29.9.2010 | 22:22
Lífvænleg reikistjarna loks fundin?
Í dag, í nýjasta hefti Astrophysical Journal, tilkynnti hópur bandarískra stjarnvísindamanna um uppgötvun á reikistjörnu á stærð við jörðina umhverfis nálæga stjörnu. Það sem er athyglisverðast við þessa uppgötvun er að reikistjarnan er í miðju lífbeltis sólstjörnunnar. Lífbelti er sá staður í sólkerfi þar sem fljótandi vatn gæti verið til staðar á yfirborði reikistjörnu. Verði uppgötvunin staðfest er því hér um að ræða fyrstu lífvænlegu reikistjörnuna sem finnst utan okkar sólkerfis.
Í greininni er sagt frá því að tvær reikistjörnur hafi fundist umhverfis stjörnuna Gliese 581. Þessi stjarna er rauður dvergur, mun minni en sólin og töluvert kaldari (3.400°C á móti 5.600°C). Hún er í um 20 ljósára fjarlægð frá jörðinni í stjörnumerkinu Voginni.
Þetta er ekki fyrsta sinn sem reikistjörnur finnast umhverfis Gliese 581. Áður vissu menn um fjórar aðrar. Sólkerfið sem hér um ræðir inniheldur því að minnsta kosti sex reikistjörnur. Aðeins stjarnan HD 10180 hefur líklega fleiri reikistjörnur. Allar eru þessar reikistjörnur á því sem næst hringlaga brautum, líkt og reikistjörnurnar í sólkerfinu okkar.
Reikistjarnan sem hér um ræðir nefnist Gliese 581 g (g þýðir að hún er sjötta reikistjarnan sem vitað er um í sólkerfinu, hinar nefnast b, c, d, e og f). Hún er sennilega þrefalt massameiri en jörðin og 1,2 til 1,4 sinnum breiðari. Massinn og stærðin benda því til þess að um bergreikistjörnu með fast yfirborð sé að ræða. Hún hefur líklega álíka sterkan þyngdarkraft og jörðin sem er meira en nóg til þess að viðhalda þykkum lífvænum lofthjúpi.
Árið á reikistjörnunni er næstum 10 sinnum styttra en á jörðinni eða aðeins um 37 dagar. Reikistjarnan snýr alltaf sömu hliðinni að stjörnunni, rétt eins og tunglið okkar snýr alltaf sömu hlið að jörðinni. Munurinn er hins vegar sá að aðeins önnur hlið þessarar reikistjörnu nýtur sólarljóss, hin ekki (á tunglinu njóta allar hliðar sólarljóss á einhverjum tíma).
Reikistjarnan fannst með óbeinum hætti með svonefndum sjónstefnumælingum. Með öflugum litrófsrita sem nefnist HIRES á Keck I sjónaukanum á Mauna Kea á Hawaii (einum stærsta sjónauka heims) tókst stjörnufræðingum að mæla hve mikið móðurstjarnan færðist fram og aftur af völdum þyngdartogsins frá reikistjörnunni.
Hægt er að sjá þetta fyrir sér með því að ímynda sér sleggjukastara. Þegar kastarinn sveiflar sleggjunni vaggar hann örlítið vegna þess að massi sleggjunnar togar í hann. Vaggið í tilviki stjörnunnar er rétt rúmlega 1 metri á sekúndu sem er hægara en gönguhraði! Það er því gífurlega vandasamt verk að finna reikistjörnur með þessum hætti og í þessu tilviki voru 238 mælingar gerðar yfir 11 ár!
Sólkerfið Gliese 581 er heldur betur áhugavert. Á sitthvorum enda lífbeltisins eru tvær aðrar reikistjörnur, báðar næstum tífalt massameiri en jörðin. Á heitari endanum (þar sem Venus væri hjá okkur) er Gliese 581 c en á kaldari endanum (þar sem Mars er hjá okkur) er Gliese 581 d. Einhverjir stjarnvísindamenn hafa haldið því fram að ef Gliese 581 d hefur þykkan lofthjúp og öflug gróðurhúsaáhrif gæti hún líka verið lífvænleg. Flestir stjörnufræðingar draga það þó mjög í efa. Aftur á móti er nýja reikistjarnan í miðju lífbeltinu - á Gullbrár-svæðinu þar sem hvorki er of heitt né of kalt.
Skýringarmynd af lífbelti Gliese 581. Reikistjarnan Gliese 581 g er í miðju lífbeltisins. Mynd: ESO/Stjörnufræðivefurinn
Þessi uppgötvun er frekar merkileg og hefur áhugaverða þýðingu í för með sér. Hún bendir til þess að lífvænlegar reikistjörnur gætu verið tiltölulega algengar í Vetrarbrautinni okkar. Ef lífvænlegar reikistjörnur væru sjaldgæfar hefðum við ekki fundið þær svona snemma og svona nálægt. Það gætu því verið milljarðar af lífvænlegum reikistjörnum í Vetrarbrautinni okkar.
Við lifum á mögnuðum tímum. Kannski leynist eitthvað stórfenglegt á yfirborði þessarar reikistjörnu? Hver veit?
Heimild: Fréttatilkynning
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:46 | Facebook
Athugasemdir
Djöfull væri það glæsilegt.....
Sveinn Andri (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 22:37
Ég myndi kaupa miða, en bara aðra leiðina.
Hólímólí (IP-tala skráð) 29.9.2010 kl. 22:49
Ef þessi stjarna er rauður dvergur þ.e. nánast úrbrunnin sól ef ég skil þetta rétt getur hún á miðlað nægri orku og birtu til að fóstra líf á reikistjörnunni?
Kveðja að norðan.
Arinbjörn Kúld, 29.9.2010 kl. 22:50
Mjög athyglisvert
Sveinn Atli Gunnarsson, 29.9.2010 kl. 23:15
Arinbjörn: Þar sem stjarnan er rauður dvergur er hún massaminni en sólin. Hún er eldri en lifi líka miklu lengur en sólin okkar. Um það má fræðast hér og hér.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 29.9.2010 kl. 23:17
minnir mig á endann á nostradamus myndinni. hann spáir að við munum flýja jörðina og finna aðra nýja.
GunniS, 30.9.2010 kl. 00:31
Jafnvel þótt við finndum einhvern tíma leið til að ferðast á ljóshraða þá myndu nú fáir endast í ferðalögin sem fylgja því að flýja jörðina.
Hólímólí (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 00:55
Hólímóli, á ljóshraða tæki þetta 'ekki nema' 20 ár, 40 ár þótt við næðum ekki nema á hálfum ljóshraða. Menn gætu jafnvel ferðast fram og til baka á einni mansævi.. ef þeir drepast ekki úr leiðindum á leiðinni (að því gefnu að við næðum amk. 50% ljóshraða mest alla leiðina, sem er kannski hæpið í dag).
Nú væri málið að senda ómannað könnunarfar á staðinn, þótt það tæki 50-100 ár og svo +20 ár fyrir sendingar að berast til baka til okkar.
Arnar, 30.9.2010 kl. 10:08
Arnar: Við erum nú nokkuð langt frá því enn þá að geta ferðast 20 ljósár á 100 árum...
Páll Jónsson, 30.9.2010 kl. 11:37
Bara spekúlasjónir. Ekkert sem byggjandi er á. Auk þess yrði aðeins hluti stjörnunnar byggilegur samkv. spekúlasjón mönnum. Örmjó ræma, skilst manni. Bara rugl.
Ómar Bjarki Kristjánsson, 30.9.2010 kl. 12:42
1.079.000.000 km/klst er ljóshraði. New Horizon er hraðskreiðasta faratækið í dag sem er á leið til plutó eo ger á 67200 km/klst en ljós ár er 9460730472580 km en New Horizon er 140784679 stundir að fara eitt eitt ljós ár sem gera 16053,7 ár til að fara eitt ljós ár þannig það x20 er 321,074 ár það er lengra en nokkur maður lifir. Þannig bara góða ferð....
(L)Jón (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 13:14
við verðum að taka star trek enterprise aðferðina á þetta, eignast börn um borð i skipinu :P
GunniS, 30.9.2010 kl. 13:19
Var Star Trek aðferðin ekki "beam me there Scotty"?
Hvenær skyldi það verða hægt í alvöru?
Hólímólí (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 13:44
Ég er annars alveg viss um að það séu til a.m.k. milljónir af plánetum eins og jörðinni þar sem alls konar líf hefur þróast og þrífst.
Eina spurningin er: Hvernig kviknar lífið?
Hólímólí (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 13:46
Kannski lesið aðeins of mikið af vísindaskáldsögum en ég var kannski meira að hugsa um ION drif eða eitthvað álíka. Og tími er svo sem ekki vandamál meðan engin er lifandi um borð.
Þótt að upphafsmaðurinn/mennirnir yrðu líklega ekki á lífi þegar niðurstöður slíkrar ferðar bærust til baka væri þetta ómetanlegt fyrir mannkyn.
Arnar, 30.9.2010 kl. 14:05
Þau geimför sem hraðast fara og eru komin lengst í burtu frá Jörðu eins og Voyager 1 & 2 og New Horizons voru ekki gerð til að ferðast til næstu stjarna. Þau eru ekki drifin áfram stanslaust, heldur svífa bara hjálparlaust um geiminn eftir að hafa fengið upphafspotið með eldflaugum. Til þess að ferðin taki bara nokkur hundruð ára í staðinn fyrir hundruð þúsunda ára þá þarf geimfar sem getur viðhaldið stöðugri hröðun með hjálp kjarnorkupúlsa eða eitthvað álíka. Þegar ferðin er hálfnuð þarf svo að byrja að hægja ferðina aftur svo að geifarið skjótist ekki framhjá áfangastaðnum.
Bjarki (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 19:30
Þannig að það er bara einfaldast að reyna að venda jörðina því allir staðir hér eru auðveldari til búsetu en þar.
(L)Jón (IP-tala skráð) 30.9.2010 kl. 20:00
Var Star Trek aðferðin ekki "beam me there Scotty"?
Hvenær skyldi það verða hægt í alvöru?
Það voru vísindamenn sem náðu að flytja ljósgeisla á milli tveggja punkta notandi hljóðbylgjur, svo hver veit kannski ekki svo rosalega langt þangað til 8)
Halldór Björgvin Jóhannsson, 30.9.2010 kl. 20:29
Fylgir hitageislunin sömu lögmálum og rafsvið, þyngdarafl, þ.e.a.s. 1/r2 þannig að hægt sé að álykta, að hitastigið á sólarhliðinni á Gliese g sé mun hærra en að degi til við miðbaug á jörðinni, þar eð jörðin er 10 sinnum lengra í burtu frá sólinni en Gliese g er frá sinni stjörnu og hitastig sólar er aðeins um 60% hærra?
Þ.e.a.s. ef gert er ráð fyrir að lofthjúpur sé um þessa plánetu.
Vendetta, 30.9.2010 kl. 21:50
Í fréttatilkynningunni segir: "The researchers estimate that the average surface temperature of the planet is between -24 and 10 degrees Fahrenheit (-31 to -12 degrees Celsius). Actual temperatures would range from blazing hot on the side facing the star to freezing cold on the dark side."
Hvað er blazing hot heitt og hvað er freezing cold kalt? Án þess að vita það, er average temperatures ekki sérlega upplýsandi.
Vendetta, 30.9.2010 kl. 22:02
The Lone Ranger and Tonto stopped in the desert for the night. After they got their tent all set up, both men fell sound asleep.
Some hours later, Tonto wakes the Lone Ranger and says, "Kemo Sabe, look towards sky, what you see?"
The Lone Ranger replies, "I see millions of stars."
"What that tell you?" asked Tonto.
The Lone Ranger ponders for a minute the says, "Astronomically speaking, it tells me there are millions of galaxies and potentially billions of planets. Astrologically, it tells me that Saturn is in Leo. Time wise, it appears to be approximately a quarter past three in the morning. Theologically, it's evident the Lord is all-powerful and we are small and insignificant. Meteorologically , it seems we will have a beautiful day tomorrow.
What's it tell you,Tonto?"
Tonto is silent for a moment, then says, "Kemo Sabe, you dumber than buffalo shit. It means someone stole tent."
Gunnar Th. Gunnarsson, 1.10.2010 kl. 09:36
Þá skreppur maður bara fyrir hornið á henni í skuggahverfið til að leggja sig eða þá að maður fær sér bara augnleppa og sefur sólarmeginn.
Rafn Haraldur Sigurðsson (IP-tala skráð) 1.10.2010 kl. 17:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.