18.2.2011 | 10:45
Segulstormur hafinn en hvað varð um norðurljósin?
Kórónuskvettan sem sólin sendi frá sér fyrir skömmu náði til jarðar í gærkvöld. Línurit segulmælingastöðvarinnar í Leirvogi sýndi að segulstormur hófst skömmu eftir klukkan 01 í nótt (sjá mynd til hægri) en hann var og er ekki eins öflugur og búist var við miðað við að um X-blossa var að ræða. Hann heldur áfram næstu klukkustundir en ekki er vitað hve lengi hann stendur yfir. Ekki nokkur hætta er á ferðum.
Ég fylgdist með himninum í alla nótt en sá engin norðurljós eins og líklega margir aðrir. Það kom nokkuð á óvart en náttúran hefur jú tilhneigingu til að vera óútreiknanleg á köflum. Stundum gerist ekkert tímunum saman og svo allt í einu byrjar ballið. Til að sjá norðurljós er því einfaldlega best að fylgjast vel með og gá til himins annað slagið. Það eru enn líkur á að sjá falleg norðurljós í kvöld og nótt og um að gera að hafa augun opin. Ef kraginn sem sést hér undir er rauður, horfðu þá til himins! (Þegar þetta er skrifað eru greinilega fín norðurljós yfir Kanada.)
Sólin er smám saman að vakna til lífsins aftur eftir ládeyðu síðustu ára. Þess vegna þótti fyrsti X-blossi nýju sólblettasveiflunni marka ákveðin tímamót. Á næstu árum, þegar virkni sólar eykst frekar, eigum við von á að X-blossar verði tíðari og öflugri. Og þá fyrst verður gaman. Við látum ykkur klárlega vita þegar við fáum yfir okkur væna gusu af hlöðnum eindum frá stjörnunni okkar.
Tengt efni:
- Sólin
- Sólblossar (við viljum blossa eins og þá sem sjást í þessari grein)
- Kórónuskvettur
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 10:49 | Facebook
Athugasemdir
Getur einhver upplýst mig um hver er slóðin á þetta kort hér fyrir ofan?
Björn Thorarensen (IP-tala skráð) 18.2.2011 kl. 14:07
Kortið kemur héðan:
http://www.swpc.noaa.gov/SWN/index.html
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 18.2.2011 kl. 14:16
Ég var á fótum til að verða 5 í morgun, alltaf að líta til himins og fylgjast með spaceweather.com og mælinum í Leirvogi og þetta hefur greinilega byrjað þegar ég var að leggja höfuðið á koddann og fara að sofa!!
Maður er greinilega ekki alltaf með heppnina með sér ;)
Sigurjón Valgeir (IP-tala skráð) 18.2.2011 kl. 14:38
Jamm stundum er þetta svona. Var sjálfur á fótum klukkan 6 í morgun en þá var ekkert að gerast þannig að þú fórst ekki of snemma að sofa.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 18.2.2011 kl. 14:39
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.