Styttist í tunglmyrkvann

Þann 21. febrúar verður almyrkvi á tungli sem mun sjást um miðja nótt frá Íslandi (ef veður leyfir). Komið hefur upp sú hugmynd að stjörnuáhugamenn hittist og og fylgist með myrkvanum. Við þekkjum það af reynslu frá síðustu tveimur tunglmyrkvum að þótt veðurútlitið sé ekki gott í upphafi myrkvans koma oft glennur þannig að tunglið sést inni á milli skýjanna.

Áform um hitting stjörnuáhugamanna verða kynnt hér á blogginu þegar nær dregur.

tunglmyrkvi_02 Almyrkvinn verður á milli kl. 3:00 og 3:51 aðfararnótt fimmtudagsins (eftir 12 daga). Tunglið byrjar að ganga inn í alskugga jarðar kl. 1:43 og hefst þá deildarmyrkvi. Það er mjög gaman að fylgjast með því þegar tunglið myrkvast enda er engu líkara en búið sé að stroka út hluta tunglskífunnar (skilin eru ekki hnífskörp eins og í aðdraganda sólmyrkva).

Hér eru upplýsingar um myrkvann (tímasetningar og hvaðan hann sést) af myrkvasíðu NASA. Stjörnufræðingurinn Fred Espenak á heiðurinn af útreikningunum en hann er víðfrægur sem Mr. Eclipse (eins og heimasíða hans gefur til kynna). Tímasetningarnar á kortinu eru skv. UTC (sömu og hér á Íslandi). Öfugt við sólmyrkva eru tunglmyrkvar „heimsviðburðir“ því þeir sjást frá allri næturhlið jarðarinnar!

Hér er að finna myndir íslenskra áhugamanna af myrkvum síðustu ára:

Mynd frá Snævarri Guðmundssyni

Myndir frá Sævari Helga Bragasyni

- Sverrir


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

Gaman að þessu myndum, myndin frá Snævarri minnir mig á það að þegar ég fór í mína fyrstu utanlandsferð, sem var árið 1982, þá sá ég tunglmyrkva, að ég held. Ég fór ásamt félögum mínum í MK til Ítalíu og á heimleið eftir eina skoðunarferð okkar þá sá ég hvað tunglið var ofboðslega rautt. Það var eiginlega alveg eins og tunglið hans Snævarrs. Ég áttaði mig ekki á því fyrr en mörgum árum síðar að mögulega var þetta tunglmyrkvi. Er ekki möguleiki á að ég komist að því einhversstaðar, hvort það hafi verið tungmyrkvi seinni hluta ágústmánuðar (að mig minnir) árið 1982?

Ingibjörg Hinriksdóttir, 9.2.2008 kl. 17:38

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Já. Prófaðu að kíkja á yfirlit yfir tunglmyrkva á árabilinu 1980-1990. Það er að finna á undirsíðu um tunglmyrkva á NASA-síðunni sem við vísuðum á.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 9.2.2008 kl. 19:20

3 Smámynd: Ingibjörg Hinriksdóttir

O jæja, þetta hefur þá ekki verið tunglmyrkvi, sennilega bara mengun!  En tunglið var rautt eins og á myndinni hans Snævarrs. Verst að nú get ég ekki lengur sagt að ég hafi séð tunglmyrkva. Held að ég vakni tæplega til að sjá myrkvann 21. febrúar. Vona samt að sjá myndir frá ykkur hinum sem vakið!

Ingibjörg Hinriksdóttir, 10.2.2008 kl. 00:46

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband