Horft til himins í kvöld og námskeið í stjörnufræði

Veðurspáin er góð fyrir kvöldið og það þýðir bara eitt: Stjörnuskoðun.

Það er ýmislegt að sjá á kvöldhimninum þessa dagana. Við sólsetur má sjá vaxandi sigðarlaga tungl lágt á himninum. Það hnígur niður fyrir sjóndeildarhringinn skömmu eftir að sól er sest.

Horfðu nokkurn veginn í aust-norðaustur fyrir miðnætti í kvöld til að sjá Júpíter í nautsmerkinu. Júpíter mjög bjartur og áberandi en hægra megin við hann er rauði risinn Aldebaran fyrir framan stjörnuþyrpinguna Regnstirnið sem lítur út eins og ör sem bendir til hægri. Aldebaran er í 65 ljósára fjarlægð en Regnstirnið í 150 ljósára fjarlægð.

screen_shot_2012-09-19_at_2_29_57_pm.png

Kort úr Stellarium hugbúnaðinum

Júpíter er eitt skemmtilegasta fyrirbærið að skoða í gegnum litla áhugamannasjónauka. Allir sýna þeir Galíleótunglin fjögur — Íó, Evrópu, Ganýmedes og Kallistó — í sjónsviðinu auk skýjabelta á reikistjörnunni sjálfri. Gott er að nota eins mikla stækkun og aðstæður og sjónaukinn leyfa.

Ef þú skoðar reikistjörnuna við miðnætti í kvöld sérðu eitt tunglið, Evrópu, ganga fyrir Júpíter. Þvergangan hefst upp úr klukkan 11 og lýkur upp úr klukkan 01.

Ef þú svifir um í lofthjúpi Júpíters sæirðu Evrópu myrkva sólina en ef þú stæðir á Evrópu sæir þú skugga ístunglsins á reikistjörnunni. Sérðu skuggann í gegnum sjónaukann?

photo.png

Mynd úr Gas Giants appinu frá Software Bisque

Á Júpíter sjálfum er rauðleitt, pastellitað skýjabelti norðan miðbaugs mest áberandi.

Árrisulir munu geta séð mjög glæsilegan himinn í fyrramálið sem skartar Venusi, Júpíter og Óríon lágt á suðurhimninum.

screen_shot_2012-09-19_at_2_34_55_pm.png

Kort úr Stellarium hugbúnaðinum

Já, og það má líka búast við ágætum norðurljósum í kvöld.

Námskeið í stjörnufræði og stjörnuskoðun

Stjörnuskoðunarfélag Seltjarnarness og Stjörnufræðivefurinn bjóða upp á námskeið fyrir þá sem hafa áhuga á stjörnufræði og stjörnuskoðun. Sams konar námskeið hafa verið haldin síðustu misseri við góðar undirtektir þátttakenda.

Mælum eindregið með þessum skemmtilegu námskeiðum!

- Sævar Helgi 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband