Gengur betur næst

Það er erfitt að senda geimfar til annarrar reikistjörnu. Þannig hefur tæplega helmingur allra geimfara sem senda hafa verið til Mars misheppnast á einhvern hátt. Enn erfiðara er að senda geimfar til reikistjarnanna sem eru nær sólinni en jörðin því þá þarf töluvert af eldsneyti til að hægja ferðina. Þetta er svona svipað og að renna niður rennibraut, hraðinn eykst eftir því sem neðar dregur nema í þessu tilviki eykst hraðinn eftir því sem maður nálgast þyngdarbrunn sólar. Eftir því sem rennibrautin er brattari, því meira eldsneyti þarf til að hægja ferðina.

Akatsuki var um 200 daga á leið til Venusar. Við komuna átti geimfarið að kveikja á eldflaugum til að hægja ferðina. Þessar eldflaugar áttu að loga í að minnsta kosti 9 mínútur og 20 sekúndur en virðast hafa stöðvast eftir aðeins tvær til þrjár mínútur. Það dugði augljóslega ekki til og því þaut geimfarið framhjá reikistjörnunni.

Japanska geimfarið er enn við hestaheilsu svo það er ekki öll nótt úti enn. Japanir munu reyna aftur síðar þegar Akatsuki flýgur aftur framhjá Venusi í desember árið 2016, að því gefnu að geimfarið verði enn starfhæft þá. Akatsuki er nú á braut um sólina með 80% af eldsneytinu eftir. Geimfarið er nær sólinni en Venus svo það ferðast umhverfis sólina örlítið hraðar en Venus. Frá Venusi séð mun geimfarið smám saman fjarlægast sig, ár eftir ár, uns þær mætast loks aftur sex árum síðar.

Við óskum Japönum góðs gengis og vonum svo innilega að eftir sex ár muni þeir hjálpa til við að leysa allar ráðgáturnar um Venus.

Fyrir áhugasama er hægt að sjá Venus á morgunhimninum þessa dagana. Hún er áberandi björt í suðaustri og boðar þar rísandi sól. Ég flutti svo pistil um reikistjörnuna í þættinum Vítt og breitt á Rás 1 í gærmorgun.

Tengt efni


mbl.is Geimfar nær ekki til Venusar
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Geta þeir þá ekki bara spæjað Merkúr í millitíðinni?

Jón Logi (IP-tala skráð) 9.12.2010 kl. 08:32

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Þeir eru því miður ekki nógu nálægt honum til þess. Hins vegar er geimfar á leið til Merkúríusar sem heitir MESSENGER http://www.stjornuskodun.is/solkerfid/geimferdir/messenger/

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 9.12.2010 kl. 09:27

3 Smámynd: Arnar

Ætla ekki að vera með leiðindi en hérna er samt smá nöldur (sem tengist greininni ekki neitt).

Ef maður skoðar myndir á nýja vefnum ykkar í Chrome (með því að stækkar þær þ.e.) þá virkar ekki 'loka' takkinn.  Ekkert vesen í Firefox eða IE8, bara smá pirrandi því ég nota aðallega Chrome.

Flottur vefur samt að öðru leiti og alltaf gaman að lesa greinarnar ykkar (og skoða meðfylgjandi myndir).

Arnar, 9.12.2010 kl. 09:35

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Takk fyrir að láta okkur vita af því. Við erum enn að finna hnökra sem þarf að laga á vefnum.

Sjálfur nota ég Chrome mest líka og prófaði þetta. Loka takkinn virkar fínt í Chrome hjá mér. Ég er með Makka en veit ekki hvort það skiptir máli. Geri ráð fyrir að þú sért með nýjustu útgáfu vafrans. Annars skil ég ekkert í þessu og verð bara að áframsenda þetta á Hugsmiðjuna. Þeir redda þessu örugglega.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 9.12.2010 kl. 10:21

5 Smámynd: Arnar

Ok, skrítið.  Er með Win7 hérna í vinnunni, skal prófa í annari tölvu í kvöld (reyndar líka Win7).

Arnar, 9.12.2010 kl. 11:47

6 Smámynd: Arnar

Lendi ekki í þessu heima, eitthvað vesen hérna á vinnu vélinni minni.

Arnar, 10.12.2010 kl. 09:59

7 identicon

Ein af þessum fyrirsögnum sem ég gat ekki annað sagt en "andsk...!"; heildarmyndin er soldið eins og mannkynið að reyna að þræða þráð í gegnum nálarauga, en það er auðvitað alltaf eitthvað vesen á hlutum!

Brynjar Björnsson (IP-tala skráð) 12.12.2010 kl. 01:22

8 Smámynd: Vendetta

Ég man eftir einni sögu sem ég heyrði á námsárum mínum um geimfar sem var sent af stað til tunglsins fyrir mörgum áratugum síðan. Eina tölvuforritið sem þá var til var Fortran, sem eins og allir vita er óstrúktúrerað forrit, þar sem ekki þurfti að skilgreina breytur áður en þær voru notaðar. Allavega, í þessu tilfelli gleymdist að skilgreina breytuna n, þannig að í lykkjunni FOR.X=1.TO.N ... fór tölvan í óendanlegu lykkju, geimfarið fór langt framhjá tunglinu og hefur ekki sézt síðan.

Ég veit ekki hvort þetta hafi gerzt í raun og veru eða hvort þetta hafi verið sagt til að sýna fram á nauðsyn strúktúreraðra forritunar, en hins vegar hefur maður svo oft frétt af ótrúlega viðvaningslegum mistökum hjá m.a. NASA, að þetta getur allt eins verið sönn saga.

Vendetta, 12.12.2010 kl. 14:58

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband