Sjónarspil á himni í kvöld?

Sjáist einhvers staðar á landinu til stjarna í kvöld er möguleiki á að verða vitni að nokkuð fallegu sjónarspili. Von er á mikilli loftsteinadrífu sem sést best þegar komið er myrkur, um klukkan níu í kvöld eða svo. Rætist bjartsýnustu spár manna gætu sést nokkur hundruð loftsteinahröp eða stjörnuhröp á klukkustund. 

Drakónítar draga nafn sitt af stjörnumerkinu sem þeir sýnast stefna úr, í þessu tilviki Drekamerkinu. Þeir eiga rætur að rekja til halastjörnunnar Giacobini-Zinner en þegar hún hringsólar í kringum sólina skilur hún eftir sig slóð. Þessi slóð getur verið misþykk og í kvöld er búist við jörðin fari í gegnum þykkari hluta slóðarinnar. Loftsteinar brenna upp í um 100 km hæð yfir jörðinni. Þeir eru flestir örlitlir, ef til vill ekki mikið stærri en sandkorn.

Það er alltaf gaman að fylgjast með loftsteinadrífum og hvetjum við ykkur eindregið til þess að fara út í kvöld ef veður leyfir. Klæðið ykkur vel, takið með ykkur heitan drykk og njótið þess að virða himininn fyrir ykkur. Tunglið er vaxandi og því nokkuð bjart. Það dregur úr sýnileika daufustu hrapanna en þau bjartari sjást leikandi. Ég ætla svo sannarlega að nýta tækifærið og horfa til himins.

Stjörnumerkið Drekinn er hátt á lofti yfir Íslandi og að finna fyrir ofan merki sem margir kannast við, Karlsvagninn. Gott er að prenta út stjörnukort mánaðarins (pdf) til að hjálpa sér að finna merkið. 

screen_shot_2011-10-08_at_1_03_56_pm.png

Við minnum að lokum á næstu námskeið okkar.

Uppfært kl. 22:35 - Sá nokkra Drakóníta frá Lundi í Svíþjóð. Fylgdist með í hálftíma og þykir nokkuð ljóst að bjartsýnustu spár rættust ekki. Hins vegar truflaði birtan frá tunglinu og ljósmengun í kring nokkuð mikið. 

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Á Grétarsson

Í hvaða átt á maður að horfa?

Jón Á Grétarsson, 8.10.2011 kl. 13:21

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Í norðurátt. Best að finna Karlsvagninn og horfa fyrir ofan hann.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 8.10.2011 kl. 14:01

3 Smámynd: Ágúst H Bjarnason

Verður ekki mikil ljósmengun frá tunglinu?  

Ágúst H Bjarnason, 8.10.2011 kl. 18:34

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Jú. Fór út áðan hér í Svíþjóð og sá ekki neitt. Reyni aftur á eftir. Það er reyndar dágóð manngerð ljósmengun líka í kring sem hefur mikil áhrif.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 8.10.2011 kl. 18:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband