Færsluflokkur: Vísindi og fræði
23.1.2013 | 12:38
Fyrirlestur um Curiosity mánudaginn 28. janúar
Mánudaginn 28. janúar fer fram fræðsluerindi á vegum Hins íslenska náttúrufræðifélags um ævintýri Curiosity á Mars.
Erindið verður haldið í stofu 132 í Öskju, náttúrufræðihúsi Háskóla Íslands og hefst klukkan 17:15. Það er yours truly (Sævar) sem flytur erindið.
Aðgangur er að sjálfsögðu ókeypis og eru allir hjartanlega velkomnir.
Sjá nánar á vef Hins íslenska náttúrufræðifélags
Það er allt of langt síðan við fjölluðum almennilega um ævintýri Curiosity í Gale gígnum á Mars. Í gær fór fram langþráður blaðamannafundur sem var uppfullur af nýjum og spennandi vísindaniðurstöðum. Nammi, namm!
En áður en við skoðum þær, skulum við fyrst setja rannsóknirnar í samhengi við ferðalag jeppans. Ef þú nennir að lesa allt ertu hetja!
Á þeim fimm mánuðum sem liðnir eru frá lendingu hefur Curiosity smám saman verið að gangsetja tækjabúnað sinn. Prófanirnar hafa tekið óratíma og átti að ljúka fyrir jól en er enn ekki lokið. Jeppinn á nefnilega enn eftir að bora í grjót og flytja þau sýni í Chemin og SAM efnagreiningartækin.
Frá byrjun var ljóst að prófanirnar tækju langan tíma. Til að nýa þann tíma sem best stóð valið milli þess að aka af stað suður í átt að fyrirheitna landinu, rótum Sharpfjalls, eða kanna svæði um 500 metra í norðaustur sem leit út fyrir að vera mjög áhugavert séð utan úr geimnum.
Á svæðinu, sem nefnist Glenelg, mætast þrjár mismunandi tegundir af landslagsgerðum. Innrauðar myndir af því sýndu líka að svæðið viðheldur varma betur en önnur svæði í kring. Það þýðir að varmi sem svæðið dregur í sig yfir daginn, losnar hægar frá því á næturnar en frá öðru landslagi í kring.
Þetta var erfitt val.
Færi jeppinn strax í suður kæmist hann fyrr á áfangastað en á kostnað áhugaverðari vísinda. Á leiðinni þangað er bergið nefnilega fremur dæmigert fyrir svæði og fátt óvenjulegt að sjá. Í norðaustri var mjög áhugavert grjót sem sást hvergi annars staðar á svæðinu en sá leiðangur myndi fresta komunni til Sharpfjalls töluvert.
Svo fór að vísindamennirnir veðjuðu á áhugaverðari vísindin og uppskáru heldur betur. Glenelg hefur reynst enn áhugaverðara en búist var við. Og ein af ástæðum þess að borun var frestað þar til eftir jól, er sú að jarðfræðingarnir vildu gefa sér meiri tíma í að skoða svæðið í jarðfræðilegu samhengi. Glenelg er sannkallað nammiland fyrir jarðfræðinga!
Lukkupotturinn: Sandsteinn, skálögun, holufyllingar og hnyðlingar í Yellowknife flóa
Eftir 120 daga á Mars (7. og 8. desember 2012) ók Curiosity yfir mörk svæðisins og inn á ljósara bergið á Glenelg sem hefur hærri varmatregðu. Um leið voru gerðar mælingar á hitastigi yfirborðsins með REMS veðurmælingartækinu og eins og sjá má á línuritinu á yfirlitsmyndinni breyttist hitastig yfirborðsins nokkuð þegar jeppinn kom þangað. Við vitum ekki hvað veldur; lengri tíma tekur að finna út úr því.
Curiosity í Yellowknife Bay, lítilli lægð á Glenelg svæðinu. Mynd: NASA/jPL-Caltech/MSSS/Damien Bouic (smeltu tvisvar til að stækka, það er þess virði)
Curiosity er nú staddur ofan í lítilli lægð á Glenelg sem hefur verið kölluð Yellowknife Bay og sést á myndinni fyrir ofan. Þar hefur hann virt fyrir sér bergið á botni flóans og í litla hryggnum sem sést á myndinni hér undir.
Mynd: NASA/jPL-Caltech/MSSS
Lagið hægra megin á myndinni er á þykkt við gangstéttarbrún. Í þessum lögum sést bæði hvað gerðist á meðan efnið settist niður og eftir. Hvítu örvarnar benda á litlar æðar í sprungum í berginu sem hafa fyllst af ljósu efni sem sést betur á næstu mynd:
Mynd: NASA/jPL-Caltech/MSSS
Efnagreining með ChemCam (sem skýtur leysigeisla á bergið og efnagreinir það út frá rafgasblossanum sem myndast) sýnir að ljósa efnið inniheldur mikið kalsíum, lítið magnesíum og kísil en líka brennistein sem kom á óvart.
Þetta er túlkað sem svo að ljósa efnið sé vatnað kalsíum súlfat og gæti verið steindirnar gifs eða bassanít. Á jörðinni fellur gifs oft út í æðum þar sem vatn við tiltölulega lágt hitastig seytlar um berg.
Þegar æðarnar veðrast skilja þær eftir sig litla farvegi sem sjást vel á þessari mynd:
Mynd: NASA/jPL-Caltech/MSSS
Annars staðar skilja þær eftir örsmáa hryggi:
Upphleyptar æðar/hryggir á John Klein svæðinu. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS
Við sjáum samskonar fyrirbæri í bergi víða á jörðinni.
Í berginu sjáum við líka sethnyðlinga, litlar kúlur úr (enn sem komið er) óþekktu efni. Sethnyðlinga höfum við áður séð á Mars, hematít bláberin frægu á Meridiani sléttunni þar sem Opportunity lenti. Hematít bláberin á Meridiani féllu út með vatni og sennilega hefur það líka gerst hér.
Litlar kúlur sethnyðlingar greyptar í bergið í Yellowknife flóa. Efnasamsetning þeirra er óþekkt enn sem komið er. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS
Sjálft bergið á svæðinu er víðast grófur sandsteinn. Kornin í þeim eru að mestu silt en önnur korn eru of stór til þess að vera vindborin. Til dæmis eru stærstu kornin í þessu bergi um 2 millímetrar á breidd (ljósi kornin í neðra vinstra horninu). Að auki eru kornin nokkuð ávöl sem þýðir að þau hafa velt um og rúnast. Bergið hefur ljóslega myndast við mismunandi aðstæður.
Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS
Við sjáum líka víða sandstein með skálögun sem bendir til setflutnings í vatnsstraumi. Straumar í vatninu móta litla setskafla á botninum sem liggja niður með straumnum. Á opnunni hér fyrir neðan sést þessi skálögun mjög vel. Kornastærðin í lögunum útilokar flutning með vindi.
Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS
Ef við drögum þetta saman komumst við að eftirfarandi niðurstöðu:
Glenelg er setlagaopna; röð af fjölbreyttu setbergi sem hefur myndast í fljótandi vatni á mismunandi tímum í mismunandi setmyndunarumhverfi. Curiosity var sendur til Mars til að rannsaka nákvæmlega þetta!
Saga svæðisins hljómar þá nokkurn veginn svona:
Fyrst hefur rennandi vatn brotið berg niður og skolað því burt. Bergmylsnan hefur límst saman aftur og myndað setberg sem síðan varð gegnsýrt af vatni. Vatn seytlaði í gegnum sprungur á berginu svo steindir féllu út sem mynduðu sethnyðlinga og holufyllingar (líklega gifs) í sprungum í berginu.
Borinn prófaður á næstu tveimur vikum
John Klein svæðið í Yellowknife flóa. Búið er að lita- og birtustilla myndina. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS
Hér að ofan sést staður í Yellowknife flóa sem hefur verið nefndur John Klein, eftir verkfræðingi sem var þróunarstjóri Curiosity en hann lést árið 2011. Einhvers staðar þarna mun Curiosity prófa borinn í fyrsta sinn!
John Klein svæðið er mjög fjölbreytt. Það er mjög sprungið, hefur fjölda fylltra og ófylltra æða og sethnyðlinga auk þess sem bergið er fjölbreytt. Litlu kassarnir hægra megin á myndinni sýna mismunandi berg á staðnum. Efst (A) er brauðskorpu-berg sem virðist hafa þanist út og sprungið. Á mynd B sést berg sem hefur ljósleitar æðar og dökka bletti en sýni verða tekin af samskonar bergi. Neðst (C) sést síðan berg sem líkast til hefur borist þangað eftir árekstur.
Borunin er tæknilega erfiðasta vélarprófunin svo menn fara hægt í sakirnar. Fyrst verða teknar myndir og gerðar efnagreiningar með ChemCam og APXS tækjunum. Síðan verður rykið dustað af borstaðnum. Aðeins þegar búið er að gera ítarlega greiningu á staðnum verður borað.
Curiosity mun aka alveg upp að John Klein á næstu dögum en innan tveggja vikna verður borað, sennilega í eina af upphleyptu æðunum/hryggjunum. Við fjöllum nánar um það síðar.
Vinnunni á Glenelg lýkur sennilega um miðjan febrúar. Þá verður loks lagt íann!
Ævintýri Curiosity eru rétta að hefjast!
- Sævar Helgi
Forvitni datt í lukkupottinn | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:57 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
15.1.2013 | 00:44
Svona er að fljúga í kringum tunglið
Fyrir skömmu var bundinn endir á leiðangur GRAIL geimfara NASA, þegar þau voru látin rekast á fjall á tunglinu.
Fáeinum dögum fyirr áreksturinn tóku geimförin myndir af yfirborði tunglsins úr 10 km hæð, svipað flughæð farþegaþota. Einhvern veginn svona væri tilfinningin að fljúga í kringum þennan næsta nágranna okkar ígeimnum:
Glæsilegt, ekki satt?
Aðeins örfáir menn hafa séð þetta með eigin augum. Vonandi verður bætt úr því í náinni framtíð.
- Sævar Helgi
5.1.2013 | 18:43
Spennandi geimvísindaár framundan
Það er spennandi ár framundan í geimvísindunum. Á árinu verða fjórir nýir sendifulltrúar jarðarbúa sendir út í sólkerfið, auk þess sem stærsti stjörnusjónauki heims verður tekinn í fulla notkun.
Byrjum á geimferðunum.
Stærsta verkefni ársins er án efa Change 3 leiðangur Kínverja til tunglsins. Change 3 verður fyrsta geimfarið til að lenda mjúklega á yfirborði tunglsins frá því að sovéska farið Luna 24 lenti þar árið 1974.
Change 3 er í raun tvö geimför: Lendingarfar sem vegur meira en tonn og jeppi sem vegur rúmlega 100 kg.
Í lendingarfarinu er lítill stjörnusjónauki sem nemur útfjólublátt ljós frá orkuríkum fyrirbærum eins og virkum vetrarbrautakjörnum. Á tunglinu er nefnilega hægt að stunda stjörnuathuganir samfellt í eina tunglnótt sem er næstum tveggja vikna löng. Til þess að tryggja að þetta sé hægt er lendingarfarið kjarnorkuknúið eins og Curiosity jeppinn. Að auki mun farið fylgjast með virkni sólar og áhrifum geimveðurs á jörðina.
Jeppinn mun aka allt að tíu kílómetra og gera rannsóknir á berghulunni (jarðvegi tunglsins), bæði efnafræðilegar og þykktarmælingar. Auk þess verður væntanlega hægt að fylgjast með ökuferð jeppans í beinni útsendingu.
Þetta er spennandi leiðangur sem fer á loft seint á þessu ári.
LADEE er annar tunglleiðangur. Þetta litla og ódýra bandaríska gervitungl á að rannsaka næfurþunnan lofthjúp tunglsins og ryk í námunda við það. LADEE fer á loft í ágúst á þessu ári.
Í ár verða tvö geimför send til Mars, annað bandarískt en hitt indverskt.
MAVEN nefnist bandaríski leiðangurinn en markmið farsins er að rannsaka lofthjúp Mars og áhrif sólar á hann. Lofthjúpur Mars var eitt sinn miklu þykkari en nú eins og sjá má af öllum þeim ummerkjum fljótandi vatns sem er á yfirborðinu. Mars hefur því glatað stórum hluta lofthjúpsins út í geiminn og á MAVEN að varpa ljósi á þau ferli sem þar eru að verki. Mælingar Curiosity frá yfirborðinu munu hjálpa vísindamönnum að túlka mælingar MAVEN. Farið mun síðan gegna hlutverki samskiptatungls milil Mars og jarðar.
Indverski leiðangurinn nefnist Mangalyaan sem er einfaldlega hindí fyrir Mars-far. Þetta er fyrsta geimfarið sem Indverjar senda út í sólkerfið en áður hafa þeir sent könnunarfar til tunglsins. Markmið leiðangursins er fyrst og fremst að sýna fram á að Indverjar hafi tæknilega getu til þess að senda geimfar til annarrar reikistjörnu. Í leiðinni verða þó gerðar rannsóknir á lofthjúpnum, ekki ósvipaðar þeim sem MAVEN á að gera.
ALMA tekin í notkun
Mynd: ESO/B. Tafreshi (twanight.org)
Í mars verður stærsti stjörnusjónauki heims tekinn í fulla notkun. Atacama Large Millimter/submillimeter Array verður röð 66 loftneta sem dreifast yfir allt að 16 km breitt svæði. Með hjálp hálægustu og einnar öflugustu ofurtölvu heims verður hægt að breyta loftnetunum 66 í einn risasjónauka.
Loftnetin nema ljós með millímetra- og hálfsmillímetra bylgjulengd sem köldustu fyrirbæri alheimsins til dæmis köld, dökk stjörnumyndunarský gefa frá sér.
Þótt sjónaukinn sé ekki tilbúinn er hann fyrir löngu orðinn öflugasti sjónauki sinnar tegundar í heiminum og er þegar byrjaður að gera merkar uppgötvanir um myndun sólkerfa.
ALMA (ESO/NAOJ/NRAO)/M. Kornmesser (ESO)/Nick Risinger (skysurvey.org)
- Sævar Helgi
4.1.2013 | 16:20
Merkilegur loftsteinn frá Mars
Mynd: Carl Agee/University of New Mexico
Þessi fallegi steinn kallast Northwest Africa (NWA) 7034 en hann fannst í Saharaeyðimörkinni í suðurhluta Marokkó árið 2011. Steinninn varð til í eldgosi fyrir 2.100 milljónum ára... á Mars!
Loftsteinar eru oftast svartir og skera sig úr ljósum eyðimerkursandi eða hvítum snjóþekjum. Þess vegna er auðveldast að finna loftsteina í eyðimörkum eða á jöklum.
Hingað til hafa 110 loftsteinar fundist sem rekja má til Mars. Allir köstuðust þeir út í geiminn þegar smástirni eða halastjörnur rákust á rauðu reikistjörnuna fyrir óralöngu. Síðan hafa þeir reikað um sólkerfið í milljónir eða milljarða ára, uns jörðin varð í vegi þeirra dag einn. Sem betur fer eru sumir stórir og ná alla leið til jarðar fyrir okkur að finna þá.
En hvernig vitum við að steinarnir eru frá Mars? Þegar steinarnir þrýstast upp í eldgosum eða við áreksturinn, verður lofthjúpurinn á Mars innlyksa í steininum. Þegar þessar litlu loftbólur eru efnagreindar, fellur efnasamsetning loftsins við mælingar sem gerðar hafa verið á lofthjúpi Mars. Nýlegar mælingar Curiosity hafa einmitt staðfest þetta.
Aftur að steininum.
Efnagreining sýnir að hann er að mestu úr alkalímálmunum natríumi og kalíumi, einmitt það sem Marsjepparnir sjá mikið af á yfirborðinu. Steindirnar eru aðallega feldspöt og pýroxen.
Sérðu hvað steinninn er úr fínu og glerkenndu efni sem límir saman stærri bergbrot? Þetta kalla jarðfræðingar basaltbreksíu. Steinnin varð sem sagt til við sprengivirkni í eldgosi. Kvikan hefur storknað hratt, sprungið og límst saman aftur.
Við þekkjum samskonar steina frá tunglinu og jörðinni en þetta er í fyrsta sinn sem svona steinn finnst sem ættaður er frá Mars.
Fleira gerir þennan stein merkilegan.
Mælingar á samsætum í steininum sýna að hann varð til fyrir 2.100 milljónum ára. Það gerir steininn einstakan meðal loftsteina frá Mars. Flestir eru annað hvort mjög gamlir (um 4,5 milljarða ára) eða mjög ungir (um 200 milljón ára).
Steinninn varð til þegar Mars var miðaldra, við upphaf þriðja og yngsta tímabilsins í (jarð)sögu Mars sem kallast Amazonsskeiðið. Á þessu skeiði urðu risaeldfjöllin á Mars til. Steinninn veitir okkur því mjög mikilvægar upplýsingar um aðstæðurnar á reikistjörnunni á þessu skeiði.
Þegar vísindamennirnir hituðu steininn upp, gaf hann frá sér óvenju mikið vatn allt að 0,6% af massa sínum, tífalt meira magn en finnst í öðrum loftsteinum frá Mars. Steinninn hefur greinilega komist í tæri við töluvert magn vatns, annað hvort í eldgosinu eða árekstur halastjörnu við Mars.
- Sævar Helgi
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
1.1.2013 | 10:11
Hvað sést á stjörnuhimninum í janúar?
Í fimmta þætti Sjónaukans er fjallað um það sem sjá má á stjörnuhimninum yfir Íslandi í janúar 2013. Sjónum er þó einkum beint að einu frægasta, glæsilegasta og auðþekkjanlegasta stjörnumerki himins, stjörnumerinu Óríon.
Framleiðendur eru Stjörnufræðivefurinn og Geimstöðin. Umsjónarmaður þáttarins er Sævar Helgi Bragason, einn af ritstjórum Stjörnufræðivefsins.
Sjáðu þáttinn hér undir!
Sjónaukinn 5. þáttur - Horft til himins í janúar 2013 from Stjörnufræðivefurinn on Vimeo.
Og hér er að sjálfsögðu Stjörnukort janúarmánaðar
- Sævar Helgi
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
29.12.2012 | 16:47
Loftsteinadrífa í ársbyrjun - Halastjörnur á himni árið 2013
Árið 2012 var fengsælt fyrir okkur stjörnuáhugafólk og stjörnuskoðunarárið 2013 lofar ansi góðu.
Það byrjar að minnsta kosti vel því næstkomandi fimmtudagsmorgun, 3. janúar 2013, nær loftsteinadrífan Kvaðrantítar hámarki.
Geminíti og norðurljós yfir Vestmannaeyjum. Mynd: Óskar Elías Sigurðsson
Þessi drífa er ekki svo ólík Geminítum sem margir fylgdust með um miðjan desember síðastliðinn og urðu ekki fyrir vonbrigðum en Kvaðrantítarnir standa skemur yfir og er erfiðara að sjá.
Kvaðrantítar draga nafn sitt af stjörnumerki sem er ekki til lengur: Múrkvaðrantinum (Quadrans Muralis). Merkið var búið til árið 1795 úr stjörnum milli stjörnumerkjanna Hjarðmannsins og Drekans.
Múrkvaðrantar voru mikið notaðir af stjörnufræðingum fyrri tíma, t.d. Tycho Brahe, til þess að mæla hnit stjarnanna og kortleggja himinhvolfið. Þessi tiltekni
Kvaðrantíta má, eins og Geminíta, rekja til smástirnis en ekki halastjörnu. Smástirnið nefnist 2003 EH1 en stjörnufræðingar telja að það sé hluti af kulnaðri halastjörnu sem tvístraðist fyrir nokkrum öldum.
Þegar Kvaðrantítar eru í hámarki sjást stundum yfir 100 loftsteinar á klukkustund (meira en einn á mínútu). Hámarkið er öflugt en stendur stutt yfir, aðeins í fáeinar klukkustundir.
Auk þess er tunglið er hálft minnkandi á himninum og birtan frá því mun draga eitthvað úr fjölda sýnilegra stjörnuhrapa.
Þau sem vilja reyna að sjá drífuna ættu að taka daginn snemma fimmtudagsmorguninn 3. janúar. Eins og gildir alltaf um loftsteinadrífur er best að koma sér vel fyrir í góðu myrkri fyrir utan borgar- og bæjarmörkin.
Farið út nokkru fyrir dögun og horfið í aust-norðaustur. Notið stjörnukortið hér undir til að finna stjörnumerkin Hjarðmanninn, Drekann og Stórabjörn. Geislapunktur drífunnar er mitt á milli þeirra. Á þessu svæði á hiimninum ættu flest stjörnuhröpin að sjást.
Kort úr Stellarium hugbúnaðinum sem er ókeypis og á íslensku!
Látið okkur svo endilega vita, t.d. á Facebook, hvort þið sáuð eitthvað.
Tvær halastjörnur á himni árið 2013?
Árið 2013 gætu tvær halastjörnur prýtt himininn á norðurhveli.
Við höfum þegar fjallað um halastjörnuna ISON sem, ef allt gengur eftir, mun prýða jólahimininn á næsta ári. Hún gæti orðið bjartasta halastjarna sem sést hefur um áratugaskeið.
Í byrjun mars næstkomandi gæti halastjarnan Panstarrs orðið áberandi á himninum hjá okkur. Sú halastjarna fannst árið 2011 og ef bjartsýnustu spár ganga eftir, gæti hún orðið álíka björtustu fastastjörnur á himninum. Við fjöllum betur um hana síðar í Sjónaukanum.
Við krossleggjum fingur og vonum það besta. Það væri algjör draumur að fá tvær glæsilegar halastjörnur á árinu.
Markverðustu tíðindi stjarnvísindaársins 2012
Undirritaður var í spjalli við Pétur Halldórsson í síðasta þætti Tilraunaglassins á árinu og fór þar yfir það markverðasta sem gerðist í geimvísindum árið 2012.
Hægt er að hlusta á þáttinn hér.
- Sævar Helgi
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:18 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
24.12.2012 | 09:46
Sjáðu Júpíter og tunglið á Jóladagskvöld
Kort úr Stellarium sem er ókeypis hugbúnaður og til á íslensku!
Á kvöldhimninum í desember er konungur reikistjarnanna Júpíter mest áberandi líkt og undanfarna mánuði. Um þetta er fjallað í þættinum okkar, Sjónaukanum.
Horfðu til himins á jóladagskvöld, 25. desember.
Í austri sérðu Júpíter og tunglið, sem þá er næstum fullt, hlið við hlið, rétt fyrir ofan Regnstirnið, stjörnuþyrpingu í Nautinu.
Prófaðu að beina handsjónauka að þessari fallegu samstöðu.
Við blasir tignarleg sjón: Júpíter og Galíleótunglin fjögur auk mánans okkar innan um nokkra tugi glitrandi stjarna.
Rétt fyrir ofan fylgjast systurnar sjö Sjöstirnið með tvíeykinu.
Systurnar sjö eru dætur Atlasar þess sem ber heiminn á herðum sér og Pleiónu.
Eitt sinn varð veiðimaðurinn Óríon hugfanginn af systrunum. Seifi leist þó illa á þann ráðahag og hreif systurnar til himna.
Þar gengur Óríon á eftir þeim á hverri nóttu en er ætíð úr seilingarfjarlægð.
Systurnar og foreldrar þeirra eru björtustu stjörnurnar í þyrpingu sem telur líklega yfir eitt þúsund stjörnur.
Allar urðu þessar stjörnur til úr sömu geimþokunni fyrir um 100 milljónum ára eða svo.
Sjöstirnið ber ýmis nöfn á erlendum tungumálum.
Flestir kannast sennilega við japanska heitið á þyrpingunni, þótt fæstir tengi það við þyrpinguna, en það er nafnið Subaru. Bifreiðategundin er einmitt nefnd eftir Sjöstirninu en í merki fyrirtækisins eru stjörnurnar sýndar.
Sama má segja um stærsta stjörnusjónauka Japana sem er á Mauna Kea á Hawaii.
Prófaðu að skoða þessa glæsilegu þyrpingu með handsjónauka eða stjörnusjónauka með litilli stækkun og víðu sjónsviði.
Horfðu til himins um jólin!
Stjörnufræðivefurinn óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla!
- Sævar Helgi
18.12.2012 | 18:35
Stórkostleg mynd af Satúrnusi og fjöll Miðgarðs á Títan
Mynd: NASA/JPL-Caltech/SSI
Ó-mæ-vááááá!!! (Smelltu tvisvar til að stækka)
Verst að vera búinn að velja tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins. Og tvo ný augnakonfekt á einum degi!
Cassini geimfar NASA tók þessa stórkostlegu mynd af Satúrnusi. Sólin er á bakvið Satúrnus á myndinni og lýsir upp hringana og reikistjörnuna á ansi tilkomumikinn hátt.
Myndir á borð við þessa er aðeins hægt að taka þegar sólin er fyrir aftan Satúrnus, svo hér er um fremur sjaldséð sjónarspil að ræða. Síðast tók Cassini samskonar mynd í september 2006 en á henni birtist jörðin í gegnum hringana.
Á þessari mynd sjást einnig tvö af meira en 60 tunglum Satúrnusar: Ístunglin Enkeladus og Teþýs, bæði vinstra megin við reikistjörnuna, undir hringunum. Enkeladus er nær hringunum en Teþýs neðar og til vinstri.
Myndin var tekin í gegnum innrauðar, rauðar og fjólubláar síur úr 800.000 km fjarlægð frá Satúrnusi, fjarlægð sem samsvarar rúmlega tvöfaldri fjarlægðinni milli jarðar og tunglsins.
Fjöll á Títan bera nöfn úr Hringadróttinssögu
Mynd: NASA/JPL-Caltech/University of Arizona/USGS
Hér fyrir ofan er kort af Títan, stærsta tungli Satúrnusar, þar sem tilgreind eru þau fjöll á ístunglinu sem hafa hlotið opinber heiti frá Alþjóðasambandi stjarnfræðinga. Öll fjöll á Títan eru nefnd eftir fjöllum í Miðgarði úr Hringadróttinssögu Tolkiens.
Kortið var búið til úr gögnum frá sýnilega- og innrauða litrófsritanum VIMS og ratsjártækinu í Cassini geimfari NASA.
Gígurinn Tolkien er á Merkúríusi en fjöllin sem hann skapaði eru á Títan.
- Sævar Helgi
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 18:43 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.12.2012 | 16:11
Tvö geimför rekast á tunglið í kvöld
Uppfært kl. 22:40 - Geimförin rákust á tunglið á fyrirhuguðum tíma. Árekstrarstaðurinn fjallið hefur verið nefnt Sally Ride eftir fyrstu bandarísku konunni sem fór út í geiminn en hún lést á árinu. Hún hafði umsjón með MoonKAM, myndavélum í GRAIL sem grunnskólanemendur í Bandaríkjunum gátu notað.
- - -
Í kvöld klukkan 22:28 að íslenskum tíma munu Ebb og Flow, tvö geimför NASA í GRAIL leiðangrinum, rekast á ónefnt fjall nærri norðurpól tunglsins.
Ebb og Flow hafa hringsólað um tunglið, eitt fyrir aftan hitt, frá ársbyrjun 2012.
Þótt geimförin séu enn við hestaheilsu eru þau að verða eldsneytislaus. Til að koma í veg fyrir þau falli ekki á þá staði þar sem Apollo tunglfaranir lentu var ákveðið að binda endi á leiðangurinn og láta þau rekast á fyrirfram ákveðinn stað á tunglinu.
En hverju hafa þessi geimför áorkað?
GRAIL útbjó nákvæmasta þyngdarsviðskort sem gert hefur verið af öðrum hnetti en jörðinni. Með því er hægt að skyggnast inn í tunglið og átta sig á uppbyggingu þess.
Mælingarnar fóru þannig fram að Ebb og Flow var flogið í röð í kringum tunglið með 175 til 225 km millibili. Í leiðinni skiptust þau á útvarpsmerkjum sem mældi nákvæmlega fjarlægðina á milli þeirra.
Þegar annað gervitunglið fór yfir svæði með sterkt eða veikt þyngdarsvið til dæmis yfir gíg eða fjall (sbr. myndin hér undir) breyttist fjarlægðin milli þeirra lítillega (jókst eða minnkaði).
Mynd: Emily Lakdawalla/Stjörnufræðivefurinn (ísl.)
Með því að mæla breytinguna nákvæmlega var hægt að útbúa nákvæmasta kort af þyngdarsviði tunglsins sem gert hefur verið:
Mynd: NASA/JPL-Caltech/CSM
Meðal þess mælingar Ebb og Flow sýndu, var að þykkt skorpu tunglsins er 34 til 43 kílómetrar, mun minna áður var talið. Einnig fundust grafnir gígar og dældir (dæmi um grafinn gíg á jörðinni sem kemur aðeins fram með þyngdarmælingum er Chixculub gígurinn í Mexíkó) og stórir og þykkir berggangar undir yfirborðinu.
Gögn Ebb og Flow styðja líka kenninguna um myndun tunglsins; að tunglið hafi orðið til eftir árekstur stórs hnattar við jörðina.
Árekstur GRAIL verður á nærhlið tunglsins en þrátt fyrir það er ekki búist við neinum myndum af honum því svæðið verður í myrkri þegar hann á sér stað.
Ebb rekst fyrst á tunglið en Flow 30 sekúndum síðar. Aðfallshornið er aðeins 1,5 gráðu yfir láréttu á fjallshlíð sem hallar um 20 gráður svo gígarnir sem myndast verða ekki ýkja stórir, ef til vill rétt rúmur metri eða svo. Ef förin rækjust lóðrétt á tunglið yrðu il 3 til 4 metra breiðir gígar. Árekstrarhraðinn verður um 1,7 km á sekúndu.
Í kjölfar árekstursins flýgur Lunar Reconnaissance Orbiter yfir svæðið í leit að gígunum. Það verður þó ekki fyrr en eftir tvær vikur þegar sólin rís loks yfir svæðinu. Vísindamenn vonast til að læra um eiginleika fjallsins með því að skoða efniskvettuna út frá gígnum.
Hægt verður að fylgjast með umfjöllun um GRAIL og áreksturinn hér hjá NASA/JPL.
- - - -
Við minnum einnig á tíu bestu stjörnuljósmyndir ársins 2012. Kíkið á þær!
Og svo auðvitað jólabókina í ár, bók um Higgs-eindina sem komin er út á íslensku. Við hvetjum allt áhugafólk um vísindi til að næla sér í hana. Pantaðu hana núna!
- Sævar Helgi
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)