Haustmáni á haustjafndægrum

Í dag eru haustjafndægur sem marka sumarlok og upphaf haustsins á norðurhveli en vorsins á suðurhveli. Dagur og nótt eru jafn löng alls staðar á jörðinni. Á vefnum okkar er eftirfarandi útskýring á jafndægrum:

Sólbaugurinn og miðbaugur himins skerast þar af leiðandi á tveimur stöðum. Þessir staðir eða punktar eru nákvæmlega andspænis hvor öðrum og kallast jafndægrapunktar. Þegar sólin er í öðrum hvorum jafndægrapunkti eru dagur og nótt um 12 klukkustundir alls staðar á jörðinni; dagurinn er þá jafnlagur nóttinni. Hugtakið jafndægur (equinox) er notað fyrir þá daga þegar sólin sker þessa punkta.

Þann 21. mars ár hvert sker sólin vorjafndægrapunktinn. Sólin stefnir þá í norðurátt yfir miðbaug himins og fer hækkandi á himninum. Þessi dagsetning markar þar af leiðandi upphaf vors á norðurhveli jarðar. Hálfu ári síðar eða 22. september sker sólin haustjafndægrapunktinn. Sólin stefnir þá í suðurátt undir miðbaug himins og fer lækkandi á himninum. Þessi dagsetning markar upphaf hausts á norðurhvelinu jarðar. Þar sem árstíðir eru gagnstæðar á norður- og suðurhvelinu markar vorjafndægur hjá okkur komu hausts hjá íbúum í Suður-Ameríku, Ástralíu og sunnanverðri Afríku.

Á sama tíma í yfir 20 ár fellur fullt tungl á haustjafndægur. Það fulla tungl sem fellur næst haustjafndægrum kallast haustmáni eða uppskerumáni. 

tunglris_bjorn_jonsson.jpg

Haustmáni rís. Björn Jónsson tók þessa fallegu ljósmynd í gærkvöldi (22. september) ofan af Helgafelli í Hafnarfirði. Sjá má endurvarp vegstika á myndinni. Mynd: Björn Jónsson.

Horfðu í austurátt um kvöldmatarleytið í kvöld. Máninn klifrar hægt og rólega yfir sjóndeildarhringinn. Þér gæti virst tunglið óvenju stórt. Í raun er það ekkert stærra en þegar það er hátt á himni. Þetta er tunglskynvillan sem menn klóra sér enn í hausnum yfir. Heilinn skynjar tunglið stærra þegar það er við sjóndeildarhringinn vegna þess hvernig við skynjum himininn. Þú getur prófað sjálf(ur) að staðfesta að um skynvillu er að ræða. Prófaðu að horfa á tunglið á hvolfi. Þá minnkar tunglið. Um leið og þú reisir þig við aftur stækkar tunglið. 

Myndavélar hafa ekki heila eins og við og sjá því ekki þessa skynvillu. Ef þú tekur ljósmynd af tunglinu, þá birtist það alveg jafn stórt við sjóndeildarhringinn eins og hátt á himni. Dálítið furðulegt ekki satt?

Skammt frá tunglinu er Júpíter eins og við sögðum frá í bloggfærslu á mánudag og í frétt á mbl.is á þriðjudag. Hér er því gott ljósmyndatækifæri! 

- Sævar


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Auðvelt er að sannreyna þetta með því að mæla þvermál tunglsins á einfaldan hátt. Halda má reglustiku í fullri armslengd frá sér og lesa þvermálið af henni.

Með því að gera þetta tvisvar, annars vegar þegar tunglið er hátt á lofti og hins vegar þegar það er lágt á himni, má sjá að tunglið er alveg jafnstórt, hver sem staða þess er á himninum.

Nú þegar tunglið er fullt og himinninn heiður gefst kjörið tækifæri til að reyna þetta.

Baldur Ragnarsson (IP-tala skráð) 23.9.2010 kl. 11:30

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Þetta er skemmtileg aðferð Baldur og ég vona að einhver taki þig á orðinu og prófi þetta.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 23.9.2010 kl. 19:39

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband