9.12.2010 | 09:28
Laufléttur jólaleikur og loftsteinadrífan Geminítar
Stjörnufræðivefurinn er með laufléttan jólaleik á netinu þar sem hægt er að vinna bókina Alheimurinn og Galileósjónaukann eða annan glaðning frá vefnum og Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness.
Lesendur þurfa aðeins að svara einni spurningu (og svarið er að sjálfsögðu að finna á Stjörnufræðivefnum!). Þeir sem svara rétt geta skráð nafn sitt í pott sem dregið verður úr þann 20. desember.
Jólaleikur Stjörnufræðivefsins
Jólagjafalisti stjörnuáhugafólksins
Við höfum einnig sett saman lista með ýmsum hugmyndum að gjöfum fyrir þá sem hafa áhuga á stjörnunum.
Jólagjafir stjörnuáhugafólksins
Geminítar ættu að sjást um helgina
Upp úr næstu helgi nær loftsteinadrífan geminítar hámarki (13. og 14. des.) en stjörnuhröp frá þeim ættu einnig að sjást um helgina (sjást á milli 7. og 17. des.). Loftsteinadrífan virðist koma frá punkti í stjörnumerkinu Tvíburunum en nafnið geminítar er dregið af Gemini sem merkir tvíburar á latínu.
Hér til hliðar má sjá mynd af stjörnumerkinu Tvíburunum úr forritinu Stellarium.
Til þess að finna stjörnumerkið Tvíburana á himninum er best að nota stjörnukort mánaðarins fyrir kvöld eða morgna í desember.
Úti í sveit og ekkert tungl
Best er að skoða geminítana úti í sveit en björtustu loftsteinahröpin sjást samt úr bænum þar sem er þokkalega dimmt. Tunglið skemmir einnig fyrir. Það fer vaxandi sem þýðir að tunglið sest ekki fyrr en líður á kvöldið.
Hér að neðan er mynd úr forritinu AstroViewer sem sýnir hvenær reikistjörnurnar og tunglið sjást á himninum. Á myndinni sést að tunglið sest um kl. 23 á laugardagskvöldið 11. desember. Á sunnudagskvöldið sest það á milli tólf og eitt.
Bæði er hægt að skoða gagnvirkt stjörnukort á vefsíðu AstroViewer eða hlaða því niður í ókeypis, íslenskri útgáfu (neðst til vinstri á niðurhals-vefsíðunni).
Ekki verra að fara út snemma á morgnana!
Það er ekkert síðra að fara út að morgni dags til þess að kíkja eftir geminítunum. Mesta myrkrið er fyrir kl. 8 á morgnana. Venus skín skært í suðaustri á morgnana og á sama svæði á himninum er einnig að finna reikistjörnuna Satúrnus (sjá morgun-stjörnukortið á vefnum okkar).
Gangi ykkur vel!
-Sverrir
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Snilldarforrit þetta Stellarium.
Hörður Sigurðsson Diego, 9.12.2010 kl. 19:42
Hjartanlega sammála! Mjög falleg áferð á myndunum í því og tiltölulega einfalt í notkun.
Sverrir Guðmundsson (IP-tala skráð) 10.12.2010 kl. 12:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.