Fjórar sólir á himninum

Hann er áreiðanlega óskaplega fallegur himininn sem blasir við athuganda sem stæði á þessari nýuppgötvuðu reikistjörnu, eða kannski svifi í lofthjúpi hennar. Á daginn sæjust tvær bjartar sólir, önnur gulhvít en hin appelsínugul og tvær aðrar fjarlægar sólir, önnur gul og hin appelsínugul, lýstu upp nóttina. Stundum sjást þær allar fjórar á himninum. Þarna er sennilega sjaldan alveg dimmt.

transitingexostarsmall.pngKC 4862625 er kerfi tveggja tvístirna, A og B en reikistjarnan, PH1 (Planet Hunters 1) snýst í kringum báðar stjörnurnar í kerfi A. A og B kerfin eru á braut um sameiginlega massamiðju svo um fjórstirni er að ræða (tvö tvístirni). B-kerfið hefur vitaskuld þyngdaráhrif á reikistjörnuna en þau eru nánast hverfandi í samanburði við áhrifin frá kerfi A.

Reikistjarnan fannst í gögnum Keplerssjónaukans sem leitar að reikistjörnum með þvergönguaðferðinni (svipað og þegar Venus gekk fyrir sólina í júní á þessu ári).

Kerfi A er myrkvatvístirni frá okkur séð, þ.e. stjörnurnar ganga fyrir hverja aðra á aðeins 20 dögum (umferðartími þeirra er 20 dagar). Umferðartími reikistjörnunnar er mun lengri.

A-kerfið samanstendur af stjörnu af F-gerð sem er 73% breiðari en sólin og 53% massameiri (Aa) og daufari stjörnu af M-gerð sem er minni og kaldari en sólin (38% af breidd hennar og 41% af massanum).

Í B-kerfinu er stærri stjarnan nánast jafn stór sólinni að breidd og massa og því sömu litrófsgerðar (G2). Fylgistjarnan er hins vegar helmingi minni og því svipuð daufari stjörnunni í A-kerfinu. Bilið milli þessara stjarna er 40-60 stjarnfræðieiningar, þ.e. 40 til 60 sinnum meiri en fjarlægðin milli jarðar og sólar sem er álíka mikil fjarlægð og Plútó er í frá sólinni.

Bilið milli A og B-kerfanna er svo 1000 sinnum meiri en fjarlægðin milli jarðar og sólar (1000 x 150.000.000 km) eða 150 milljarða km í burtu.

Út frá birtuminnkuninni sem mælist þegar reikistjarnan gengur fyrir aðra hvora stjörnuna í kerfi A, er hægt að finna út að reikistjarnan er 6 sinnum breiðari en jörðin.

Ekki er hægt að mæla massann með þvergöngumælingum svo gera þarf sjónstefnumælingar. Þær virka þannig að tekið er litróf af ljósi stjarnanna. Í litrófum stjarna eru litrófslínur (nokkurs konar strikamerki eða fingraför) en þegar reikistjarnan hringsólar um kerfið, togar hún í stjörnurnar. Þær virðast þess vegna vagga til og frá vegna þyngdaráhrifa frá reikistjörnunni, svipað og sleggja sem togar í sleggjukastara.

Vaggið kemur fram í litrófslínunum. Þegar stjörnurnar færast frá okkur, hliðrast línurnar í átt að rauða enda litrófsins en að bláa endanum þegar stjörnurnar nálgast okkur. Hliðrunin gefur okkur efri mörk á massa fyrirbærisins sem er að toga í stjörnurnar.

Þessi mæling gefur að reikistjarnan sé í mestu lagi helmingi massaminni en Júpíter, eða 169 sinnum massameiri en jörðin. Þegar allt annað sem hefur áhrif er tekið í reikninginn kemur í ljós að massinn er 20 til 50 sinnum meiri en jarðar eða aðeins 0,08 til 0,14 sinnum Júpíters.

Reikistjarnan er því svipuð Úranusi og Neptúnusi.

Á morgun klukkan 17:00 mun ESO tilkynnina um annan merkan reikistjörnufund. Fylgist með því! 

Hér er hægt að fræðast meira um fjarreikistjörnur.

Heimild: Planet Hunters: A Transiting Circumbinary Planet in a Quadruple Star System

- Sævar Helgi Bragason


mbl.is Pláneta með fjórar sólir
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband