Sprengistjarna í þrívídd

heic0704a.jpgÞann 23. febrúar 1987 jók stjarna í Stóra-Magellanskýinu, rétt hjá Tarantúluþokunni, skyndilega birtu sína margfalt. Þetta var fyrsta sinn sem sprengistjarna sást með berum augum í 383 ár og jafnframt sú nálægasta, ekki í nema rétt rúmlega 160.000 ljósára fjarlægð. Stjarnan sprakk sem sagt 160.000 árum áður en við urðum vör við hana.

Vegna nálægðar sinnar skipar hún sérstakan sess í huga stjörnufræðinga. Hún gerði þeim kleift að rannsaka sprengistjörnur nánar en nokkru sinni fyrr. Sennilega hafa fáir atburðir reynst stjörnufræðingum jafn lærdómsríkir. Í sprengingunni mynduðust nær öll frumefni þyngri en járn, t.d. gull, sem dreifðust út í umhverfið í kring.

Í dag birtist frétt frá ESO, stjörnustöð Evrópulanda á suðurhveli, þar sem skýrt er frá nýjum athugunum á leifum sprengistjörnunnar. Niðurstöðurnar sýna að sprengingin var öflugri og hraðari í tiltekna stefnu svo sumir angar efnisskýsins teygja sig lengra út í geiminn en aðrir. 

Fyrsta efnið sem þeyttist út í geiminn af völdum sprengingarinnar ferðaðist á um 100 milljón km hraða á klukkustund, um tíunda hluta úr ljóshraða eða 100.000 sinnum hraðar en farþegaþota. Áður en stjarnan sprakk sendi hún frá sér mikið gas- og ryk. Fyrsta efnið sem stjarnan sendi frá sér var um 10 ár að ná til þessa gass og ryks. Myndirnar sýna aðra efnisbylgju, tífalt hægari, sem glóir vegna geislavirku efnanna sem mynduðust í sprengingunni.

eso1032a.jpg

Sýn listamanns á leifar sprengistjörnunnar 1987A. Eins og sjá má teygir sprengingin sig lengra út í aðra áttina. Mynd: ESO/L. Calçada.

Stjarnan sem sprakk var áður björt blá breytistjarna, svipaðs eðlis og stjarnan Eta Carinae í Kjalarþokunni sem kom við sögu í fyrri bloggfærslu. Sú stjarna mun dag einn springa. Hún er þegar á síðustu stigum ævi sinnar. Eta Carinae er sennilega í kringum 150 sólmassar, ein massamesta stjarna sem þekkist.

Ef ég ætti að veðja á hvaða stjörnu við sjáum springa næst myndi ég veðja á Eta Carinae

eso0817a.jpg

Mynd: ESO

Bjarta bláa breytistjarnan Eta Carinae er í þann mund að springa. Það gætu þó verið þúsundir ára þar til við sjáum hana springa. Bíðum spennt. Það verður töluvert meiri flugeldasýning en nýliðinn segulstormur.

- Sævar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jónatan Gíslason

Ef það væri eitthvað sem ég væri til í að upplifa á minni æfi sem stj0rnuáhygamaður þá væri það að stjarna myndi springa "nálægt"

Jónatan Gíslason, 4.8.2010 kl. 11:08

2 Smámynd: Jónatan Gíslason

fyrirgefið stafsetningavillurnar, hehe ég er ekki fullur var bara að reyna skrifa með soninn í fanginu og las ekki yfir textan

Jónatan Gíslason, 4.8.2010 kl. 11:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband