Magnað myndskeið af sólblettahópnum

Vonandi rætast spárnar um mikla norðurljósadýrð á himni yfir okkur í nótt og næstu nætur. Það er kominn tími á fallegt sjónarspil.

Viðbót kl. 18:00 - Hvenær er best að líta til himins? Það er óljóst enda vitum við ekki hversu hratt agnirnar ferðast. Oft er ágætt að líta til himins um klukkan 21 og um eða upp úr miðnætti. Norðurljósin geta samt sem áður auðvitað birst hvenær sem er. Tunglið er næstum fullt svo birtan frá því dregur nokkuð úr birtu norðurljósanna. 

Ég rakst annars á þetta magnaða myndskeið af myndun sólblettahópsins 1158 sem á sök á öllum þessum blossum að undanförnu:

Myndskeiðið er búið til úr myndum Solar Dynamics Observatory geimfarsins. Hópurinn er margfalt stærri en jörðin að þvermáli.

Grípum niður í texta í grein um Sólina á Stjörnufræðivefnum um myndun sólbletta:

Sé fylgst með sólblettum í nokkra daga má sjá þá breytast, stækka eða minnka, á sama tíma og þeir ferðast þvert yfir skífu sólar. Sólblettir eru dökkleit svæði í ljóshvolfinu sem birtast stundum stakir en oftar en ekki í hópum. Blettirnir eru mjög misstórir, oftast nær miklu stærri en jörðin að þvermáli og geta jafnvel orðið stærri en Júpíter.

Sólblettir myndast þar sem sterkt staðbundið segulsvið hindrar að heitara gas stígi upp á við. Út frá Wienslögmáli má reikna út að hitastig sólbletts sé rétt yfir 4000°C, samanborið við tæplega 5600°C hitastig ljóshvolfsins í kring. Með lögmáli Stefan-Boltzmann má reikna út að bletturinn sendir frá sér 30% minna ljós en náliggjandi svæði. Sólblettirnir eru því svalari og virkari svæði þar sem hitastigsmunur birtist sem birtumunur. Þess vegna eru sólblettirnir dökkir á að líta.

Sterkara segulsvið við sólblettasvæðin veldur hitun kórónunnar að hluta og myndar virkari svæði. Þessi virku svæði valda sólblossum og kórónuskvettum.

Sólblettir eru ekki varanleg fyrirbæri í ljóshvolfinu en líftími þeirra er frá fáeinum klukkustundum upp í fáeinar vikur eða mánuði. Fjöldi sólbletta er sömuleiðis óstöðugur og breytist umtalsvert yfir ellefu ára tímabil sem kallst sólblettasveifla (solar cycle). Þegar sólblettasveiflan er í lágmarki eru sárafáir eða jafnvel engir sólblettir á sólinni svo mánuðum skiptir. Þegar sólblettasveiflan nær hámarki á nýjan leik er sólin óhemju virk og fjölmargir sólblettahópar myndast. Búist er við því að næsta sólblettahámark verði í maí 2013, en þá veikara en venjulega.

----

Rytjuleg þyrilþoka

Í gær birtum við glæsilega mynd af fagurri endurskinsþoku í stjörnumerkinu Óríon. Í dag birtum við aðra mynd, ekki síður glæsilega, frá Hubble geimsjónaukanum af óvenjulegri þyrilvetrarbraut

----

Opið hús hjá Stjörnuskoðunarfélaginu á sunnudaginn - námskeið á Akureyri

Sunnudaginn 20. febrúar verður opið hús hjá Stjörnuskoðunarfélaginu í Valhúsaskóla. Ýmislegt forvitnilegt er á dagskrá.

Enn eru nokkur laus pláss í námskeið Stjörnufræðivefsins og Stjörnuskoðunarfélagsins. Við verðum einnig á Akureyri í mars. Sjá nánar hér.

 

- Sævar


mbl.is Norðurljósadýrðar að vænta
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Vendetta

„Það má reikna með að norðurljós sjáist suður við miðbaug,“ sagði Þorsteinn.

Ég hélt að það sæjust bara suðurljós fyrir sunnan miðbaug.

Vendetta, 17.2.2011 kl. 22:38

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Held að lykilorðið hér sé suður "við". Sem sagt, eins sunnarlega á norðurhvelinu og hægt er.

En ég hef annars ekki trú á því að norðurljós sjáist svo sunnarlega. Blossinn og gusan sem þeyttist út í geiminn var ekki nægilega stór til þess. Við hér norðarlega megum samt búast við ágætum norðurljósum.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 17.2.2011 kl. 23:03

3 Smámynd: Vendetta

Ég hef ekki séð neitt ennþá, samt er heiðskírt. Hvenær svona circa verður þetta?

Vendetta, 17.2.2011 kl. 23:31

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Það veit enginn en talið líklegt að það verði í seint nótt. Þetta er oft voðalega óútreiknanlegt. Norðurljósin hafa tilhneigingu til að koma okkur á óvart. Stundum birtast þau nánast bara upp úr þurru svo besta aðferðin er bara að fylgjast með, líta annað slagið út um gluggann.

Fólk mun þó tækifæri til að sjá enn fallegri norðurljósasýningu síðar, þegar sólblettasveiflan er í hámarki. Það eiga mörg svona virk svæði eftir að prýða sólina á næstu árum og norðurljós himininn okkar. Við óskum þess bara að norðurljósin birtist um á tunglskinslausu kvöldi. Tunglið er nefnilega svo bjart núna að það dregur verulega úr birtu norðurljósanna.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 17.2.2011 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband