NASA sendir geimfar til tunglsins á föstudag

20130822_acd13-0101-008_f840.jpg

Mynd: NASA Ames/Dana Berry

Ef veður leyfir föstudaginn 6. september mun NASA skjóta nýju ómönnuðu geimfari til tunglsins. Geimfarið nefnist Lunar Atmosphere and Dust Environment Explorer eða LADEE (borið fram la-dí, ekki leidí) og hefur það hlutverk að rannsaka örþunnan lofthjúp tunglsins og rykið í kringum það.

Þegar Apollo geimfararnir fóru til tunglsins lýstu þeir óvenjulegri dreifingu sólarljóssins í örstutta stund fyrir sólarupprás og sólsetur. Líklega dreifðist ljósið af völdum lofthjúpsins örþunna og ryksins sem svífur rétt fyrir ofan yfirborðið.

Lofthjúpur tunglsins er eiginlega enginn lofthjúpur. Hann er tíu billjón (tíu þúsund milljarðs) sinnum þynnri en lofthjúpurinn okkar — raunar bara örfá atóm á hvern rúmsentímetra. „Loftið“ er blanda argon-40 samsætu, sem myndast við hrörnun geislavirkra efna í innviðum tunglsins og seytlar upp úr yfirborðinu, auk efna eins og helíums, natríums og kalíums sem koma frá sólvindinum og geimörðum sem rekast á tunglið.

Lofthjúpurinn einn og sér dugir ekki til að útskýra ljódreifinguna. Líklega kemur ryk þar líka við sögu. Þegar útfjólublátt ljós frá sólinni rekast á yfirborðið, rafhlaðast léttustu rykagnirnar og geta svifið upp af tunglinu.

LADEE verður skotið á loft með Minotaur eldflaug frá Wallops flugstöðinni í Virginíu í Bandaríkjunnum.

Verkefnið mun aðeins standa yfir í um það bil 160 daga, sem er óvenju stutt. Ferðalagið til tunglsins tekur mánuð en eftir það verður farið prófað í mánuð. Síðan taka rannsóknirnar við í 100 daga.

TIl að rannsaka rykið og lofthjúpinn verður geimfarið að vera mjög nálægt yfirborðinu eða í aðeins 20-60 km hæð. Til þess að halda geimfarinu á braut um tunglið þarf því talsvert eldsneyti.

Í apríl á næsta ári verður svo tunglmyrkvi sem gæti bundið enda á leiðangur þessa sólarorkuknúna geimfars.

- Sævar Helgi Bragason


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er dýrt að drullumalla á tunglinu!

Jón Þórhallson (IP-tala skráð) 5.9.2013 kl. 12:25

2 identicon

Var að skoða tunglið í stjörnukíkirnum mínum og rakst á þessar myndir:

http://thjodarskutan.blog.is/blog/gudspekifelag_s/entry/1302190/

Jón Þórhallson (IP-tala skráð) 5.9.2013 kl. 12:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband