Vinkaðu Satúrnusi 19. júlí 2013

wave_saturn_icelandic.png

Föstudagskvöldið 19. júlí 2013 flýgur Cassini geimfar NASA á bakvið Satúrnus frá Jörðu séð. Satúrnus verður þá fyrir sólinni sem gefur einstakt tækifæri til að rannsaka daufustu og dreifðustu hringana en líka koma auga á okkur í geimnum.

Myndin verður tekin milli klukkan 21:27 til 21:42 að íslenskum tíma úr 1,44 milljarða km fjarlægð (búið að gera ráð fyrir 90 mínútna seinkuninni vegna fjarlægðar milli Jarðar og Satúrnusar). Jörðin verður agnarsmá á myndinni enda er hún örlítil í samanburði við sólkerfið.

Aðeins tvær myndir hafa verið teknar áður úr ytra sólkerfinu af Jörðinni.

Myndina hér undir tók Voyager 2 úr 6 milljarða km fjarlægð en á henni sést Jörðin sem fölur blár blettur baðaður geislum sólar.

pale_blue_dot.jpg

Hin myndin sést hér undir en hana tók Cassini geimfarið árið 2006 úr 1,49 milljarða km fjarlægð.

pia08329_copy.jpg

Þetta er prýðisgott tækifæri fyrir Jarðarbúa að vinka ljósmyndaranum sem staddur er við Satúrnus og læra meira um þessa merkilegu reikistjörnu, hringana og tunglin. Við höfum ekki skipulagt neina sérstaka dagskrá en látum vita ef það breytist.

Satúrnus er á lofti frá Íslandi séð á þessum tíma, þótt hann sjáist reyndar ekki með berum augum fyrir dagsbirtu. Tunglið verður líka á lofti, lágt á himni, og um að gera að skoða það með sjónauka.

screen_shot_2013-07-12_at_10_29_31_am.png

Og þá er ekkert annað að gera en að horfa til himins næstkomandi föstudagskvöld, segja „sís“ og vinka Satúrnusi!

- Sævar Helgi Bragason


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband