5.9.2009 | 11:08
Um tunglferðirnar
Við minntumst á þessa kostulegu frétt hér á blogginu í gær og höfðum heldur betur gaman af.
Í gær birti Arizona háskóli nýja ljósmynd Lunar Reconnaissance Orbiter af lendingarstað Apollo 12 og Surveyor 3. Myndin er alveg stórglæsileg og sýnir slóðirnar eftir geimfarana Pete Conrad og Alan Bean. Myndina má sjá hér fyrir neðan:
Þú getur skoðað þessa mynd í stærri útgáfu í stuttri frétt um hana á Stjörnufræðivefnum.
Sumir vitleysingar (já þeir eru sannarlega vitleysingar að halda þessu rugli á lofti) halda því fram að mannkynið hafi aldrei farið til tunglsins. Þetta er nefnilega einhver heimskulegasta samsæriskenning sem til er. Öll "rök" sem koma fram hjá þeim sem halda þessu fram eru rökleysur. Þeir sem halda þessu rugli á lofti er fólk sem einfaldlega hefur EKKERT kynnt sér Apollo geimáætlunina og tunglferðirnar sjálfar. Þetta er stórkostleg saga sem ótrúlega margir keppast um að gera lítið úr. Maður ætti nú varla að verja tíma í svona bull og vitleysu, það er álíka gagnlegt og að rökræða við sköpunarsinna sem líka hafa sannarlega rangt fyrir sér.
Fyrir skömmu keypti ég frábæra bók eftir Andrew Chaikin sem nefnist Voices from the Moon. Í henni lýsa tunglfararnir með eigin orðum reynslu sinni af tunglferðunum. Eigin orð geimfaranna eru nægar sannanir fyrir því að þeir lögðu virkilega líf sitt í hættu til að ferðast alla leið frá jörðinni til tunglsins. Svo ekki sé minnst á allt grjótið sem þeir komu með heim, sólvindsmælana sem þeir settu upp á yfirborði tunglsins og komu með heim aftur, speglana sem skildir voru eftir til að mæla vegalengdina milli jarðar og tungls nákvæmlega, tunglskjálftamælina og svo framvegis og svo framvegis.
En myndin hér að ofan, jú hún var auðvitað Photosjoppuð ekki satt? Nei, það er álíka bjánalegt að halda því fram að tunglferðirnar hafi verið falsaðar og að halda því fram að pýramídarnir í Egyptalandi séu ekki til.
Báðust afsökunar á fréttaklúðri | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Athugasemdir
Varðandi samsæriskenninganöttarana; í þeirra tilviki snýst þetta auðvitað bara um hverju(m) menn vilja trúa. Ef Bandaríkjamenn væru að nota sömu gögn til að reyna að hrekja jaðarkenningar um að þeir hefðu farið til tunglsins (en hefðu í því tilviki ekki gert), væru sömu týpur að lesa hið gagnstæða út úr þessu öllu saman. :)
Eyjólfur (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 12:19
Ég tek undir með síðasta ræðumanni
Garðar Valur Hallfreðsson, 5.9.2009 kl. 14:35
Ég heyrði eht að filmurnar í myndavélunum sem þeir voru með í allavega einhverjum tunglferðana virki ekki í frosti, eitthvað til í því?
Atli (IP-tala skráð) 5.9.2009 kl. 19:17
Nei, tungllendingarnar fóru fram að degi til og því var ekki frost á tunglinu á þeim tíma. Filmurnar voru líka í einangruðu hylki svo frost eða hiti hafði engin áhrif.
Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 5.9.2009 kl. 19:27
Það er með þessar samsæriskenningar um tunglferðirnar og aðrar samsæriskenningar að í þeim kristallast a.m.k. tvennt:
1) Hugmyndaflug mannskepnunnar er ótrúlega mikið.
2) Mikill munur er á heimsmynd þeirra sem afla sér þekkingar eftir varfærum aðferðum vísindanna og hinna sem trúa hinu og/eða þessu án ítarlegrar gagnrýni.
Það er hryggilegt að upplifa hversu trúgjarnir margir eru því þegar þekkingin er byggð á trú verður "sannleikurinn" hver sem er og háður þeim hindurvitnum sem hver og einn fylgir. Vísindin eru hins vegar hin þrotlausa leit að hinum algilda sannleika sem allt mannkyn getur sameinast um með rökréttri fyrirhöfn.
Eiríkur Sjóberg, 6.9.2009 kl. 10:55
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.