25.2.2008 | 13:10
Ljósmengun er stórt vandamál
Á síðustu árum hefur ljósmengun vaxið gríðarlega innan höfuðborgarsvæðisins, raunar svo mikið að nánast ómögulegt er að stunda stjörnuskoðun innan þess. Í ljósi þessarar þróunar hafa félagsmenn í Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness leitað í síauknum mæli að aðstöðu fyrir utan höfuðborgarsvæðið, þar sem ljósmengun er í algjöru lágmarki og myrkur gott. Slíkir staðir eru vandfundnir í nágrenni höfuðborgarinnar.
Undanfarin misseri hafa félagsmenn í Stjörnuskoðunarfélaginu stundað stjörnuskoðun við Grænavatn í Krýsuvík með góðum árangri. Í Krýsuvík er myrkur með því besta sem gerist á suðurlandi og aðstæður þar oftast hinar ákjósanlegustu. Krýsuvík er nógu langt frá borg og bæjum til að ljósmengun frá þeim komi ekki í veg fyrir að daufustu vetrarbrautir sjáist og fínustu smáatriði á reikistjörnunum séu sýnileg, en nógu stutt svo hægt er að fara þangað án mikillar fyrirhafnar. Í raun er Krýsuvík meðal bestu staða á landinu fyrir stjörnuáhugafólk að viðra fyrir sér óspilltan næturhiminn. Útsýni til suðurs er algjörlega óheft, nokkuð sem er stjörnuáhugafólki mjög mikill hagur í. Segja má að Krýsuvík sé vin í ljósmengunareyðimörkinni, eins og sjá má á meðfylgjandi mynd, og þar sér Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness framtíð sína fyrir sér.
Eins og sjá má á þessu korti af ljósmenguninni er hún gríðarleg frá höfuðborgarsvæðinu og bæjum í kringum. Grænavatn er rétt sunnan við Kleifarvatn sem sést vel á myndinni og þar er ljósmengun lítil sem engin. Þrátt fyrir það er bjarminn frá borginni í norðri svo mikill að ómögulegt er að skoða fyrirbæri lágt á norðurhimni. Sértu staddur eða stödd á Suðurstrandavegi líta þessir bæir út fyrir að vera eyjur í náttmyrkrinu.
Ljósmengun er gríðarlegt vandamál. Á hverjum degi sóum við milljónum króna með illa hannaðri lýsingu sem gerir ekkert gagn en kostar mikla fjármuni og er mjög ósnyrtilegt. Með einföldum aðgerðum er hægt að búa þannig um lýsinguna að hún beinist einungis á þá staði sem á að lýsa en ekkert annað. Það er miklu skynsamlegra og miklu snyrtilegra.
Á þessari mynd sést mjög léleg lýsing á gömlu Bónusversluninni á Seltjarnarnesi. Eins og sjá má lýsir kastarinn lítið upp planið fyrir framan verslunina en þeim mun meira upp í loftið, engum til gagns. Þetta er ennfremur mjög sóðalegt og ljótt. Ætli Bónus hefði getað lækkað vöruverð örlítið ef þeir vönduðu lýsinguna á verslunum sínum?
Hvers vegna sættum við okkur við lélega lýsingu í umhverfi okkar? Við myndum ekki sætta okkur við að göturnar okkar væru uppfullar af drasli, loftmengun væri svo mikil að ekki sæist í Esjuna og hávaðamengun svo mikil að ekki væri hægt að njóta kyrrðarinnar. Því miður er ofangreint dæmi langt í frá það eina þar sem trassaskapur og hugsunarleysi skemmir fyrir næturhimninum og eykur ljótleika okkar nánasta umhverfis. Ég vil lifa í snyrtilegu umhverfi, en þú?
- Sævar
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.