Ferðasaga: Sólmyrkvi í Cairns 14. nóvember 2012

Mig hefur alltaf dreymt um að sjá almyrkva á sólu og þegar vinafólk mitt sá sólmyrkvann í Kína fyrir fjórum árum síðan, kviknaði sú hugmynd að nota sólmyrkvann í Cairns sem góða ástæðu til að fara aftur til Ástralíu.

Ég hafði samband við nokkur áströlsk stjörnuskoðunarfélög og hópurinn frá Newcastle tók mér opnum örmum og ég er nú orðin sérlegur heiðursmeðlimur klúbbsins.

Það var alltaf vitað að þessi sólmyrkvi yrði mikið happdrætti, enda snemma að morgni og á þessum árstíma er yfirleitt skýjað á morgnana. Síðustu daga er búið að rigna mikið og útlitið var það slæmt að margir flúðu inn í land því veðurspáin var slæm fyrir ströndina en hópurinn minn ákvað að halda kyrru fyrir á Trinity Beach.

Ég fór á fætur klukkan 4:30 í morgun með fiðrildi í maganum og trúði því varla að það væri loksins komið að þessu. Um 6.000 manns þurftu að troða sér eins og sardínur í dós á ströndina í Trinity beach en við vorum búin að finna betri og rólegri stað við litla tjörn bak við hótelið okkar.

img_0446.jpg

img_0443.jpg

Myndir: Rannveig Magnúsdóttir

Við sólarupprás var nokkuð bjart en svo færðist þungur skýjabakki yfir og það leit út fyrir að við sæjum ekki neitt. Þegar tunglið var komið hálfa leið yfir sólu kom loksins gat í skýin og hópurinn tók andköf (sérstaklega ofurtilfinninganæmi japanski hópurinn sem var við hliðina á okkur), spenningurinn var næstum óbærilegur og hjartað tók stóran kipp.

Þegar kom að almyrkvanum sjálfum sáum við að þetta yrði mikið kapphlaup við skýin og því miður var ský yfir sólu akkúrat þær tvær mínútur sem almyrkvinn varði. Þrátt fyrir skýin, þá var þetta ein merkilegasta upplifun lífs míns. Það dimmdi mjög snögglega og öll skynfæri líkamans tóku við sér og upplifðu eitthvað nýtt.

Mér fannst loftið gárast í undarlegum bylgjum og ég var með gæsahúð allan tímann og lengi á eftir þrátt fyrir hitabeltisloftslagið. Fuglarnir, sem garga stanslaust yfir daginn, þögnuðu, og mér fróðari maður sagði að hann hefði heyrt hjóð í næturfuglum, sem eflaust voru afar hissa þegar birti strax aftur.

Fljótlega eftir almyrkvann hurfu svo skýin og við sáum vel allan seinni hlutann. Ég fylltist söknuði þegar ég horfði á eftir síðasta hluta tunglsins hverfa frá sólu og er staðráðin í því að upplifa þetta aftur.

Næsti sólmyrkvi í Ástralíu verður árið 2028 og félagar mínir í Newcastle Astronomical Society eru búnir að bjóða mér að sjá hann með sér. Það boð ætla ég sko sannarlega að þiggja, og kannski verð ég svo heppin að sjá fleiri sólmyrkva í millitíðinni. Það er óhætt að segja að sólmyrkvar séu ávanabindnandi áhugamál.

Næst sést almyrkvi á sólu frá Reykjavík árið þann 12. ágúst 2026. Í Reykjavík stendur almyrkvi yfir í 1 mínútu og 10 sekúndur.

- Rannveig Magnúsdóttir, líffræðingur


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband