17.3.2011 | 23:43
Geimfar á braut um Merkúríus í fyrsta sinn
Rétt eftir miðnætti að íslenskum tíma, aðfaranótt 18. mars, kemst MESSENGER geimfar NASA á braut um Merkúríus. Þetta er í fyrsta sinn sem geimfar kemst á braut um þessa litlu og steiktu reikistjörnu sem er smærri en tvö stærstu tungl Sólkerfisins, Ganýmedes og Títan.
MESSENGER var skotið á loft í ágúst 2004 og var því næstum sex og hálft ár á leiðinni. Ástæðan er ekki sú að Merkúríus sé svo langt í burtu, heldur er reikistjarnan svo djúpt inni í þyngdarbrunni sólar að hægja þarf á ferð geimfarsins eins og frekast er unnt svo það komist á braut um hana. Að öðrum kosti þýtur geimfarið framhjá. Að lokum kemst MESSENGER á sporöskjulaga pólbraut með 12 klukkustunda umferðartíma. Fjarlægðin verður minnst 200 km en mest yfir 15.000 km.
MESSENGER ver heilum tveimur Merkúríusardögum á braut um Merkúríus. Tveir Merkúríusardagar eru reyndar fjögur Merkúríusarár eða eitt jarðarár. Merkúríus snýst nefnilega hægar um sjálfan sig en umhverfis sólina eins og lesa má um hér.
Merkúríus er mjög forvitnilegur hnöttur sem við vitum afskaplega lítið um. Við fyrstu sýn virðist hann ekki mjög ólíkur tunglinu okkar en ekki er allt sem sýnist. Hann er þéttasti hnöttur sólkerfisins á eftir jörðinni. Merkúríus er hnöttur öfganna, að minnsta kosti þegar kemur að yfirborðshitastigi. Lofthjúpur er af skornum skammti og því sveiflast hitastigið frá 430°C hita á daginn niður í -170°C frost á næturnar. MESSENGER vafalaust eftir að draga upp mjög áhugaverða mynd af þessum hnetti.
Endum þetta á einni glæsilegri mynd frá MESSENGER, sem er reyndar ekki af Merkúríusi heldur kunnuglegri hnöttum:
Já, þarna erum við. Þetta er heima. Þetta er jörðin og tunglið séð frá innstu reikistjörnu sólkerfisins.
Tengt efni
- MESSENGER á Stjörnufræðivefnum
- Merkúríus á Stjörnufræðivefnum
- Heimasíða MESSENGER
- NASA TV (Bein útsending frá brautarinnsetningunni)
Já, vissir þú að á Merkúríusi eru tveir gígar sem nefndir eru eftir Íslendingum
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:50 | Facebook
Athugasemdir
Magnað að sjá jörðina frá þessu sjónarhorni
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.3.2011 kl. 00:46
.... og tunglið svona asskoti nálægt
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.3.2011 kl. 00:46
Og samt er tunglið óskaplega langt frá jörðinni. Ég held að hérna sé það fyrst og fremst sjónarhornið sem valdi því að tunglið er svona nálægt jörðinni. Tunglið getur gengið fyrir jörðina frá þessu sjónarhorni.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 18.3.2011 kl. 14:18
Já, auðvitað... ef ég hefði hugsað aðeins
Jörðin er ekki nema ca. 12.000 km í þvermál og tunglið er í 350-400 þus. km fjarlægð. Ef sjónarhornið sýndi mestu fjarlægðina, þá væri tunglið lengst út í rassgati
Gunnar Th. Gunnarsson, 18.3.2011 kl. 15:50
Þetta er náttúrulega glæsileg mynd 8)
Halldór Björgvin Jóhannsson, 18.3.2011 kl. 21:02
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.