Smástirni hafa komist nær og munu komast nær

Smástirnið sem um ræðir kallast 2007 TU24 og var næstum tvöfalt lengra frá jörðu en tunglið okkar er (meðalfjarlægðin til tunglsins er 385.000 km). Smástirnið er um 250 metrar í þvermál og hefði vitaskuld getað valdið skaða ef það hefði rekist á jörðina. Þá hefði 10 km breiður gígur myndast, orka losnað á við fimm kjarnorkusprengjur og jarðskjálfti upp á 7 á Richter orðið. Ryk hefði þyrlast upp í lofthjúpinn, dreifst yfir hnöttinn og sennilega valdið einhverri lítillegri kólnum á lofthita um stutta hríð. Tunglmyrkvinn sem verður aðfaranótt 21. febrúar myndi þá líklega ekki vera blóðrauður og fallegur heldur dimmur og dökkur.

Það er kannski orðum aukið að stjörnuáhugamönnum hafi gefist kostur á að sjá það í sjónaukum sínum því það var frekar dauft. Bandarískur stjörnuáhugamaður náði þessum fínu myndum af smástirnu þjóta yfir himinninn (ath, þetta gerist miklu hægar í raunveruleikanum) með 14 tommu sjónaukanum sínum.

Það sem stjörnufræðingum þykir einna helst merkilegast við þetta er stærð smástirnisins en ekki fjarlægðin þegar það komst næst jörðinni. Í mínum huga og huga flestra stjörnufræðinga er 538.000 km fjarlægð nokkuð langt frá jörðinni. Þessi mynd hér fyrir neðan, sem geimfarið MESSENGER tók, sýnir nokkurn veginn hvernig jörðin og tunglið hefðu birst geimfara á yfirborði þess (jörðin og tunglið hefðu sennilega verið örlítið stærri í rauninni).

Jörðin og tunglið frá MESSENGER

Eins og sjá má er þetta ansi fjarlægt og ekki nokkur hætta á árekstri. Til að gera okkur örlitla grein fyrir fjarlægðinni skulum við hugsa okkur hefðbundið hnattlíkan. Ef jörðin er á stærð við hnattlíkan, eins og það sem er að finna í sumum skólastofum, er tunglið á stærð við golfkúlu (örlítið stærra) í tæplega 9 metra fjarlægð. Smástirnið væri þá á stærð við sandkorn í nálega 15 metra fjarlægð!

Fjöldi smástirna svífur framhjá okkur mörgum sinnum á ári, sum nær en önnur. Í fyrra svifu að minnsta kosti 17 smástirni framhjá okkur milli jarðar og tungls! Það kalla ég nálægt! Þessi smástirni voru hins vegar það smá að ekkert þeirra hefði þó valdið miklum skaða ef þau hefðu rekist á jörðina.

Smástirnið Apófis er aftur á móti nokkuð sem við ættum að fylgjast vel með! 

Að lokum minni ég enn og aftur á námskeiðið í stjörnufræði og stjörnuskoðun sem við stöndum fyrir ásamt Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness. Fyrra námskeiðið tókst frábærlega og fékk mjög góðar viðtökur. Enn eru nokkur pláss laus og ætti allt stjörnuáhugafólk ekki að láta þetta framhjá sér fara.


mbl.is Smástirni fór framhjá jörðinni í 500.000 km fjarlægð
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jón Stefánsson

Af hverju gat ekki original fréttin á mbl verið jafn nákvæm og þessi blogfærsla? Takk fyrir upplýsingarnar :)

Jón Stefánsson, 31.1.2008 kl. 08:28

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Etv er þetta ástæðan fyrir því að stjörnuskoðunarvefurinn ákvað að opna moggablogg. Vísindafréttirnar á mbl eru mijafnar svo ekki sé meira sagt, og oftar en ekki klunnalegar.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 31.1.2008 kl. 14:47

3 identicon

Enn og aftur sannast að s.k. fréttir á mbl.is eru langt frá því að vera boðlegt efni. Það virðist vera uppsóp af útlendum fréttavefjum, snarað hrovirknislega með það eitt að leiðarljhósi að ná athygli, fréttagildið virist aukaatriði. Þetta er æ oftar mín tilfinning. Ef það væru nú eingöngu að stjörnufræðifréttir væru undir þessum hatti væri þetta ef til vill afsakanlegt en það er ekki svo.

Ólafur F (IP-tala skráð) 31.1.2008 kl. 16:25

4 Smámynd: Jac Norðquist

Góð og fræðandi færsla, takk fyrir.

Jac Norðquist

Jac Norðquist, 1.2.2008 kl. 08:49

5 Smámynd: Ólafur Þór Gunnarsson

Gaman af þessu, takk fyrir.

Í Alvöru talað ! 

Ólafur Þór Gunnarsson, 1.2.2008 kl. 09:37

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband