Ágætar líkur á norðurljósum í nótt – Stardust heimsækir halastjörnu í nótt

Í nótt, klukkan 04:56 að íslenskum tíma, flýgur Stardust geimfarið framhjá halastjörnunni Tempel 1. Þetta er í annað sinn sem þessi halastjarna er heimsótt. Þann 4. júlí árið 2005 flaug Deep Impact geimfarið framhjá henni. Í leiðinni losnaði lítið koparskeyti frá geimfarinu sem klessti á halastjörnuna og myndaði gíg. Svo mikið magn efnis losnaði við áreksturinn að ekki sást í gíginn sem olli stjörnufræðingum nokkrum vonbrigðum.

tempel_1_deep_impact_1060893.jpg

En nú fá menn annað tækifæri til að berja gíginn loks augum, þ.e.a.s. ef sú hlið halastjörnunnar snýr að geimfarinu. Menn vilja vita hvað gígurinn er stór og hve djúpur því það segir okkur hvernig halastjarnan er uppbyggð, þ.e. hvort hún sé mjög laus í sér (mjúk) eða hörð. Þetta er einnig í fyrsta sinn sem menn rannsaka halastjörnu í návígi fyrir og eftir sólnánd. Það gefur stjörnufræðingum kost á að skoða breytingar sem hafa orðið á henni á þeim tíma.

Til gamans má geta að Stardust er endurnýtt geimfar. Það varð fyrsta geimfarið í sögunni til að safna sýnum frá halastjörnu og koma þeim aftur heim til jarðar. Nánar má lesa sér til um halastjörnur, Stardust og Deep Impact á Stjörnufræðivefnum.

Fyrstu myndirnar berast snemma í fyrramálið og verða þær að sjálfsögðu birtar á Stjörnufræðivefnum.

===

Líkur á norðurljósum í nótt

Í nótt og annað kvöld eru góðar líkur á ágætum norðurljósum yfir Íslandi. Þann 13. febrúar síðastliðinn varð nefnilega öflugasti sólblossi ársins hingað til en hann sendi nokkurt magn hlaðinna einda frá sólinni í átt til jarðar. Solar Dynamics Observatory geimfar NASA tók mynd af blossanum sem sést hér undir:

sdo_solblossi_13feb2011.jpg

Sólblettir eru virk svæði á sólinni þar sem sólblossar eiga upptök sín. Blossinn 13. febrúar átti rætur að rekja til sólblettahópsins 1158 sem sést hér undir:

sdo_solblettahopur_1158.jpg

Vert er að taka fram að sólblossinn var ekki gríðarlega öflugur en blossar sem þessi eru mjög algengir. 

- Sævar Helgi Bragason


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Er einhver tími betri en annar til að sjá norðurljós á þessum árstíma.

Mér finnst þetta vera snemma á völdin núna og missi yfirleitt af þeim

Sigurður (IP-tala skráð) 14.2.2011 kl. 23:50

2 identicon

kvöldin ekki völdin

Sigurður (IP-tala skráð) 14.2.2011 kl. 23:51

3 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Það er oft ágætt að líta til himins klukkan 21 eða svo og svo aftur um eða skömmu eftir miðnætti. Það virðist einna besti tíminn til að fylgjast með norðurljósunum. Annars geta þau að sjálfsögðu birst svo til hvenær sem er næturinnar. Maður þarf bara að fylgjast með en það eru yfirleitt góðar líkur á að sjá þau um þetta leyti, kl. 21 og upp úr miðnætti.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 15.2.2011 kl. 11:10

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband