Nokkrar fréttir

Við höfum haft í nógu að snúast nú í upphafi árs og haft lítinn tíma til að blogga. Mig langar þess vegna til að vísa á nokkrar áhugaverðar fréttir sem birst hafa á vefnum okkar undanfarna daga.

----

Hubble þysjar að undarlegu fyrirbæri

Árið 2007 fann hollenskur kennari, Hanny van Arkel, undarlegt grænglóandi gasský þegar hún var að flokka vetrarbrautir í Galaxy Zoo verkefninu. Fyrirbærið var nefnt Hanny's Voorwerp eða Fyrirbæri Hannýjar á vondri eða góðri íslensku og er þekkt undir því nafni í fræðunum. Mynd Hubbles er sú besta sem tekin hefur verið af þessu fyrirbæri hingað til. Þar sést hvernig nálægt dulstirni (IC 2497), sem var virkt fyrir um 200.000 árum, lýsir upp skýið og svo virðist sem þar eigi stjörnumyndun sér stað.

Lesa meira

----

Keplerssjónaukinn finnur sína fyrstu bergreikistjörnu

Keplerssjónaukinn starir á um 150.000 stjörnur á litlu svæði á himinhvolfinu í leit að fjarreikistjörnum. Í vikunni tilkynntu stjörnufræðingar að Keplerssjónaukinn hefði fundið smæstu reikistjörnu sem fundist hefur utan okkar sólkerfis hingað til. Reikistjarnan er sú tíunda sem sjónaukinn finnur og er því nefnd Kepler-10b. Þessi reikistjarna er aðeins 1,4 sinnum stærri en jörðin og 4,6 sinnum massameiri og fellur því í þann flokk fjarreikistjarna sem nefndar hafa verið risajarðir. Hægt var að gera ótrúlega nákvæmar mælingar á móðurstjörnunni, sem líkist sólinni okkar, sem gerðu mönnum kleift að staðfesta að um bergreikistjörnu væri að ræða. Hitastigið á yfirborði hennar er líklegast um 1.300°C sem er hærra en hitastig kviku.

Lesa meira

----

Faldir fjársjóðir ESO líta dagsins ljós

Í lok árs 2010 efndi Stjörnustöð Evrópulanda, ESO, til stjörnuljósmyndakeppni. Þessi keppni var með erfiðara móti því í henni urðu þátttakendur að kafa ofan í stórt gagnasafn ESO í leit að hráum gögnum og vinna úr þeim fallegar ljósmyndir. Nærri 100 ljósmyndir bárust frá hæfileikaríku áhugafólki en vinningshafinn, rússneskur stjörnuáhugamaður að nafni Igor Chekalin, útbjó þessa gullfallegu mynd af Messier 78 í Óríon, og fær að launum ferð að Very Large Telescope ESO í Chile. 

messier_78.jpg

Lesa meira

----

Vinningshafi í jólaleik Stjörnufræðivefsins

Í desember 2010 stóðum við fyrir laufléttum leik í tilefni jólanna. Þátttakendum gafst kostur á að svara einni spurningu um aldur alheimsins og ef það svaraði rétt átti það möguleika á að fá bókina Alheimurinn og Galíleósjónaukann í verðlaun. Þátttakan fór fram úr okkar björtustu vonum og svöruðu langflestir spurningunni rétt. Við erum loksins búnir að draga og var það Anna Ragnheiður Jónsdóttir sem hlaut aðalverðlaunin. Tíu aðrir hljóta glaðning frá Stjörnuskoðunarfélagi Seltjarnarness og Stjörnufræðivefnum.

Lesa meira


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband