Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Loftsteinadrífa nær hámarki í nótt - Curiosity fær sér að borða

Í nótt nær loftsteinadrífan Óríonítar hámarki.

Óríonítar er loftsteinadrífa í meðallagi sem stendur yfir frá 15. til 29. október ár hvert. Við hámarkið sjást venjulega í kringum 20 hraðfleygir loftsteinar á klukkustund en þeir geta verið fleiri sum ár.

Í nótt gætum við átt von á 20 til 30 stjörnuhröpum á klukkustund úr drífunni.

Óríoníta má rekja til rykslóðar sem halastjarnan Halley hefur skilið eftir sig á ferðalögum sínum inn í innra sólkerfið.

Þegar jörðin ferðast í gegnum rykslóðina verða mörg stjörnuhröp sem virðast stefna úr tilteknu stjörnumerki, í þessu tilviki við hlið Óríons, rétt fyrir ofan björtu, rauðu risastjörnuna Betelgás.

Óríon kemur upp á austurhiminn um klukkan 01:00 eftir miðnætti. Merkið er í hásuðri klukkan 07 í fyrramálið svo árrisulir ættu að líta til himins þá.

screen_shot_2012-10-20_at_12_40_32_pm.png

Á hverju ári verða margar loftsteinadrífur, sumar meira áberandi en aðrar. Hér má sjá töflu yfir helstu drífur sem sjást frá Íslandi.

Curiosity fær sér að borða

Síðustu tvær vikur hefur Curiosity verið að störfum við Rocknest, litla sandöldu á Glenelg svæðinu. Þar breiddi jeppinn út tækjaarm sinn og tók fyrstu skóflustungurnar á Mars.

grotzinger-1pia16231-br2.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech

Eins og sjá má á myndinni hér fyrir ofan voru þrjár skóflustungur teknar. Fyrstu tvö sýnin voru notuð til að hreinsa skófluna af óhreinindum sem bárust frá jörðinni eins og ég lýsti í eldri færslu en þar var einnig fjallað um einkennilegan bjartan hlut sem sást fyrir neðan jeppann.

Þetta ferli tók lengri tíma en búist var við vegna ljósa fyrirbærisins sem sést á myndinni hér undir (það er um einn millímetri að stærð). Menn voru ekki vissir um hvort þetta fyrirbæri tilheyrði jeppanum eða væri upprunalega frá Mars.

grotzinger-3pia16233-br2.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Eftir nokkra yfirlegu og rannsóknir var komist að þeirri niðurstöðu að um efni frá Mars væri að ræða, hugsanlega ljóst sandkorn. Á næstunni verður ChemCam leysigeislanum skotið á efnið til að kanna samsetningu þess.

Þriðja sýnið var síðan flutt inn CheMin, aðra af tveimur tilraunastofum í skrokki jeppans, CheMin stendur fyrir Chemistry & Mineralogy og er, eins og nafnið bendir til, efna- og steindagreiningartæki. Tækið mælir efnasamsetningu bergs og jarðvegs með því að skjóta röntgengeislum á sýnin.

0071ml0423000000e1_dxxx.jpg

Þetta er fínasta efnið sem Curiosity kannar á Mars. Það er að mestu sandur og silt sem gæti hafa borist langt að með vindinum á Mars, til dæmis í miklum sandstormum sem umlykja oft alla reikistjörnuna.

Á næstu dögum verður annað sýni svo sett í SAM, Sample Analysis at Mars, hina tilraunastofu jeppans. SAM getur greint lífræn efni og gastegundir í lofthjúpnum og af yfirborðinu.

Nánar að því síðar!

- Sævar Helgi


mbl.is Hvítur hlutur á Mars vekur forvitni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Fjórar sólir á himninum

Hann er áreiðanlega óskaplega fallegur himininn sem blasir við athuganda sem stæði á þessari nýuppgötvuðu reikistjörnu, eða kannski svifi í lofthjúpi hennar. Á daginn sæjust tvær bjartar sólir, önnur gulhvít en hin appelsínugul og tvær aðrar fjarlægar sólir, önnur gul og hin appelsínugul, lýstu upp nóttina. Stundum sjást þær allar fjórar á himninum. Þarna er sennilega sjaldan alveg dimmt.

transitingexostarsmall.pngKC 4862625 er kerfi tveggja tvístirna, A og B en reikistjarnan, PH1 (Planet Hunters 1) snýst í kringum báðar stjörnurnar í kerfi A. A og B kerfin eru á braut um sameiginlega massamiðju svo um fjórstirni er að ræða (tvö tvístirni). B-kerfið hefur vitaskuld þyngdaráhrif á reikistjörnuna en þau eru nánast hverfandi í samanburði við áhrifin frá kerfi A.

Reikistjarnan fannst í gögnum Keplerssjónaukans sem leitar að reikistjörnum með þvergönguaðferðinni (svipað og þegar Venus gekk fyrir sólina í júní á þessu ári).

Kerfi A er myrkvatvístirni frá okkur séð, þ.e. stjörnurnar ganga fyrir hverja aðra á aðeins 20 dögum (umferðartími þeirra er 20 dagar). Umferðartími reikistjörnunnar er mun lengri.

A-kerfið samanstendur af stjörnu af F-gerð sem er 73% breiðari en sólin og 53% massameiri (Aa) og daufari stjörnu af M-gerð sem er minni og kaldari en sólin (38% af breidd hennar og 41% af massanum).

Í B-kerfinu er stærri stjarnan nánast jafn stór sólinni að breidd og massa og því sömu litrófsgerðar (G2). Fylgistjarnan er hins vegar helmingi minni og því svipuð daufari stjörnunni í A-kerfinu. Bilið milli þessara stjarna er 40-60 stjarnfræðieiningar, þ.e. 40 til 60 sinnum meiri en fjarlægðin milli jarðar og sólar sem er álíka mikil fjarlægð og Plútó er í frá sólinni.

Bilið milli A og B-kerfanna er svo 1000 sinnum meiri en fjarlægðin milli jarðar og sólar (1000 x 150.000.000 km) eða 150 milljarða km í burtu.

Út frá birtuminnkuninni sem mælist þegar reikistjarnan gengur fyrir aðra hvora stjörnuna í kerfi A, er hægt að finna út að reikistjarnan er 6 sinnum breiðari en jörðin.

Ekki er hægt að mæla massann með þvergöngumælingum svo gera þarf sjónstefnumælingar. Þær virka þannig að tekið er litróf af ljósi stjarnanna. Í litrófum stjarna eru litrófslínur (nokkurs konar strikamerki eða fingraför) en þegar reikistjarnan hringsólar um kerfið, togar hún í stjörnurnar. Þær virðast þess vegna vagga til og frá vegna þyngdaráhrifa frá reikistjörnunni, svipað og sleggja sem togar í sleggjukastara.

Vaggið kemur fram í litrófslínunum. Þegar stjörnurnar færast frá okkur, hliðrast línurnar í átt að rauða enda litrófsins en að bláa endanum þegar stjörnurnar nálgast okkur. Hliðrunin gefur okkur efri mörk á massa fyrirbærisins sem er að toga í stjörnurnar.

Þessi mæling gefur að reikistjarnan sé í mestu lagi helmingi massaminni en Júpíter, eða 169 sinnum massameiri en jörðin. Þegar allt annað sem hefur áhrif er tekið í reikninginn kemur í ljós að massinn er 20 til 50 sinnum meiri en jarðar eða aðeins 0,08 til 0,14 sinnum Júpíters.

Reikistjarnan er því svipuð Úranusi og Neptúnusi.

Á morgun klukkan 17:00 mun ESO tilkynnina um annan merkan reikistjörnufund. Fylgist með því! 

Hér er hægt að fræðast meira um fjarreikistjörnur.

Heimild: Planet Hunters: A Transiting Circumbinary Planet in a Quadruple Star System

- Sævar Helgi Bragason


mbl.is Pláneta með fjórar sólir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Curiosity gerir óvænta uppgötvun

Í gær var blaðamannafundur hjá NASA um fyrstu niðurstöður mælinga ChemCam og APXS efnagreiningartækjanna í Curiosity.

Ég fylgdist að sjálfsögðu með fundinum — sem var án efa sá tæknilegasti til þessa — og prísaði mig sælann fyrir að hafa lært örlitla bergfræði í jarðfræðinni í háskólanum. Samt þurfti ég að rifja heilmikið upp til þess að skilja þokkalega það sem um var rætt.

Áður en lengra er haldið skulum við byrja á grunninum.

Berg skiptist í storkuberg, myndbreytt berg og setberg. Á Mars er að mestu storkuberg svo við veltum hinum tegundunum ekkert frekar fyrir okkur en hægt er að lesa örlítið um þær hér

Allt storkuberg (og raunar allt berg) er (oftast) gert úr mörgum steindum, en steindir eru einsleit, kristölluð frumefni eða efnasambönd. Hvernig steindum bergið er úr ræðst af myndunarumhverfinu, þ.e. hve hratt kvikan hefur kólnað og við hvaða þrýsting, en það segir okkur aftur á hvaða dýpi kvikan storknaði.

pikrit_handsyni_160212.jpgTökum sem dæmi ólivín, steind sem margir þekkja út frá ólífugræna litnum sem það dregur nafn sitt af. Ólivín er úr magnesíumi (Mg), járni (Fe) og silíkati (SiO4). Ef Curiosity finnur berg sem inniheldur þessi frumefni getum við verið nokkuð viss um að í berginu sé ólivín. Ólivín myndast við mikinn þrýsting (sem sagt á töluverðu dýpi). Á myndinni hér til hægri, sem er fengin af Vísindavefnum, sést ólivín (grænt) í basaltsýni.

Ef við höfum berg sem inniheldur steindir sem myndast við háan hita og þrýsting, þá vitum við að bergið myndaðist djúpt undir yfirborðinu en síðan hafi eitthvert jarðfræðilegt ferli flutt það upp til yfirborðsins (t.d. eldgos).

Curiosity er vel tækjum búinn til að lesa sögu bergsins á Mars. Með MAHLI smásjánni sér hann kornastærðina, með APXS og ChemCam mælir hann efnasamsetninguna og með SAM og CheMin greiningartækjunum í „maga“ sínum, getur hann greint mismunandi steindir.

Í lok september staðnæmdist Curiosity við píramídalaga berg sem var nefnt Jake Matijevic til heiðurs verkfræðingi sem starfaði við leiðangurinn en lést skömmu eftir lendingu:

0044ml0204000000e1_dxxx_1175924.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Eins og sjá má er Jake óvenju hreinn af Mars-grjóti að vera. Auk þess lítur hann út fyrir að vera dæmigert basalt, algengasta tegund storkubergs í sólkerfinu. Það varð til þess að ákveðið að beina APXS litrófsritanum á tækjaarminum í fyrsta sinn að honum. Vísindamennirnir áttu ekki von á einhverju óvæntu en efnasamsetning þessa steins kom mjög á óvart.

APXS stendur fyrir Alpha Particle X-Ray Spectrometer. Í tækinu er geislavirk curíum-244 samsæta sem gefur frá sér röntgengeislun þegar hún hrörnar. Þegar APXS er beint að bergi, rekast röntgengeislarnir á frumefnin í berginu sem gefa í staðinn frá sér röntgengeisla.

gellert-1pia16160-br2.jpg

APXS litrófsritinn á armi Curiosity. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Hvert frumefni gefur frá sér röntgengeisla með tiltekinni orku (nokkurs konar fingrafari frumefnisins). APXS nemur geislana og skráir orku þeirra en út frá henni má finna út hvaða frumefni eru í berginu. Því lengur sem APXS er beint að berginu, því nákvæmari verða mælingarnar og þeim mun nákvæmari mynd fáum við af efnasamsetningunni.

ChemCam tækið á mastri Curiosity þekkjum við vel. Það skýtur leysigeisla á bergið og greinir efnin í því út frá rafgasblossanum sem myndast. Hingað til hefur ChamCam skotið um 5000 leysigeislum á ýmis skotmörk.

Myndin hér undir sýnir skotmörk ChemCam (rauðu punktarnir) og mælisvæði APXS (fjólubláu hringirnir) á Jake.

wiens-1pia16192annotated-br2.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

APXS skoðar svæði á stærð við eina krónu svo með því fæst gott meðaltal af heildarefnasamsetningu bergsins. ChemCam skoðar hins vegar svæði sem er innan við millímetri að stærð og greinir stök frumefni eða efnasambönd. Í hverjum punkti gerði ChemCam 30 litrófsmælingar (eina mælingu í hverju skoti) svo upplýsingarnar gáfu góða mynd af efnasamsetningu bergsins.

Þegar APXS var beint að Jake Matijevic kom í ljós að steinninn var mjög einsleitur. Hann innihélt lítið magnesíum, járn, nikkel og sink en mun meira af natríumi, áli, kísli og kalíumi. Sömu niðurstöður fengust frá ChemCam.

Þessi efni — natríum, ál, kísill og kalíum — mynda hóp ál-silíkatsteinda sem kallast feldspat. Natríum og kalíum eru alkalímálmar svo jarðfræðingar nefna feldspat með þessum efnum alkalífeldspat. Feldspatar kristallast út kviku, bæði í innskotum og gosbergi. Í Jake fundust líka efni sem mynda ólivín og pýroxen. 

Þessar mælingar segja okkur ekki mikla sögu um bergið en veita okkur vísbendingar um uppruna þess. Efnagreiningin segir okkur að Jake sé alkalískt basalt, hugsanlega brot úr kvikuinnskoti eða jafnvel kvikuhólfi.

Jake liggur stakur á yfirborðinu eins og álfur út úr hól (hvernig barst hann þangað?). Okkur vantar samhengið til að skilja hvernig hann myndaðist og í hvaða umhverfi. Á jörðinni er samskonar berg ekki ýkja algengt og finnst aðallega á úthafseyjum eins og Hawaii og á samreksbeltum. Það þýðir samt ekki að bergið hafi orðið til við sömu aðstæður á Mars.

Tökum þetta örstutt saman: Á Mars fannst bergtegund — alkalískt basalt — sem við höfum aldrei séð áður á Mars, berg sem höfum ekki hugmynd um hvernig varð til en mun hjálpa okkur að skilja úr hverju Mars er, hvernig hann myndaðist og hvernig hann breyttist með tímanum.

Þetta er óvænt og spennandi uppgötvun.

Hvaða bjarti hlutur er þetta?

Undanfarna vikur hefur Curiosity verið kyrrstæður við Rocknest, litla sandöldu þar sem hann tók sína fyrstu skóflustungu. Að sjálfsögðu tók hann mynd af afrekinu:

pia16225-sol61-mastcam34-br2.jpg

Síðan var skólfan látin titra til að losna við stærstu kornin en líka til að þrífa skófluna af óhreinindum frá jörðinni (við höfum engan áhuga á að menga sýnin!). Á meðan því stóð tók MastCam myndskeið af ferlinu:

Þegar þessar myndir voru teknar tóku vísindamenn eftir torkennilegum ljósum hlut við jeppann sem talinn er hafa fallið af honum. Ef grannt er skoðað sést þessi hlutur á myndinni fyrir ofan, neðarlega, milli vélbúnaðarins.

Sýnasöfnunin var sett á ís á meðan kannað var hvers eðlis hluturinn var og var meðal annars MAHLI smásjánni beint að honum:

0065mh0074000000r0_dxxx.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Eins og sjá má er þetta einhvers konar plastefni sem notað er til að vefja utan um víra. Líklega hefur það fallið af lendingarbúnaðinum ofan á jeppann í lendingu og síðan dottið af honum.

Þegar þetta var ljóst hóf Curiosity hreinsunarferlið að nýju. 

Stórfengleg auðn

Á hverjum degi berast nýjar myndir frá Curiosity til jarðar sem sýna hrjóstrugt en tilkomumikið eyðimerkurlandslagið og gígbarminn í fjarska. Þetta er fallegur staður sem verður sífellt áhugaverðari.

696568main_pia16227-43_1600-1200.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech

Ég rakst á myndirnar hér undir á bloggi Emily Lakdawalla hjá Planetary Society og tók mér það bessaleyfi að birta þær hér.

20121011_mars_msl_sol50_pano_east-hills_0050mr0229039000e1_dxxx.jpg

Þessi samsetta mynd var tekin með Mastcam 100 á 50. degi Curiosity á Mars. Horft er í norðausturátt. Ekki sést í himinn, heldur er gígbarmurinn í bakgrunni. (Smelltu tvisvar til að sjá stærri mynd, það er sko þess virði!) Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS/Emily Lakdawalla

20121011_mars_msl_sol51_pano_sharp-foothills_0051mr0231013000e1_dxxx.jpg

Þessi samsetta mynd var tekin með Mastcam 100 á 51. degi Curiosity á Mars. Horft er í suðausturátt. Ekki sést í himinn, heldur er gígbarmurinn í bakgrunni. (Smelltu tvisvar til að sjá stærri mynd, það er sko þess virði!) Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS/Emily Lakdawalla 

Þú ert hetja ef þú komst í gegnum þetta allt saman.

- Sævar Helgi


Hvað sést á stjörnuhimninum í október?

Sjónaukinn, vefþáttaröð um stjörnufræði og stjörnuskoðun, hefur hafið göngu sína á Stjörnufræðivefnum. Nýir þættir verða birtir einu sinni til tvisvar í mánuði en fyrsti þátturinn fjallar um stjörnuhimininn og nefnist Horft til himins í október.

Í fyrsta þættinum er fjallað um það sem sjá má á stjörnuhimninum yfir Íslandi í október. Snemma í mánuðinum verður falleg samstaða Venusar, tunglsins og stjörnunnar Regúlusar í Ljóninu sem vert er að veita athygli. Einnig er sagt frá Sumarþríhyrningum, samstirni þriggja stjarna í Svaninum, Hörpunni og Erninum sem er áberandi á hausthimninum yfir Íslandi.

Framleiðendur eru Stjörnufræðivefurinn og Geimstöðin. Umsjón með þættinum hafa Sævar Helgi Bragason (Stjörnufræðivefnum og Andri Ómarsson (Geimstöðinni).

Sjáðu fyrsta þáttinn hér undir!

Sjónaukinn - 1. þáttur - Horft til himins í október from Stjörnufræðivefurinn on Vimeo.

- Sævar Helgi


Fyrsta uppgötvun Curiosity og fyrsta skóflustunga hans á Mars

Vorið er komið hjá Curiosity í Gale gígnum. Í síðustu viku stoppaði jeppinn stutt við steininn Jake Matijevic, tók myndir með MAHLI smásjánni og gerði mælingar með APXS litrófsritanum eins og við fjölluðum um hér. Ekið var af stað aftur að Glenelg en þangað er Curiosity nú næstum kominn. Þar verða SAM (Sample Analysis on Mars) og CheMin (Chemistry and Minerals) í skrokki jeppans notuð í fyrsta sinn.

Á leiðinni ók Curiosity fram á áhugaverða opnu sem hefur verið nefnd Hottah sem minnir á gangstéttarhellu sem búið er að lyfta upp. Lagið er 10 til 15 cm þykkt og ber öll merki þess að hafa orðið til á botni árfarvegar í umtalsverðum straumi:

pia16156.jpg

Hottah er völubergslag í Gale gígnum, leifar árfarvegs. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Jarðmyndun af þessu tagi kallast völuberg en það úr fínum, ávölum steinvölum sem eru límdar saman með sandi. Völurnar eru of stórar til að vindur hafi getað flutt þær. Þegar vatnið ber setið fram og völurnar með, rekast þær á og rúnast hægt og rólega.

Ávala mölin sést betur á myndinni undir. Myndin vinstra megin er frá Mars en sú hægri af uppþornuðum árfarvegi jörðinni. Þetta er bein sönnun fyrir því að vatn rann eitt sinn í Gale gígnum og fyrsta vísindauppgötvun Curiosity!

pia16189_fig1.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS og PSI

Hottah er hluti af lagi sem Curiosity lenti ofan á en úr lofti sést að um aurkeilu er að ræða. Aurkeila er keilulaga setbunki — staður þar sem fljótandi vatn streymdi út úr þröngu gili, gljúfri eða dal en um leið og komið var niður á sléttlendi missti það orku, dreifði úr sér og aurkeila varð til.

Gilið sem aurkeilan á rætur að rekja til, hefur verið nefnt Peace Vallis eða Friðardalur. Þetta gil er rúmir 17 km á lengd, 600 metra breitt og 30 metra djúpt. Aurkeilan fyrir framan gilið og uppþornaði árfarvegurinn sem Curiosity uppgötvaði, staðfestir að gilið er sorfið af talsverðu magni vatns.

692125main_grotzinger-4-pia16159-43_1024-768.jpg

Á myndum HiRISE af aurkeilunni sjást margir farvegir sem urðu sennilega ekki allir til við eina gusu heldur á löngum tíma. Hve löngum er ekki vitað. 

Fleiri sambærileg lög eru í kringum Curiosity og verður tækjum jeppans beint að þeim. Þannig verður kannað hversu lífvænlegt þetta umhverfi var.

Fyrsta skóflustunga Curiosity á Mars

Þessa stundina hefur Curiosity verið lagt við litla sandöldu sem nefnd hefur verið Rocknest. Þarna verður fyrsta skóflustungan tekin.

20121001_sol55_pano.jpg

Rocknest sandaldan þar sem Curiosity mun taka sín fyrstu jarðvegssýni (smelltu tvisvar til að stækka myndina). Mynd: NASA/JPL-Caltech/Damien Bouic

Curiosity var látinn aka inn í ölduna og bakka út aftur (svona eins og jarðfræðingur sem sópar burt sandi með gönguskó sínum) til að sjá hvað er innan í henni:

20121004_mars_msl_sol55-56_scuff_animation_navcam.gif

Mynd: NASA/JPL-Caltech/Emily Lakdawalla

Síðan var APXS litrófsritanum og MAHLI smásjánni á arminum beint að sandinum þann 4. október...

20121004_mars_msl_sol58_hazcam_anim_arm-on-scuff_f537.gif

Mynd: NASA/JPL-Caltech/Emily Lakdawalla

...og þessar myndir teknar:

20121004_mars_msl_sols56-8_mahli_rocknest_scuff.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Efst eru myndir teknar í mismikilli fjarlægð, neðst sjást vindbornar agnir sem mynda kápu yfir öldunni en hægra megin sést aldan eftir að Curiosity ók inn í hana.

Á arminum er skóflan sem mun sækja sýni úr þessari sandöldu, líklega á sunnudaginn eða aðfaranótt mánudags. 

20121001_msl_0051mr0468000000e1_dxxx.jpg

Skófla Curiosity. Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Þegar skóflan hefur náð sýnum, verður hún látin titra og myndskeið tekið upp af því með Mastcam. Á þennan hátt verður kannað hvort sýnið sé að mestu úr fínu efni (gott) eða hvort það inniheldur mikla möl (slæmt).

Ef sýnið er gott verður skóflunni lokað og hún „þrifin“. Á henni eru nefnilega leifar frá jörðinni. Með því að hrista sýnið í skóflunni í 2-3 klukkustundir er hægt að þrífa skófluna og losa hana við öll jarðnesk efni sem á henni eru (svona svipað og að hreinsa munninn með munnskoli).

Þetta verður endurtekið í tvígang en að lokum verður fjórða sýnið tekið og flutt í SAM og Chemin. Fyrst verður gerð æfing sem sýnir hvernig sýnið fýkur í vindinum áður en raunverulegi flutningurinn á sér stað. Á meðan munu SAM og Chemin ganga í gegnum sinn eigin undirbúning.

Allt þetta ferli mun taka tvær til þrjár vikur. Þegar þessu er lokið mun Curiosity aka af stað niður litla hlíð yfir ljósasta hluta Glenelg svæðisins. Þar verður borvélin á arminum notuð í fyrsta sinn en líkt og við á um skófluna, þarf að hreinsa borinn áður en hann flytur sýni í SAM og Chemin. Það ætti að gerast eftir um fjórar til fimm vikur.

Á meðan Curiosity er svo til kyrrstæður á Mars verður tíminn líka nýttur til að taka stóra panoramamynd frá Rocknest.

Hér undir sést svo hvar jeppinn var staddur nú í byrjun október:

694018main_watkins-1-pia16200-43_1024-768.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/University of Arizona

- Sævar Helgi


Verður björt halastjarna á himni í lok næsta árs?

518_original.jpgÞann 21. september síðastliðinn fundu tveir stjörnuáhugamenn, Artem Novichonok frá Rússlandi og Vitaly Nevsky frá Hvít-Rússlandi (sjá mynd hægra megin), halastjörnu sem gæti orðið einstaklega glæsileg á norðurhimni í lok árs 2013.

Halastjarnan nefnist C/2012 S1 (ISON). ISON er nafnið á stjörnustöð þeirra félaga en þar notuðu þeir 0,4 metra sjónauka til að finna halastjörnuna. Sá sjónauki er jafn stór stærsta stjörnusjónauka á Íslandi.

Strax í kjölfarið fannst halastjarnan á myndum sem teknar voru 28. desember 2011 og 28. janúar á þessu ári með öðrum sjónaukum.

Gögnin gerðu stjörnufræðingum kleift að reikna út braut halastjörnunnar mjög nákvæmlega.

Útreikningarnir sýna að í kringum 29. nóvember 2013 verður hún í aðeins 1,1 milljón km hæð yfir sólinni. Þegar halastjörnur komast svona nálægt sólu verða þær einstaklega bjartar. Svo gæti farið að halastjarnan verði með þeim björtustu sem sést hafa.

Um þessar mundir er C/2012 S1 (ISON) rúmlega sex sinnum lengra frá sólinni en jörðin (næstum einn milljarð km frá sólinni) og stefnir inn í sólkerfið.

Í ágúst á næsta ári verður hún um 2,5 sinnum lengra frá sólinni en jörðin. Í um það bil þeirri fjarlægð „kviknar á“ halastjörnum vegna hitans frá sólinni. Um leið eykst birta þeirra.

398_original.jpgÞann 1. október 2013 fer hún framhjá Mars í um 10 milljón km fjarlægð. Kannski nær Curiosity þá mynd af henni á Marshimninum. Það væri sjón að sjá!

Þann 26. desember verður hún svo næst jörðinni, þá í um 60 milljón km fjarlægð frá okkur.

Um þetta ríkir þó töluverð óvissa: Hún gæti orðið mjög áberandi og óhemju fögur á himninum en líka fjarað út.

Halastjarnan á hugsanlega rætur að rekja til Oortsskýsins þar sem hún hefur dvalið í yfir fjóra milljarða ára sem geddfreðinn ísköggull. Kjarninn gæti því verið mjög brothættur og ekki staðið af sér ferðina inn í sólkerfið. Það er einmitt vel þekkt að halastjörnur sem lofa góðu, sundrist áður en eitthvað verður úr þeim.

Komist hún ósködduð í gegnum ferðalagið gæti C/2012 S1 (ISON) orðið ein fegursta halastjarna sem prýtt hefur himininn um árabil, svipuð Ikeya-Seki árið 1965, McNaught árið 2007 og Lovejoy árið 2011. Hún gæti líka sést að degi til.

Þær tvær síðarnefndu sáust best frá suðurhveli jarðar en svo heppilega vill til að C/2012 S1 (ISON) mun sjást best frá norðurhveli. Jólin 2013 verður hún í stjörnumerkinu Herkúlesi og stefnir í norður. Halinn gæti þá teygt sig langt norður á himininn.

Við erum því vel staðsett til að sjá hana, ef af verður.

eso1153a.jpg

Halastjarnan Lovejoy yfir Very Large Telescope í Paranal stjörnustöðinni í desember 2011. Mynd: ESO/Gabriel Brammer

Fyrirlestur um Curiosity og námskeið

Annað kvöld klukkan 20:00 í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi fer fram fyrirlestur á vegum Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness um Marsjeppann Curiosity. Allir eru hjartanlega velkomnir.

Við minnum svo á námskeiðin okkar um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Á laugardaginn verður krakkanámskeið en almennt námskeið í næstu viku.

- Sævar Helgi


Stjörnuskoðunarfélagið á Vísindavöku - Námskeið - Fréttir af Curiosity

Eins og fyrri ár verður Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness með bás á Vísindavöku Rannís föstudaginn 28. september 2012. Vísindavaka hefst klukkan 17 og lýkur kl. 22:00 en hún fer fram í Háskólabíói.

Ef veður leyfir verðum við með stjörnusjónauka utandyra og kíkjum á tunglið. Við verðum einnig með bás innandyra þar sem við kynnum starfið, fræðum fólk um stjörnufræði og gefum áhugasömum einhverja glaðninga.

Við hvetjum ykkur til að líta við í Háskólabíó á föstudagskvöldið! 

- - -

Á Vísindavöku munum við taka við skráningum áhugasamra í námskeið okkar í stjörnufræði og stjörnuskoðun. Á laugardaginn fer fram fjölskyldunámskeið en í næstu viku almennt námskeið. Á fjölskyldunámskeiðinu lærum við um endalok stjarna, svarthol, ævintýri Curiosity á Mars og margt margt fleira.

Skráning er á vef Stjörnuskoðunarfélagsins.

- - -

Curiosity varði helginni í að rannsaka steininn „Jake Matijevic“. Jeppinn teygði úr sér og beindi tækjaarmi sínum í fyrsta sinn að steini í Gale gígnum. 

nla_401662727edr_f0042100ncam00308m.jpg

Myndin hér fyrir ofan var tekin klukkan 09:01 að íslenskum tíma á sunnudagsmorgun. Þarna er verið að beina MAHLI lúpunni að steininum en hún tók þessa mynd á svipuðum tíma:

0047mh0015001000e1_dxxx.jpg

Líklega er hér um að ræða basalt, algengasta bergið á yfirborði Mars. 

Í dag ók Curiosity svo frá steininum eins og þessi mynd sem tekin var í morgun sýnir og hélt áfram för sinn að Glenelg.

nra_401754690edr_f0042154ncam00307m.jpg

Fjallað verður um Curiosity á fyrirlestri hjá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness á fimmtudagskvöldið klukkan 20:00 í Valhúsaskóla á Seltjarnarnesi. Gengið er inn sunnanmegin, gegnt fótboltavellinum. Verði veður hagstætt verður líka kíkt til stjarna. Allir velkomnir!

- Sævar Helgi


Curiosity sér deildarmyrkva á sólu og staðnæmist við píramídalaga stein

Eftir tæpar sex vikur á yfirborði Mars er Curiosity nú kominn rúmlega hálfa leið að Glenelg, fyrsta stóra rannsóknarstoppinu. Hann hefur ekið um 290 metra til þessa, mest um 40 metra á einum degi en stoppað reglulega til að halda áfram að prófa tækin. Hér undir sést hvar jeppinn hefur ekið hingað til.

689479main_pia16153b-43_946-710.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/Univ. of Arizona

Í gær staðnæmdist Curiosity um tvo og hálfan metra fyrir framan þennan píramídalaga stein:

689468main_pia16155-43_946-710.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech

Steininn er 25 cm á hæð og 40 cm breiður og er kallaðir „Matijevic“ til heiðurs Jake Matijevic, verkfræðingi sem starfaði við leiðangurinn en hann lést fáeinum dögum eftir lendingu. Lögun steinsins má líklega rekja til vindveðrunar í milljarða ára.

Curiosity mun rannsaka steininn með MAHLI smásjánni og efnagreina með APXS litrófsritanum og ChemCam (sem skýtur leysigeisla á steininn).

Síðan heldur förin áfram að Glenelg, svæði sem markar mót þriggja ólíkra landslagsgerða. Eitt þeirra er ljósleitt og lagskipt og geimför á braut um Mars hafa sýnt að hefur háa varmatregðu (sjá myndina efst). Með öðrum orðum viðheldur svæðið varma vel og er lengi að losa sig við hann á næturnar.

Þetta ljósleita svæði sést á myndinni hér undir. Þetta er í fyrsta sinn sem við sjáum smáatriði á svæðinu en jarðfræðingar eru mjög spenntir að rannsaka það. Á þessum stað verður væntanlega grafið í jarðveginn í fyrsta sinn.

grozinger-3-pia16150-replaced--br2.jpg

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Á Glenelg sjást nú líka dökkar rákir sem sjást illa eða alls ekki á gervitunglamyndum. Sennilega eru þær annars konar setlög. Kemur í ljós.

Ekki er vitað nákvæmlega hvenær jeppinn kemur á Glenelg en líklega innan næstu tveggja vikna.

Fóbos og Deimos ganga fyrir sólina

Á braut um Mars eru tvö lítil tungl sem nefnast Fóbos og Deimos. Fóbos er aðeins um 8 klukkustundir að ganga umhverfis Mars en Deimos um 30 klukkustundir. Bæði tungl eru mjög nálægt Mars og raunar svo nálægt að aðeins er hægt að sjá þau ganga fyrir sólina í kringum miðbaug.

Curiosity er einmitt við miðbaug Mars svo annað slagið sér hann sólmyrkva á Mars. Þetta vissu vísindamenn áður en leiðangurinn hófst svo þeir komu fyrir sólarsíu í MastCam myndavélinni.

Frá Curiosity séð er Fóbos aðeins fjóra tíma að ganga yfir himininn, frá vestri til austurs — öfugt við Mánann sem gengur frá austri til vesturs — svo þvergöngurnar, eða myrkvarnir, standa stutt yfir eða í örfáar mínútur.

Þann 13. september síðastliðinn fylgdist Curiosity með Fóbosi ganga fyrir sólina og tók þá þessar myndir af deildarmyrkva á sólinni séð frá Mars(!):

689558main_pia16151-946.gif

Mynd: NASA/JPL-Caltech/MSSS

Í þetta sinn huldi hluti Fóbosar 5% af sólinni þegar mest var. Hefðum við staðið á tindi Sharpfjalls, nokkra tugi km frá jeppanum, hefðum við séð allt tunglið fyrir sólinni en vegna þess hve lítið það er sæjum við hringmyrkva. Gögn frá REMS tækinu sýndu 5% minnkun á útfjólublárri geislun á yfirborðinu á meðan myrkvinn stóð yfir.

En hvers vegna fylgjast vísindamenn með þessum atburðum? Til þess að ákvarða nákvæmlega brautir tunglanna.

Fóbos er mjög nálægt Mars og er smám saman að nálgast reikistjörnuna vegna flóðkrafta. Deimos er aftur á móti að fjarlægjast, rétt eins og tunglið okkar er að fjarlægast jörðina. Flóðkraftarnir breyta braut Fóbosar með tímanum svo eftir um 50 milljónir ára eða svo mun hann annað hvort rekast á Mars eða tvístrast og mynda hring um reikistjörnuna.

Með því að mæla nákvæmlega breytingar á brautum tunglanna fást upplýsingar um innviði þeirra og innviði Mars. Upplýsingar um innviðina eru mjög mikilvægar til að læra um þróun reikistjörnunnar (næsti Marsleiðangur verður sendur gagngert til að gera rannsóknir á innviðum Mars).

Fyrir örfáum dögum gengu bæði tungl í einu fyrir sólina og náðust myndir af því sem enn eru ekki komnar til jarðar. Auk þess náðust myndir af sólinni deildarmyrkvaðri við sólarupprás.

Við fáum þær merkilegu myndir innan tíðar.

Fyrirlestur um Curiosity

Fimmtudagskvöldið 27. september næstkomandi heldur undirritaður fyrirlestur um Curiosity á félagsfundi Stjörnuskoðunarfélags Seltjarnarness í Valhúsaskóla. Erindið hefst klukkan 20:00. Allir hjartanlega velkomnir.

Við ætlum að taka erindið upp og setja það síðan á netið fyir áhugasama.

Námskeið í stjörnufræði og stjörnuskoðun

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn bjóða upp á námskeið fyrir þá sem hafa áhuga á stjörnufræði og stjörnuskoðun. Sams konar námskeið hafa verið haldin síðustu misseri við góðar undirtektir þátttakenda.

Mælum eindregið með þessum skemmtilegu námskeiðum!

- Sævar Helgi 


Horft til himins í kvöld og námskeið í stjörnufræði

Veðurspáin er góð fyrir kvöldið og það þýðir bara eitt: Stjörnuskoðun.

Það er ýmislegt að sjá á kvöldhimninum þessa dagana. Við sólsetur má sjá vaxandi sigðarlaga tungl lágt á himninum. Það hnígur niður fyrir sjóndeildarhringinn skömmu eftir að sól er sest.

Horfðu nokkurn veginn í aust-norðaustur fyrir miðnætti í kvöld til að sjá Júpíter í nautsmerkinu. Júpíter mjög bjartur og áberandi en hægra megin við hann er rauði risinn Aldebaran fyrir framan stjörnuþyrpinguna Regnstirnið sem lítur út eins og ör sem bendir til hægri. Aldebaran er í 65 ljósára fjarlægð en Regnstirnið í 150 ljósára fjarlægð.

screen_shot_2012-09-19_at_2_29_57_pm.png

Kort úr Stellarium hugbúnaðinum

Júpíter er eitt skemmtilegasta fyrirbærið að skoða í gegnum litla áhugamannasjónauka. Allir sýna þeir Galíleótunglin fjögur — Íó, Evrópu, Ganýmedes og Kallistó — í sjónsviðinu auk skýjabelta á reikistjörnunni sjálfri. Gott er að nota eins mikla stækkun og aðstæður og sjónaukinn leyfa.

Ef þú skoðar reikistjörnuna við miðnætti í kvöld sérðu eitt tunglið, Evrópu, ganga fyrir Júpíter. Þvergangan hefst upp úr klukkan 11 og lýkur upp úr klukkan 01.

Ef þú svifir um í lofthjúpi Júpíters sæirðu Evrópu myrkva sólina en ef þú stæðir á Evrópu sæir þú skugga ístunglsins á reikistjörnunni. Sérðu skuggann í gegnum sjónaukann?

photo.png

Mynd úr Gas Giants appinu frá Software Bisque

Á Júpíter sjálfum er rauðleitt, pastellitað skýjabelti norðan miðbaugs mest áberandi.

Árrisulir munu geta séð mjög glæsilegan himinn í fyrramálið sem skartar Venusi, Júpíter og Óríon lágt á suðurhimninum.

screen_shot_2012-09-19_at_2_34_55_pm.png

Kort úr Stellarium hugbúnaðinum

Já, og það má líka búast við ágætum norðurljósum í kvöld.

Námskeið í stjörnufræði og stjörnuskoðun

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn bjóða upp á námskeið fyrir þá sem hafa áhuga á stjörnufræði og stjörnuskoðun. Sams konar námskeið hafa verið haldin síðustu misseri við góðar undirtektir þátttakenda.

Mælum eindregið með þessum skemmtilegu námskeiðum!

- Sævar Helgi 


Geimferðaáætlun Indverja

Geimferð Indverja til Mars kostar hvern Indverja tæplega tíkall, dreift yfir nokkurra ára tímabil (kannski tvær til þrjár krónur á ári). Til samanburðar kostar indverski herinn hvern Indverja 5700 kr... á ári!

Indverjar verja sem nemur 46,8 milljörðum dala (5700 milljörðum íslenskra króna) í hernað en 1,2 milljörðum dala (150 milljörðum króna) í geimvísindi. Heildarútgjöld Indverska ríkisins er 269.800 milljarðar bandaríkjadala svo geimvísindin eru aðeins 0,000004% af heildarútgjöldunum. 

Ég veit hvar ég myndi byrja að skera niður til að berjast gegn fátækt í landinu.

Geimferðaáætlun Indverja er rétt að slíta barnsskónum. Árið 2008 sendu þeir á loft sinn stærsta leiðangur til þess, tunglkannan Chandrayaan-1. Með Chandrayaan 1 gerðu menn eina stærstu uppgötvun seinni ára um tunglið: Hringrás vatns við yfirborð þess. Leiðangrinum lauk í ágústlok 2009.

tmc-polar-region.jpg

Mynd af yfirborði tunglsins sem tekin var með Chandrayaan-1 geimfari Indverja. 

Chandrayaan-2 er næsta skref fram á við hjá Indverjum í tunglrannsóknum. Því geimfari verður skotið á loft árið 2014 og samanstanda af brautarfari og tungljeppa. Þessi leiðangur er líka hræódýr.

Í nóvember 2013 hyggjast Indverjar svo senda á loft Marskannann Magnalyaan. Um borð verða tíu mælitæki, þar á meðal myndavél og metannemi en tilvist metans á Mars er ein helsta ráðgáta reikistjörnunnar um þessar mundir. Indverjar hyggja einnig á leiðangur til Venusar árið 2015. Það er því margt spennandi framundan í geimrannsóknum Indverja.

Það er frábært að Indverjar skuli vera að koma öflugir inn í geimrannsóknir. Þeir eiga fjölmarga góða vísindamenn og verkfræðinga sem fá nú verkefni í eigin landi, öllum til hagsbóta. Þannig efla þeir menntunarstig þjóðarinnar og nýsköpun enda er verið að fjárfesta í hugviti landsmanna. Geimvísindi eru eitthvað sem allar þjóðir ættu að taka þátt í. Fátt vekur að minnsta kosti jákvæðari athygli á þjóðunum en afrek í vísindum. 

Við Íslendingar ættum nú að drífa okkur að sækja um í ESA, Geimvísindastofnun Evrópu.

- Sævar Helgi


mbl.is Indverjar ætla til Mars
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband