22.2.2013 | 16:28
Stórkostlegt myndskeið af kórónuregni á sólinni
Stilltu á fulla skjástærð, fulla háskerpu, slökktu ljósin í kringum þig og njóttu þess að horfa á þetta stórkostlega myndskeið af sólinni okkar!
Í byrjun sést sólblossi sem varð 19. júlí í fyrra en honum fylgdi einnig kórónuskvetta út í geiminn. Rafgasið stígur upp úr sólinni, streymir meðfram segulsviðinu og myndar svokallaða kórónulykkju. Þetta gas er um það bil 50.00°C heitt.
Þegar líður á myndskeiðið sést svo hvernig þetta gas rignir niður á sólina aftur í kórónuregni. Ótrúlega glæsilegt.
Myndskeiðið er sett saman úr myndum sem Solar Dynamics Observatory geimfar NASA tók. Farið tók eina mynd á tólf sekúndna fresti en myndskeiðið er sýnt í 30 römmum á sekúndu svo hver sekúnda samsvarar 6 mínútum í rauntíma.
Hér undir sjást svo stærðarhlutföllin. Jörðin kæmist að minnsta kosti tíu sinnum fyrir í röð frá efsta hlutanum til hins neðsta.
Sólin okkar er ótrúlega mögnuð!
- - -
Myndin er smám saman að skýrast af Chelyabinsk loftsteininum. Hann var líklega í kringum 17 metrar í þvermál (á stærð við hús) og vó á bilinu 7.000 til 10.000 tonn (ekki tíu tonn eins og sagt hefur verið frá í mörgum fjölmiðlum). Enginn smá hnullungur þar á ferð!
Steinninn sprakk með jafngildi 30 Híróshíma kjarnorkusprengja. Höggbylgjan jafngilti 10 til 20 földum venjulegum loftþrýstingi en rúður brotna við fimmfaldan.
Þennan viðburðaríka föstudag ræddi ég við átta fjölmiðla um þennan stein og smástirnið 2012 DA14 sem fór framhjá jörðinni sama daga. Ég fékk oftast svipaðar spurningar en þessi var algengust: Tengjast 2012 DA14 og Chelyabinsk loftsteinninn?
Til að skera úr um hvort fyrirbærin tengist þurfum við að skoða brautir þeirra. Smástirnið fannst í fyrra (sbr. 2012 í nafni þess) svo braut þess var vel þekkt. Ttil að finna út braut loftsteinsins þarf að skoða stefnu hans inn í lofthjúp jarða.
Ef fyrirbærin tengdust, ætti braut beggja að vera svipuð, eiginlega eins. Svo er ekki eins og sjá má á myndinni hér undir:
Augljóst er að brautir þeirra eru gerólíkar. Braut Chelyabinsk loftsteinsins lá út fyrir braut Mars á meðan smástirnið er á svipaðri braut um sólina og Jörðin. Eins og sjá má hefði Chelyabinsk loftsteinninn hæglega geta rekist á Mars hefði Jörðin ekki orðið í vegi hans.
Þeir molar sem hafa fundist hingað til benda til þess að steinninn hafi verið af gerðinni kondrít eins og 95% af öllum loftsteinum sem hafa fallið til Jarðar. Kondrít hefur verið notað til að aldursgreina sólkerfið okkar mjög nákvæmlega. Ef þú heimsækir einhvern tímann Stjörnuskoðunarfélagið geturðu fengið að halda á kondrít loftsteini.
Af þeim jarðnándarsmástirnum sem fundist hafa hingað til eru flest milli 300 metrar og 1 km í þvermál. Líklega höfum við aðeins fundið 1% af steinum í sömu stærðargráðu og 2012 DA14 sem var um 50 metra breiður. Um þá smærri, eins og þann sem féll yfir Chelyabinsk, vitum við nánast ekki neitt. Mjög erfitt er að finna svona lítil smástirni á sveimi í nágrenni Jarðar.
- Sævar Helgi
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Magnað!
Axel Jóhann Hallgrímsson, 22.2.2013 kl. 16:53
Frabaert. Takk fyrir.
Sigurdur K Hjaltested (IP-tala skráð) 22.2.2013 kl. 18:54
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.