Sjáðu tunglið heilsa upp á Júpíter og Venus

Líklega hafa fjölmargir tekið eftir skæru reikistjörnunum tveim sem prýtt hafa kvöldhimininn í vestri undanfarnar vikur. Á sunnudags- og mánudagskvöld heldur sjónarspilið áfram þegar örmjór vaxandi máni heilsar upp á Júpíter og Venus. Þetta eru síðustu forvöð til að sjá þríeykið dansa saman á himninum þetta árið.

Á sunnudagskvöld verður tunglið aðeins tveimur gráðum fyrir ofan Júpíter. Gríptu tækifærið og skoðaðu tvíeykið með handsjónauka. Haltu honum eins stöðugum og hægt er og þú gætir séð fimm tungl í sömu andrá: Mánann, Íó, Evrópu, Ganýmedes og Kallistó — Galíleótunglin fjögur við stærstu reikistjörnu sólkerfisins! Það er sjón að sjá! Og hugsaðu þér að eitt þessara tungla er eldvirkasti staður sólkerfisins og að á öðru gæti verið líf.

tunglid_jupiter_venus_25mars2012.png

Tunglið, Venus og Júpíter sunnudagskvöldið 25. mars séð frá Reykjavík. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Stellarium

Þegar myrkrið hellist smám saman yfir eru líkur á að þú sjáir næturhlið tunglsins ágætlega vegna jarðskins. Jörðin lýsir nefnilega upp tunglið með sama hætti og fullt tungl lýsir upp nóttina á jörðinni þegar það endurvarpar sólarljósinu. Nýverið uppgötvuðu stjörnufræðingar líf í geimnum... á jörðinni... með því að horfa á jarðskinið á tunglinu.

Mánudagskvöldið 26. mars verður tunglið skammt fyrir ofan Venus. Betra er að nota stjörnusjónauka til að skoða ástarstjörnuna og sjá að rétt tæpur helmingur hennar er upplýstur af sólinni. (Þá hefurðu staðfest sólmiðjukenninguna!) Venus er smám saman að nálgast jörðina og því er birta hennar að aukast. Hámarkinu er náð eftir örfáar vikur þegar hún er örmjó sigð, rétt eins og tunglið þetta kvöld.

tunglid_venus_jupiter_26mars2012.png

Tunglið, Venus og Júpíter mánudagskvöldið 26. mars séð frá Reykjavík. Mynd: Stjörnufræðivefurinn/Stellarium

Tunglið mun heimsækja Venus í tvígang áður en reikistjarnan setur svartan blett á sólina þann 5. júní næstkomandi (þá verður þverganga, mjög sjaldgæfur stjarnfræðiviðburður).

Samstöður sem þessar eru alltaf óhemju glæsilegar, sér í lagi þegar himininn er orðinn dimmur og hnettirnir skína skærast.

Nú krossleggjum við bara fingur og óskum eftir góðu veðri.

Minni á Facebook síðu Stjörnufræðivefsins.

Allir út að kíkja! 

– Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband