Sjáðu Júpíter og tunglið á Jóladagskvöld

screen_shot_2012-12-24_at_10_25_31_am.png

Kort úr Stellarium sem er ókeypis hugbúnaður og til á íslensku!

Á kvöldhimninum í desember er konungur reikistjarnanna Júpíter mest áberandi líkt og undanfarna mánuði. Um þetta er fjallað í þættinum okkar, Sjónaukanum.

Horfðu til himins á jóladagskvöld, 25. desember.

Í austri sérðu Júpíter og tunglið, sem þá er næstum fullt, hlið við hlið, rétt fyrir ofan Regnstirnið, stjörnuþyrpingu í Nautinu.

Prófaðu að beina handsjónauka að þessari fallegu samstöðu.

Við blasir tignarleg sjón: Júpíter og Galíleótunglin fjögur auk mánans okkar innan um nokkra tugi glitrandi stjarna.

Rétt fyrir ofan fylgjast systurnar sjö — Sjöstirnið — með tvíeykinu.

Systurnar sjö eru dætur Atlasar — þess sem ber heiminn á herðum sér — og Pleiónu.

Eitt sinn varð veiðimaðurinn Óríon hugfanginn af systrunum. Seifi leist þó illa á þann ráðahag og hreif systurnar til himna.

Þar gengur Óríon á eftir þeim á hverri nóttu en er ætíð úr seilingarfjarlægð.

sjostirnid_merkt.jpgSysturnar og foreldrar þeirra eru björtustu stjörnurnar í þyrpingu sem telur líklega yfir eitt þúsund stjörnur.

Allar urðu þessar stjörnur til úr sömu geimþokunni fyrir um 100 milljónum ára eða svo.

Sjöstirnið ber ýmis nöfn á erlendum tungumálum.

Flestir kannast sennilega við japanska heitið á þyrpingunni, þótt fæstir tengi það við þyrpinguna, en það er nafnið Subaru. Bifreiðategundin er einmitt nefnd eftir Sjöstirninu en í merki fyrirtækisins eru stjörnurnar sýndar.

Sama má segja um stærsta stjörnusjónauka Japana sem er á Mauna Kea á Hawaii.

Prófaðu að skoða þessa glæsilegu þyrpingu með handsjónauka eða stjörnusjónauka með litilli stækkun og víðu sjónsviði.

Horfðu til himins um jólin!

Stjörnufræðivefurinn óskar landsmönnum öllum gleðilegra jóla!

- Sævar Helgi


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband