Curiosity sendir nærmyndir af Sharpfjalli og SAM þefar af lofthjúpnum

Á blaðamannafundi NASA í gær voru sýndar myndir frá 100mm MastCam myndavél Curiosity. Sú vél hefur þrisvar sinnum meiri upplausn en 34mm MastCam vélin.

Hingað til hafa rúmlega sjö gígabit af gögnum borist frá jeppanum til jarðar, ýmist beint frá honum eða í gegnum þau þrjú gervitungl sem eru á sveimi um Mars: Mars Odyssey, Mars Reconnaissance Orbiter og Mars Express.

Og í þessum gögnum eru nýjar og stórglæsilegar myndir af hinu tignarlega landslagi Gale gígsins:

pia16104r_malin03m100focus_raw-br2.jpg

Hér sést draumalandslag jarðfræðingsins. Eins og sjá má er fjallið lagskipt. Þessi setlög eru eins og blaðsíður í bók um sögu svæðisins. 

Hér undir er búið að birtu- og litastilla myndina svo hún líkist fremur því sem við sæjum á jörðinni. Þetta er gert svo að jarðfræðingar sem starfa við leiðangurinn og eru vanir feltferðum á jörðinni, eigi auðveldar með að túlka jarðfræðina á staðnum.  

pia16104malin06anno-br2.jpg

Í forgrunni sést malarsvæðið í kringum lendingarstað Curiosity. Þar fyrir ofan er lægð en síðan tekur við rauðbrúnn, hnullungastráður gígbarmur en fjarlægari brún hans er ljósa svæðið undir 3,7 km stöfunum. Lengra í burtu eru dökkar sandöldurnar og svo setlögin í rótum Sharpfjalls. Eins og sjá má er töluvert mistur í loftinu.

Allt á þessari mynd er vísindalega áhugavert svo við megum búast við mörgum stoppum á leiðinni að fjallinu næsta eina og hálfa árið.

Til að gera sér betur grein fyrir stærðarhlutföllunum skulum við líta nánar á stapann sem er í 9,3 km fjarlægð. Hann er um 300 metra hár og 300 metra breiður. Við rætur hans er hnullungur á stærð við jeppann og sést hann í hvíta kassanum á myndinni hér undir, sem er um 30 metrar á breidd:

pia16105_malin04ano-br2.jpg

Við hægri enda myndarinnar, fyrir miðju, sést skáhallandi svunta þar sem efni hefur runnið ofan á lögin undir eins og kökukrem. Allt var þetta eitt sinn grafið en síðan hefur rofið ofan af því.

Öll þessi setlög innihalda vötnuðu steindirnar, blaðsilíkötin og súlfötin, sem sáust af braut um Mars. 

Eitt hefur vakið athygli vísindamanna:

pia16099_grotzinger2-br2_1169430.jpg

Á þessari mynd sjást breytingar í jarðlagastaflanum. Undir hvítu punktunum eru vötnuðu setlögin en fyrir ofan þá eru vatnaðar steindir vart sjáanlegar. Hugsanlega leynast þær undir ryklagi en þær gætu allt eins ekki verið til staðar.

Lögin fyrir ofan punktana halla frá vinstri til hægri miðað við lögin undir sem bendir til þess að þau hafi hlaðist þannig upp. Lögin fyrir neðan eru hins vegar flöt svo greinilegur munur er á setmyndunarumhverfinu fyrir ofan og neðan. 

Samskonar mislægi sjást í jarðlagastöflum á jörðinni, t.a.m. í Miklagljúfri. Þar er mislægið af völdum flekahreyfinga en á Mars eru engar slíkar svo eitthvað annað ferli hefur orsakað þessa myndun. Við fáum vonandi svar við því síðar.

SAM þefar af lofthjúpnum

Eitt af mikilvægustu tækjum jeppans (þau eru auðvitað öll mikilvæg) er Sample Analysis at Mars eða SAM. Ef MastCam eru augu Curiosity er SAM nefið sem þefar af gastegundum í lofthjúpnum og í bergsýnum sem tekin verða.

Í SAM er gasskiljunartæki, massagreinir og stillanlegur leysi-litrófsgreinir. Massagreinirinn á að greina gastegundir í lofthjúpnum og þeim sem losna úr jarðvegssýnunum er þau eru hituð. Með gasskiljunartækinu eru stakar gassameindir greindar í sundur. Leysi-litrófsgreinirinn mun svo gera nákvæmar mælingar á samsætuhlutföllum súrefnis og kolefnis úr koldíoxíði og metani á Mars. Með þeim hætti er unnt að skera úr um hvort þessi efni séu af jarðfræðilegum eða lífrænum toga. Með mælingum á bergsýnum getum við svo áttað okkur á því hvernig lofthjúpur Mars hefur breyst í gegnum tíðina, svona svipað og þegar jarðvísindamenn mæla magn koldíoxíðs í loftbólum í ískjörnum.

Tækið, sem er á stærð við örbylgjuofn, var prófað fyrir örfáum dögum. Enn var Flórídaloft innanborðs og kom það fram í mælingunum. Eftir fáeina daga byrjar tækið svo að þefa fyrir alvöru.

– Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

..og svo er ennþá til fólk sem trúir því að við höfum EKKI farið til tunglsins!

Egill Þór Sigurgeirsson (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 07:30

2 identicon

Takk fyrir frábæran og skemmtilegan fróðleik.

M.b.kv

Sigurður Kristján Hjaltested (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 13:52

3 identicon

Flottar greinar, vél skiljanlegar og góðar útskýringar.

Hólmar Eyfjörð Hreggviðsson (IP-tala skráð) 29.8.2012 kl. 14:53

4 Smámynd: Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is)

Takk fyrir það!

Stjörnufræðivefurinn (www.stjornufraedi.is), 30.8.2012 kl. 15:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband