24.9.2009 | 13:01
Vísindavaka Rannís á föstudagskvöldið
Hin árlega Vísindavaka RANNÍS fer fram föstudaginn 25. september í Listasafni Reykjavíkur kl. 17:00-22:00. Á Vísindavöku gefst almenningi kostur á að hitta vísindamenn sem stunda rannsóknir í hinum ýmsu vísindagreinum og kynnast viðfangsefnum þeirra. Öll fjölskyldan finnur eitthvað við sitt hæfi á Vísindavöku, en hún er haldin samtímis um alla Evrópu á Degi evrópska vísindamannsins. RANNÍS stendur fyrir Vísindavöku á Íslandi og í ár er samstarfsaðilum á landsbyggðinni boðið að vera með og kynna rannsóknir og fræði um allt land.
Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness tók í fyrsta sinn þátt í Vísindavökunni árið 2008. Í ár verða ljósmyndir sýndar af undrum alheimsins og fólki boðið að kíkja í gegnum Galíleóssjónaukann. Tímaritið Undur alheimsins verður að sjálfsögðu til sölu en einnig verða einhverjir glaðningar gefnir. Hver veit nema loftsteinn verði til sýnis?
---
Undanfarin ár hafa Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn staðið fyrir námskeiðum um stjörnufræði og stjörnuskoðun. Námskeiðin eru ætluð þeim sem eru að stíga fyrstu skrefin og er boðið upp á fræðslu um áhugaverð fyrirbæri á himninum auk kennslu í grunnatriðum sem tengjast sjónaukum. Skemmst er frá því að segja að námskeiðin hafa hlotið góðar undirtektir og vonandi hjálpað einhverjum af stað við að leggja stund á þetta skemmtilega áhugamál.
Nú í haust er ætlunin að endurtaka leikinn og bjóða upp á byrjendanámskeið 6.-7. október. Verður það með svipuðu sniði og síðast: blanda af fyrirlestrum og fræðslu um sjónauka. Skráning er hafin og eru nánari upplýsingar á námskeiðasíðunni. Einnig er hægt að skrá sig með að fara beint á skráningarsíðuna.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.