnusjónauka. Ég lofa því að það er eitt það stórkostlegasta sem hægt er að sjá í náttúrunni!

- Sævar Helgi


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband