Stjörnuáhugamenn telja stjörnur!

Stjörnuáhugamenn hafa í seinni tíð tekið upp á því að nota fjölda stjarna sem sjást á himninum sem mælikvarða á ljósmengun. Hugmyndin er einföld: Því færri stjörnur sem sjást á heiðum himni - þeim mun meiri er ljósmengunin. Mæling af þessu tagi er ekki nákvæm (t.d. er sjón fólks misjöfn) en gefur engu að síður vísbendingu um hve ljósmengunin er mikil. 


Ég er mjög hrifinn af þessari aðferðafræði. Þótt hún sé ekki hávísindaleg þá gefur hún kost á samanburði á milli staða og grófa hugmynd um áhrif ljósmengungar. Auk þess fer fólk út úr húsi að skoða sem er alltaf jákvætt! Loks minnir þetta okkur á að þótt aðstæður séu ólíkar og margt sem skapi sundrungu í heiminum þá búum við öll undir sama stjörnuhimninum sem er þess virði að passa vel upp á.


Það er í raun ekki alveg satt að fólk eigi að „telja“ stjörnurnar heldur á það að reyna að sjá hvaða myndir af stjörnumerkjum eins og Svaninum eða Óríoni passa við himininn (sjá dæmi að neðan). Þeir sem reyndari eru geta svo notað stjörnukort til þess að finna daufustu stjörnuna sem sést. Birtustig daufustu stjörnunnar nefnist birtumark. Það er til marks um dimman himinn ef birtumarkið er hátt!  


Svanurinn yfir Krýsuvík


Svona gætu Svanurinn og Sumarþríhyrningurinn litið út á himninum yfir Krýsuvík þar sem Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness stefnir að því að reisa stjörnustöð í framtíðinni. Kortið er úr forritinu SkyChart sem er til í íslenskri þýðingu.


Svanurinn yfir miðbænum


Svona gætu sömu stjörnumerki litið út yfir miðbæ Reykjavíkur ef marka má athuganir mínar í síðustu viku.


Sláandi munur, ekki satt?


Tvær alþjóðlegar stjörnutalningar


Á hverju ári fara fram tvær alþjóðlegar stjörnutalningar þar sem safnað er saman niðurstöðum úr stjörnutalningum áhugamanna hvaðanæva að úr heiminum. Þær nefnast Globe at Night og World Wide Star Count. Miðast talningartímabilið við fáeinar vikur að hausti eða vori þar sem reynt er að drífa sem flesta út að telja. 


Ekki hefur verið mikið gert af þessu hér á landi en vonandi verður breyting á því á næstu misserum. Í World Wide Star Count í október 2009 barst ein mæling frá Íslandi, nánar tiltekið frá þessum áhugamanni sem býr á Þingeyri. Stjörnuhiminninn þar er öllu skemmtilegri en í bænum enda ljósmengunin margfalt minni. Ég veit til þess að fleiri hefðu viljað taka þátt hér á Íslandi en í október var mikil rigningartíð og því sást lítið til stjarna.


Great World Wide Star Count 2009


Þrjár mælingar bárust frá íslenskum áhugamönnum í alþjóðlegri stjörnutalningu í október. Ég framkvæmdi tvær athuganir í Kanada og einn íslenskur áhugamaður skoðaði himininn yfir Þingeyri.

 

Ég sendi inn tvær athuganir mínar frá Edmonton í Kanada. Önnur þeirra var mat á fjölda stjarna í stjörnufræðiferð fyrir utan borgina (hér er blogg um hana). Hin mælingin var á himninum yfir miðborg Edmonton. Birtustig daufustu stjarnananna var svipað og yfir miðborg Reykjavíkur. Þó búa um 800 þúsund manns í Edmonton en aðeins 200 þúsund á höfuðborgarsvæðinu. Hér er greinilega þörf á að bæta úr! 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband