Færsluflokkur: Vísindi og fræði
27.10.2011 | 09:47
Um furðuljós á himni sem sáust í gær
Í gær fékk ég símhringingu frá blaðamanni Vísis.is vegna ljóss sem fólk á Dalvík sá bregða fyrir á himni. Lýsingin sem hann gaf mér átti mjög vel við loftsteinahrap en ég hefði þurft að vita hvort ljósið var snöggt eða leið hægt yfir og ekki hefði verið verra að fá tímasetninguna. Ef ljósið fór mjög hratt yfir en entist í 5 sekúndur var um loftsteinahrap eða ræða en ef það leið hægt yfir var hér Iridium blossi á ferð. Í gærkvöld voru nefnilega tveir bjartir Iridum blossar sýnilegir á himni og báðir urðu bjartari en Venus getur orðið á himninum og bjartari en Júpíter, sem er bjartasta stjarnan á himninum þessa dagana.
Ég sá svo rétt í þessu aðra frétt á Vísir.is þar fleiri ljósum er lýst. Í fréttinni segir:
Ljósið virtist vera rétt yfir Akrafjalli og skiptist í þrjú skær ljós, sem voru á hreyfingu og sást þetta greinilega í rúmlega hálfa mínútu.
Ef ljósin voru hátt á lofti var um þrjú gervitungl að ræða. Það er ekki óalgeng sjón hjá þeim sem horfa til himins reglulega. Ef ljósin voru hins vegar ofan á Akrafjalli er þar líklega um þrjá göngumenn að ræða með höfuðljós (hef séð slíkt í Esjunni t.d.).
Í sömu frétt segir ennfremur:
Sundlaugargestir á Dalvík sáu svo mjög skært og hvítt ljós í nokkrar sekúndur yfir Svarfaðadal á sjöunda tímanum í gærkvöldi, en ljósið líktist ekki stjörnuhrapi. Um svipað leiti sást í suðvestururátt frá Akureyri, skært hvítt ljós með margliltri ljósrák á eftir sér.
Í gærkvöldi sáu feðgin skær grænt ljós í noðraustur frá Salahverfi í Kópavogi og lýsti það í nokkrar sekúndur. Engar skýringar hafa fundist á þessum ljósum.
Ég var spurður út í fyrri lýsinguna en eins og sjá má er ekki minnst á það í þessari (svo virðist sem fréttamenn vefmiðla lesi stundum ekki fréttirnar sem birtast á eigin miðlum). Þarna er annað hvort um að ræða loftsteinahrap (þau eru ekki öll eins) eða Iridum blossi. Iridium eru gervitungl sem auka birtu sýna skyndilega eins og sjá má hér undir. Þau geta verið svo dauf að þau sjást ekki eina stundina og lýst svo hratt upp að þau verða bjartari björtustu stjörnur í nokkrar sekúndur, eins og sjá má hér undir.
Tveir mjög bjartir Iridum blossar voru sýnilegir frá Íslandi klukkan 19:49 og 22:32 í gær, annar í suð-suðvestur en hinn í austurátt.
Seinni lýsingin gæti verið norðurljós í fjarska (þau eru oftast græn, sjást best í norðurátt og eru stundum bara öflug í stutta stund og geta horfið á bakvið ský eða fjöll). Hér þyrfti reyndar betri lýsingu til að hægt sé að átta sig almennilega á því.
Öll þessi ljós eiga sér fallegar og spennandi jarðneskar útskýringar. Ástæða þess að þetta eru kölluð furðuljós er vegna þess hve sjaldan fólk horfir til himins og það þekkir ekki það sem þar má sjá. Ekkert skrítið við það, en þau má öll útskýra og eru hversdagslegri atburðir en fólk gerir sér grein fyrir.
Himininn er töfrandi. Þú ættir að líta oftar upp til hans.
- Sævar Helgi
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:24 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
25.10.2011 | 21:11
Á lífið á jörðinni rætur að rekja til Mars? Ný tilraun leitar svara við því
Sólkerfið okkar var fremur óvistlegur staður fyrir um 4000 milljónum ára. Loftsteinum og halastjörnum rigndi yfir reikistjörnurnar og skildu eftir sig stærstu örin sem við sjáum á yfirborðum þeirra í dag. Jörðin var ólífvænleg. Yfirborðið var enn að kólna og höfin smám saman að myndast úr eldfjallagufunum og vatni sem barst í tonnatali með geimregninu.
Á þessum tíma var Mars sennilega vot reikistjarna. Hugsanlega hafði frumstætt líf kviknað og örverur hreiðrað um sig í berginu. Dag einn rakst risaloftsteinn á Mars með slíkum krafti að stærðarinnar björg þutu út í geiminn. Sum rákust á Fóbos og Deimos, smástirnin tvö sem höfðu hætt sér of nærri Mars og orðið innlyksa í þyngdarsviði han. Önnur stefndu hraðbyri inn í átt að sólinni.
Fyrir tilviljun varð jörðin í vegi fyrir björgunum frá Mars. Þá innihélt lofthjúpurinn ekkert súrefni, heldur vetni og helíum að mestu leyti og var þynnri en hann er í dag. Sum björgin brunnu upp til agna en þau allra stærstu náðu niður á yfirborðið. Örverurnar í berginu vöknuðu úr dvala og hófu að dreifa sér um jörðina.
Þetta hljómar heldur ósennilega en samt hafa vísindamenn velt þessu alvarlega fyrir sér síðustu áratugi: Á lífið á jörðinni rætur að rekja til Mars? Flestir eru mjög efins en við vitum þó að berg hefur borist hingað frá rauðu reikistjörnunni í gegnum tíðina og í að minnsta kosti einu þeirra hafa mjög forvitnileg form fundist.
Þegar loftsteinn fellur í gegnum lofthjúp jarðar hitnar aðeins ysta lag hans að einhverju ráði. Innar er steinninn nístingskaldur eftir mörg þúsund ár eða jafnvel milljónir ára í geimnum. Þar gætu örverur verið í vari fyrir skaðlegri geimgeislun og lifað af fallið til jarðar. Þótt loftsteinaárekstrar séu feikiöflugir sýna tilraunir að sumar lífverur geti lifað hamfarirnar af.
En geta lífverur lifað af langt ferðalag í geimnum? Það er nákvæmlega spurningin sem ný tilraun á vegum Planetary Society, LIFE eða Living Interplanetary Flight Experiment, snýst um.
Fóbos-Grunt og LIFE tilraunin

Og metnaðurinn er mikill. Fóbos-Grunt mun lenda á yfirborði tunglsins Fóbosar, verja viku í að safna allt að 200 grömmum af sýnum og flytja þau svo aftur heim til jarðar. Með í för er fyrsti kínverski Mars-kanninn, Yinghuo-1, sem fer á braut um reikistjörnuna.
Sýnasöfnunarhylki Fóbos-Grunt er á stærð við körfubolta en innan í því er annað smærra lífhylki: LIFE tilraunin. Í lífhylkinu eru tíu tegundir jaðarörvera úr öllum þremur lénakerfum lífs: Bakteríur, fornbakteríur og heilkjörnungar. Þessar lífverur verða sendar í þriggja ára ferðalag til Mars og heim aftur. Markmiðið er að kanna áhrif langrar geimferðar á örverurnar og sjá hvort þær lifi raunina af.
Í LIFE lífhylkinu eru margar áhugaverðar lífverur. Ein bakteríanna er Deinococcus radiodurans sem er fræg fyrir að þola gríðarmikla geislun. Hún þolir að minnsta kosti 5.000 Gray geislun en til samanburðar myndu 10 Gray drepa mann.
Annað dæmi er Haloarcula marismortui sem er saltkær fornbaktería. Hún þrífst í mjög söltu umhverfi, til dæmis í Dauðahafinu eins og latneskt nafn hennar gefur til kynna. Rannsóknir á Mars sýna að vatnið sem þar var í fyrndinni var mjög salt. Leynist líf á Mars í dag er því alls ekki svo galið að álíta að það deili ákveðnum eiginleikum með saltkærum örverum eins og H. marismortui. Önnur fornbaktería með í för er Methanothermobacter wolfeii sem er metanmyndandi (metan hefur fundist í lofthjúpi Mars en enginn veit hvernig það verður til).
Af heilkjörnungum má nefna Saccharomyces cerevisiae, svepp sem hefur lifað af 553 daga utan á Alþjóðlegu geimstöðinni. Stærsti heilkjörnungurinn í hópnum er hryggleysingi sem heitir bessadýr (tardigrade) og sést hér hægra megin. Bessadýr eru vatnadýr, ekkert sérstaklega fríð en samt þau sætustu í hópnum og stór í samanburði við aðra farþega LIFE. Þessi dýr eru harðger með eindæmum. Þau þola bæði hitastig yfir suðumarki og undir frostmarki og auk þess mikla geislun. Bessadýr myndu lifa af kjarnorkustyrjöld eins og kakkalakkar.
Fóbos-Grunt verður skotið á loft frá Baikonur í Kasakstan þann 8. nóvember næstkomandi. Ferðin til Mars tekur tíu mánuði en lending á Fóbosi verður gerð í febrúar 2013. Sýnasöfnunarhylkið og LIFE lífhylkið snúa svo aftur til jarðar í ágúst árið 2014.
Hægt er að lesa sér betur til um Fóbos-Grunt, Yinghuo-1 og LIFE tilraunina á Stjörnufræðivefnum.
- Sævar Helgi Bragason
13.10.2011 | 20:00
Besti þátturinn í íslensku útvarpi
Í síðustu viku var tilkynnt hverjir hefðu hlotið Nóbelsverðlaunin. Nánast enginn fjölmiðill hafði fyrir því að útskýra almennilega fyrir fólki fyrir hvað verðlaunin voru veitt í læknisfræði, eðlisfræði og efnafræði en sá sem stóð sig langbest í því var Pétur Halldórsson, umsjónarmaður Tilraunaglassins á Rás 1. Hægt er að hlýða á umfjöllunina hér.
Tilraunaglasið er á dagskrá alla föstudaga milli 13 og 14 á Rás 1. Þar fjallar Pétur um vísindi og tækni vítt og breitt og gerir það mjög vel. Efnistökin eru góð því bæði hugvísindi og raunvísindi fá sitt pláss en auðvitað mismikið eftir þáttum. Í mínum huga er þetta besti þátturinn í íslensku útvarpi.
---
Í dag undirrituðu Chile og ESO undir samkomulag sem tryggir að stærsta auga jarðar verður byggt á fjalltindi Cerro Armazones í Atacamaeyðimörkinni í Chile. Með samkomulaginu er stærðarinnar griðarsvæði í kringum sjónaukann einnig tryggt svo útiloka megi truflanir af mannavöldum, svo sem ljósmengun og námuvinnslu, næstu áratugi.
Sjá nánar http://www.eso.org/public/iceland/news/eso1139/
---
Myndin hér að ofan var tekin með Hubble geimsjónaukanum. Hún sýnir vetrarbrautaþyrpingu sem í er svo mikið efni að þyngdarsvið hennar sveigir og beygir ljós sem berst í gegnum hana frá öðrum fjarlægari vetrarbrautum. Efnið er þó að mestu ósýnilegt. Það er ekki nægur sýnilegur massi í þyrpingunni til að útskýra bjögunina og því hlýtur hulduefni að vera líka til staðar.
Sjá nánar http://www.stjornufraedi.is/frettir/nr/520
- Sævar Helgi
8.10.2011 | 11:15
Sjónarspil á himni í kvöld?
Sjáist einhvers staðar á landinu til stjarna í kvöld er möguleiki á að verða vitni að nokkuð fallegu sjónarspili. Von er á mikilli loftsteinadrífu sem sést best þegar komið er myrkur, um klukkan níu í kvöld eða svo. Rætist bjartsýnustu spár manna gætu sést nokkur hundruð loftsteinahröp eða stjörnuhröp á klukkustund.
Drakónítar draga nafn sitt af stjörnumerkinu sem þeir sýnast stefna úr, í þessu tilviki Drekamerkinu. Þeir eiga rætur að rekja til halastjörnunnar Giacobini-Zinner en þegar hún hringsólar í kringum sólina skilur hún eftir sig slóð. Þessi slóð getur verið misþykk og í kvöld er búist við jörðin fari í gegnum þykkari hluta slóðarinnar. Loftsteinar brenna upp í um 100 km hæð yfir jörðinni. Þeir eru flestir örlitlir, ef til vill ekki mikið stærri en sandkorn.
Það er alltaf gaman að fylgjast með loftsteinadrífum og hvetjum við ykkur eindregið til þess að fara út í kvöld ef veður leyfir. Klæðið ykkur vel, takið með ykkur heitan drykk og njótið þess að virða himininn fyrir ykkur. Tunglið er vaxandi og því nokkuð bjart. Það dregur úr sýnileika daufustu hrapanna en þau bjartari sjást leikandi. Ég ætla svo sannarlega að nýta tækifærið og horfa til himins.
Stjörnumerkið Drekinn er hátt á lofti yfir Íslandi og að finna fyrir ofan merki sem margir kannast við, Karlsvagninn. Gott er að prenta út stjörnukort mánaðarins (pdf) til að hjálpa sér að finna merkið.
- Sjá einnig umfjöllun Almanaks Háskóla Íslands um Drakóníta.
Við minnum að lokum á næstu námskeið okkar.
Uppfært kl. 22:35 - Sá nokkra Drakóníta frá Lundi í Svíþjóð. Fylgdist með í hálftíma og þykir nokkuð ljóst að bjartsýnustu spár rættust ekki. Hins vegar truflaði birtan frá tunglinu og ljósmengun í kring nokkuð mikið.
- Sævar Helgi
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:33 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)
7.10.2011 | 21:16
Námskeið í stjörnufræði á Akureyri, Egilsstöðum og Ísafirði
Stjörnufræðivefurinn stendur fyrir nokkrum námskeiðum fyrir almenna byrjendur og kennara í haust:
- Akureyri 15. október 2011 (byrjendur)
- Egilsstaðir 29. október 2011 (byrjendur og kennarar)
- Ísafjörður 12. nóvember 2011 (byrjendur og kennarar)
Einnig verður kennaranámskeið í Valhúsaskóla 5. nóvember.
Á námskeiðunum verður fjallað um stjörnuskoðun, sólkerfið og alheiminn. Fólki verður kennt á sjónauka og hvernig eigi að finna fyrirbæri á himinum.
NÁNARI UPPLÝSINGAR UM NÁMSKEIÐIN OG SKRÁNING
Sverrir Guðmundsson
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.10.2011 | 20:50
Nokkuð merkileg uppgötvun
Þetta er nokkuð merkileg uppgötvun hjá Venus Express geimfari ESA sem Mbl.is gerir prýðileg skil. Við hana er í sjálfu sér ekki mörgu að bæta nema ef vera skyldi til að fjalla aðeins um þann stórmerka lofthjúp sem umlykur hnöttinn.
Aðeins um uppgötvunina samt. Ósonið fannst með litrófsmælingum. Í Venus Express er litrófsriti sem kallast SPICAV. Hann fylgdist með ljósi fjarlægra stjarna berast í gegnum lofthjúp Venusar. Gastegundir í lofthjúpnum gleypa ljósgeisla stjörnunnar svo það verður til gleypilínuróf. Út frá gleypilínunum í litrófinu er hægt að finna út hvaða efni eru í lofthjúpnum.
Lofthjúpur Venusar er þykkari en lofthjúpur jarðar. Hann er að mestu úr gróðurhúsalofttegundinni koldíoxíði. Þess vegna eru þar óðagróðurhúsaáhrif sem valda því að hitastigið á yfirborðinu er um 480°C. Á Venusi rignir brennisteinssýru hátt í lofthjúpnum. Hún kemst reyndar aldrei niður á yfirborðið þar sem hún gufar upp áður en hún lendir þar. Á yfirborðinu er 90 sinnum hærri þrýstingur en við sjávarmál á jörðinni.
Allt þetta uppgötvaðist reyndar ekki fyrr en fyrstu könnunarför jarðarbúa flugu framhjá Venusi upp úr 1960. Áður töldu margir að ágætar líkur væru á að líf þrifist þar. Fyrst ekki sást niður á yfirborðið hlutu mikil ský að hylja það. Á jörðinni eru ský úr vatni svo það hlaut að vera mikið vatn á Venusi. Venus gæti allt eins verið notalegur staður til að búa á, ekki ósvipaður Flórída, eins og einn komst að orði árið 1960. Eins og síðar kom í ljós voru þessar hugmyndir, því miður, ekkert annað en tálsýn.
Við eigum margt eftir ólært um þennan nágranna okkar í geimnum. Venus Express hefur hringsólað um Venus frá árinu 2006 og meðal annars fundið vísbendingar um tiltölulega nýlega eldvirkni. Hægt er að fræðast meira um Venus og Venus Express á Stjörnufræðivefnum.
Mynd: ESA
- Sævar Helgi
![]() |
Uppgötvuðu ósonlag á Venusi |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:34 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
6.10.2011 | 12:16
Sum verðlaun eru merkilegri en önnur
Ég hef ekki hugmynd um hver þessi maður er en hann er örugglega vel að verðlaununum kominn. Það eru góð vinnubrögð hjá Mbl.is og öðrum fjölmiðlum að segja manni hver hann er og hvað hann hefur afrekað.
En svo virðist sem bókmenntaverðlaunin og friðarverðlaunin séu mun merkilegri í hugum fjölmiðlamanna almennt. Hann er nefnilega dálítið sláandi, munurinn á umfjölluninni sem vísindaverðlaunin fá annars og bókmenntaverðlaunin hins vegar. Hér er lítið dæmi af mbl.is. Lítum fyrst á umfjöllunina um efnafræðiverðlaunin:
Einhverju nær? Nei, ekki ég heldur. Fyrir hvað fékk hann efnafræðiverðlaunin? Hvaða þýðingu hafði uppgötvun hans fyrir okkur jarðarbúa? Það stendur allt í tilkynningunni frá Nóbelsnefndinni en annað hvort er metnaðurinn ekki meiri en þetta eða þekkingin ekki til staðar hjá blaðamönnum. Ef til vill er það beggja blands.
Kannski var bætt úr þessu í Morgunblaðinu í dag. Neibb, umfjöllun um efnafræðiverðlaunin er hvergi sjáanleg.
En svo er það umfjöllun mbl.is um bókmenntaverðlaunin:
Já, sumum verðlaunum er gert hærra undir höfði en öðrum. Umfjöllunin um þessi bókmenntaverðlaunin er þó hvergi nærri lokið. Þeim verða gerð góð skil í Fréttablaðinu og Morgunblaðinu (sennilega Sunnudagsmogganum) að sjálfsögðu í sjónvarpsfréttum á RÚV (sem hafa nánast ekkert fjallað um vísindaverðlaunin).
Hvers vegna er þetta svona?
- Sævar Helgi
![]() |
Tomas Tranströmer fær Nóbelsverðlaunin |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (11)
5.10.2011 | 20:43
Halastjarna inn, kórónuskvetta út
Rakst á þetta flotta myndskeið á vef NASA. Það sýnir sólina gleypa halastjörnu og í sömu andrá gefa frá sér öfluga kórónuskvettu:
Þessir atburðir eru ekki tengdir heldur er þetta skemmtileg tilviljun. Halastjarnan eyddist sennilega nokkrar milljónir kílómetra frá sólinni sjálfri. Kórónuskvettur eru nánast daglegir atburðir á sólinni þessi misserin. Virknin er að aukast á ný eftir ládeyðu síðustu ára. Því má búast við því að fagrar norðurljósasýningar færist í aukanna eftir því sem á líður.
Halastjarnan sem hér sést er Kreutz sólsleikja eða sólkær halastjarna, hraðskreiðustu hnettir sólkerfisins.
---
Alla mánudaga birtum við mynd vikunnar á Stjörnufræðivefnum. Að þessu sinni er mynd vikunnar af stórglæsilegri kúluþyrpingu, Messier 56, sem er í um það bil 60.000 ljósára fjarlægð frá okkur.
- Sævar Helgi
Vísindi og fræði | Breytt 6.10.2011 kl. 00:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.10.2011 | 13:12
Risasjónauki opnar augun - Merk tímamót í stjarnvísindum
Nítján loftnet ALMA á Chajnantorsléttunni í 5000 metra hæð yfir sjávarmáli. Mynd: ALMA (ESO/NAOJ/NRAO)/W. Garnier (ALMA)
Með tilkomu ALMA, þessa óvenjulega risasjónauka, er nýtt skeið að hefjast í stjarnvísindarannsóknum. Nú getum við í fyrsta sinn skoðað myndun stjarna og sólkerfa í smáatriðum og rakið myndunarsögu vetrarbrauta við endimörk hins sýnilega alheims. Í raun má segja að sjónaukinn sé í leit að uppruna okkar í alheiminum.
ALMA stendur fyrir Atacama Large Millimeter/submillimeter Telescope. Nafnið segir okkur að sjónaukinn sjái millímetra- og hálfsmillímetrabylgjulengdir, sem er milli innrauðs ljóss og útvarpsbylgna og nokkuð út fyrir það sem við sjáum með berum augum.
Í alheiminum gefa köldustu fyrirbærin frá sér slíka geislun. Það eru einkum gas- og rykský sem stjörnur eru að myndast í og gas í fjarlægum vetrarbrautum.
ALMA líkist því hreint ekki dæmigerðum stjörnusjónaukum. Í stað spegils samanstendur hann af 66 loftnetum sem líkjast mest gervihnattadiskum. Öll loftnetin verða látin starfa saman sem ein heild og þegar smíði sjónaukans er lokið verður þeim dreift um allt að 16 km breitt svæði. Þannig fæst einn risasjónauki, 16 km í þvermál.
ALMA er sannkallað samstarfsverkefni því að sjónaukanum standa stofnanir í Evrópu (ESO), Norður Ameríku og Austur Asíu.
ALMA er hæsti og stærsti sjónauki í heiminum. Hann er í 5000 metra hæð yfir sjávarmáli í skraufþurri Atacamaeyðimörkinni. Ástæðan er sú að ALMA þarf að vera í eins þurru loft og mögulegt er því vatnsgufa í andrúmsloftinu gleypir bylgjulengdirnar sem sjónaukinn rannsakar. Loftið er miklu þurrara hátt uppi.
Fyrsta mynd sjónaukans var birt í gær og hana má sjá hér!
Frekari upplýsingar
ESOcast 36: ALMA Opens Its Eyes from ESO Observatory on Vimeo.
ALMA Opens Its Eyes from NRAO Outreach on Vimeo.
- Sævar Helgi
![]() |
ALMA tekin í notkun í Síle |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
4.10.2011 | 10:24
Ein merkasta uppgötvun sögunnar
Niðurstaða Nóbelsnefndarinnar kemur ekki á óvart. Aðeins tímaspursmál var hvenær þessir þrír fengju verðlaunin enda gerðu þeir stórmerka uppgötvun á alheiminum: Alheimurinn er að þenjast út með sívaxandi hraða.
Árið 1929 uppgötvaði Edwin Hubble að alheimurinn væri að þenjast út og útþensluhraðinn yxi eftir því sem fjarlægðin til fyrirbærisins væri meiri. Hann uppgötvaði að útþensluhraðinn væri í réttu hlutfalli við fjarlægðina og fylgdi lögmáli sem við hann er kennt í dag.
Laust fyrir aldamótin síðustu byltu heimsmyndinni tveir rannsóknarhópar undir forystu Adams Riess og Brians Schmidt og Saul Perlmutter. Þá var viðtekið að útþensluhraði alheims færi minnkandi, að útþenslan væri stöðugt að hægja á sér. Að lokum drægist alheimurinn aftur saman og endaði í einhvers konar Miklahruni.
Þetta ætluðu þeir að staðfesta með því að mæla útþensluna. Þeir beindu tækjum sínum, meðal annars 3,6 metra og NTT sjónaukum og VLT sjónauka ESO í Chile, að sprengistjörnum af gerð Ia (fjölluðum aðeins um þær í eldri bloggfærslu) en þær má nota sem staðalkerti, fyrirbæri með þekkta reyndarbirtu. Þannig má mæla sýndarbirtuna og ákvarða fjarlægðina. Niðurstöður þeirra voru afgerandi. Hraði útþenslunnar eykst í sífellu.
Enginn veit hvað það er sem veldur sívaxandi útþensluhraða alheims. Flestir eru á því að einhvers konar hulduorka eigi þar sök á máli en enginn veit hvað sú orka er. Við vitum aðeins að hún veldur því að alheimurinn þenst sífellt meir út. Þeir eða þau sem átta sig á eðli hulduorkunnar munu fá Nóbelsverðlaun.
Þessi uppgötvun Riess, Schmidt og Perlmutters hefur mikil áhrif á heimsmynd okkar. Hún gerir okkur líka í hugarlund hvernig alheimurinn á eftir að enda ævi sína. Samkvæmt henni er framtíðin svört.
Nánar er hægt að lesa um allt þetta á Stjörnufræðivefnum:
---
Mig langar í leiðinni að lýsa yfir miklum vonbrigðum með umfjöllun fjölmiðla um Nóbelsverðlaunin. Í Morgunblaðinu í dag var ein lítil frétt og aðalatriðið var að einn hafanna hefði látist. Það er vissulega frétt en ekki er nokkur metnaður lagður í að útskýra fyrir fólki fyrir hvað verðlaunin eru veitt og hvaða áhrif uppgötvanir þessara vísindamanna hafa haft. Það er ekki einu sinni gerð tilraun til þess.
Ég er nokkuð viss um að sama verður uppi á teningnum með þessi verðlaun og efnafræðiverðlaunin. Hins vegar mun bókmenntaverðlaunahafinn fá að minnsta kosti heilsíðuumfjöllun í Sunnudagsmogganum og að sjálfsögðu Friðarverðlaunahafinn líka.
- Sævar Helgi
![]() |
Verðlauna geimrannsóknir |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:44 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)