22.3.2009 | 15:03
Íslenskir vefmiðlar og Jade Goody
Ég hef aldrei farið leynt með það að mér finnast íslenskir vefmiðlar standa sig skelfilega illa í því hlutverki sínu að upplýsa fólk um nýjustu fréttir í vísindum. Það liggur við að við getum verið þakklát fyrir eina vísinda- eða tæknifrétt á viku. Á sama tíma eyða þeir miklum tíma, púðri og bandvídd í að flytja okkur "fréttir" af einhverjum smástirnum (vildi óska þess að það væru alvöru smástirni sem fengju jafnmikla athygli) um heim allan. Í fæstum tilvikum eru fréttirnar af fólkinu áhugaverðar.
Upp á síðkastið hafa íslenskir vefmiðlar verið afar duglegir í að fjalla um veikindi einhverrs bresks smástirnis sem hét Jade Goody. Hún lést í víst í nótt eftir baráttu við krabbamein. Dapurleg örlög auðvitað og geri ég ekkert lítið úr því.
En hver var annars þessi kona? Ég hafði aldrei heyrt um hana fyrr en Vísir.is og Mbl.is sagði okkur fréttir af veikindum hennar. Ég skil ekki hvaða erindi þessar fréttir hafa fyrir okkur hér á landi, þar sem við höfum aldrei séð þennan þátt í íslensku sjónvarpi. Ég þekki ekki ýkja marga sem hafa fylgst með Big Brother í Bretlandi. Af hverju er verið að eyða tíma í fréttaflutning af þessari konu?
Ég bíð spenntur eftir því að fréttavefir BBC eða Sky flytji Bretum fréttir af því þegar íslenskur leikari (nú eða íslensk raunveruleikastjarna) veikist og deyr. Einhvern veginn efast ég um að við eigum eftir að sjá þá frétt á erlendum vefjum. Enda á sú frétt ekkert erindi við aðrar þjóðir.
Elsku bestu Mbl.is, Vísir.is og Eyjan.is. Gerið nú okkur þeim þúsundum á Íslandi sem hafa áhuga á vísindum þann greiða að leggja jafn mikinn tíma í fréttaflutning af vísindum eins og þið leggið í slúðurfréttir. Á sama tíma leggið eitthvað gagnlegt til þjóðfélagsins. Það veitir nefnilega ekki af að efla áhuga á vísindum. Ég er ekki að biðja um stöðugar fréttir, bara örlítið meira en venjulega. Sýnið þessu pínulítið meiri áhuga.
Sendir fjölskyldu Goodys samúðaróskir | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 15:06 | Facebook