Færsluflokkur: Vísindi og fræði
22.2.2013 | 16:28
Stórkostlegt myndskeið af kórónuregni á sólinni
Stilltu á fulla skjástærð, fulla háskerpu, slökktu ljósin í kringum þig og njóttu þess að horfa á þetta stórkostlega myndskeið af sólinni okkar!
Í byrjun sést sólblossi sem varð 19. júlí í fyrra en honum fylgdi einnig kórónuskvetta út í geiminn. Rafgasið stígur upp úr sólinni, streymir meðfram segulsviðinu og myndar svokallaða kórónulykkju. Þetta gas er um það bil 50.00°C heitt.
Þegar líður á myndskeiðið sést svo hvernig þetta gas rignir niður á sólina aftur í kórónuregni. Ótrúlega glæsilegt.
Myndskeiðið er sett saman úr myndum sem Solar Dynamics Observatory geimfar NASA tók. Farið tók eina mynd á tólf sekúndna fresti en myndskeiðið er sýnt í 30 römmum á sekúndu svo hver sekúnda samsvarar 6 mínútum í rauntíma.
Hér undir sjást svo stærðarhlutföllin. Jörðin kæmist að minnsta kosti tíu sinnum fyrir í röð frá efsta hlutanum til hins neðsta.
Sólin okkar er ótrúlega mögnuð!
- - -
Myndin er smám saman að skýrast af Chelyabinsk loftsteininum. Hann var líklega í kringum 17 metrar í þvermál (á stærð við hús) og vó á bilinu 7.000 til 10.000 tonn (ekki tíu tonn eins og sagt hefur verið frá í mörgum fjölmiðlum). Enginn smá hnullungur þar á ferð!
Steinninn sprakk með jafngildi 30 Híróshíma kjarnorkusprengja. Höggbylgjan jafngilti 10 til 20 földum venjulegum loftþrýstingi en rúður brotna við fimmfaldan.
Þennan viðburðaríka föstudag ræddi ég við átta fjölmiðla um þennan stein og smástirnið 2012 DA14 sem fór framhjá jörðinni sama daga. Ég fékk oftast svipaðar spurningar en þessi var algengust: Tengjast 2012 DA14 og Chelyabinsk loftsteinninn?
Til að skera úr um hvort fyrirbærin tengist þurfum við að skoða brautir þeirra. Smástirnið fannst í fyrra (sbr. 2012 í nafni þess) svo braut þess var vel þekkt. Ttil að finna út braut loftsteinsins þarf að skoða stefnu hans inn í lofthjúp jarða.
Ef fyrirbærin tengdust, ætti braut beggja að vera svipuð, eiginlega eins. Svo er ekki eins og sjá má á myndinni hér undir:
Augljóst er að brautir þeirra eru gerólíkar. Braut Chelyabinsk loftsteinsins lá út fyrir braut Mars á meðan smástirnið er á svipaðri braut um sólina og Jörðin. Eins og sjá má hefði Chelyabinsk loftsteinninn hæglega geta rekist á Mars hefði Jörðin ekki orðið í vegi hans.
Þeir molar sem hafa fundist hingað til benda til þess að steinninn hafi verið af gerðinni kondrít eins og 95% af öllum loftsteinum sem hafa fallið til Jarðar. Kondrít hefur verið notað til að aldursgreina sólkerfið okkar mjög nákvæmlega. Ef þú heimsækir einhvern tímann Stjörnuskoðunarfélagið geturðu fengið að halda á kondrít loftsteini.
Af þeim jarðnándarsmástirnum sem fundist hafa hingað til eru flest milli 300 metrar og 1 km í þvermál. Líklega höfum við aðeins fundið 1% af steinum í sömu stærðargráðu og 2012 DA14 sem var um 50 metra breiður. Um þá smærri, eins og þann sem féll yfir Chelyabinsk, vitum við nánast ekki neitt. Mjög erfitt er að finna svona lítil smástirni á sveimi í nágrenni Jarðar.
- Sævar Helgi
16.2.2013 | 17:28
Stiklað á stóru um loftsteina og árekstra
Eftir stóratburðinn í Rússlandi, þegar loftsteinn sprakk yfir borginni Chelyabinsk í Úralfjöllum, er ekki er úr vegi að líta aðeins á þessa ógn úr geimnum. Þetta er dálítið langur pistlll en vonandi fróðlegur.
Daglega verður jörðin fyrir yfir 20-40 tonnum af loftsteinum. Það hljómar mikið en er samt hverfandi lítið í samanburði við stærð jarðar þetta magn dygði til að fylla litla sex hæða skrifstofubyggingu. Engu að síður hellingur af steinum í geimnum sem jörðin plægir sig í gegnum á ferðalagi sínu um sólina.
Stærstur hluti þessa efnis eru örlitlar berg- eða ísagnir sem brenna auðveldlega upp í lofthjúpi jarðar. Þú hefur áreiðanlega séð það gerast. Við köllum það stjörnuhröp eða loftsteinahröp.
Yfirleitt kemur mörgum á óvart þegar við segjum frá því, að björtustu stjörnuhröpin sem við sjáum, séu tilkomin af ögnum ekki mikið stærri en sandkorn.
Ef þú sérð eitthvað á stærð við baun eða tómat falla, sæirðu mjög bjart og glæsilegt stjörnuhrap sem skilur eftir sig slóð og mynd í auganu eins leifturljós.
Birta loftsteina
Hvernig í veröldinni geta svona litlar agnir orðið svona bjartar? Tvennt kemur til.
Þegar steinninn kemur inn í lofthjúpinn þjappar hann saman loftinu fyrir framan sig. Því þéttara sem loftið verður, því heitara verður það. Margir þekkja þetta eftir að hafa pumpað lofti í bolta eða dekk. Þegar loftinu er þrýst í gegnum nálina getur hún orðið svo heit að hægt er að brenna sig á henni.
Hitt atriðið er hraðinn sem loftsteinarnir eru á. Flestir rekast á jörðina á 11 til 40 km hraða á sekúndu en þeir hraðfleygustu ná 72 km hraða á sekúndu. Til samanburðar ferðast byssukúla á tæplega þreföldum hljóðhraða eða 1 km hraða á sekúndu. Loftsteinar ferðast sem sagt miklu, miklu hraðar.
Þegar svo hraðfleygur steinn, eða ögn, rekst á lofthjúpinn breytist hraði hans í orku sem flyst út í umhverfið í kring, þ.e.a.s. loftið. Steinn sem ferðast á 50 földum hljóðhraða Chelyabinsk steinninn í Rússlandi ferðaðist 53 sinnum hraðar en hljóðið þjappar miklu lofti saman fyrir framan sig og svo hratt, að þrýstingurinn verður ógnvænlegur. Loftið hitnar þá upp í þúsundir gráða og byrjar að glóa.
Steinninn, sem er örlítið fyrir aftan samþjappaða loftið, finnur vel fyrir hitanum og brennur upp á örskömmum tíma.
Flestum finnst hrapið skammt frá sér en í raun og veru er hasarinn í nokkurra tuga kílómetra hæð yfir jörðinni. Þar er loftið mjög þunnt en sem betur fer nógu þykkt til þess að verja okkur fyrir hagléli úr geimnum.
(Myndina af loftsteinahrapinu, Geminíta, tók Wally Pacholka)
Stærri steinar splundrast
Í tilviki steina sem eru nokkrir metrar í þvermál eins og Chelyabinsk steinninn gerast hlutirnir aðeins öðruvísi.
Í stað þess að brenna upp er krafturinn sem verkar á steininn svo ógurlegur að hann þjappast saman vegna mismunarins á loftþrýstingnum fyrir framan og aftan hann. Með öðrum orðum flest steinninn út og verður eins og pönnukaka!
Steinninn stenst ómögulega slíkt álag og sundrast. Á örfáum sekúndum hefur nokkurra metra breiður steinn sprungið í mörg hundruð eða þúsund mola. Einmitt þetta gerðist í tilviki steinsins í Chelyabinsk.
Við þetta getur birta steinsins orðið mjög mikil, jafnvel slagað upp í birtu sólar og í sumum tilvikum orðið bjartari!
Meðalstórir loftsteinar springa hátt í lofthjúpnum. Hversu hátt fer eftir því hvort steinninn sé úr bergi eða málmum. Járnsteinar standast þessi ósköp betur og geta náð dýpra inn í lofthjúpinn en springa samt hátt uppi.
Orkan sem þarf til að tvístra steininum á þennan hátt er sambærileg við nokkrar kjarnorkusprengjur, svipuðum þeim sem varpað var á Híróshíma og Nagasakí. Það kemur kannski á óvart en mælingar benda til að slík sprenging verði að jafnaði einu sinni í mánuði einhvers staðar á jörðinni. Langflestar verða fjarri mannabyggðum.
Höggbylgja og brot sem falla til jarðar
Við ferðalagið í gegnum lofthjúpinn og sprenginguna verður til öflug hljóðhöggbylgja. Hún berst jafnan tveimur til þremur mínútum síðar, allt eftir því í hvaða hæð steinninn er. Í Rússlandi barst hljóðhöggbylgjan þremur mínútum eftir að steinninn sást. Höggbylgjurnar geta komið fram á jarðskjálftamælum og verið mjög hættulegar eins og við sáum í Rússlandi.
Ef steinnin hefur hægt nægilega mikið á sér áður en hann springur geta smærri brot fallið til jarðar. Aftur eiga málmsteinar betri möguleika á því.
Brotin eru ekki ýkja hraðskreið þá. Þau falla álíka hratt og ef þau væru látin falla ofan af hárri byggingu á um 100 til 200 km hraða á klukkustund eða svo. Vissulega hratt en ekkert í líkingu við upphafshraðann.
Aðeins ein manneskja hefur orðið fyrir loftsteini svo vitað sé. Í Alabama í Bandaríkjunum í nóvember 1954 lá kona að nafni Ann Hodges í sófa heima hjá sér þegar loftsteinn á stærð við múrsteinn sem vó 4 kg féll í gegnum þakið á húsinu hennar, skoppaði af útvarpstæki (skáp) og á hana. Hún slasaðist ekki mikið en var hressilega marin á eftir.
Þann 2. október 1992 kom loftsteinn á stærð við rútu inn í lofthjúpinn yfir Peekskill New York ríki í Bandaríkjunum. Steinninn náðist á mynd og sést tvístrast í loftinu.
Eitt brotið, á stærð við fótbolta, féll á bíl og fór í gegnum skottið á honum. Tryggingarnar bættu ekki tjónið en eigandi bílsins gat selt hann fyrir mikið fé og er hann nú sýningagripur.
Steinarnir eru ekki heitir þegar þeir falla til jarðar og þaðan af síður glóandi; þeir eru volgir í besta falli en oftast kaldir.
Tunguska atburðurinn
Þann 30. júní árið 1908 varð mikil sprenging í óbyggðum Síberíu, nærri Tunguska fljóti. Sprengingunni olli fyrirbæri sem var mjög laust í sér en líklega 60 til 100 metrar í þvermál. Við sprenginguna losnaði orka sem var nokkur hundruð sinnum meiri en í kjarnorkusprengjunni í Híróshíma.
Fjölmörg vitni urðu að sprengingunni sem kom líka vel fram á jarðskjálftamælum. Fólk í nokkur hundruð kílómetra fjarlægð fauk um koll þegar höggbylgjan skall á því.
Sem betur fer gerðist þetta á svæði sem var fjarri mannabyggð. Það er skelfilegt að hugsa til þess ef þetta hefði gerst yfir Moskvu eða London. Borgin hefði hreinlega eyðst og milljónir látið lífið.
Mjög erfitt var og er að komast að staðnum og tók langan tíma. Þegar menn komust loks þangað blasti ekki við þeim gígur heldur höfðu tré á stóru svæði jafnast við jörðu. Höggbylgjan felldi trén, nema þau sem voru beint undir sprengingunni (til að fella trén þarf hliðarkraft).
Smástirnið sem flaug framhjá jörðinni á föstudagskvöldið var af svipaðri stærðargráðu. Búast má við atburði eins og þessum einu sinni á öld eða á nokkur hundruð ára fresti.
Risaeðluárekstur
Hvað um steina sem eru nokkrir kílómetrar að stærð?
Fyrir 65 milljónum ára rakst halastjarna eða smástirni, líklega 10 til 15 km breitt, á jörðina þar sem nú er Yucatán skagi í Mexíkó.
Það er erfitt að gera sér í hugarlund stærðina á þessu ferlíki. Ímyndaðu þér að við stöfluðum 15 Esjum ofan á hverja aðra og við komumst nálægt því.
Árekstrar af þessu tagi verða á nokkurra tuga milljóna ára fresti, ef til vill 100 milljón ára fresti. Sem betur fer. Risaeðlurnar áttu nefnilega mjöööög slæman dag þegar þetta gerðist.
Við innkomuna í lofthjúpinn varð til skelfileg höggbylgja. Nokkur þúsund gráðu heitt loftið kveikti í öllu í margra kílómetra fjarlægð.
Áreksturinn varð í hafi svo risavaxin flóðbylgja, nokkur hundruð metra há, æddi af stað yfir jörðina á næstum 1000 km hraða klukkustund!
Þegar steinninn snerti loks bergið á hafsbotni varð gríðarleg sprenging margar milljónir megatonna sem þeytti bráðnu bergi og vatnsgufu til himins.
Strókurinn náði tugi kílómetra upp í himininn, bjartur eins og sólin.
Höggbylgjan drap allt lifandi í mörg hundruð kílómetra fjarlægð. Hinumegin á jörðinni misstu greyið dýrin fótana og heyrnina uns flóðbylgjan sópaði þeim burt.
Gígurinn varð næstum 200 km í þvermál og 30 km djúpur. Sjór flæddi ofan í hann, gufaði upp í miklum sprengingum sem olli enn frekari hörmungum.
Glóandi berg sem hafði þeyst upp í himininn við áreksturinn rigndi aftur niður á jörðina, olli sumstaðar fleiri litlum árekstrum og kveikti í skógum. Sót, aska og ryk þyrlaðist upp í lofthjúpinn sem skyggði á sólina í mörg ár á eftir. Rigningin varð súr. Ósonlagið eyddist.
Í kjölfarið kólnaði jörðin verulega og við tók mikið kuldaskeið sem eirði engu nema allra harðgerðustu plöntum og dýrum. Ekki einu sinni sjávarlífverur áttu sér viðreisnar von.
Chelyabinsk steinninn: Hvað vitum við?
Hvað vitum við um atburðinn í Rússlandi í gær? Í fyrsta lagi er þetta mjög sögulegt. Aldrei áður hefur jafn margt fólk slasast af völdum loftsteinahraps og aldrei hefur orðið viðlíka tjón. Þetta er mesti loftsteinaatburðurinn frá Tunguska árekstrinum árið 1908.
Bill Cooke, loftsteinasérfræðingur hjá NASA, hefur birt bráðabirgðaútreikninga á steininum:
- Steinninn var líklega um 17 metrar að þvermáli og vó 7000 til 10000 tonn
- Hann kom inn í lofthjúpinn á 18 km hraða á sekúndu (50 földum hljóðhraða) sem er í hægari kanntinum.
- Steinninn tvístraðist í 15 til 20 km hæð yfir jörðinni.
- Orkan sem losnaði þegar steinninn sprakk var í kringum 500 kílótonn. Til samanburðar var kjarnorkusprengjan sem varpað var á Híróshíma 16 kílótonn. Loftsteinninn var því tæplega 30 sinnum öflugri. Til samanburðar var Keisarasprengjan (Tsar Bomba), öflugasta kjarnorkusprengja sem sprengd hefur verið, 114 sinnum öflugri (57 megatonn).
Sem betur fer eru atburðir eins og í Chelyabinsk fremur fátíðir. Samt megum við eiga von á einhverju af þessu tagi á nokkurra ára fresti. Síðast gerðist samskonar viðburður yfir Saharaeyðimörkinni í Súdan árið 2008, þó nokkuð minni.
(Tölur uppfærðar 19. feb með nýjustu upplýsingum)
Hafa loftsteinar fallið á Íslandi?
Reiknað hefur verið út að um 20 loftsteinar lendi á hverjum milljón rúmkílómetrum á hverju ári. Árlega ættu því 1 til 2 loftsteinar að lenda á Íslandi (þakka Vilhelm Sigmundssyni stjarneðlisfræðingi fyrir þennan punkt).
Brotin leynast einhvers staðar á landinu þótt þau hafi aldrei fundist. Loftsteinarnir eru jafnan dökkir eins og flest berg á Íslandi svo mjög erfitt er að finna þá.
Margir Íslendingar hafa orðið vitni að mjög björtum vígahnöttum, við þar á meðal.
Hvað getum við gert?
Stjörnufræðingar og ekki síst stjörnuáhugamenn halda úti verkefnum sem ganga út á að finna öll hættuleg smástirni í nágrenni okkar í geimnum. Ég ætla að skrifa meira um þau síðar enda af nógu að taka og þessi pistill fyrir lifandis löngu orðinn alltof langur.
- Sævar Helgi
Vísindi og fræði | Breytt 19.2.2013 kl. 09:03 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
13.2.2013 | 20:58
Áttu sjónauka en kannt ekki á hann? Opið hús hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness
Á undanförnum árum hafa ótalmargir eignast stjörnusjónauka. Við vitum líka að margir hafa aldrei lært almennilega á gripinn og sumir kunna hreinlega ekkert á hann.
Úr því vill Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness bæta.
Einu sinni í mánuði (oftast í kringum fullt tungl) býður félagið upp á opið hús í Valhúsaskóla þar sem allir geta komið með sjónaukann sinn og fengið kennslu á hann (líka þið sem eruð ekki félagsmenn). Ef sjónaukinn er bilaður munum við reyna að lagfæra hann eftir bestu getu.
Húsið verður opið hvort sem sést til stjarna eða ekki núna á föstudaginn (15. febrúar) milli klukkan 20 og 22. Ef þú átt ekki sjónauka er hægt að líta við, fá fræðslu um stjörnuskoðun, félagið og ef sést til stjarna geturðu fengið að sjá í gegnum stærsta sjónauka landsins.
Vertu hjartanlega velkominn í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi föstudagskvöldið 15. febrúar milli klukkan 20 og 22!
- Sævar Helgi
Fimmtudaginn 14. febrúar heldur bandaríski stjörnufræðingurinn Jeffrey Bennett fyrirlestur sem hann nefnir Leitin að lífi í alheimi. Fyrirlesturinn fer fram í stofu M101 (einnig kölluð Bellatrix) í Háskólanum í Reykjavík og hefst klukkan 17:15. Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.
Ágrip: Er líf á öðrum hnöttum? Í fyrirlestri sínum fjallar stjörnufræðingurinn og rithöfundurinn Jeffrey Bennett um þessa spurningu og hvers vegna hún er orðin að vinsælu rannsóknarefni, sem og hvernig vísindamenn leita að bæði örveru- og vitsmunalífi í geimnum. Rætt er um hvers vegna möguleikinn á lífi utan jarðar hefur djúpstæðar afleiðingar í för með sér fyrir framtíð mannkyns, jafnvel þótt svo ólíklega vilji til að við séum ein í alheiminum. Fyrirlesturinn er byggður á nýlegri bók Bennetts, Beyond UFOs sem kom út á vegum Princeton University Press árið 2011 og hlotið hefur lof gagnrýnenda.
Jeffrey Bennett lauk doktorsprófi í stjarneðlisfræði frá Colorado háskóla í Bandarikjunum. Hann hefur mikla reynslu af rannsóknum og kennslu á öllum skólastigum, auk þess sem hann starfaði í tvö ár sem vísindamaður hjá NASA og hafði umsjón með þróun á Voyage sólkerfislíkaninu í National Mall í Washington, DC. Bennett er aðalhöfundur kennslubóka á háskólastigi í stjörnufræði, stjörnulíffræði, stærðfræði og tölfræði en bækurnar hafa selst í meira en milljón eintökum. Bækur Bennetts fyrir almenning, Beyond UFOs og Math for Life (2012) hafa fengið mjög góðar viðtökur. Að auki hefur Bennett skrifað nokkrar barnabækur. Heimasíða hans er www.jeffreybennett.com
Viðburður: Fyrirlestur um leitin að lífi í alheimi
Hvar: Háskólinn í Reykjavík, stofa M101 (Bellatrix)
Hvenær: Fimmtudagurinn 14. febrúar kl. 17:15
Opið hús hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness föstudagskvöldið 15. febrúar
Milli kl. 20-22 föstudagskvöldið 15. febrúar verður opið hús hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness. Ef veður leyfir verður boðið upp á stjörnuskoðun en fólk getur a.m.k. komið með sjónauka og lært betur á þá og fengið fræðslu um stjörnuskoðun.
Inngangurinn á suðurhlið Valhúsaskóla sem snýr út að knattspyrnuvellinum.
Allir velkomnir!
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 12:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
10.2.2013 | 19:48
Nú hefst rannsóknarleiðangurinn fyrir alvöru
Glæsilegt útsýni! Curiosity í Gale gígnum á Mars í febrúar 2013. Mynd: NASA/JPL-Caltech/Damien Bouic
Eftir sex mánuði á Mars hefur Curiosity loksins borað sínar fyrstu holur. Þetta er stærsti áfangi leiðangursins frá lendingunni í ágúst í fyrra því borunin er tæknilega flókin og tímafrek. Öll tæki jeppans hafa nú verið prófuð svo vísindamenn geta tekið við lyklunum af verkfræðingunum. Nú hefst rannsóknarleiðangurinn fyrst fyrir alvöru!
Þetta er í fyrsta sinn sem borað er í berg á Mars og markar þess vegna tímamót. Sýnum hefur reyndar verið safnað áður í sólkerfinu með þessum hætti en NASA hefur ekki gert slíkt áður í ómönnuðum leiðöngrum sínum. Á Viking og Phoenix Marsförunum voru skóflur sem söfnuðu sýnum en engar borvélar. Tunglfararnir sóttu hins vegar sýni niður á allt að tveggja metra dýpi á tunglinu með borvélum.
Sovésku tunglförin Luna söfnuðu borsýnum á tunglinu og í Venera förunum, sem lentu á Venusi, voru líka borar innanborðs. Í evrópska geimfarinu Rósetta, sem er á leið til halastjörnunnar Churyumov-Gerasimenko, er borvél sem mun bora allt að 25 cm í halastjörnuna.
Borvél Curiosity er merkilegt tæki eins og reyndar öll í jeppanum. Við skulum skoða hana nánar.
Borvél Curiosity
Borinn á Curiosity er flókin smíð og tímafrekt að safna sýnum með honum. Á tveimur árum verður borinn notaður að minnsta kosti tuttugu sinnum.
Borinn er á armi jeppans. Á honum eru tvær stangir eða nemar sem þrýst er á grjótið með 300-400 Newton krafti; ekki ósvipuðum krafti og ef maður leggur lófana ofan á borð og reynir að lyfta sér upp. Þannig nær jeppinn góðu taki á grjótinu sem minnkar líkurnar á að hann renni til við borunina. Þetta sést ágætlega á myndinni hér undir:
Tilbúinn! Viðbúinn! Bora! Mynd: NASA/JPL-Caltech
Borvélin er ekki ósvipuð dæmigerðum höggborum sem hægt er að kaupa í byggingavöruverslunum. Munurinn er hins vegar sá að í stað þess að losa sig við duftið, safnar borinn því með nokkurs konar dælu (Arkímedesarskrúfu) sem flytur duftið í gegnum pípu upp í tvo sýnaklefa fyrir aftan borinn. Með þessum sýnaklefum getur borinn sótt sýni í berg sem hallar allt að 20 gráður frá láréttu. Án þeirra gætu sýnin einfaldlega fallið út úr bornum.
Boraðar eru í kringum 5 cm djúpar og 1,6 cm breiðar holur í berg sem er malað í fínt duft. Sýnið sem útbúið er með þessum hætti er mjög lítið aðeins á stærð við hálfa ópaltöflu og vegur ekki nema um 20-50 millígröm. Það er síðan flutt í SAM og/eða CheMin til frekari efnagreiningar.
Borvélin á armi Curiosity. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS
Borinn er hannaður til að sækja þurr sýni. Ef svo óheppilega vill til að sýnið sé rakt gæti það stíflað kerfið. Það hljómar eflaust skringilega að menn hafi áhyggjur af því á jafn þurri reikistjörnu og Mars en staðreyndin er sú að ýmsar steindir gætu innihaldið vatn sem gætu orðið að leðju í stað fíns dufts við borun. Það eru einmitt þær steindir sem eru áhugaverðastar.
Fyrst þarf jeppinn að greina bergið eins nákvæmlega og unnt er. Upplýsingum er aflað með MAHLI lúpunni (smásjánni), efnagreining gerð með APXS litrófsritanum og ChemCam sem skýtur leysigeisla á bergið, að ógleymdum Mastcam myndavélunum sem taka myndir af því. Harka bergsins er jafnframt könnuð með því að bora grunna holu áður en aðalholan er gerð.
Fyrir og eftir tilraunaborun 6. febrúar 2013. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS
Gögnin úr þessum mælingum eru borin saman við mælingar á samskonar bergi á jörðinni. Samanburðurinn segir okkur til um hvort bergið sé heppilegt til borunar eða ekki. Ef samanburðargögnin veita ekki fullnægjandi svör, þarf að gera frekari prófanir á jörðinni.
Öll sýni eru sömuleiðis hrist til að tryggja að agnirnar hreyfist. Sýnið er síðan sigtað og gert klárt fyrir flutning í SAM og CheMin. Ef allt gengur upp er borinn hristur frekar til að losa burt allt efni sem gæti mögulega stíflað hann. Ef það heppnast ekki er hægt að grípa til frekari ráðstafana til að losa borinn við afgangsefni.
Eins og sjá má getur það tekið langan tíma að undirbúa borun; nokkra daga ef allt gengur upp en líka fáeinar vikur ef menn eru óöryggir.
Fyrstu holurnar
Þann 8. febrúar boraði Curiosity fyrstu holuna í fínkornótt setberg sem kallast John Klein (eftir verkefnastjóra Curiosity sem lést árið 2011) í Yellowknife flóa á Glenelg svæðinu eins og myndin hér undir sýnir:
Holurnar sem Curiosity hefur borað á Mars. Fyrri holan, sú grynnri (um 2 cm að dýpt), er tilraunahola en með seinni holunni, þeirri dýpri (6,4 cm að dýpt), náðust sýni sem notuð verða til að hreinsa borinn. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS
Borað var rétt við ljósa æð í berginu sem líklega er vatnað kalsíum súlfat eða gifs. Þetta berg geymir vísbendingar um lífvænleika staðarins fyrir óralöngu.
Á næstu dögum verður fyrsta sýnið notað til að hreinsa borinn af þeim efnum sem bárust með jeppanum frá jörðinni. Það er gert með því að hrista borinn og spýta sýninu svo út, ekki ósvipað og þegar við skolum munninn með munnskoli.
Sjálfsmynd Curiosity í Yellowknife flóa á Glenelg svæðinu þar sem hann notaði borvélina í fyrsta sinn. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS
- Sævar Helgi
Söguleg stund á Mars | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Vísindi og fræði | Breytt 11.2.2013 kl. 00:21 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (10)
7.2.2013 | 15:00
Hvað sést á stjörnuhimninum í febrúar?
Sjónaukinn 6. þáttur - Horft til himins í febrúar 2013 from Stjörnufræðivefurinn on Vimeo.
Í sjötta þætti Sjónaukans er fjallað um það sem sjá má á stjörnuhimninum yfir Íslandi í febrúar 2013. Fjallað er um samstöðu Mars og Merkúríusar snemma í mánuðinum en athyglinni þó einkum beint að þremur björtum stjörnum sem mynda Vetrarþríhyrninginn svonefnda sem er áberandi á kvöldhimninum í febrúar.
Framleiðendur eru Stjörnufræðivefurinn og Geimstöðin. Umsjónarmaður þáttarins er Sævar Helgi Bragason, einn af ritstjórum Stjörnufræðivefsins.
6.2.2013 | 12:29
Stjörnuskoðunarfélagið á Safnanótt á föstudagskvöld
Frá klukkan 19:00 til 23:00 föstudagskvöldið 8. febrúar mun Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness fræða gesti og gangandi um stjörnufræði í Víkinni Sjóminjasafninu í Reykjavík að Grandagarði 8. Tilefnið er Safnanótt sem fram fer þetta kvöld en hún er hluti af Vetrarhátíð í Reykjavík.
Ef veður leyfir verður boðið upp á stjörnuskoðun utandyra.
Við minnum einnig á fræðsluerindi um örnefni í sólkerfinu sem haldið verður daginn eftir, laugardaginn 9. febrúar klukkan 13:15 í stofu 106 í Odda, húsi Háskóla Íslands (sjá tilkynningu). Þangað eru allir hjartanlega velkomnir.
4.2.2013 | 19:36
Curiosity notar borinn í fyrsta sinn og tekur aðra sjálfsmynd
Ó-mæ-vá!
Túristinn Curiosity sendi okkur þetta góðgæti í dag frá Mars, sjálfsmynd númer 2, nú frá Yellowknife flóa þar sem jeppinn er að undirbúa boranir.
Borvélin er listasmíð eins og allt annað á jeppanum. Á honum eru tvær stangir eða nemar sem er þrýst á grjótið með 300-400 Newtona krafti; ekki ósvipuðum krafti og ef maður leggur lófana ofan á borð og reynir að lyfta sér upp. Þannig nær jeppinn góðu taki á grjótinu sem minnkar líkurnar á að hann renni til við borunina. Þetta sést ágætlega hér undir:
Svona lítur borvélin út:
Fyrir örfáum dögum var hann notaður í fyrsta sinn og var þá þessi örlitla hola gerð:
Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS
Ljósa æðin er sennilega vatnað kalsíum súlfat, gifs, sem við fjölluðum um í annarri bloggfærslu. Myndin var tekin með MAHLI smásjánni.
Á næstu dögum verða boraðar fleiri holur, allt að 5 cm djúpar. Borinn mylur bergið og býr þannig til sýni sem svo verður flutt í efnagreiningartækin SAM og Chemin.
Fjöllum betur um það síðar.
- Sævar Helgi
3.2.2013 | 10:55
Hvers vegna bera gígar á Merkúríusi nöfn Íslendinga?
Segja má að könnun sólkerfisins séu landafundir nútímans. Sífellt finnast ný fyrirbæri í sólkerfinu sem gefa þarf nöfn. En hvernig stendur á því að gígur á Merkúríusi er nefndur eftir íslenskri myndlistarkonu á meðan annar gígur á Mars ber nafn lítils bæjarfélags á Íslandi eða frægs vísindamanns? Hvers vegna er Mývatn líka að finna á Satúrnusartunglinu Títan?
Laugardaginn 9. febrúar næstkomandi mun ég flytja fyrirlestur á vegum Nafnfræðifélagsins sem nefnist Örnefni í sólkerfinu. Fyrirlesturinn fer fram í stofu 106 í Odda, húsi Háskóla Íslands og hefst klukkan 13:15
Í fyrirlestrinum verður fjallað um þær reglur, hefðir og þemu sem gilda um örnefni í sólkerfinu og hver það eru sem gefa stöðunum nöfn.
Allir hjartanlega velkomnir!
- Sævar Helgi
30.1.2013 | 20:29
Fyrirlestur um Curiosity og halastjörnur í Vestmannaeyjum
Fimmtudagskvöldið 31. janúar 2013 fer fram fræðsluerindi um Marsjeppann Curiosity á vegum Stjörnufræðifélags Vestmannaeyja í Safnahúsinu í Vestmannaeyjum, jarðhæð. Erindið hefst klukkan 19:30 og er öllum opið. Það er Sævar Helgi Bragason, formaður Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness, sem flytur erindið.
Einnig verður flutt erindi um halastjörnurnar PanSTARRS og ISON en sú síðarnefnda gæti orðið mjög áberandi á stjörnuhimninum í lok árs.
Ef veður leyfir verður farið í stjörnuskoðun að erindi loknu.
Allir velkomnir!
- Sævar Helgi