15.11.2013 | 23:03
NASA sendir geimfar til Mars á mánudag
Teikning af MAVEN á leið til Mars. Mynd: NASA/GSFC
Klukkan 18:28 að íslenskum tíma mánudaginn 18. nóvember, skýtur NASA á loft nýju Mars-fari. Geimfarið heitir MAVEN og er ætlað að rannsaka lofthjúp Mars, einkum efstu lofthjúpslögin og víxlverkun þeirra við sólvindinn. Geimskotið verður sýnt í beinni útsendingu á vef NASA.
MAVEN verður skotið á loft með Atlas V-401 eldflaug frá Canaveralhöfða í Flórída. Gangi allt að óskum verður geimfarið á leið til Mars aðeins klukkustund eftir geimskot. MAVEN mun svo fara á braut um Mars þann 22. september á næsta ári. Ef fresta þarf geimskotinu er skotglugginn opinn dag hvern í tvær klukkustundir fram á Þorláksmessu.
Meginmarkmð MAVEN er að leita svara við spurningunni hvernig Mars glataði lofthjúpi sínum og hvernig hann heldur áfram að þynnast í dag. Geimfarið á að rannsaka uppbyggingu og efnasamsetningu efri hluta lofthjúps Mars í dag og þau ferli sem stjórna honum; ákvarða hve hratt gas úr honum sleppur út í geiminn og þau ferli sem stjórna því.
Í MAVEN eru átta mælitæki en engin myndavél.
Á Stjörnufræðivefnum eru nánari upplýsingar um geimfarið.
- Sævar Helgi
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.