Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Síðustu andartök Kaguya

Við sögðum frá því þegar japanska tunglkönnunarfarinu Kaguya var viljandi brotlent á tunglinu þann 11. júní síðastliðinn. JAXA, Geimferðastofnun Japans, sendi nýverið frá sér háskerpumyndir sem sýna síðustu andartökin í lífi Kaguya, skömmu áður en geimfarið brotlenti í Gill gígnum á suðurhveli tunglsins.

kaguya-image-before-impact.jpg

kaguya-2nd-to-last.jpg

Þetta eru glæsilegar myndir!

Ég veit einungis um eina myndaröð af árekstrinum sjálfum. Það voru stjörnufræðingar í ástralskri stjörnustöð sem náðu þessum myndum:

kaguya-impact-580x158.jpg

Gaman er að hugsa til þess að við munum fá enn glæsilegri ljósmyndir af yfirborði þessa næsta nágranna okkar í geimnum innan fáeinna vikna, eða þegar Lunar Reconnaissance Orbiter byrjar að senda gögn til jarðar. Í október verður svo annar árekstur geimfars, LCROSS, við tunglið.


Hvar eru allir sólblettirnir? Ráðgátan leyst?

solin_solblettasveifla

Undanfarin misseri hafa einstaklega fáir sólblettir verið á sólinni. Virkni sólar hefur þess vegna verið óskaplega lítil. Áhugavert er að fylgjast með hvers vegna því virkni sólar hefur áhrif á okkur hér á jörðinni. Þegar virknin er sem mest verða oft miklar sprengingar á sólinni, sólblossar og kórónuskvettur, sem mynda norðurljósin hér á jörðinni, en geta einnig eyðilagt gervitungl og valdið rafmagnsleysi með tilheyrandi kostnaði.

Þess vegna er mjög mikilvægt að vita hvers vegna sólin er svona einstaklega róleg.

Þessa dagana stendur yfir í Boulder í Colorado ráðstefna stjörnufræðinga sem sérhæfa sig í rannsóknum á sólinni. Í gær héldu stjörnufræðingar blaðamannafund þar sem þeir skýrðu frá stórmerkum niðurstöðum sem varpa ljósi á horfnu sólblettina, hvers vegna seinkun hefur verið á nýrri sólblettasveiflu og hvers vegna sólblettirnir nýrrar sveiflu myndast fyrst á háum breiddargráðum á sólinni.

Niðurstöður rannsóknanna gætu orðið til þess að við gætum spáð nákvæmlega fyrir um geimveðrið.

Meira um það í frétt á Stjörnufræðivefnum.


Nóg að gera á Canaveralhöfða

Það er nóg um að vera á Canaveralhöfða í Flórída þessa dagana. Eftir að lekinn úr eldsneytistanki geimferjunnar uppgötvaðist á laugardaginn síðasta varð NASA að fresta öðru geimskoti fram um einn dag.

Annað kvöld, fimmtudagskvöldið 18. júní, verður tveimur nýjum tunglkönnunarförum, Lunar Reconnaissance Orbiter og LCROSS, skotið á loft, ef allt gengur eftir, klukkan 21:12 að íslenskum tíma. Þú getur lesið meira um þennan spennandi leiðangur á Stjörnufræðivefnum.


mbl.is Geimskoti aftur frestað
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Halldór Björnsson í Vísindaþættinum í dag

Fyrir tveimur vikum átti Halldór Björnsson loftslagsfræðingur að vera í Vísindaþættinum. Fyrir örlítinn misskilning mætti hann ekki í viðtalið og varð því ekkert úr því. Við munum bæta úr því og fjalla um loftslagsmálin í dag milli 17 og 18 á Útvarpi Sögu.

---

Leiðangri LRO og LCROSS var frestað um einn dag vegna bilunar sem kom upp í geimferjunni, eins skrítið og það hljómar. Þannig er að geimferjan átti að fara á loft á laugardaginn til Alþjóðlegu geimstöðvarinnar, en bilun kom upp í appelsínugula eldsneytistanknum (vetni í honum lak út) sem varð til þess að förinni var frestað. Geimferjan á nú að fara á loft á morgun ef allt gengur eftir og þess vegna víkur geimskot LRO og LCROSS. Geimskotið verður því að öllum líkindum á fimmtudaginn kl. 21:12 að íslenskum tíma. Nánar má lesa um leiðangurinn á Stjörnufræðivefnum.

---

Að minnsta kosti ein mynd náðist af árekstri japanska geimfarsins Kaguya við tunglið þann 10. júní síðastliðinn. Stjörnufræðingar við Anglo-Ástralska sjónaukann (sem er 3,9 metrar í þvermál) í Siding Spring í Ástralíu tóku þessar myndir:


LRO og LCROSS búin undir geimskot - Skeyti á stærð við Land Cruiser rekst á tunglið

Þann 17. júní verður tveimur nýjum tunglkönnunarförum, Lunar Reconnaissance Orbiter (LRO) og LCROSS, skotið saman á loft frá Canaveralhöfða í Flórída. Með þessum geimförum hefst endurkoma NASA til tunglsins fyrir alvöru, fjörutíu árum eftir að menn stigu þar fyrst fæti.

LRO er brautarfar sem ætlað er að kortleggja yfirborð tunglsins mjög nákvæmlega og leita eftir vísbendingum um vatnsís í skyggðum gígum við pólsvæði tunglsins. Um borð í geimfarinu er mjög öflug myndavél sem er fær um að ljósmynda þau tæki sem Apollo geimfararnir skildu eftir sig fyrir fjörutíu árum.

LCROSS mun aftur á móti beina efsta stigi Atlas V eldflaugarinnar, sem kom geimförunum á loft, niður að yfirborði tunglsins í október næstkomandi. Efsta stig eldflaugarinnar gegnir því hlutverki skeytis sem á að klessa á gígbotn við suðurpól tunglsins á 9000 km hraða á klukkustund. Efsta stig eldflaugarinnar er á stærð við Land Cruiser jeppa. Við áreksturinn þyrlast upp jarðvegur sem LRO og sjónaukar á jörðu niðri munu rannsaka ítarlega í þeirri von að þar finnist ummerki íss. LCROSS bíða sömu örlög, nokkrum mínútum síðar.

Nánar er sagt frá þessu á Stjörnufræðivefnum.

Sjá einnig ítarlega grein um Lunar Reconnaissance Orbiter og LCROSS á Stjörnufræðivefnum.


Japanskt geimfar klessir á tunglið

Japanska geimfarið Kaguya mun klessa á tunglið í dag kl. 18:30 að íslenskum tíma. Með þessum hætti er verið að binda endi á tveggja ára langan rannsóknarleiðangur geimfarsins umhverfis tunglið.

Vonandi munu stjörnuáhugamenn í Asíu og Ástralíu ná myndum af atburðinum. 


Nýjustu þættirnir komnir á vefinn

Vísindaþættir síðustu þriggja vikna eru loksins komnir á Stjörnufræðivefinn. Í þar síðustu viku fjölluðum við um strengjafræði, þá ystu mörku sólkerfisins og loks sjávarlíffræði í gær.

Í næstu viku kemur Halldór Björnsson að fjalla um loftslagsmál og vikuna þar á eftir heimsækir Martin Ingi Sigurðsson, doktorsnemi í erfðafræði, okkur og fjallar um sjúkdóma.

Sjá á Stjörnufræðivefnum.


Kominn tími til að setja þak á kaupverð og laun

Stenst ekki freistinguna að skrifa um þetta rugl. Enginn fótboltamaður er 11 milljarða króna virði. Enginn. Þetta er lítilsvirðing við fátækt fólk út um allan heim og lítilsvirðing við fótboltan. Það er kominn tími til að setja þak á kaupverð og laun þessara manna, nú eða að skilda þessi lið til að gefa að minnsta kosti 10% af kaupverði leikmanna í góðgerðarmál.

Fyrir utan nú það að maðurinn er ekki svona ofboðslega miklu betri en Steven Gerrard, Lionel Messi, Andrés Iniesta, Xavi eða Christiano Ronaldo. Hann er ekki betri en Zidane var á sínum tíma. Zidane var yfirburðamaður, það er Kaká ekki.

Ég held með Liverpool og vildi frekar fá Xavi eða Iniesta í mitt lið frekar en Kaká, svo ekki sé minnst á Messi.

Þetta er ágætis lesning um þennan leikmann.

Ég hef komið til Brasilíu, bæði Sao Paulo og Rio de Janeiro. Ég held að þessum peningum yrði vel varið í uppbyggingu þar fremur en Vetrarbrautastefnu Florentino Perez.


mbl.is Kaká til Real Madrid fyrir metfé
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Stjörnufræðiþættir á RÚV

Við viljum vekja athygli lesenda á nýrri þáttaröð um sólkerfið sem hefur göngu sína á RÚV kl. 21:00 í kvöld. Þættirnir eru frá BBC, 13 talsins og aðeins 15 mínútur að lengd. Á frummálinu nefnast þeir „Space Files“ og ef marka má vefsíðu BBC er notast við fullkomna tölvugrafík og hreyfimyndir til þess að sýna áhorfendum inn í heim reikistjarnanna.

Góða skemmtun!


Grindavík og Mývatn eru ekki bara á Íslandi!

Vissir þú að í sólkerfinu okkar bera fimm gígar og eitt stöðuvatn íslensk nöfn?

Á innstu reikistjörnunni, Merkúríusi, eru tveir gígar sem nefndir eru eftir Íslendingum. Þetta eru gígarnir Snorri og Sveinsdóttir. Gígurinn Snorri er vitaskuld nefndur eftir sagnaritaranum Snorra Sturlusyni en Sveinsdóttir er nefndur eftir lisakonunni Júlíönu Sveinsdóttur. Sjá nánar á Stjörnufræðivefnum.

Á rauðu reikistjörnunni Mars eru þrír gígar nefndir eftir íslenskum bæjarfélögum, þ.e. Vík, Reykholt og Grindavík. Á Mars er ennfremur gígur sem nefndur er Ejriksson eftir Leifi heppna Eiríkssyni. Í gagnagrunni nafnanefndar Alþjóðasambands stjarnfræðinga er Leifur þó ekki Íslendingur heldur norrænn landkönnuður. Sjá nánar á Stjörnufræðivefnum.

En hvar í sólkerfinu eru stöðuvötn annars staðar en á jörðinni? Við vitum ekki um nein stöðuvötn annars staðar en á jörðinni sem eru úr fljótandi vatni (H20) þar sem aðstæður í sólkerfinu leyfa það ekki. En á Títan, tungli Satúrnusar, er um það bil 180°C frost og við það hitastig er metan fljótandi. Í þykkum lofthjúpi Títans eru metandropar sem rignir niður á yfirborðið og safnast fyrir í dældum og lægðum, sér í lagi við pólsvæðin. Á norðurpól Títans er fjöldi stöðuvatna. Eitt þeirra heitir Mývatn.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband