Sprengistjörnur eru forvitnileg fyrirbæri

orion Betelgás er mjög massamikil stjarna. Hún er áberandi frá Íslandi þessa dagana enda næst bjartasta stjarnan (oftast) í stjörnumerkinu Óríon. Betelgás er svo stór að væri hún í miðju okkar sólkerfis myndi hún gleypa Merkúríus, Venus, jörðina og Mars, jafnvel Júpíter líka. Sem betur fer er Betelgás í öruggri fjarlægð frá okkur. Sprengistjarna þarf að vera í innan við 25 ljósára fjarlægð til að valda einhverjum skakkaföllum á jörðinni. Sem betur fer er engin slík stjarna svo nærri.

Betelgás gæti þegar verið sprungin. Ef hún sprakk í gær á okkar tíma, þá eru 640 ár þangað til ljósið berst til okkar með upplýsingarnar um örlög hennar. En ef hún sprakk fyrir akkúrat 640 árum, svona um það leyti sem stórgos varð í Öræfajökli, munum við frétta af því von bráðar. Ómögulegt er að segja til um hvort stjarnan springur eftir tvo daga, tvær vikur, tvo mánuði, tvö ár eða tvö þúsund ár. Kannski verðum við svo heppin að upplifa þetta, kannski ekki.

Þetta sem lýst er í fréttinni hefur áður gerst. Frægasta dæmið varð árið 1054. Þá urðu menn vitni að sprengistjörnu í Nautinu. Sú stjarna var reyndar mun fjarlægar, í um 6000 ljósára fjarlægð, en engu að síður varð lesabjart að nóttu til enda stjarnan mjög björt. Í dag eru þarna leifar sprengistjörnunnar, Krabbaþokan fræga, sem sést hér undir.

m1_krabbathokan_i_nautinu

Það er ekki langt síðan ég flutti pistil í þættinum Vítt og breitt á Rás 1 þar sem ég fjallaði einmitt um sprengistjörnur. Hvet ykkur öll til að hlusta á hann til að fræðast meira. Hægt er að hlýða á pistilinn hér. Hér undir er svo stuttur kafli úr pistlinum:

Ef stjarna er meira en átta sinnum þyngri en sólin lifir hún í innan við 1 milljarð ára. Þegar vetnið í kjarna hennar er uppurið dregst kjarninn saman og byrjar að framleiða orku úr öðrum efnum eins og helíumi, súrefni og kolefni, rétt eins og sólin okkar og aðrar massaminni stjörnur. Í tilviki sólar lýkur ferlinu þegar hér er komið sögu, en alls ekki í tilviki þyngri stjarna. Sé hún nógu massamikil verður hún að reginrisa sem umbreytir sífellt þyngri frumefnum í orku í innviðum sínum. Segja má að hún vinni sig upp eftir lotukerfinu. Stjarnan knýr fram orku úr kolefni, neoni, súrefni, kísli, brennisteini, argoni, kalsíumi, títani, krómi uns röðin er komin að járni. Járn losar ekki orku svo auðveldlega en tekur hana frekar til sín. Þá er stjarnan skyndilega komin á endastöð.

Afleiðingarnar eru hrikalegar. Skyndilega hrinur stjarnan saman með tilheyrandi hamförum. Efnislög stjörnunnar þeytast út í geiminn í stórfenglegri sprengingu. Í þessari sprengingu skilar stjarnan öllum þeim efnum sem mynduðust við kjarnasamruna innan í henni sem og öll önnur frumefni sem við þekkjum í náttúrunni en þau myndast við sprenginguna sjálfa. Þessi efni dreifast um vetrarbrautina og mynda nýjar stjörnur, ný sólkerfi og jafnvel nýtt líf.

Járnið í blóðinu okkar, kalkið í beinunum, gullið í skartgripunum, kísilinn í bláa lóninu og tölvunum okkar og brennisteininn í flugeldunum má sem sagt rekja stjarna sem hafa sprungið í tætlur fyrir mörgum milljörðum ára.

Menn hafa nokkrum sinnum orðið vitni að þessum hamförum með berum augum. Árið 1054 sást stjarna springa í Nautsmerkinu. Það tók ljósið frá henni 6.300 ár að berast til okkar sem þýðir að þegar menn urðu hennar fyrst varir hafði stjarnan í raun og veru verið dáin í 6.300 ár. Þessi sprengistjarna var svo björt að hún sást að degi til og lesbjart var á næturnar í nokkrar vikur. Í dag sést á sama stað geimþokan Messier 1 eða Krabbaþokan úr efnunum sem stjarnan skilaði frá sér við dauða sinn.

Í miðju þokunnar er ofurþétt leif stjörnunnar sem áður skein skært. Þessi leif er úr nifteindum, svonefnd nifteindastjarna sem er stjarna á stærð við höfuðborgarsvæðið en snýst ógnarhratt, um 30 sinnum á sekúndu. Frá þessari stjörnu berst mjög reglulegt tif sem olli stjörnufræðingum miklum heilabrotum þegar þau heyrðust fyrst.

Fleiri stjarna í Vetrarbrautinni okkar bíða þessi nöturlegu örlög. Sólin okkar er sem betur fer ekki í þeim hópi en nokkrar þeirra eru áberandi á kvöldhimninum þessa dagana, til dæmis Fjósakonurnar þrjár í Óríon og stjarnan Betelgás í sama merki.

Þegar Betelgás springur verður það mikið sjónarspil og leifarnar alveg örugglega mjög tignarlegar að sjá í gegnum stjörnusjónauka. Á himinhvolfinu eru fjölmargar aðrar stjörnur sem gætu sprungið þá og þegar. Meðal þeirra eru allar stjörnunar í belti Óríons, Fjósakonurnar sem margir kannast við en þær eru allar dæmi um mjög bjartar og stórar sólir sem lifa stutt.

Á suðurhveli er enn betri kandídat í næstu sprengistjörnu – Eta Carinae í stjörnumerkinu Kilinum. Hún er við það að springa og gæti raunar þegar verið sprungin. Hér undir sést mynd af þeirri mögnuðu stjörnu sem er bókstaflega í andarslitrunum. Klukkan tifar bókstaflega hjá henni.

eso0817a_1055289.jpg

Tengt efni:

- Sævar Helgi Bragason


mbl.is Jörðin eignast nýja sól
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Steinar Þorsteinsson

Hafið þið heyrt eða séð, rannsakað hvort tunglið, jörðin hafi á einhvern hátt nú nýlega breytt afstöðu sinni til hvors annars? Og ef svo er þá á hvern hátt?

Svo virðist að eitthvað sé ekki alveg eins og áður var!

Með fyrirfram þökk.

Steinart

Steinar Þorsteinsson, 23.1.2011 kl. 22:45

2 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Tunglið er nákvæmlega eins núna og það hefur verið síðustu þúsundir ára og milljónir ára. Það eina sem þetta myndskeið sem birst hefur á netinu eru áhrif möndulhalla jarðar á sjónarhorn okkar á tunglið. Á einni nóttu getur tunglið komið upp upprétt en sest nánast á hlið, aðeins vegna þess að jörðin hallar. Þeir sem bjuggu til myndskeiðið kunna annað hvort ekkert fyrir sér í stjörnufræði/stjörnuskoðun eða eru vísvitandi að reyna að gabba fólk. Kannski er þetta beggja blands. 

Sverrir, einn af ritstjórnum Stjörnufræðivefsins, útbjó þetta myndskeið sem sýnir hvernig halli tunglsins sýnist breytast yfir nokkrar klukkustundir, einfaldlega vegna þess að það er jörðin sem hallar.

http://www.youtube.com/watch?v=oZGpHi-LPJ0

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 23.1.2011 kl. 23:59

3 Smámynd: Vendetta

Hver tók upp á því að kalla þessa stjörnu því asnalega nafni Betelgás þegar opinbert og samþykkt nafn hennar á alþjóðavettvangi er Betelgeuse? Endingin ...elgeuse er dregið af gömlu arabísku nafni á Orion og hefur ekkert með gæs að gera (sbr. grágás). 

Vendetta, 24.1.2011 kl. 10:34

4 Smámynd: Steinar Þorsteinsson

Takk fyrir skýr, skjót og góð svör.

Kv. Steinart

Steinar Þorsteinsson, 24.1.2011 kl. 17:07

5 identicon

Engu ad sídur rangt svar. Tunglid fjarlægist jørdina med 3,8 cm á ári. Sem hefur komid fram gegnum daglega mælingu seinnustu 37 åra med leysergeisla.

Anders (IP-tala skráð) 25.1.2011 kl. 13:55

6 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Spurningin snerist ekki um hvort fjarlægðin hefði breyst, heldur hvort afstaðan, þ.e.a.s. hallinn, hefði breyst. Spurninguna má rekja til þessa myndskeiðs http://www.youtube.com/watch?v=NYglbymnihQ&feature=related . Afstaðan hefur ekkert breyst neitt. En það er hins vegar alveg rétt að tunglið er að fjarlægjast okkur og hefur gert það alveg frá upphafi.

Svarið er því ekki rangt.

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 25.1.2011 kl. 14:07

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband