28.9.2009 | 12:51
Uppruni lífsins í Vísindaþættinum
Í Vísindaþættinum þriðjudaginn 29. september kemur heldur betur góður gestur í spjall til okkar, enginn annar en Guðmundur Eggertsson líffræðingur. Ætlunin er að rabba við hann um uppruna lífsins hér á jörðinni og vangaveltur um líf utan jarðar. Guðmundur mun halda fyrirlestur um þetta spennandi viðfangsefni laugardaginn 3. október í stofu 132 í Öskju.
Arnar Pálsson setti inn tilkynningu um fyrirlestur Guðmundar á bloggsíðu sína. Ætla ég að gerast svo djarfur henda henni hingað inn óbreyttri. Vona að hann fyrirgefi það.
Eftir rétta viku, 3 október 2009, mun Guðmundur Eggertsson halda fyrirlestur um uppruna lífsins.
Allar lífverur á jörðinni eru af sama meiði, það vottar innribygging þeirra, DNA, prótínmyndunarkerfi, og efnaskipti. En hvernig varð lífið til? Til að svara þeirri spurningu hafa verið settar fram mjög, mjög, mjög margar tilgátur. Vandamálið er að prófa tilgáturnar, þær þurfa að vera nægilega nákvæmar til að hægt sé að framkvæma tilraunir eða gera athuganir til að sannreyna þær (eða hrekja!).
Guðmundur mun fjalla um þessa stærstu spurningu líffræðinnar, og styðjast við að hluta bók sem hann gaf út árið 2008 (Leitin að uppruna lífs, líf á jörð, líf í alheimi - Bjartur). Bókin hefur ekki fengið mikla umfjöllun hérlendis, þrátt fyrir að vera tilnefnd til verðlauna Hagþenkis. Atli Harðarson birti þó lofsamlega umsögn um bókina.
Sjá einnig grein Guðmundar í Náttúrufræðingnum, endurprentuð á Stjörnufræðivefnum.
Erindið verður kl 13:00 í Öskju, náttúrufræðihúsi HÍ, stofu 132 og er öllum opið, engin aðgangseyrir.
Fyrirlesturinn er hluti af fyrirlestraröð í tilefni afmælis Charles Darwins, sjá dagskránna á darwin.hi.is.
Þátturinn hefst venju samkvæmt klukkan 17 á Útvarpi Sögu. Hann verður svo aðgengilegur á vefnum degi síðar... vonandi, það hefur víst stundum klikkað.
----
Á morgun flýgur MESSENGER geimfarið framhjá Merkúríusi í þriðja sinn á leið sinni til þessarar innstu reikistjörnu sólkerfisins. Með framhjáfluginu minnkar hraði MESSENGER nógu mikið til þess að geimfarið komist á braut um Merkúríus árið 2011. MESSENGER tók þessa fallegu mynd hér fyrir neðan af Merkúríusi þann 27. september síðastliðinn úr 672.000 km fjarlægð, 55 klukkustundum fyrir framhjáflugið.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.